Stríðið við skattsvikara – 9 sóknarfæri

Þorkell Sigurlaugsson segir að fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að skattsvik sé mögulega jákvæðari leið en að þurfa að læsa glæpamennina inni með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið.

Auglýsing

Stríð stjórnvalda við skattsvikara hefur löngum verið erfitt, en nokkrum sinnum hefur verið farið í átak til að uppræta skattsvikin. Á síðasta árið var lagt upp með enn eitt átakið í þessu efni og ná þannig einhverjum milljörðum af þeim sem stunda þá vafasömu iðju að svíkja undan skatti.  

Ég vildi í þessari grein rifja það upp að í byrjun árs 2017 skipaði þáverandi fjármálaráðherra starfshóp til að greina umfang og áhrif skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap og hvernig megi minnka svarta hagkerfið. Einnig var skoðað hvernig megi reisa skorður varðandi notkun reiðufjár, við greiðslu launa og kaup á dýrum hlutum með hliðsjón af lögum og reglum nágrannalandanna. Greinarhöfundur var skipaður formaður hópsins og skilaði hann af sér skýrslu 20. júní 2017. Eftirfarandi atriði voru m.a. skoðuð:

 • Mat og flokkun umfangs skattsvika.
 • Skoða kennitöluflakk og hvaða reglur mætti setja um stofnun einkahlutafélaga, hæfnisreglur stjórnenda og úrbætur sem tengjast skilum á virðisaukaskatti.
 • Hvernig má koma í veg fyrir peningaþvætti og hver hefur verið árangur af fyrri aðgerðum á því sviði?
 • Hvernig má auka samráð milli stofnana og upplýsingagjöf til almennings og skapa jákvætt viðhorf varðandi eftirliti og aðgerðir stjórnvalda?
 • Er á einhvern hátt skynsamlegt að setja takmarkanir á notkun reiðufjár ásamt því að kanna tæknilega og viðskiptalega framkvæmd slíkra takmarkana?

Úttektin og tillögur starfshópsins hlutu ekki miklar athygli nema sú tillaga að taka 10.000 krónu seðilinn úr umferð. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn höfðu unun af að velta sér upp úr því, enda mikið áhyggjuefni ef gamalt fólk mundi svelta heilu hungri vegna skorts á 10.000 krónu seðlum.  

Eðli og umfang skattsvika

Skattsvik skerða sameiginlegan sjóðs landsmanna og valda ójafnræði og óréttlæti með því að skekkja með ólögmætum hætti bæði samkeppnisstöðu fyrirtækja og dreifingu tekna og auðs milli einstaklinga. Athuganir og mat á umfangi skattsvika eru ekki nýjar af nálinni og hafa stjórnvöld með reglulegu millibili falið sérfræðingum að meta líklegt umfang skattundanskota hér á landi.

Umfang skattsvika virðist haldast nokkuð stöðugt frá einum tíma til annars, þótt eðli skattsvika breytist yfir tíma. Fjórar athuganir hafa verið gerðar á heildarumfangi skattsvika hér á landi síðustu þrjá áratugi. Þær hafa allar skilað svipuðum niðurstöðum um hlutfall skattsvika af landsframleiðslu og líklegt tekjutap ríkis og sveitarfélaga. Sem hlutfall af landsframleiðslu hefur umfang skattsvika undanfarna áratugi verið metið á bilinu 3 – 7% og heildartekjutap hins opinbera verið í námunda við 10% allt tímabilið. Miðað við nýlegri kannanir gæti þessi tala verið liðlega 4% af landsframleiðslu, eða rúmlega 100 milljarðar króna miðað við 2016. Við þá upphæð bætist tjón samfélagsins vegna undanskotinna tekna í tengslum við aflandsfélög, sem metin eru 16 milljarðar króna vegna fjármagnstekjuskatts yfir árin 2006-2009 og 42 milljarðar vegna vanhalda á auðlegðarskatti á 6 ára tímabili 2009-2014. Samtals gera þetta 58 milljarðar króna yfir 9 ára tímabil vegna aflandseigna.

Eftir hrun íslensku viðskiptabankanna í október 2008 og innleiðingu fjármagnshafta mánuði síðar breyttust aðstæður í efnahagslífinu í grundvallaratriðum. Mjög dró úr erlendri starfsemi íslenskra fyrirtækja og svigrúm til fjármagnsflutninga milli landa hvarf nánast að fullu. Möguleikar til skattsvika á þeim vettvangi urðu því svo til að engu í einni sviphendingu. Þungamiðjan í mati á umfangi skattsvika hefur því enn á ný færst til og þáttur hefðbundinna atvinnugreina aukist á nýjan leik.

Undanfarna áratugi hafa orðið umtalsverðar breytingar á íslensku efnahagslífi og gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana gegn skattsvikum. Þó margvíslegur árangur hafi náðst eru skattalagabrot orðin skipulagðari og tæknilegri og geta snúist um umtalsverðar upphæðir, í einstaka tilfellum um fleiri hundruð milljónir króna.

