Tæpur mánuður er liðinn frá því að Stundin ákvað að fjalla á ný um umfangsmikil viðskipti Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og þáverandi þingmanns, í aðdraganda Hrunsins. Þá hafði afar umdeilt lögbann sýslumanns á umfjöllunina verið í gildi í 375 daga, eitt ár og 10 daga. Stundarfólk kærði lögbannið og íslenskir dómstólar tóku sér 354 daga til að komast að niðurstöðu en niðurstaða Landsréttar var skýr; Lögbann á umfjöllun fjölmiðilsins var fellt úr gildi.
Ritstjórn Stundarinnar ákvað að bíða samt um sinn með birtingu frétta sinna, því enn gæti gjaldþrota bankinn áfrýjað dómnum. Eftir þriggja vikna bið, ákvað ritstjórnin að birta umfjöllunina. Þau höfðu beðið lengi og ekkert í kortunum þá sem sýndi að Glitnir HoldCo ætlaði að áfrýja en nú hefur Hæstiréttur veitt Glitni HoldCo áfrýjunarleyfi til að fá úrskurðað hvort afhenda eigi gögnin sem greinaskrifin byggðu á.
Áframhaldandi þöggun
Mánuði eftir að Stundin ákvað að birta gögnin, ríkir enn frekar mikil þögn um málið og skort hefur á samstöðu og viðbrögð. Bæði hjá öðrum fjölmiðlum, sem að mínu mati ættu að styðja Stundina fram í rauðan dauðann til að verja viðlíka aðför að fjölmiðli á Íslandi. Svo er það almennt viðbragðaleysi og doði sem er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni ef fólk gerir sér ekki grein fyrir alvarleika málsins, sem er sá að við þurfum öll að verja frelsi fjölmiðla til að fjalla um málefni sem eiga erindi til almennings. Þetta er nefnilega ekki enn eitt Facebook-fárið eða „della dagsins“ sem einkennir því miður íslenska samfélagsumræðu, heldur snýst um svo miklu meira.
Fjárhagslegt starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi hefur ekki verið beysið síðustu 10 ár eða svo, sem hefur veikt getu fjölmiðla til að kafa ofan í mál og fjalla um þau af alúð og þekkingu, að ekki bætist við í ofanálag aðfarir sýslumanna að frelsi fjölmiðla. Hvað þá að áeggjan einhvers konar hylkis utan um gjaldþrota banka.
Bann á upplýsingum til almennings en aðgangur valdafólks að upplýsingum
Að sjálfsögðu getur lögbann átt rétt á sér þegar verið er að fjalla um viðkvæm, persónuleg málefni og um það gilda lög. En lögbann í 375 daga á umfjöllun fjölmiðils, hlýtur að teljast nánast einsdæmi í sögu fjölmiðla í lýðræðissamfélögum og erfitt að sjá það sem annað en aðför að tjáningarfrelsi, frelsi fjölmiðla og upplýstri umræðu í íslensku samfélagi. Þann þátt er ekki hægt að þagga niður.
Hinn meginþáttur málsins snýst um siðferði og ábyrgð. Og um aðstöðumun fólks í þjóðfélaginu. Hvernig valdalaust fólk varð máttvana þegar fjárhagsleg tilvera þeirra hrundi, á meðan fólk í valdastöðu nýtti sér aðstöðu sína. Ekki í allra þágu, heldur í sína eigin þágu. Fyrir þetta þarf að svara með einhverju móti, enda komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að stöðva umfjöllunina. Svo almenningur á rétt á að vita nánar alla málavöxtu þó ekki væri beðið um meira.
En það sem er líka nýtt í þessu máli eru dapurleg áhrif þöggunarinnar. Sem gerði það að verkum að tímalína frásagnarinnar brotnaði, málið var kæft á afar viðkvæmum tíma og þöggunin í eitt ár og tíu daga þýðir að eftirfylgni blaðsins á fréttaumfjölluninni verður erfiðari. Lögbannið hafði sannarlega áhrif og það er dapurleg frétt.
Viðbrögð lýðræðissamfélags
Hver eru þá hin æskilegu viðbrögð í stað viðbragðaleysisins ? Það er ljóst að öll framganga Sýslumanns í þessu máli er afar gagnrýnisverð og þarf að skoða rækilega út frá lögmæti. Svigrúm sýslumanna til viðlíka gjörninga þurfa að vera þrengd og sömuleiðis þarf ríkari kröfur á rökstuðning fyrir því að stöðva umfjöllun fjölmiðla. Mál af þessu tagi verða að rata strax fyrir dómstóla sem úrskurða þá án tafar um gildi ákvarðana sýslumanna. Það getur ekki liðist í lýðræðisríki að lögbann á umfjöllun fjölmiðils geti haldið í rúmt ár.
Mikilvæg nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar – fjölmiðla og upplýsingafrelsis sem komið var á fót af Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þyrfti að hraða vinnu sinni um tillögur á breytingum á lagaumhverfi til að hægt sé að koma í veg fyrir aðgerðir sem eiga að þagga niður umfjöllun - eins og lögbannið á Stundina var.
Styrkja þarf heildarstarfsumhverfi íslenskra fjölmiðla og koma því á sama stað og á hinum Norðurlöndum. Lögbann á umfjöllun fjölmiðil þarf helst að fjarlægja úr lögum nema viðkvæmir persónulegir hagsmunir liggi að baki og það er hlutverk okkar á Alþingi að tryggja það.
Búa þarf svo um hnútana að girt verði fyrir að stjórnmálamenn geti notfært sér aðstöðu sína til að tryggja sína eigin viðskiptahagsmuni og herða reglur um hagsmunaskráningu ráðherra og skýra enn betur siðareglur um þá. Kannski þarf að skerpa enn frekar á lögum og reglum um athafnir þingmanna á meðan þeir gegna þingmennsku og mín skoðun er að á Íslandi þurfi að koma á skýru „kælingartímabili“ eftir þingmennsku eða ráðherradóm, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar og lagt er líka til í nýrri skýrslu starfshóps um eflingu traust á stjórnmálum.
Allt þetta og meira til þarf til að við sofnum ekki á verði okkar til að tryggja lýðræðislega, upplýsta umfjöllun og að við drögum raunverulega lærdóma af Hruninu sem við höfum verið að minnast undanfarnar vikur.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi frétta-og blaðamaður og núverandi þingmaður Vinstri grænna.