Auglýsing

Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, ávarp­aði kirkju­þing síð­ast­lið­inn sunnu­dag. Þar sagði hann ýmis­legt. Meðal ann­ars að lítil sann­girni væri í mál­flutn­ingi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju. „Oft virð­ist manni sem mál­flutn­ingur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálu­sorgun og ýmis konar félags­þjón­ust­u.“

Sá sem þetta ritar er yngri en Bjarni Bene­dikts­son og hefur tek­ist á við erfið áföll. Hann hefur einnig upp­lifað frá fyrstu hendi hvers konar sálu­sorgun kirkjan getur boðið upp á við slíkar aðstæð­ur, hvernig slíkri þjón­ustu er stundum haldið stíft að gjör­sam­lega nið­ur­brotnu og við­kvæmu fólki og hvernig hún getur ýkt afleið­ingar frekar en að hjálpa til.

Auð­vitað liggur fyrir að slík upp­lifun af starfi áfallateyma sem inni­halda presta er ekki algild. En það þýðir ekki að vera þjóna kirkj­unnar í slíku teymi sé hafin yfir gagn­rýni og að mögu­lega væri fjár­magni sem fer í slíkt betur varið til að ráða fleira fag­fólk án trú­ar­teng­inga í teym­in. Það er nefni­lega hægt að sér­hæfa sig í áfalla­hjálp án þess að vera starfs­maður hinnar evang­el­ísku lút­ersku kirkju.

Ungt fólk lendir líka í áföll­um. Það missir for­eldra sína, systkin eða aðra nána ætt­ingja. Það missir maka og vini. Það missir börnin sín. Það getur lent í alvar­legum slysum sem breyta lífi þeirra algjör­lega og á svip­stundu. Eða lífum nán­ustu ætt­ingja. Og svo fram­veg­is.

Það að gefa í skyn að aldur fólks úti­loki það frá því að lenda í áföll­um, og að hópur lands­manna sé þar af leið­andi ekki til þess bær að hafa skoðun á hvort nýta eigi skattfé til að greiða fyrir rekstur trú­fé­lags, er ofsa­legt virð­ing­ar­leysi gagn­vart öllu ungu fólki. Bæði því sem hefur sann­ar­lega tek­ist á við áföll og hinum sem hafa það ekki, en eiga samt sem áður fullan rétt á því að hafa skoðun á hlut­verki rík­is­ins og útdeil­ingu skatt­fjár.

Orð Bjarna bera þess merki að hann sé að ein­hverju leyti ófær um að setja sig í spor ann­arra. Og eru ekki boð­leg úr hendi áhrifa­mik­ils stjórn­mála­manns sem vill láta taka sig alvar­lega.

Millj­arðar á ári

Í stjórn­­­ar­­skrá Íslands segir að hin evang­el­íska lút­­erska kirkja skuli vera þjóð­­kirkja á Íslandi og að rík­­is­­valdið eigi bæði að styðja hana og vernda. Auk þess er í gildi hið svo­­kall­aða kirkju­jarð­­ar­­sam­komu­lag frá árinu 1997, sem í felst að þjóð­­kirkjan afhenti rík­­inu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun presta og starfs­­manna Bisk­­ups­­stofu.

Auglýsing
Á grunni þessa er þjóð­kirkjan á fjár­lögum og fær umtals­verða fjár­muni úr rík­is­sjóði. Nánar til­tekið 42 millj­arða króna frá árinu 1998.

Af fjár­lögum er greitt fram­lag til Bisk­­ups Íslands, í Kirkju­­mála­­sjóð og Jöfn­un­­ar­­sjóð sókna.

Sam­tals er áætlað að þessi upp­­hæð verði 2.830 millj­­ónir króna í ár. Til við­­bótar fær þjóð­­kirkjan greidd sókn­­ar­­gjöld í sam­ræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upp­­hæð verði yfir 1,7 millj­arðar króna í ár. Sam­tals mun rekstur þjóð­­kirkj­unnar því kosta tæp­­lega 4,6 millj­­arða króna í ár. Þá er ekki með­­talið rúm­­lega 1,1 millj­­arðs króna fram­lag til kirkju­­garða.