Auglýsing

Skipta má skattsvikum gróflega upp í eftirfarandi flokka:

 • Undanskot frá greiðslu virðisaukaskatts með því að vantelja skattskylda veltu eða oftelja innskatt, t.a.m. með því að færa sér í nyt tilhæfulausa reikninga, eða með vanhöldum á greiðslu framtalins skatts; Niðurstaða starfshóps ríkisskattstjóra er að umfang undanskota í virðisaukaskatti hefðu numið um 12,9% á tímabilinu 2010–13.
 • Undanskot frá greiðslu tekjuskatts af launum starfsmanna og launatengdum gjöldum.
 • Vantalinn tekjuskattur af atvinnurekstri vegna of talins kostnaðar eða vantalinna tekna.;
 • Vantalin eða vangoldin önnur opinber gjöld, s.s. skattur af fjármagnstekjum, eða skattundanskot í tengslum við tekjur frá aflandssvæðum.

Skattsvik af framangreindum toga eru talin umfangsmest innan byggingar- og verktakaiðnaðar, ferðaþjónustu sem og innan annarrar persónulegrar þjónustu. Aukin umsvif ferðaþjónustunnar hefur leitt til vaxandi skattundanskota, m.a. vegna umfangs heimagistingar, þátttöku erlendra starfsmanna og einyrkjastarfsemi í greininni.

Farsælast er að auka upplýsingamiðlun, eftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn skattsvikum og koma þannig í veg fyrir skattundanskot. Nýta m.a. upplýsingatækni, minnkandi notkun reiðufjár og hertari löggjöf og refsiramma til að takast á við vandamálið. Of lítill fælingarmáttur felst í refsingum og mikilvægt er því að leita allra leiða til að koma í veg fyrir lögbrot í formi skattsvika.

9 tillögur til að takmarka skattsvik

Starfshópurinn var með nokkrar tillögur um aðgerðir sem ætti að ráðast í til að takmarka skattsvik, sem flokka má í 9 punkta.

1. Lögfesta þarf reglur um keðjuábyrgð. Rekja má umfangsmikil skattsvik og tilhneigingu til ólögmætra undanskota til undirverktaka. Sum fyrirtæki hafa nýtt glufur í virðisaukaskattskerfinu með markvissari hætti en áður, s.s. í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, m.a. með útgáfu tilhæfulausra reikninga. Lögfesta þarf reglur um keðjuábyrgð svo verktakar beri í auknum mæli ábyrgð á því að undirverktakar þeirra greiði þau opinberu gjöld sem þeim ber. Þannig má draga úr möguleikum til að stunda undanskot skatta af þessum toga.

2. Auðvelda á aðgang að hlutaskrá einkahluta- og hlutafélaga. Hlutaskrár einkahluta- og hlutafélaga ættu að verði öllum opnar og aðgengilegar gegn lágmarksgjaldi. Þannig má stuðla að auknu gagnsæi einstaklinga og fyrirtækja í viðskiptum. Aðilum verði gert skylt að skrá hjá fyrirtækjaskrá nafn, kennitölu og heimilisfang allra helstu eigenda ásamt eignarhlut þeirra og atkvæðarétti. Þeir sem eiga í viðskiptum eiga að geta vitað við hverja er verið að eiga viðskipti og fylgjast með því hvort viðkomandi eru kennitöluflakkarar eða haft beint sambandi við raunverulega eigendur eða stjórnarmenn.

3. Þrengja þarf hæfisskilyrði til að stofna hlutafélag og sérstaklega að komast inn á virðisaukaskattsskrá. Setja þarf sérstakar hæfisreglur um aðila sem endurtekið hafa verið í forsvari fyrir félög sem verða gjaldþrota, að undangenginni úttekt á umfangi þeirrar brotastarfsemi. Skorður verði settar við kennitöluflakki þannig að heimilt verði að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann, sem teljast vanhæfir vegna sviksamlegra viðskiptahátta. Einstaklingum sem hafa ítrekað brotið af sér, verði óheimilt að taka að sér innheimtu virðisaukaskatts og fá endurgreiddan innskatt. Slíkir síbrotamenn geta heldur ekki borið ábyrgð á ráðningu starfsmanna, skila tilskyldum launasköttum og lífeyrissjóðsgreiðslum og innheimta skatta og gjöld fyrir ríkissjóð.

4. Auka þarf skilvirkni tilkynningarskyldra aðila og aðgerðir gegn peningaþvætti. Nauðsynlegt er að auka skilvirkni tilkynningarskyldra aðila um grunsamlegar fjárfærslur eða greiðslur og hefur peningaþvættisskrifstofan hjá héraðssaksóknara hrundið af stað átaki til að skerpa á tilkynningarskyldunni. Fjórða peningaþvættistilskipunin tók gildi í Evrópusambandinu 27. júlí 2017 og verður tekin upp í EES-samninginn nú í október 2018. Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru í vinnslu. Drögin byggja á þessari peningaþvættistilskipunum Evrópusambandsins og viðbótarþáttum sem úttekt FATF leiddi í ljós.  Almennt verður að telja að peningaþvætti sé algengast í þeim greinum sem helst notast við reiðufé og um verulegar fjárhæðir sé að ræða. Tryggja þarf að framkvæmd og eftirfylgni laganna sé fullnægjandi og á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir meiri fjármunum í þetta verkefni á árunum 2019-2020.

