Fréttir um að lækka eigi framlög til vísindamála komu vísindasamfélaginu í opna skjöldu. Samvæmt fjárlögum 2019 er gert ráð fyrir 144 milljóna króna lækkun á framlagi til Rannsóknasjóðs Vísinda og tækniráðs. Þetta er þungt högg fyrir grunnrannsóknir á Íslandi.
Undanfarinn áratug hafa stjórnvöld endurtekið lofað auknum framlögum til vísindamála. Þetta kemur skýrast fram í stefnum Vísinda- og tækniráðs en undanfarinn áratug hafa þær gert ráð fyrir að framlög til vísindamála skuli aukin verulega. Stefnur Vísinda- og tækniráðs eru jafnframt stefnur ríkisstjórna á hverjum tíma því í ráðinu sitja 5 ráðherrar og forsætisráðherra er formaður ráðsins. Þessi þunga áhersla undanfarinna áratuga á aukin framlög til vísindamála er vegna þessa að beint samband er á milli öflugra vísinda og öflugs atvinnulífs. Eins og Mariana Mazzucato bendir á í bók sinni The Entrepreneurial State: Debunking Public vs Private Sector Myths þá gegnir ríkið afar mikilvægu hlutverki við að styrkja grunnvísindi því þannig er grunnurinn lagður að nýsköpun framtíðarinnar. Öflug vísindi leiða til nýsköpunar auk þess sem við vísindastarf verða til verðmætir starfsmenn með reynslu og þekkingu sem nýtast til fjölbreyttra starfa í samfélaginu.
En þrátt fyrir fagrar stefnur Vísinda- og tækniráðs hafa þær allar verið sviknar. Stöku sinnum hefur verið bætt við framlög til Rannsóknasjóðs en þær viðbætur hafa rétt dugað til að halda í við verðbólgu. Og nú er gert ráð fyrir lækkun. Hlutfall þeirra umsókna sem hlutu styrki af heildarfjölda umsókna fór úr 25% árið 2016 í 21% árið 2017 og var síðan 18.2% í ár. Með umtalsvert minna fjármagn í ár má gera ráð fyrir að árangurshlutfallið fari vel undir 15% í næstu úthlutun með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag. Þessi áhrif munu fækka nýjum verkefnum verulega og hafa mikil áhrif á ungt vísindafólk.
Þrátt fyrir allt hefur vísindastarf á Íslandi eflst gríðarlega undanfarna áratugi og rannsóknatengd nýsköpun er hægt og rólega að skila árangri. Um þetta er fjöldi dæma. Nýlegasta dæmið um það er samningur lyfjasprotans Oculis við stórfyrirtækið Novartis en Oculis byggir á áratuga rannsóknum tveggja vísindamanna við Háskóla Íslands, þeirra Einars Stefánssonar og Þorsteins Loftssonar. Verkefni þeirra hefur hlotið styrki úr Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði og væri eflaust komið mun skemur án þeirra. Fleiri sambærileg dæmi mætti nefna og því með ólíkindum að nú sé stefnan að draga úr þessu öfluga vísindastarfi með lækkun á framlögum í samkeppnissjóðina. Ég hvet því Alþingi eindregið til að endurskoða þessa lækkun til Rannsókasjóðs.
Höfundur er prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.