Bað um og fékk

Ýmis­legt hefur gerst á und­an­förnum árum sem hefur haft áhrif á skoðun þjóð­ar­innar á sam­bandi ríkis og kirkju.

Þar ber til að mynda að nefna með­ferð hennar á kyn­ferð­is­brotum sem upp­götvast hafa innan henn­ar, sem náði hámarki þegar ásak­anir um þöggun þjóð­­kirkj­unnar yfir meintum kyn­­ferð­is­­glæpum Ólafs Skúla­­son­­ar, fyrr­ver­andi bisk­­ups, voru settar fram árið 2010.

Kirkjan hef­ur, meðal ann­ars vegna þess­ara mála, sett sér skýrar starfs­reglur og stofnað sér­stakt fagráð til að fjalla um með­ferð kyn­ferð­is­brota. Slíkt fyr­ir­komu­lag, að stofnun á fjár­lögum ætli sér að leysa sjálf úr slíkum málum inn­an­húss og oft með leynd, er sann­ar­lega ekki hafið yfir gagn­rýni.

Agnes Sig­urð­ar­dótt­ir, biskup Íslands, hefur einnig blandað sér í önnur mál og lét meðal ann­ars hafa eftir sér í við­tali við Morg­un­blaðið haustið 2017 að það væri ekki sið­­­ferð­i­­­lega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sann­­­leik­ann í ljós. Ummæli Agn­esar féllu nokkrum dögum fyrir kosn­ing­arnar 2017, og nokkrum dögum eftir að lög­bann var sett á umfjöllun Stund­ar­innar upp úr gögnum frá Glitni, sem voru tekin ófrjálsri hendi.

Í des­em­ber 2017 hækk­­aði kjara­ráð laun bisk­­­­­ups um tugi pró­­­­­senta. Laun bisk­­­­­ups eftir hækk­un­ina eru alls 1.553.359 krónur á mán­uði. Hækk­­­­­unin var aft­­­­­ur­­­­­virk til 1. jan­úar 2017.

Kjara­ráð tók kjör bisk­­ups til skoð­unar eftir að biskup sendi bréf til ráðs­ins þess efn­is, en biskup krafð­ist betri launa í bréf­inu.

Flótti úr kirkj­unni

Ára­tugum saman var skipu­lag mála hér­­­lendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trú­­­­­­­fé­lag móð­­­­­­­ur. Það þurfti því sér­­­­­­­stak­­­­­­­lega að skrá sig úr trú­­­­­­­fé­lagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir for­eldrar að til­­­­­heyra sama trú- og lífs­­­­­skoð­un­­­­­ar­­­­­fé­lagi til að barnið sé skráð í félag, ann­­­­­ars skrá­ist barnið utan­ ­trú­­­­­fé­laga.

Stór hluti þjóð­ar­innar var því skráður í þjóð­kirkj­una án þess að vera spurður að því. Og þess vegna var lengi vel yfir 90 pró­sent þjóð­ar­innar skráður í þjóð­kirkj­una. Á árunum fyrir hrun fjölg­aði alltaf lít­il­­­lega í hópi þeirra sem skráðir voru í þjóð­­­kirkj­una á milli ára þótt þeim Íslend­ingum sem fylgdu rík­­­is­­­trúnni fækk­­­aði alltaf hlut­­­falls­­­lega.

Frá árinu 2009 hefur með­­­limum þjóð­­­kirkj­unnar hins vegar fækkað á hverju ári. Alls hefur þeim fækkað um 20.164 frá þeim tíma og ekk­ert af þeirri hröðu fjölgun íbúa sem verið hefur á land­inu síðan þá – lands­menn eru nú 36.252 fleiri en í byrjun árs 2009 – hefur skilað sér til þjóð­kirkj­unn­ar. 

