Stærstu launþegasamtök landsins hafa lagt fram kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga. Þykja þær róttækar. Mikil hækkun launataxta næstu þrjú árin og stytting vinnutíma. Þegar felmtri slegnir talsmenn launagreiðenda sögðust ófærir um að reikna út hvað þessar kröfur þýða kom heil blaðritstjórn til hjálpar og ritari Flokksins afhjúpaði af skarpskyggni Sólveigu og Drífu sem afturgengnar kommagrýlur. Lestur kröfugerðanna leiðir þó ekki í ljós ástæður óttans, engar kröfur um þjóðnýtingu eða eignaupptöku, bara óskir um mannsæmandi laun og réttlátari tekjuskiptingu. Geðstilltari gagnrýnendur kröfugerðarinnar hafa telft fram þeim rökum að hún að leiða til eftirspurnarþennslu og verðbólgu. En þarf það að vera svo?
Fyrir hverja eru kröfurnar
Kröfugerð Starfsgreinasambandsins (SGS) er að sjálfsögðu fyrir félagsmenn stéttarfélaganna í sambandinu en ekki aðra og sama má segja um VR. Í þeim er stærsti hluti láglaunafólks á landinu. Kröfugerð þessara félaga er sniðin að þessum hópum en ekki öðrum. Samningsbundin mánaðarlaun hjá SGS eru nú hæst 310.700 fyrir skilgreint starfsheiti og 318.600 er hæsta tala í launatöflu. Hjá VR ná samningsbundnir launataxtar upp í 309.400 kr.
Kröfur stéttarfélaga láglaunafólks á ekki meta sem hlutfallslega hækkun taxtalauna. Taka verður tillit til raunverulega greiddra launa. Samkvæmt launakönnun VR voru meðaldagvinnulaun félaga í VR um 622 þús kr. á mánuði i ársbyrjun 2018 og eru væntanlega nú um 640 þús. kr. á mánuði. Jafnvel þótt sú hækkun sem VR krefst fyrir lægstu launin gengi upp allan launaskalann, sem er langt frá sjálfgefið, yrði hækkunin að meðaltali um 6,6%. Á það skal þó bent að í gögnum VR eru meðallaunin líklega verulega ofmetin.
Á síðustu árum hafa samningsbundnir launataxtar verið flattir út með þeirri hugmyndafræði að markaðurinn skuli ráða launum. Hefur það leitt til þess að stéttarfélögin hafa í reynd lítið um það að segja hver raunveruleg launakjör eru og það kemur niður á þeim hópum og einstaklingum sem hafa ekki sterka “markaðsstöðu.” Þó ekki vegna þess að þeir séu verðminni starfsmenn því ástæðan er oftast félagsleg, staðbundnar aðstæður, skortur á upplýsingum o.fl. Dæmi um þetta er staða erlends starfsfólks en vandinn er víðtækari því “markaðsstaða” fólks í láglaunastörfum felst í því að vera upp á náð síns Þríhross komin.
Kjarasamningum flestra stéttarfélaga hefur að undanförnu verið breytt í lágmarkslaunasamninga. Hin raunverulegu laun eru ákveðin í samningum milli launþegans og launagreiðandans, t.d. milli kassadömu í Hagkaup og forstjóra Haga, fiskverkakonu og forstjóra Samherja eða sérhæfðs tölvunarfræðings í samningum við forstjóra Origo eða Advania. Vígstaða þessara launþega er ólík en hugmyndafræði markaðslaunanna dæmir þá sem eru í veikri samningsstöðu til lágmarkslauna. Kröfugerðir stéttarfélaga láglaunafólks nú eru rökrétt viðbrögð þeirra við þessari þróun.
Laun þeirra sem ekki eru á umsömdum lágmarkstöxtum stéttarfélaga eru þannig ekki ákveðin af stéttarfélögum heldur af vinnuveitandanum. Þessi staðreynd setur kröfugerð stéttarfélaganna og afleiðingar af henni í það nýja ljós að hækkun lágmarkslaunanna gengur ekki upp allan launaskalann og hækkar ekki allt launastigið í samfélaginu nema launagreiðendurnir ákveði að svo verði. Ábyrgðin á boðaðri kollsteypu er því ekki hjá stéttarfélögum láglaunafólks heldur hjá launagreiðendum og öðrum sem koma að launaákvörðunum í efri hluta launaskalans. Þeir sem fengu aðsvif vegna kröfugerðarinnar og réðust með stóryrðum að forystu stéttarfélaganna ættu því að beina spjótum sínum að þeim sem með boðskap sínum eru í reynd að boða það að þeir muni láta launahækkanir láglaunastéttanna ganga upp allan launaskalann til að viðhalda þeirri misskiptingu sem þeir hafa skapað og bera ábyrgð á.
Skipting heildartekna
Til þess að átta sig á rökleysum í umræðunni er gott að setja kröfugerðina í samhengi við þjóðhagsstærðir. Grunntónn í máli hinna “ábyrgu” er í reynd það talnalega samband að ef peningaleg eftirspurn í samfélaginu vex umfram framleiðslu hækki verðlag, þ.m.t. vextir og verð á erlendum gjaldeyri sem því nemur. Það má satt vera og rétt en því til viðbótar gefa menn sér að öll laun breytist hlutfallslega eins. Það er engin rökbundin nauðsyn. En hver er raunverulegur þáttur launa og þá sérstaklega láglauna í heildareftirspurninni?
