Herstöðinni í Keflavík var lokað við mikla viðhöfn þann 30. september 2006. Þar með lauk 55 ára fastri viðveru Bandaríkjahers á Keflavíkurvelli. Hluta aðstöðunnar var haldið við innan sérstaks öryggissvæði, m.a. til að liðsmenn Atlantshafsbandalagsins gætu sinnt „loftrýmisgæslu“ sem hefur verið skiplögð þrisvar á ári, 2-3 vikur í senn. Nú er hins vegar komið í ljós að umsvifin eru miklu meiri. Erlent herlið hefur haft varanlega viðveru á öryggissvæðinu á Keflavíkurvelli síðustu þrjú ár. Frá þessu var ekki sagt fyrr en í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram nú í haust.
Á síðustu árum hafa af og til birst fréttir af auknum viðbúnaði Nató á Keflavíkurvelli. Tilefnið hefur verið sagt vera aukin umsvif rússneska norðurflotans umhverfis Ísland. Síðustu þrír utanríkisráðherrar hafa allir sagt það sama: Þetta er ekki varanleg viðvera. Annað er komið í ljós!
Skýrustu upplýsingar íslenskra þingmanna um þessa þróun bárust lengst af frá bandarískum stjórnvöldum, frekar en þeim íslensku.
Þannig varð 21 milljóna dollara fjárveiting til bandaríska sjóhersins vegna endurbóta á varnarmannvirkjum á Keflavíkurvelli tilefni til sérstakrar umræðu á Alþingi í febrúar 2016. Þá fór Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra yfir þróunina og sagði að árið 2014 hefðu kafbátaleitarflugvélar hafi verið hér á landi samtals í þrjár vikur, en að árið 2015 hafi þær verið hér samtals fjórum sinnum á mismunandi tímum – en hversu lengi kom ekki fram í máli ráðherrans. Hann ítrekaði að þessi aukna viðvera væri vel innan ramma varnarsamningsins og sagði jafnframt: „Engin beiðni hefur borist frá bandarískum stjórnvöldum um staðbundna viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli og engar viðræður hafa átt sér stað um neitt slíkt.“ Til að ekkert færi á milli mála hnykkti Gunnar Bragi á því: „Ég vil hins vegar árétta enn á ný að engar viðræður eiga sér stað um viðvarandi veru erlends herliðs á Íslandi.“
Þegar Gunnar Bragi sagði engar viðræður hafa átt sér stað um viðvarandi veru erlends herliðs hafði erlent herlið verið á Keflavíkurvelli upp á hvern einasta dag í hálft ár.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, eftirmaður Gunnars Braga í utanríkisráðuneytinu, tók í sama streng þegar hún undirritaði yfirlýsingu um varnarsamstarf við Bandaríkin í júní 2016. Þá sagði hún: „Það er einkum hin tímabundna viðvera Bandaríkjahers hér á landi, sem hefur verið að þróast undanfarin ár og er stigsbreyting á okkar samstarfi, sem við viljum formfesta með þessum hætti, enda er gegnsæi afar mikilvægt í samskiptum ríkjanna.
Þegar Lilja talaði um tímabundna viðveru Bandaríkjahers hafði erlent herlið verið á Keflavíkurvelli upp á hvern einasta dag í eitt og hálft ár.
Þriðji utanríkisráðherrann, Guðlaugur Þór Þórðarson, hélt enn fram því sama og forverar hans í skýrslu sinni um utanríkis- og alþjóðamál í apríl 2018: „Í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna 2016 var á síðasta ári gengið frá samkomulagi milli landanna um fyrirkomulag á varnarframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Tilgangur framkvæmdanna er að styðja við tímabundna viðveru erlends liðsafla á Íslandi og sinna nauðsynlegu viðhaldi á flugbrautum og öryggissvæði Keflavíkurflugvallar.“
Þegar skýrslan kom út hafði erlent herlið verið á Keflavíkurvelli upp á hvern einasta dag í tvö og hálft ár.
Á síðasta ári voru að meðaltali 50 hermenn á Keflavíkurflugvelli hvern dag, enn fleiri þegar „loftrýmisgæsla“ var í gangi. Hvað er hægt að kalla það annað en varanlega viðveru? Hvað heitir það annað en herstöð?
Um þessar mundir er þess minnst að hundrað ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvalda. Hversu fullvalda erum við ef erlend ríki geta opnað hérna herstöð með varanlegri viðveru án umræðu? Er framsal fullveldis í gegnum varnarsamninginn og aðildina að Nató virkilega svo mikið að ekki þarf að ræða fyrir opnum tjöldum þá ákvörðun að hefja varanlega viðveru herliðs?