Nú er svo komið að 65,6 pró­sent lands­manna voru skráðir í þjóð­kirkj­una 1. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn. Rúmur þriðj­ungur okkar er ekki í henni.  Aldrei áður hefur lægra hlut­fall lands­manna verið skráð í hana. Alls standa 122.133 lands­menn utan þjóð­kirkj­unn­ar. Sú tala hefur tvö­fald­ast á tæpum ára­tug.

Traustið horfið og meiri­hluti vill aðskilnað

Í þjóð­ar­púlsi Gallup sem birtur var 23. októ­ber síð­ast­lið­inn, kom fram að meiri­hluti Íslend­inga, eða 54 pró­sent, er hlynntur aðskiln­aði ríkis og kirkju. Það hefur verið meiri­hluti fyrir því í hverri ein­ustu könnun fyr­ir­tæk­is­ins frá árinu 2009.

Þar kom fram að ein­ungis 33 pró­­sent þjóð­­ar­innar ber mikið traust til þjóð­­kirkj­unn­­ar. Það er tíu pró­­sent­u­­stigum færri en sögð­ust bera mikið traust til hennar í fyrra. Þeir sem treysta þjóð­­kirkj­unni eru nú tæp­­lega helm­ingi færri en gerðu það árið 1999.

Alls sögð­ust 39 pró­­sent lands­­manna bera lítið traust til þjóð­­kirkj­unn­­ar. Mjög skýr munur var á afstöðu til hennar eftir aldri. Þannig sögð­ust ein­ungis 17 pró­­sent Íslend­inga á aldr­inum 18-30 ára að þeir beri mikið traust til þjóð­­kirkj­unnar en 55 pró­­sent þess ald­­ur­s­hóps treystir henni ekki. Traustið fer svo vax­andi upp alla ald­­ur­s­hópa og nær hámarki hjá 60 ára og eldri þar sem 47 pró­­sent segj­­ast treysta kirkj­unni en 26 pró­­sent treysta henni ekki.

Auglýsing
Þjóð­ar­púls­inn mældi einnig ánægju með störf bisk­­ups Íslands. Hún hefur aldrei verið minni en ein­ungis 14 pró­­sent aðspurðra sagð­ist ánægt með störf henn­­ar. Raunar hefur ánægja með störf bisk­­ups ekki mælst jafn lág á þeim rúmum tveimur ára­tugum sem hún hefur verið mæld hjá Gallup. Alls sögð­ust 44 pró­­sent aðspurðra vera óánægðir með störf bisk­­ups.

Í könn­un­inni kom líka fram að mik­ill munur er á afstöðu til kirkj­unnar eftir því hvaða stjórn­­­mála­­flokk við­kom­andi kýs. Kjós­­endur Sjálf­­stæð­is­­flokks (52 pró­­sent segj­­ast treysta þjóð­­kirkj­unni) og kjós­­endur Mið­­flokks­ins (48 pró­­sent segj­­ast treysta þjóð­­kirkj­unni) skáru sig úr hvað varðar traust á meðan að kjós­endur Pírata (71 pró­­sent van­­traust), Við­reisnar (52 pró­­sent van­­traust) og Sam­­fylk­ingar (50 pró­­sent van­­traust) voru algjör­­lega á hinum pólnum hvað varðar afstöðu til þjóð­­kirkj­unn­­ar.

Á síð­ustu árum hefur sam­setn­ing íslensks sam­fé­lags verið að breyt­ast hratt. Erlendum rík­is­borg­urum sem búa hér hefur fjölgað um 22.500 frá lokum árs 2011 og eru nú 43.430 tals­ins, eða 12,2 pró­sent lands­manna. Og þeir eru sann­ar­lega ekki að uppi­stöðu í þjóð­kirkj­unni. Svo sit­ur, í fyrsta sinn, maður á for­seta­stóli, Guðni Th. Jóhann­es­son, sem er ekki í þjóð­kirkj­unni.

Tím­arnir eru því breyttir og þeir hafa breyst hratt.

Fimm flokkar fylgj­andi aðskiln­aði

Það blasir við að tíma­bært er að eiga alvöru sam­tal um hvert fram­tíð­ar­sam­band ríkis og kirkju eigi að vera, og hvort slíkt sam­band eigi raun­veru­lega að vera til staðar eða ekki.