5. Dregið verði markvisst úr notkun reiðufjár. Fram að efnahagshruninu árið 2008 fór reiðufjárnotkun stöðugt minnkandi. Þó reiðufé í umferð hafi nánast tvöfaldast í kjölfar hrunsins þá er Ísland meðal þeirra landa þar sem reiðufjárnotkun er hvað minnst. Eins og erlendis er langmest af stærri seðlum í notkun, þótt fæstir telji sig yfirleitt nýta slíka seðla í daglegum viðskiptum. Stjórnvöld eiga að styðji við þá þróun að draga úr reiðufé í umferð í þrepum á næstu árum. Það mun gera svarta hagkerfinu erfiðara uppdráttar ásamt því að draga úr peningaþvætti og skattundanskotum. Eftirfarandi var lagt til af vinnuhópnum:

 • 10.000 krónu seðillinn verði tekinn úr umferð og í framhaldi af því 5.000 krónu seðillinn líka.
 • Hámark verði sett á leyfilega upphæð greiðslna fyrir vörur og þjónustu með reiðufé, (bæði milli einstaklinga og einnig milli fyrirtækja t.d. verktaka) t.d. að fjárhæð 200.000 kr. og samsvarandi upphæð í erlendri mynt;
 • Verslunum og þjónustuaðilum verði heimilt að taka aðeins við rafrænum greiðslum;
 • Vinnuveitendum verði skylt að greiða laun með rafrænu og rekjanlegu greiðslufyrirkomulagi;
 • Við innlagnir og úttektir reiðufjár í/úr banka yfir ákveðnum fjárhæðarmörkum verði einstaklingum og lögaðilum gert að gera grein fyrir uppruna reiðufjárins. Fjárhæðarmarkið gæti verið um 200.000 kr;
 • Huga þarf að hvort almenningur þurfa að hafa aðgang að rafeyri eða ígildi debetkorts með lágmarkskostnaði; 

6. Einfalda virðisaukaskattskerfið. Öll frávik frá breiðum skattstofni og einni, almennri skattprósentu fela í sér möguleika eða hvata til undanskota frá virðisaukaskatti. Því er rétt að skoða til hlítar öll slík frávik í gildandi skattalögum með það fyrir augum að bæta tekjuskilvirkni virðisaukaskattskerfisins, þar á meðal að minnka bilið á milli skattþrepanna eða sameina þau. Samhliða þarf að skoða hversu mikið væri mögulegt að lækka virðisaukaskattinn.

7. Stuðla þarf að bættum skilum virðisaukaskatts. Skoða ætti fjölgun gjalddaga vegna skila virðisaukaskatts þannig að þeir verði mánaðarlega. Auka þarf eftirlit með endurgreiðslum ríkisins á innskatti til fyrirtækja og sérstaklega huga að byggingariðnaði í því sambandi. Stefna ber að vottun rafrænna verslunarkerfa með sambærilegum hætti og tíðkast víða erlendis. Jafn sjálfsagt og að vottaðir rafmagnsmælar eru í íbúðarhúsum.

8. Refsingar fyrir skattalagabrot. Refsingar fyrir skattalagabrot hafa of lítinn fælingarmátt og gildir það jafnt um fésektir sem fangelsisdóma. Fésektir innheimtast illa og fangelsisdómar eru yfirleitt skilorðsbundnir. Þetta er óheppilegt því löggjafinn hefur ákveðið að þessi brot séu alvarleg sbr. refsiákvæði í hegningarlögum og skattalögum. Vel innan við 10%, jafnvel nálægt 5% af fésektum innheimtast og það verður að teljast algerlega óviðunandi. Fullnusta vararefsingar að baki sektarrefsingum kemur oft ekki til framkvæmda vegna skorts á rými í fangelsum. Oft taka þeir sakfelldu út refsingu með samfélagsþjónustu sem yfirleitt er ekki nema nokkrir mánuðir. Hvatinn er því mikill að stunda skattsvik og ávinningur af því umtalsverður og fórnarkostnaður lítill.

9. Samstarf ríkisaðila. Auka þarf og bæta upplýsingamiðlun, samstarf og vinnuferla milli ríkisaðila svo sem ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, héraðssaksóknara og tollstjóra á sviði skattsvika og skatteftirlits. Reynsla af slíku hefur verið góð á sviði tolleftirlits þar sem tollstjórinn, ríkislögreglustjórinn og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa átt í formlegu samstarfi. Stjórnkerfið þarf að vera skilvirkara og málsmeðferð skattyfirvalda og refsivörslukerfisins samfelld og samtvinnuð. Nýta þarf upplýsingatækni og rafræn viðskipti í enn frekari mæli.

Hér á eftir fer ég nánar yfir ýmis helstu atriði til nánari skýringa við tillögurnar hér að framan.

Nánar um kennitöluflakk

Kennitöluflakk er ein birtingarmynd skattundanskota og birtist einna helst í misnotkun á félagaformum sem byggja á takmarkaðri ábyrgð hluthafa. Felst það í stofnun fyrirtækis í sama atvinnurekstri og það félag sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum, en halda eignum.

