Fullyrt er að hagkerfi Bandaríkja Norður Ameríku (Bandaríkjanna, USA) sé fremra hagkerfum norrænu ríkjanna á nánast öllum sviðum í nýlegri 72ja síðna skýrslu hagfræðiráðgjafa Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna sen ber heitið: „The opportunity costs of socialism“ eða „Fórnarkostnaður sósíalismans“. Ráðgjafarnir halda því fram að aukið vægi lýðræðislegra, félagslegra lausna á samfélagslegum úrlausnarefnum (jafnaðarstefnu eða félagslegrar lýðræðisstefnu) muni draga úr hagrænum ávinningi sem hafa má af óheftum kapítalisma. Við segjum ráðgjafana hafa rangt fyrir sér.
Skýrsluhöfundar rugla (viljandi?) saman sósíalisma og jafnaðarstefnu og segja svo að aukið vægi jafnaðarstefnu í hagkerfinu dragi úr hvatningu til vinnusemi og nýsköpunar. Þetta segja skýrsluhöfundar að megi styðja talnalegum rökum. Fullyrðingin stenst ekki skoðun einfaldlega vegna þess að vinnusemi og nýsköpun er síst minni á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum.
Framleiðniaukning í Svíþjóð og Noregi á tímabilinu 1930 til dagsins í dag er meiri en í Bandaríkjunum. Það gildir jafnt þó verðmæti olíuframleiðslu Norðmanna sé haldið utan við samanburðinn. Nýsköpun gengur hraðar fyrir sig á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum sem kemur fram í að atvinnulífið bregst hraðar við breyttum ytri aðstæðum og nýsköpun er einnig meiri að umfangi á Norðurlöndum. Munurinn í framleiðni á milli arðbærustu og minnst arðbæru framleiðslueininganna er þess vegna minni á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum.
Röðun Sameinuðu Þjóðanna á löndum eftir notkun og þróun upplýsingatækni sýnir samskonar mynd: Ísland er í fyrsta sæti, Danmörk er í því fjórða, Noregur áttunda og Svíþjóð í ellefta. Bandaríkin komast ekki hærra en í sextánda sæti.
Umfangsmikil velferðarkerfi – lítill launamunur
En hvers vegna koma norrænu löndin vel út í samanburði varðandi nýsköpun og framleiðniþróun? Ástæðan er gott skipulag velferðarkerfa Norðurlandanna annars vegar og það hversu lítill munur er á hæstu og lægstu launum hins vegar.
Sé vinnuafl vel menntaðra hlutfallslega ódýrt og vinnuafl almennra starfsmanna hlutfallslega dýrt borgar sig nefnilega að vélvæða vinnuferla og innleiða vinnuaflssparandi tæki og tækni. Vélvæðing kann vissulega að leiða til tímabundins atvinnuleysis. En sé öllum sem það vilja tryggð endurhæfing og góðar atvinnuleysisbætur er atvinnuleysi af völdum tæknibreytinga ekki vandamál. Aðilar vinnumarkaðarins leggja sömuleiðis mikla áherslu á að haga kjarasamningum þannig að meðallaunastig sé stillt þannig af að full atvinna haldist á hverjum tíma í hagkerfinu í heild. Þess vegna verður tímabundið atvinnuleysi vegna vélvæðingar og framleiðniaukningar hvorki langvarandi né umfangsmikið.
Það eru einmitt almennir kjarasamningar og félagslegar tryggingar sem hafa stuðlað að miklum hagvexti, lágu atvinnuleysi og miklum jöfnuði á Norðurlöndum undangengin rúm 80 ár.
Jafnaðarstefnan sem rekin er á Norðurlöndum eyðileggur ekki hið kvika eðli kapítalismans, þvert á móti styrkir hún það, styður og eflir.
Athygli beint að meðaltekjum
Hagfræðiráðgjafar Trumps minnast á ójafna tekjuskiptingu í framhjáhlaupi, en athyglin beinist þó fyrst og fremst að meðaltekjum. Okkur er ekki ljóst hvaða gögn þeir nota. Þeir segja gögnin upprunnin hjá OECD en ekki hvaða útreikninga þeir framkvæma sjálfir.
Við höfum aflað sambærilegra gagna með því að nota tölur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) um landsframleiðslu á íbúa sem við höfum síðan leiðrétt fyrir mismunandi kaupmætti og mismunandi verðlagi milli landa.
Séu þessar eðlilegu leiðréttingar framkvæmdar mælast tekjur á mann í Noregi 19% hærri en í Bandaríkjunum. Hluta af þeim mun má skýra með olíutekjunum, en ekki allan. Hin norrænu löndin hafa nokkru lægri leiðréttar tekjur á íbúa en Bandaríkin. Röðin er þessi: Efst er Noregur, síðan Bandaríkin, þá Ísland, Svíþjóð, Danmörk og Finnland.
Leiðrétt fyrir ójöfnuð
Meðaltekjur á mann segja lítið um velsæld og lífsgæði ef það eru bara örfáir sem njóta mjög hárra tekna meðan allir aðrir eru tekjulitlir.
Til að fá fyllri mynd verður að taka tillit til þess hvernig tekjurnar dreifast. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Amartya Sen hefur þróað aðferð til að leiðrétta þjóðartekjur á mann vegna ójafnaðar í tekjudreifingunni. Þeim mun meiri sem ójöfnuðurinn er þeim mun minna gagn er af háum meðaltekjum samkvæmt mælikvarða Sen.
