Það er árið 1987. Eftir erfiðar fæðingarhríðir er þriggja flokka ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, undir forsæti Þorsteins Pálssonar, að taka við völdum. Fjármálaráðuneytið kom í minn hlut, formanns Alþýðuflokksins. Á verkefnalistanum var löngu tímabær heildarendurskoðun á tekjustofnakerfi ríkisins, m.ö.o. skatta- og tollalöggjöfin. Þeir sem eitthvað þekktu til ríkisfjármála vissu, að kerfið var ónýtt; hafði fyrir löngu gengið sér til húðar. Á löngum tíma – allt frá kreppuárum Eysteins – höfðu sérhagsmunaseggir og kjördæmapotarar borað óteljandi göt á kerfið með endalausum undanþágum. Kerfið var hriplekt. Undanþágurnar buðu upp á greiðar leiðir til undandráttar og vanskila á tekjum. Það dugði ekki lengur að klína plástrum á sárin. Það þurfti kerfisbreytingu.
En við jafnaðarmenn vorum vel undirbúnir. Á fyrsta degi í ráðuneytinu, snemma í júlí 1987, lagði ég minnisblað fyrir starfslið tekjudeildar: (1) Heildaruppstokkun á tollakerfinu til samræmis við tollalöggjöf ESB. (2) Tekjuskattur einstaklinga í einu þrepi (27%), með háum persónuafslætti, sem dekkaði helstu undanþágur frá fyrri tíð. (3) Endurskoðun á tekjusköttum fyrirtækja, sem og á fjármagnstekjusköttum. (4) Samræmdur söluskattur við búðarborðið, sem undirbúningur að upptöku virðisaukaskatts, undanþágulaus í einu þrepi (18%). Tekjujöfnunaráhrif kerfisins voru innsigluð með háum fjölskyldu-, barna- og vaxtabótum. Það sem mest lá á, var að koma á staðgreiðslukerfi tekjuskatta. Leiðarstefin voru: Einfaldleiki, skilvirkni, tekjujöfnun.
Risavaxið verkefni
Þetta var risavaxið verkefni. Kjeld-Olof Feldt, fjármálaráðherra Svía, sagði mér síðar, að í Svíþjóð hefði svona kerfisbreyting tekið ca. 9 ár. Vi ð gerðum þetta á 14 mánuðum. Það var eins og ég hefði hugboð um, að stjórnin yrði ekki langlíf. Það væri því ekki til setunnar boðið.
Það kom á daginn, að ráðuneytið réði ekki við verkefnið. Ég varð að véla til mín hagfræðinga og aðra kunnáttumenn, innan kerfis og utan, þ.á.m. frá Þjóðhagsstofnun og hagdeild ASÍ. Yfirverkstjórinn var samt innanbúðarmaður í ráðuneytinu, Indriði H. Þorláksson, sem reyndist vera margra manna maki til verka.
Það var naumur tími til stefnu. Frumvörpin og meðfylgjandi reglugerðir þurftu að ná samþykki stjórnarflokka í ríkisstjórn og ná afgreiðslu á Alþingi fyrir áramót. Við unnum baki brotnu frá morgni til miðaftans við að semja frumvörp, greinargerðir og meðfylgjandi reglugerðir, ásamt minnisblöðum með mati á tekjuöflun, greiðslubyrði, tekujöfnunaráhrifum o.s.fr. Það var rífandi gangur.
Allt fór þetta eins og á færibandi til formanna samstarfsflokkanna, formanna þingflokka og fjárlaganefndarmanna með beiðni um að hraða afgreiðslu eftir föngum. Þögnin, sem við tók, var ærandi. Það bárust engin svör. Framsóknarmenn heimtuðu bara meiri niðurgreiðslur og hærri styrki í landbúnaðarkerfið. Kjördæmapotarar fóru að venju með rulluna sína um vegarspotta og brúarsporða með meiru í eigin kjördæmum. En þrátt fyrir stöðuga eftirgangsmuni reyndist ógerningur að toga svör – einkum út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins – um eitt né neitt, sem máli skipti.
Jarðýtan
Í millitíðinni höfðu helstu hagsmunaaðilar – vinnuveitendur, launþegasamtök o.s.frv. fengið allan þennan málabúnað til umsagnar. Einn góðan veðurdag stormaði Víglundur Þorsteinsson, formaður Vinnuveitendasambands Íslands, eins og það hét í den, inn á mína skrifstofu í Fjármálaráðuneytinu, og með honum vösk sveit manna. Þeir höfðu unnið heimavinnuna sína og þar með gert sér grein fyrir því, að það var gagnkvæmur hagur atvinnurekenda og launþega , að þessar umbætur næðu fram að ganga.
Þegar ég hins vegar upplýsti hann um, að það væru litlar líkur á, að málin fengjust afgreidd í þingflokkum á Alþingi – sér í lagi vegna pólitískrar lömunarveiki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins – setti hann hljóðan. En ég átti eftir að kynnast því næstu daga og vikur, hvern mann Víglundur Þorsteinsson hafði að geyma. Það var auðfundið, að maðurinn var ljónskarpur og fljótur að koma auga á kjarna máls. Ég heyrði líka, að hann væri harðsvíraður málafylgjumaður. En ég átti eftir að kynnast því, að þetta hól var kurteislegt „understatement“.
Maðurinn reyndist vera jarðýta, sem fátt stóðst fyrir. Hann setti saman harðsnúið lið málafylgjumanna (lobbyista) og lagði fyrir þá að fara maður á mann á hvern þingmann Sjálfstæðisflokksins með áleitnum fortölum, þar sem nei var ekki tekið sem svar. Á tímabili má heita, að Víglundur og hans menn hafi lagt undir sig tekjudeild ráðuneytisins. Þeir linntu ekki látum, fyrr en málin voru komin í höfn. Að vísu var ekkert jólafrí. Og það var haldið áfram strax á nýju ári, þar til málin voru endanlega afgreidd.
Í minningarorðum um Víglund, að honum gengnum, hafa margir samstarfsmenn hans orðið til að lýsa því, hversu úrræðagóður og fylginn sér hann var, þegar á reyndi að ryðja braut góðum málum. Og þrautseigur í andstreymi. Með þessari frásögn vil ég votta, að það eru engar ýkjusögur. Enn í dag er mér til efs, að okkur hefði tekist að ryðja skattkerfisbyltingunni anno 1987/88 braut, án hans atbeina.
Höfundur var fjármálaráðherra 1987-88.