Í fjárhagsáætlun Garðabæjar gengur meirihlutinn út frá óbreyttri þjónustu. Garðabæjarlistinn saknar aukins fjármagns í þágu barna og ungmenna, barnafjölskyldna og aldraðra. Garðabæjarlistinn vill gera miklu betur á þessum sviðum og leggur því fram breytingartillögur. Sveitarfélagið stendur afar vel og getur lagt meira af mörkum til velferðar íbúa sinna.
Garðabær er öflugt sveitarfélag á stærð við úthverfi Reykjavíkur, enda hefur verið litið svo á að sveitarfélagið hafi efni á margra milljarða framkvæmd við byggingu fjölnota íþróttahúss. Við hlið slíkrar stórframkvæmdar bliknar föst prósenta í félagslegar íbúðir, þar sem farið verður í að byggja upp hverfi. Og við hlið slíkrar milljarðaframkvæmdar er aumt að bjóða upp á 5 milljónir króna til að tryggja öryggi, festu og velferð fatlaðra barna og ungmenna og barna og ungmenna af erlendum uppruna með þátttöku í frístund, íþrótta- og tómstundastarfi innan bæjarfélagsins.
Ef vel stætt og öflugt bæjarfélag á stærð við úthverfi Reykjavíkur hefur efni á margra milljarða íþróttahúsi þá er hæglega hægt að:
- byggja til framtíðar, taka samfélagslega ábyrgð og fjárfesta í öryggi allra
- halda gjaldskrá leikskóla óbreyttri
- efla lýðheilsu eldri borgara enn frekar
- styðja við barnmargar fjölskyldur með hærri hvatapeningum,
svo aðeins séu nefnd dæmi um möguleikana er fyrir hendi eru í bæjarfélagi, sem áætlar að skila rétt undir milljarði króna í hagnað á einu kjörtímabili.
Og það þrátt fyrir margra milljarða framkvæmd í þágu íþróttastarfs bæjarins.
Það er einlæg von okkar sem stöndum að Garðabæjarlistanum að samtal okkar við meirihlutann um þessar áherslur leiði til góðs í þágu alls samfélagsins. Það þarf vissulega að tryggja stöðugan rekstur og leggja upp með ábyrga fjármálastefnu, en um leið þarf að gæta jafnvægis og treysta innviðina með því að fjárfesta í velferð fyrir alla. Velferð íbúa hvar sem þeir standa óháð lífsgæðum má aldrei stefna í hættu. Skylda hvers sveitarfélags felst í að tryggja öryggi og festu fyrir íbúa þess, ekki síður en öryggi og festu í rekstri.
Þegar Garðabæjarlistinn leggur mannbætandi breytingartillögur fyrir bæjarstjórn hlýtur meirihlutinn að styðja þær og samþykkja.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.