Áhrif kennitöluflakks birtast m.a. í fjárhagslegu tjóni annarra einstaklinga, fyrirtækja, ríkissjóðs, stéttarfélaga, lífeyrissjóða og launamanna. Getur slík háttsemi því haft keðjuverkandi áhrif þannig að tjón kröfuhafa hefur áhrif á rekstur hans og jafnvel neytt hann í gjaldþrot ásamt því að skekkja samkeppni á markaði. Hafa ber þó í huga að gjaldþrot geta verið eðlileg þegar fyrirtæki eru rekin með tapi, má hér nefna rekstur nýsköpunar- og sprotafyrirtækja sem búa við áhættusamara rekstrar- og starfsumhverfi.

Færst hefur í aukana að aðilar starfræki félög án þess að gera fullnægjandi skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Þegar virðisaukaskattsnúmer er afskráð eða rekstur er stöðvaður þá er nýtt félag stofnað undir annarri kennitölu og starfseminni haldið áfram. Í þessu sambandi má nefna að skattyfirvöld hafa orðið vör við skipulagða glæpastarfsemi í tengslum við misnotkun á virðisaukaskattsnúmerum. Félög eru t.a.m. stofnuð eingöngu í þeim tilgangi að gefa út tilhæfulausa reikninga með virðisaukaskatti á önnur félög sem nota þá reikninga til frádráttar tekjum í sínum rekstri og til að búa til endurgreiðslu á innskatti sem á sér ekki stoð í veruleikanum. Þau félög sem gefa út tilhæfulausa reikninga eru oft á tíðum með litlar sem engar eignir.

 • Dæmi eru um að verktakar geti komist undan lögbundnum skattgreiðslum með því að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka sína. Oft er um keðju undirverktaka að ræða þar sem ábyrgð á skattgreiðslum er færð niður keðjuna með þeim afleiðingum að skil á skattgreiðslum verða í reynd takmörkuð, eða engin. Slík háttsemi tengist oft öðrum brotum, s.s. greiðslu svartra launa, útgáfu tilhæfulausra reikninga og peningaþvætti. Virðist margt benda til að þetta sé nú gert með skipulagðari hætti en áður hefur sést og um getur verið að ræða verulegar háar undandregnar fjárhæðir. Má í því sambandi nefna að m.a. í Finnlandi gilda reglur um keðjuábyrgð í byggingariðnaði og þar standa yfirverktakar skil á virðisaukaskatti vegna starfsemi undirverktaka. Þá má einnig nefna að í Svíþjóð verða rekstraraðilar með rekstur í eigin nafni að sækja um svokallað F-skattkort ætli þeir að standa sjálfir skil á staðgreiðslu opinberra gjalda.

 • Leiðir til úrbóta

 • Mikilvægt er að reglur um keðjuábyrgð verði lögfestar, þannig að verktakar beri í auknum mæli ábyrgð á skilum opinberra gjalda undirverktaka.
 • Núgildandi lög og reglugerðir um skráningu félaga og virðisaukaskattskyldra aðila veita stjórnvöldum of lítið svigrúm til þess að hindra að aðilar sem annaðhvort hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta eða hafa lent á válista vegna áætlana á virðisaukaskatti, geti skráð sig í stjórn félaga og komist aftur inn á virðisaukaskattskrá. Kennitöluflakk þarf heldur ekki að tengjast gjaldþroti á þeim tíma sem það á sér stað.
 • Þrengja þarf reglur um hæfi einstaklinga til að stofna og vera í forsvari fyrir félög með takmarkaða ábyrgð. Í því sambandi er lagt til að heimilt verði að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann sem sýnt hafa af sér grófa og óverjandi viðskiptahætti sem stjórnendur félaga. Í frumvarpi um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög frá 145. löggjafarþingi, sem ekki náði fram að ganga, var fjallað um atvinnurekstrarbann aðila sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota. Ekki er einfalt að setja slík lög því atvinnurekstrarbann er alvarleg frelsisskerðing og önnur úrræði kunna að vera betri eins og að koma í veg fyrir skattsvikin. Ríkið getur t.d. tekið upp sjálfstætt mat á því hvort það treystir viðkomandi til að innheimta og skila virðisaukaskatti.
 • Efla þarf upplýsingagjöf og fræðsla. Stuðla þarf að vitundarvakningu í þá veru að kaupendur vöru og þjónustu verði meðvitaðri um bakgrunn seljenda ásamt því auka fræðslu þeirra aðila sem t.d. fara inn á virðisaukaskattsskrá. Núverandi námskeið um nýja aðila í rekstri þarf að efla. Sjá norskan vef þar sem má sjá góðar hugmyndir.
 • Eðlilegt er að sett verði skilyrði um að þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir félag með takmarkaða ábyrgð hafi sótt viðurkennt námskeið um stofnsetningu og rekstur slíkra félaga og staðist þær kröfur sem þar eru gerðar. Námskeiðið verði haldið og/eða viðurkennt af ríkisskattstjóra eða öðrum til þess bærum aðila.