Það er vel þekkt að ójöfnuður í Bandaríkjunum er umtalsvert meiri en á Norðurlöndum. Ef við leiðréttum tölurnar með þessari einföldu en almennt viðurkenndu aðferð verður myndin af velferðarstöðu Norðurlandanna og Bandaríkjanna allt önnur en sé það ekki gert. Þá eru Bandaríkin næst neðst í velmegunarröðinni. Aðeins Finnland raðast neðar á þennan mælikvarða. Noregur mælist með mestar ójafnaðarleiðréttar tekjur á íbúa, enda meðaltekjur mjög háar og ójöfnuður lítill. Ísland, Svíþjóð og Danmörk mælast öll betur en Bandaríkin.
Sé tillit tekið til þess að íbúar Norðurlandanna fá heilbrigðisþjónustu og háskólamenntun nánast ókeypis minnkar ójöfnuður innan þessara landa enn um 20% samkvæmt útreikningum 3ja vísindamanna við norsku Hagstofuna. Þar með færast Norðurlöndin enn ofar en Bandaríkin á velferðarkvarðanum.
Bandarískir Svíar og sænskir Svíar
Ráðgjafar Trumps gera einnig örvæntingarfulla tilraun til að sýna fram á að íbúar Norðurlanda tapa á að búa ekki í Bandaríkjunum.
Skýrslan dregur fram tölur sem sýna hversu góður efnahagur innflytjenda í Bandaríkjunum er eftir því hvort þeir eru af dönsku, finnsku, íslensku, norsku eða sænsku bergi brotnir. Samkvæmt skýrslunni eru meðaltekjur sænsks innflytjanda í Bandaríkjunum 29% hærri en meðaltekjur í Bandaríkjunum. Skýrslan gerir ráð fyrir að hefðu forfeður viðkomandi ekki flutt til Bandaríkjanna væru tekjur hans þær sömu nú og meðalsvía, þ.e.a.s. 15% lægri en meðaltekjur í Bandaríkjunum.
Samkvæmt skýrslunni eru tekjur Svía í Svíþjóð því aðeins um 45% af því sem tekjur hans væri hefði hann (eða forfeður hans) flutt til Bandaríkjanna.
Villandi um ójöfnuð og menntun
Útreikningurinn er villandi. Það er villandi að láta eins og tekjur sérhvers íbúa séu jafnar meðaltekjum og hoppa þannig yfir áhrif tekjuójafnaðar. Mikilvægar er þó að ekki er tekið tillit til þess að tekjur íbúa Bandaríkjanna ráðast af því hversu snemma forfeður þeirra fluttu til landsins. Þeim mun fyrr sem forfeðurnir fluttu þeim mun hærri eru tekjur nútíma Bandaríkjamannsins.
Það er reyndar þannig að Bandaríkjamenn af norrænum uppruna eru ekkert sérlega vel settir samanborið við aðra aðkomumenn af evrópskum uppruna. Tekjumunur milli þeirra sem eru af breskum uppruna og þeirra sem eru á sænskum uppruna í Bandríkjunum er meiri en tekjumunur milli Svía í Bandaríkjunum og Svía í Svíþjóð. Jafn villandi er það þegar því er slegið föstu í skýrslunni að ókeypis menntun á Norðurlöndum gefi ekki góða ávöxtun. Höfundar hafa ekki uppgötvað að á Norðurlöndum er lítill tekjumunur vegna samþjöppunar launastigans. Þess vegna er arðsemi einstaklinga af menntun lægri á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum.
En bæði í Bandaríkjunum og í Noregi er það þjóðhagsleg arðsemi menntunar sem skiptir mestu máli. Þjóðhagsleg arðsemi er mælikvarði á hversu vel menntun gagnast til að auka almenn lífsgæði og almennar tekjur í löndunum. Á þessu svið hafa ráðgjafar Trumps ekkert fram að færa.
Einhverjir kunna að leggja trúnað á innihald skýrslunnar
Skýrsla hagfræðiráðunauta Trumps er líklega ætluð til heimabrúks. Hún gefur gloppóttan og skakkan samanburð á virkni hagrænna stofnana í Bandaríkjunum annars vegar og á Norðurlöndum hinsvegar. Hún svarar heldur ekki spurningum um það hvaða hópum í Bandaríkjunum það myndi gagnast að gera bandaríska hagkerfið líkara hagkerfum Norður Evrópu.
Umræðan í skýrslunni tekur útúrdúra til Sovétríkjanna, Kúbu og Venesúela en lætur vera að kafa ofan í orsakir hins mikla og langvarandi hagvaxtar í Kína. Tilgangurinn er augljóslega að stilla norrænu löndunum upp í slæmum félagsskap landa sem einkennast af litlum hagvexti, djúpum kreppum og takmörkuðu frjálsræði. Í leiðinni er ætlunin greinilega að koma höggi á Bernie Sanders.
Við hefðbundnar aðstæður væri lítil hætta á að skýrslan hefði áhrif á þekkingu og skilning Bandaríkjamanna á aðstæðum á Norðurlöndum. Til þess er ritdeilubragurinn of mikill og heiðarleiki í umgengni við staðreyndir of lítill. En aðstæður eru ekki hefðbundnar. Þess vegna viljum við leiðrétta hinar röngu fullyrðingar skýrslunnar.
Höfundar eru prófessorar í hagfræði við Háskólann í Osló.
Þórólfur Geir Matthíasson prófessor við félagsvísindasvið Háskóla Íslands þýddi en Kalle Moene var leiðbeinandi Þórólfs í doktorsnámi hans við Háskólann í Osló.