Heildareftirspurn í samfélaginu ræðst að mestu af tekjum, ekki bara launatekjum heldur öllum öðrum tekjum líka, lífeyri, rekstrarhagnaði fyrirtækja, vaxtatekjum, arði o.s.frv. Bærilega nothæfur mælikvarði á þessa heildareftirspurn er hin margfræga verga landsframleiðsla (VLF). VLF ársins 2018 er áætluð um 2.700 ma. kr. Samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef Hagstofunnar er hlutur allra launa, þmt. lífeyris, í VLF um 55% eða um 1.500 ma. kr. en hlutur fjármagns, afskriftir og fl. um 45% eða um 1.200 ma. kr.
Það eru því ekki launin ein sem hafa áhrif á heildareftirspurnina og hækkun þeirra skilar sér ekki sem hlutfallsleg hækkun heildareftirspurnar nema fjármagnstekjur og annað hækki í sama takti. Kjarabarátta er alltaf að hluta barátta á milli hagsmunahópa í samfélaginu, barátta um skiptingu tekna milli vinnu og fjármagns. Hækkun launa sem gengur á hagnað og aðrar fjármagnstekjur eykur ekki heildareftirspurn.
Annar þáttur í málflutningi hinna „ábyrgu” er að hækkun launa megi ekki vera umfram hækkun VLF á mann. Þetta er tæknilegt skilyrði þegar litið er til lengri tíma sem ekki þýðir að afneita. Gagnrýni á Seðlabankann fyrir að taka mið af þessu og láta það í ljós í umræðu um svigrúm til launahækkana er ómakleg. Ámælisvert væri að hann leyndi upplýsingum sem þessum sem þurfa að liggja fyrir og eiga erindi til þeirra sem um efnahagsmál þmt. kjarasamninga fjalla. Fram hefur komið að Seðlabankinn telur að hækkun heildarlauna um 1,5% umfram verðbólgumarkmið bankans samræmist að hans mati vaxtargetu hagkerfisins án þess að skapa aukna verðbólguáhættu.
Sé gengið út frá því að mat Seðlabankans sé rétt geta laun því alls hækkað um allt að 60 ma. kr. á ári án þess að raska jafnvægi og breyta hlutdeild launa í VLF og gætu hækkað eitthvað meira á kostnað hagnaðar, fjármagnstekna og rentu. Spurningin er því hvort kröfur stéttarfélaga láglaunafólks geti rúmast innan þessa ramma. Til þess að fá svar við spurningunni þarf að skoða dreifingu launatekna. Í því sambandi verður að hafa í huga að kröfur þeirra eru einnig kröfur um aukinn jöfnuð, sem flestir hafa tekið undir, en aukinn jöfnuður næst ekki nema þeir launalægstu hækki umfram aðra eða hinir launahærri hækki minna en láglaunafólk.
Skipting launatekna
Úr gögnum RSK fyrir tekjur ársis 2016 má sjá að heild launa og lífeyristekna hjóna og annarra samskattaðra var um 756 ma. kr. og um 511 ma.kr. hjá einhleypum eða alls 1.267 ma. kr. Skipting launatekna samskattaðra eftir tekjufimmtungum er sýnd í töflu hér á eftir. Hafa þarf í huga að flokkun, fjöldi, tekjur og meðaltekjurnar er allt miðað við samanlagðar tekjur hjóna og annarra samskattaðra. Getur það leitt til vanmats á fjölda einstaklinga með lágar tekjur en aðrir þættir svo sem fjöldi þeirra sem eru tekjulágir á skattapappírum í skjóli veikleika í skattalögum leiðir á móti til ofmats. Við útreikning meðallauna er auk þess áætlað að atvinnuþáttaka sé 75% í lægsta flokknum vegna fjölda í hlutastörfum, námsmanna o.fl. 85% í efri flokkunum. Ekki er ástæða til að ætla að skekkjur í framangreindum áætlunum breyti heildarmyndinni verulega.
Lægstu 20% samskattaðra fékk í sinn hlut 9% heildarlaunanna. Næsti fimmtungur fékk 14,3% sá þriðji 18,6%. Næst efsti fimmtungur fékk 23,4% og efstu 20% samskattaðra fengu 34,6% heildarlaunanna. Þau fengu reyndar líka 79% allra fjármagnstekna samskattaðra í sinn hlut, 67 ma. kr., eða nánast sömu fjárhæð og allar launatekjur lægsta fimmtungsins. Hafa þarf í huga að í launatölum þessum eru lífeyris- og eftirlaunagreiðslur meðtaldar en reikna má með að hækkun á þeim fylgi í kjölfar hækkunar lægst launa.