Þvottur óhreinna fjármuna

Peningaþvætti er alltaf afleiðing skattundanskota og ólögmætrar starfsemi, en er þó sjálfstætt refsivert brot samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það er sem sagt refsivert að þvo peninga hvort sem það eru skítugir fjármunir vegna eigin svartrar atvinnustarfsemi eða þvottavélin er nýtt til að þvo annarra manna fé. Ákvæðið hljóðar svo:

„Hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögum þessum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Peningaþvætti er alþjóðlegt vandamál sem, með vaxandi alþjóðavæðingu viðskipta og frjálsu fjármagnsflæði milli ríkja, er orðinn stór þáttur í alþjóðlegri glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaviðskiptum og mansali auk fjármögnunar á hryðjuverkum.

Auglýsing

Hvernig er spornað við peningaþvætti? Með eftirliti og refsingu

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að aðilar sem tilgreindir eru í lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fari að ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Eftirlitið felst meðal annars í heimildum til að kalla eftir hvers konar gögnum og heimild til athugunar á starfsstöð.

Þá hefur neytendastofa eftirlit með því að einstaklingar eða lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnanna og happdrætta.

Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögunum eru einnig sem dæmi lögmenn, fasteignasalar og endurskoðendur. Einnig einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé og hafa grun um að upp peningaþvætti sé að ræða.

Miklu skiptir að tilkynningarskyldir aðilar standi skil á tilkynningum á grun um peningaþvætti og í reynd eru þeir þungamiðja eftirlitskerfisins.

Peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara (Financial Intelligence Unit, FIU) annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar eru upplýsingar greindar og miðlað til hlutaðeigandi yfirvalda til frekari meðferðar ef ástæða er til, svo sem til rannsóknar og saksóknar. Síðustu ár hefur verið meiri áhersla á greiningu þeirra tilkynninga sem beint er til peningaþvættisskrifstofu áður en þær eru sendar til hlutaðeigandi yfirvalda.

Takmörkun reiðufjár

Fram að efnahagshruninu árið 2008 fór reiðufjárnotkun hér á landi stöðugt minnkandi. Þó reiðufé í umferð hafi aukist nokkuð í kjölfar hrunsins þá er Ísland meðal þeirra landa þar sem reiðufjárnotkun er hve minnst. Reiðufé í umferð var eingöngu um 1% af vergri þjóðarframleiðslu til ársins 2008, en í kjölfar hrunsins tvöfaldaðist þetta hlutfall og stendur í dag í um 2% af VLF. Í lok apríl 2017 voru um 52,3 ma.kr. í seðlum og mynt í umferð utan innlánsstofnana og Seðlabankans. Þá nam aukning reiðufjár á 12 mánaða tímabili um 11%. Athyglisvert er að tæpur helmingur fjárhæðar af seðlum í umferð er í 10.000 krónu seðlum og um 40% í 5.000 krónu seðlum. Innleiðing 10.000 krónu seðils árið 2013 olli því að hlutur 5.000 krónu seðils hefur minnkað stöðugt og eftir á að hyggja var lítil þörf á að taka þann seðil í notkun.  

Stjórnvöld ættu að styðja við þá þróun og dragi úr umfangi reiðufjár í umferð enn frekar í markvissum þrepum. Slík stefnumörkun er í samræmi við aðgerðir á Norðurlöndunum, sem og áherslur innan Evrópu. Markmiðið með takmörkun reiðufjár er að gera svarta hagkerfinu erfiðara uppdráttar með því að torvelda möguleika einstaklinga og fyrirtækja til skattundanskota og draga þar með úr peningaþvætti. Þá eru slík þróun í takt í við tækniþróun samtímans.

Hröð tækniþróun, rafræn greiðslumiðlun og ýmsar snjalltækjalausnir, hafa ýtt undir þau sjónarmið að tæknilega væri unnt að draga verulega úr notkun reiðufjár. Þrátt fyrir mikla þróun á rafrænum greiðslumiðlum hefur ekki komið fram greiðslumiðill sem hefur alla eiginleika reiðufjár. Líklegt er því að reiðufé verði áfram í notkun um einhvern tíma. Með tilkomu „blockchain“ tækninnar kom eina rafræna myntin, sem næst kemst seðlum, Bitcoin til sögunnar. Tæknin byggist á dreifðum netum þar sem haldið er utan um eignarhald (sem geta verið peningar eða eitthvað annað) og það skrásett í gegnum deiliskrá (e. shared services). Þannig þarf ekki að fara í gegnum þriðja aðila eins og Reiknistofu bankanna. Með þessari tækni opnast markaðurinn fyrir önnur fyrirtæki en banka að stunda t.d. greiðslumiðlun eða gefa út greiðslumiðil. Vonir standa til að kostnaður við greiðslumiðlun og líkur á svikum muni lækka. Notkunin er á tilraunastigi og enn sem komið er glímir Bitcoin við verulegar gengissveiflur auk þess sem gjaldmiðillinn er almennt ekki samþykktur í verslun með vörur og þjónustu. Gjaldmiðillinn er bannaður í tilteknum ríkjum. Rafeyrir sem myndi gegna sambærilegu hlutverki seðla og mynta er í skoðun hjá fjölda seðlabanka og hefur Seðlabanki Íslands m.a. verið að skoða möguleika í því efni og þróunina erlendis. Sjá hér.