Í hversu mörg ár þurfa kann­anir að sýna að stöð­ugur meiri­hluti vill slíkan aðskilnað til að hann verði rædd­ur? Hversu lágt þarf hlut­fall þeirra sem eru skráðir í þjóð­kirkj­una, vit­andi vits eða óvart, að verða til að málið verði rætt af alvöru? Hversu margir í við­bót þurfa að standa utan henn­ar?

Þing­menn Vinstri grænna, Við­reisn­ar, Sam­fylk­ingar og Pírata hafa það fyrir framan sig að mun fleiri kjós­endur þeirra van­treysta þjóð­kirkj­unni en treysta henni. Allir þessir fjórir flokkar hafa opin­ber­lega sagst styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Það gerir Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn líka sam­kvæmt sam­þykktri stefnu á lands­fundi og ung­liða­hreyf­ing flokks­ins sá ástæðu til að hirta for­mann sinn í yfir­lýs­ingu sem hún sendi frá sér vegna orða hans á kirkju­þingi um liðna helgi. Þar sagði að Bjarni hefði talað af „gríð­ar­legum van­skiln­ingi“ um mál­stað þeirra sem styðja aðskilnað og að mál­staður þeirra byggi „í lang­flestum til­vikum á því að það sé ekki hlut­verk rík­is­ins að skatt­leggja almenn­ing til að fjár­magna trú­fé­lög, hvað þá eitt trú­fé­lag framar öðr­um.“

Auglýsing
Saman eru þessir fimm flokkar með 44 þing­menn á þingi, eða tæp­lega 70 pró­sent slíkra. Full­trúar flokk­anna fimm hafa nú lagt fram skýrslu­beiðni til dóms­mála­ráð­herra um stöðu þjóð­kirkj­unnar og tengsl hennar við rík­is­valdið umfram önnur trú- og lífs­skoð­un­ar­fé­lög.

Af hinum þremur flokk­unum sem eiga full­trúa á Alþingi hefur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn helst verið á móti aðskiln­aði, í lands­fund­ar­sam­þykktum Flokks fólks­ins segir að hann styðji þjóð­kirkj­una „til að standa vörð um gildi krist­innar trúar og íslenska menn­ing­u,“ en ekk­ert er minnst á málið í birtri stefnu Mið­flokks­ins þótt lesa megi and­stöðu úr orð­ræðu for­manns flokks­ins, sem hann var stofn­aður utan um. Það virð­ist því aug­ljós meiri­hluti fyrir aðskiln­aði á meðal stjórn­mála­flokka og á meðal þjóð­ar­inn­ar. 

Það þarf vilja og þor

Það er hægt að segja kirkju­jarð­ar­sam­komu­lag­inu frá 1997 upp ein­hliða og kljúfa þjóð­kirkj­una fjár­hags­lega frá rík­inu. Von­andi verður ofan­greind skýrslu­beiðni upp­hafið af þeirri veg­ferð. Rík­is­stjórn­ar­sam­starfið hindrar það ekki þótt Fram­sókn sé á móti aðskiln­aði. Ekk­ert er minnst á málið í stjórn­ar­sátt­mála og því hlýtur að vera í lagi að leggja það fram sem sam­eig­in­legt þing­manna­mál þeirra flokka sem styðja það. 

Ef aðskiln­aður yrði stað­festur í slíkri myndi þjóð­kirkjan lík­ast til stefna rík­inu og dóm­stólar myndu útkljá það hvað það myndi kosta íslenska skatt­greið­endur að slíta þessu hjóna­bandi. Þetta ferli gæti tekið nokkur ár og mögu­lega myndi það enda með því að þjóð­kirkjan fengi umtals­verða upp­hæð greidda úr rík­is­sjóði, tæk­ist ekki að semja um mál­ið. En sú upp­hæð yrði alltaf brota­brot af því að borga þjóð­kirkj­unni marga millj­arða króna á ári bók­staf­lega óend­an­lega.