Þjóðhagsleg áhrif af hækkun lægstu launa
Þegar þessar tölur eru skoðaðar er erfitt að finna innistæðu fyrir áhyggjur af vegferð efnahagslífsins. Þau laun sem ætla má að yrðu fyrir áhrifum af kröfugerð stéttarfélaga láglaunafólks eru í tveimur lægstu tekjuflokkunum og eitthvað upp í þann þriðja. Í þeim hópi eru 40 - 50% samskattaðra einstaklinga með 175 til 250 ma. kr. í heildartekjur sem er um 23% heildartekna allra samskattaðra. Með því að bæta við einhleypum og áætla tekjuskiptingu þeirra svipaða er alls um að ræða 80 til 100 þúsund einstaklinga með 280 til 400 ma,kr. heildartekjur af þeim 1.267 ma. kr. sem í heild voru taldar fram. Eru það 22 til 30% heildarteknanna. Hinn hlutinn 870 til 1.000 ma.kr. eru laun sem ekki eru greidd á grundvelli kjarasamninga láglaunastéttanna heldur að hluta til samkvæmt öðrum kjarasamningum en líklega að mestu markaðslaun” ákveðin af launagreiðendum.
Framangreind greining sýnir að unnt er að verða við kröfum láglaunafólks án þess að setja efnahagslífið á hliðina eða raska meintum stöðugleika. Til þess verða þeir sem notið hafa uppgangsins á undanförnum árum í meira mæli en aðrir að sætta sig við að hægja á ferðinni og þeir sem hagnast hafa mest á aukinni misskiptingu tekna að sætta sig við að skila einhverju af þeim feng til baka. Eftirfarandi tafla varpar enn frekar ljósi á þetta. Í henni er áætlað hvað það myndi kosta að hækka lægstu laun í samræmi við kröfur SGS að því gefnu að sú hækkun myndi aðeins hafa bein áhrif á sambærileg laun. Sú hækkun er áætluð 13% að meðaltali í lægsta fimmtungi töflunnar og 8% í öðrum fimmtungi. Þá er áætlað að laun upp að því marki að 60% launþega er náð myndu hækka um 4%, þ.e. í samræmi við ætlað áhættulaust svigrúm, en laun þar fyrir ofan og að 80% markinu hækki um 2,5%, þ.e. um áætlaða verðbólgu. Laun þeirra 20% hæstu yrðu óbreytt.
Niðurstaða þessara útreikninga er að launasumma samskattaðra myndi hækka um 27,5 ma. kr. eða um 3,6% af heildarlaunasummu þeirra. Að einhleypum meðtöldum má áætla að hækkunin væri um 44 ma.kr.. Til samanburðar við þá tölu er að hækkun allara launa, 1.267 ma. kr. um 4% væri 51 ma. kr. Launahækkun sú sem með réttu má heimfæra á kröfugerð stéttarfélaga láglaunafólks og annarra í sambærilegri launalegri stöðu og að meðtöldum sambærilegum lífeyrisgreiðslum er vel innan þeirra marka sem gefið hefur verið út að séu þolmörk hagkerfisins.
Hver er ábyrgur?
Það eru ekki láglaunastéttirnar sem með kröfum sínum ógna stöðugleika hagkerfisins. Sé sú ógnun fyrir hendi felst hún í því að hátekjuhóparnir uni því ekki að hænuskref séu tekin í átt til launajöfnuðar og hæstu laun verði því hækkuð til samræmis við lægri laun. Þau laun eru beint eða óbeint ákveðin af launagreiðendum eða eru sjálftökulaun þeirra sem stýra atvinnureksti og meðreiðarsveina þeirra.
Það á ekki að koma neinum á óvart að krafa stéttarfélaga láglaunafólks er ekki einungis krafa um bætt lífskjör heldur einnig krafa um aukinn jöfnuð. Þeirri kröfu er nú svarað með gömlu tuggunni um hagvöxt fyrir alla. Sá boðskapur hefur verið leiðarljós ójafnaðar síðustu áratuga og myndi nú þýða að af 50 milljarða svigrúmi til hækkunar á launum yrðu 20 ma. kr. eyrnarmerktir þeim 20% sem mestar tekjur hafa en þau 40% sem lægstu launin hafa að meðtöldum lífeyrisþegum fengju að bítast um 12 ma. kr.
Aukinn jöfnuður í samfélaginu og krafa um aukinn launalegan jöfnuður felur óhjákvæmilega í sér að há laun hækki minna en lægri laun. Þessa staðreynd þurfa þeir sem berjast í einlægni fyrir auknum jöfnuði að viðurkenna og hafa í huga. Aðrir ættu að að minnsta kosti að leggja frá sér sauðargæruna.
———-
PS. Ójöfnuður launa á síðustu áratugum hefur verið ýktur með pólitískri stefnu sem dregið hefur úr jöfnunaráhrifum skattkerfisins. Það er eðlileg krafa launþegasamtakanna til stjórnvalda að horfið verði af þeirri braut og það sem aflaga hefur farið verði leiðrétt. Slík krafa á þó ekki að vera undir í viðræðum um kjarasamnninga heldur eiga stjórnvöld að leggja spil sín á borðið áður en gengið er til samninga. Um þessa hlið málsins verður fjallað síðar.