Fyrirtæki eru að þróa nýjar greiðslumiðlunarlausnir, t.d. snertilausar greiðslur, snjallsímagreiðslur o.fl. Sem dæmi má nefna að þegar viðskiptavinur greiðir fyrir vöru á Amazon mun Amazon geta kallað eftir upplýsingum um stöðu á reikningi og framkvæmt greiðsluna án milligöngu fyrirtækja eins og Paypal, Visa og Master Card. Síminn er að mörgu leiti einnig að taka yfir sem greiðslutæki í stað kredit- eða debetkorta. Þetta mun án efa umbylta markaðnum og búast má við mikilli vöruþróun og samkeppni sem ætti að leiða til aukinna greiðslumiðlunarmöguleika fyrir neytendur og lægra verðs.

Hugmyndir um takmörkun reiðufjárnotkunar eru hvorki nýjar né óumdeildar. Helsta sérkenni og kostur reiðufjár er einfaldleikinn, þægindin og órekjanleikinn sem felst í viðskiptum með reiðufé. Notkunin snýr þannig að persónuvernd og einkamálum hvers og eins. Í flestum tilfellum eru viðskipti með reiðufé lögleg og eðlileg, en því miður getur helsti kosturinn við notkun reiðufjár, eins og t.d. órekjanleikinn, verið stærsti ókosturinn þar sem reiðufé er misnotað til peningaþvættis, fjármögnunar hryðjuverka og undanskota frá skatti.

Þróunin á Norðurlöndunum

Nokkuð er síðan stjórnvöld á Norðurlöndunum hófu að draga úr notkun reiðufjár með markvissum hætti. Sem dæmi má nefna að víða er ekki hægt að greiða fyrir almenningssamgöngur og smávörur af götusala, nema með korti eða snjallgreiðslu. Ekki er hægt að greiða fyrir vörur í mörgum flugvélum nema með greiðslukorti. Augljóst hagræði er af því að losna við notkun seðla. Það hraðar afgreiðslu, eykur öryggi og losar einstaklinga og verslunaraðila við mikið umstang. Svíþjóð er lengst á veg komið að takmarka notkun reiðufjár og þar er markmiðið með takmörkun reiðufjárnotkunar að draga úr peningaþvætti ásamt því að vera liður í aðgerðum gegn hryðjuverkum.

Í Danmörku hefur verið sett eins konar þak á greiðslur með reiðufé. Þakið er um 150.000 kr. (10.000 DKK) og þó greiðslur yfir hámarkinu séu leyfilegar þá tryggja kaupendur vöru og þjónustu sem virða hámarkið að þeir verði ekki sakaðir í skattundanskotsmálum. Danir hafa einnig rætt um að heimila smásölum, veitingastöðum og bensínstöðvum að taka ekki við greiðslum í reiðufé. Markmiðið er að draga úr kostnaði og auka framleiðni danskra fyrirtækja, m.a. með lágmörkun kostnaðar við öryggisvörslu sem fylgir umsýslu með reiðufé auk þess sem íþyngjandi skiptimyntaþörf hverfur.

Nýverið voru samþykkt lög sem heimila smásölum í Danmörku að hafna viðtöku reiðufjár á milli kl. 22.00 og 06.00. Almenn ánægja er með lögin, hverra markmið er að fækka glæpum á borð við rán, þó m.a. danska viðskiptaráðið hafi viljað að lögin heimiluðu viðskiptaaðilum að hafna alfarið viðtöku reiðufjár. Lagt er til að þessi möguleiki verði skoðaður hér á landi.

Finnar hafa sett sér það markmið að verða seðlalaust samfélag árið 2029.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tekið til skoðunar hvort skynsamlegt sé, á vettvangi Evrópusambandsins, að setja hámark á greiðslur í reiðufé fyrir vörur og þjónustu. Tengist það beint aðgerðaáætlun til að berjast gegn fjármögnun hryðjuverka, m.a. með strangari gagnsæisreglum og að taka 500 € seðilinn úr umferð árið 2018, en undanfarin ár hefur hann verið sáralítið í notkun. Í júní 2015 tók gildi innan Evrópusambandsins reglugerð um hámarksmilligjöld, þ.e. þau debet- og kreditkortagjöld sem viðskiptabanki þjónustuaðila greiðir viðskiptabanka þess sem innti greiðsluna af hendi. Tilgangur reglugerðarinnar er að efla samkeppni og neytendavernd, m.a. með samræmdum reglum. Einnig er lögð ríkari gagnsæiskrafa á banka og þjónustuaðila.