Fyrir ligg­ur, á tölum um traust til kirkj­unn­ar, á þeirri stað­reynd að meiri­hluti er fylgj­andi aðskiln­aði ár eftir ár, á því að lands­mönnum sem eru í þjóð­kirkj­unni fækkar gríð­ar­lega hratt árs­fjórð­ungi til árs­fjórð­ungs, að það er sam­fé­lags­legur vilji til að end­ur­skoða það fyr­ir­komu­lag að ein kirkja sé hluti af rík­in­u. 

Þótt við stígum þetta skref þá munum við auð­vitað áfram vera að uppi­stöðu kær­leiks­ríkt, gott og sið­legt sam­fé­lag fullt af sam­kennd. Slíkt kemur að innan og þeir sem móta líf sitt eftir nokkur þús­und ára sam­an­safni ritn­inga, sem margar hverjar er hægt að túlka eftir hent­ug­leika, eiga einka­rétt á hvor­ug­u. 

Við munum áfram geta haldið páska og jól hátíð­leg eða gift okkur í kirkj­unum sem eru ekk­ert að fara neitt, á sama hátt og önnur sam­fé­lög sem eru ekki með þjóð­kirkjur gera slíkt. Trú­frelsi verður enn algjört og var­ið. Kirkjan mun starfa áfram og þjóna þeim sem hún gagn­ast. Fyr­ir­komu­lag á greiðslu launa presta, og á öðrum rekstr­ar­kostn­aði þjóð­kirkj­unn­ar, breyt­ist bara.

Eina sem þarf er vilji og þor þing­manna til að setja málið fyrir alvöru á dag­skrá.

Segir eftirlit Fiskistofu veikburða og ómarkvisst
Ríkisendurskoðun telur að Fiskistofu sé ómögulegt að sinna öllu því eftirliti sem henni ber að sinna, meðal annars vegna skorts á úrræðum og viðurlögum. Jafnframt vísar Ríkisendurskoðun því á bug að brottkast sé óverulegt á Íslandi.
Kjarninn 18. janúar 2019
Logi vill ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum
Formaður Samfylkingarinnar segir að mögulega séu flokkur hans og Vinstri græn eðlisólíkir flokkar í ljósi þeirra áherslna sem núverandi ríkisstjórn, undir forsæti Vinstri grænna, hefur í forgrunni. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Mannlífi í dag.
Kjarninn 18. janúar 2019
Reynt að bjarga íslensku fjölmiðlalandslagi frá algjörri einsleitni
Drög að frumvarpi um hvernig íslenska ríkið ætlar að styðja við einkarekna fjölmiðla liggja fyrir og verða kynnt í ríkisstjórn von bráðar.
Kjarninn 18. janúar 2019
Gleymið tollastríðinu - Kína er nú þegar í vandræðum
Pistlahöfundur Bloomberg, Michael Schuman, segir Kína á kafi í skuldavanda sem ekki sé hægt að leysa svo auðveldlega.
Kjarninn 17. janúar 2019
Hreiðar Már: Von mín að deilurnar leysist farsællega
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, segir ásakanir sem koma fram á hendum honum í bréfi frá Kevin Stanford og Karen Millen ekki vera réttar.
Kjarninn 17. janúar 2019
Gylfi hvetur til varkárni við sölu banka
Gylfi Zoega hagfræðiprófessor skrifar um fyrirhugaða sölu á bönkunum og bankarekstur almennt, í ítarlegri grein í Vísbendingu.
Kjarninn 17. janúar 2019
Myndin er af höfundi greinarinnar sofandi. Myndin er ekki nýleg.
Vinnuálag í framhaldsskólum
Kjarninn 17. janúar 2019
Embætti forstjóra Barnaverndarstofu laust til umsóknar
Félagsmálaráðuneytið auglýsir starf forstjóra barnaverndarstofu laust til umsóknar. Bragi Guðbrandsson lét af starfi forstjóra í febrúar í fyrra eftir að hafa tekið sæti í Barna­rétt­ar­nefnd Sam­einuðu þjóðanna fyr­ir hönd Íslands.
Kjarninn 17. janúar 2019
Meira úr sama flokkiLeiðari