Aðgerðir við takmörkun reiðufjár

Stjórnvöld ættu að setja sér markmið til lengri tíma um að draga úr notkun reiðufjár í umferð. Það mun gera svarta hagkerfinu erfitt uppdráttar ásamt því að draga úr peningaþvætti og skattundanskotum. Sumar aðgerðir eru skammtímaaðgerðir, en heppilegt er að í tilfelli annarra aðgerða verði settir tilteknir frestir. Í ljósi þessa lagði starfshópur fjármálaráðherra eftirfarandi til árið 2017:

 • 10.000 kr. seðillinn verði tekinn úr umferð eins fljótt og auðið er. Í kjölfarið verði 5.000 kr. seðillinn einnig tekinn úr umferð;
 • Hámark verði sett á leyfilega upphæð greiðslna fyrir vörur og þjónustu (bæði milli einstaklinga og einnig milli fyrirtækja t.d. verktaka) með reiðufé, t.d. að fjárhæð 200.000 kr. og samsvarandi upphæð í erlendri mynt;
 • Verslunum og þjónustuaðilum verði heimilt að taka aðeins við rafrænum greiðslum (korta- og snjalltækjagreiðslum), kjósi þeir svo;
 • Vinnuveitendum verði skylt að greiða laun með rafrænu og rekjanlegu greiðslufyrirkomulagi;
 • Við innlagnir og úttektir reiðufjár í/úr banka yfir ákveðnum fjárhæðarmörkum verði einstaklingum og lögaðilum gert að gera grein fyrir uppruna reiðufjárins. Fjárhæðarmarkið gæti t.d. verið í kringum 200.000 kr. og samsvarandi upphæð í erlendir mynt;
 • Huga þarf að hvort almenningur þurfi að hafa aðgang að rafeyri eða ígildi debetkorts með lágmarkskostnaði;

Að draga úr reiðufé í umferð er til þess fallið að draga úr skattaundanskotum og peningaþvætti. Til að koma til móts við þá einstaklinga sem af einhverjum ástæðum kjósa að eiga ekki í viðskiptum við fjármálafyrirtæki er ein leið að bjóða þeim að stofna vaxtalausa reikninga hjá Seðlabankanum, þeim að kostnaðarlausu. Með því er búið til rafrænt ígildi peningaseðla, enda peningar í raun vaxtalaus skuldabréf. Slíkur reikningur, hvort sem honum fylgdi kort eður ei, myndi þó ekki varðveita órekjanleikann sem einkennir greiðslur með reiðufé.

Velji hið opinbera að fara framangreinda leið gæti slíkur reikningur tengst vefsvæði eins og island.is sem hefði að geyma allar grunnupplýsingar einstaklings á einum stað þar sem nú er að finna aðgang að ýmiskonar upplýsingum á einum stað til hagræðis fyrir einstaklinga, að virtum persónuverndarsjónarmiðum. Ríkisstofnanir ættu almennt að huga að því að nýta island.is meira sem vefsvæði og með því að efla rafræna þjónustu og afgreiðslu fyrir almenning. Fyrirkomulagið væri eins og "mínar síður" sem fyrirfinnast hjá flestum þjónustufyrirtækjum. Þar væri hægt að finna allar upplýsingar sem almenningur þarf, upplýsingar um helstu ríkisstofnanir og tengsl og upplýsingamiðlum milli einstaklings og ríkisstofnunarinnar.

Við fæðingu fær einstaklingur kennitölu og samtímis ætti hann að fá reikning í Seðlabanka Íslands sem nýta mætti til geymslu fjármuna, innlagna og úttekta samkvæmt sérstökum reglum. Auk þess þyrfti að vera þarna regla um hámarksinnistæðu, hverjir ættu að hafa aðgang að þessum reikningi og tryggja það að aðrir hefðu ekki aðgang að þessum reikningi.  Svona reikningur ætti að vera ígildi þess að geyma fjármuni undir koddanum nema að sjálfsögðu öruggari aðferð. Reikningur í Seðlabanka Íslands er jafnframt viðurkenning á því að viðkomandi aðili (fjárhaldsmaður fyrir börn) hefur lögformlegan rétt á að hýsa fjármuni á einhverjum öruggum stað og standa skil á greiðslum án þess að þurfa að nýta reiðufé.

Takmörkun reiðufjár mun ekki, frekar en aðrar aðgerðir, útrýma skattundanskotum. Því miður varð einvörðungu mikil umræða um takmörkun reiðufjár þegar tillögur fjármálaráðherra voru lagðar fram árið 2017 til kynningar og má þar bæði kenna um vanmat nefndarinnar á viðbrögðum almennings og fjölmiðla og ekki síður hversu neikvætt ýmsir stjórnmálamenn tóku í þessar hugmyndir, jafnvel strax áður en þeir höfðu kynnt sér tillögur nefndarinnar. Fjármálaráðherra var því miður fljótur að hörfa undan þessari gagnrýni og draga hugmyndirnar til baka.  

Refsingar fyrir skattalagabrot bíta lítið

Að lokum er rétt að nefna það að þegar sakfellt er í refsimálum er varða skattalagabrot er algengt að dæmdar eru háar fjársektir (a.m.k. tvöföld sú fjárhæð sem vangoldnum sköttum nemur) og skilorðsbundið fangelsi. Kveðið er á um í dómum að ef dæmd sekt er ekki greidd þá afpláni dómfelldi vararefsingu í formi fangelsisvistunar. Þótt ýmislegt sé gert til að fyrirbyggja skattalagabrot þá er viðbúið að ákveðinn hópur einstaklinga láti ekki af brotastarfsemi. Refsingar, sem er beitt gagnvart þeim hópi, þurfa því að fela í sér þau varnaðaráhrif að ekki sé lengur fýsilegt að fremja skattalagabrot. Það sem meðal annars þarf að gera er:

 • Styrkja beitingu þeirra úrræða að kyrrsetja eða haldleggja eignir sakborninga fyrir vangoldnum gjöldum, sektum og sakarkostnaði og taka þar með ávinninginn af brotunum;
 • Gera það mögulegt innan fangelsiskerfisins að virkja vararefsingarúrræðið að baki sektinni ef sektin er ekki greidd;
 • Að dæmd verði óskilorðsbundin refsing þegar verulegum fjárhæðum er skotið undan auk þess að dæmd verði frekar óskilorðsbundið fangelsi þegar um ítrekuð brot er að ræða af hálfu sömu aðila;
 • Auka refsiheimildir ef ársreikningum er ekki skilað á tilsettum tíma. Félög geti ekki starfað áfram ár eftir ár ef ársreikningum er ekki skilað og lögaðilar eiga ekki að geta komist upp með að fá eingöngu á sig áætlaða skatta.

Lokaorð

Miklar breytingar hafa orðið í atvinnulífinu undanfarin ár og skattsvikarar eins og aðrir nýta sér ný tækifæri og tækni til að stunda sína iðju. Ýmislegt bendir til þess að nokkur árangur hafi náðst í baráttu við skattsvik, en stjórnvöld þurfa sífellt að halda vöku sinni. Skattsvik eru oft mjög umfangsmikil og úthugsuð af „fagmönnum“ í þessari glæpastarfsemi enda er áætlað að þau nemi um 100 milljörðum króna eða um 10% af öllum skatttekjum hins opinbera.

Stofnanir sem koma að þessum málum þurfa að vinna enn betur saman og ná meiri og hraðari skilvirkni í sínum störfum. Leiða má hugann að því hvort tengja mætti betur saman hlutverk og störf ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, héraðssaksóknara, tollstjóra og annarra sem sjá um innheimtu sekta og síðan fangelsismálayfirvalda þar sem margir þurfa að taka út sína refsingu. Eitt skref er nú verið að stíga í því efni varðandi innheimtu skatta; - innheimtan verður flutt fljótlega frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Sumar af þessum stofnunum gætu unnið betur saman og þannig nýst betur í baráttu við þá glæpastarfsemi sem tengist skattsvikum og peningaþvætti. Þótt nafnið Seðlabanki mun ekki fyllilega eiga við í framtíðinni í seðlalausu samfélagi, þá mun hlutverk bankans ekki minnka í takt við minni notkun reiðufjár eða seðla. Hér að neðan eru helstu atriði sem gætu dregið úr skattsvikum.

 • Einföldun virðisaukaskattskerfisins og fækkun skattþrepa, helst í eitt skattþrep, samhliða lækkun skattsins myndi draga úr undanskotum. Auk þess er tímabært að undirbúa innleiðingu framsækinna tæknilausna við sölu vöru og þjónustu.
 • Kröfur um hæfisskilyrði einstaklinga til að gerast innheimtumenn ríkisins á virðisaukaskatti og almennt hæfi einstaklinga til að stofna hlutafélög og stunda viðskipti, með þeirri ábyrgð sem því fylgir. Síbrotamenn og vanhæfir einstaklingar, svo sem þeir sem stunda kennitöluflakk, eiga ekki að reka fyrirtæki með þeirri ábyrgð sem því fylgir.
 • Tillögur sem snúa að keðjuábyrgð fyrirtækja t.d. í byggingariðnaði og mæta þeim áskorunum sem felast í vexti ferðaþjónustunnar.
 • Að lokum snúa tillögur starfshópsins að takmörkun á notkun reiðufjár. Innkaup og flutningur fjármuna milli landa í stórum stíl á ekki að tíðkast með notkun reiðufjár. Peningaþvætti er afleiðing skattsvika sem tíðkast hér á landi eins og annars staðar. Því er mikilvægt að peningaþvættisskrifstofa valdi vel hlutverki sínu.

Sköpunarhæfileikar og einbeittur brotavilji einstaklinga fyrirfinnst á sviði skattamála eins og á flestum öðrum sviðum samfélagsins. Almenningur og þá ekki síst stjórnvöld þurfa að hafa hugmyndaflug, framtíðarsýn og tækniþekkingu til að vera skrefinu á undan skattsvikurum í að koma í veg fyrir skattsvik. Þótt refsingar skipti miklu máli þá eru fyrirbyggjandi aðferðir, upplýsingamiðlun og viðhorfsbreyting til skattsvika enn mikilvægari.

Fyrirbyggjandi aðgerðir og að koma í veg fyrir að skattsvik séu möguleg eru jákvæðari en að þurfa að læsa glæpamennina inni með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið. Það er eins með skattsvik og önnur brot, hvort sem það er hraðakstur, ofbeldisbrot eða önnur sviksamleg starfsemi; - betra er að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.      

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar