Í framgöngu ríkisstjórnarflokkanna þriggja í veiðigjaldamálinu, sem hefur verið til umræðu á Alþingi undanfarið, birtist kjarninn í því ríkisstjórnarsamstarfi sem formlega var stofnað til fyrir réttu ári síðan. Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn ætla samhliða breytingu á lögum um veiðigjöld að reyna að festa í sessi hefðarrétt stórútgerðarinnar á fiskveiðiauðlindinni.
Það er líklega fátt ósagt um frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld sem nú hefur farið í gegnum tvær umræður á þingi. Það er þó full ástæða til að beina athyglinni enn og aftur að þeirri staðreynd að með frumvarpinu eru stjórnarflokkarnir þrír að festa í sessi tangarhald útgerðarinnar á þjóðarauðlind Íslendinga með því að hafna því að um tímabundinn afnotarétt sé að ræða. Það er grafalvarlegt. Og það er fjarstæða og ódýr fyrirsláttur að halda því fram að með breytingum, sem eingöngu eru ætlaðar til þess að festa eignarhald þjóðarinnar í sessi, yrði fiskveiðistjórnunarkerfinu kollvarpað.
Ég sat fyrir hönd Viðreisnar í sáttanefndinni svokölluðu sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti á laggirnar vorið 2017. Markmiðið var að reyna að ná þverpólitískri sátt um framtíðarskipulag á gjaldtöku fyrir afnot af náttúruauðlindinni. Það varð vissulega brátt um störf nefndarinnar, sem var lögð niður við stjórnarslitin í september sama ár og á meðan hún starfaði gekk á ýmsu. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var þá sér á báti með skilaboð síns flokks um að ekki yrði gengið út frá tímabundnum samningum. Þarna hafði flokkurinn lent í stjórnarmeirihluta með flokkum sem vildu breytingar til að festa í sessi eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindinni – en Sjálfstæðisflokkurinn móaðist við, trúr eigin áherslum og forgangsröðun. Aðrir flokkar sem þá áttu fulltrúa á þingi, og þar með í sáttanefndinni, voru sammála um mikilvægi þess að festa í sessi tímabundnar veiðiheimildir. Sammála í orði.
Varðstaða gegn kerfisbreytingum
Sumarið 2017 sá Þorsteinn Pálsson, formaður sáttanefndarinnar, ástæðu til að skrifa grein þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að hætta væri á að Sjálfstæðisflokkurinn næði saman um varðstöðu gegn slíkum kerfisbreytingum með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum.
Þorsteinn Pálsson er forspár maður.
Í stuttu máli er það mat okkar sem tala fyrir tímabundnum samningum að slíkt sé nauðsynlegt til að tryggja sameign þjóðarinnar og koma í veg fyrir að ævarandi eignarréttur útgerðarinnar myndist með hefð. Með öðrum orðum, til að skera úr um skilning okkar á eignarhaldinu á auðlindinni. Um mikilvægi þess voru allir nema einn fulltrúi sáttanefndarinnar 2017 sammála. En það var þá.
Tímabundnir samningar eru líka nauðsynlegir til að tryggja rekstrarlegt öryggi útgerðarfyrirtækja með sanngjörnum hætti og til að eyða lagalegri óvissu.
Það þarf tímabundna samninga til að mynda rétta forsendu fyrir veiðigjaldi sem augljóslega ræðst af tímalengd. Það er einfaldlega ekki unnt að ákveða veiðigjald af einhverri skynsemi án þess að vita fyrir hversu langan tíma er verið að greiða.
Bein tengsl varanleika og greiðslu
Ýmsir stjórnarliðar hafa í umræðunni lýst furðu sinni og vanþóknun á því að gagnrýnendur vilji ræða tímalengd veiðiréttinda í samhengi við breytingu á frumvarpi um veiðigjöld. Staðreyndin er sú það er í hæsta máli eðlilegt að ræða þetta saman. Ákvæði um veiðigjöld voru í upphafi hluti af lögum um stjórn fiskveiða. Það var svo í tíð vinstri stjórnarinnar hinnar fyrri að veiðigjöldin voru tekin út í sérstök lög af því að stjórnarflokkarnir gátu ekki rætt fiskveiðistjórnun og veiðigjöld samtímis. Eðli málsins vegna hangir þetta hins vegar saman, eins og sjá má í skýrslu svokallaðrar auðlindanefndar frá 2000. Sérstaklega hvað varðar tímalengd veiðiréttarins.
Auðlindanefndin starfaði um aldamótin, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka og til hennar má rekja upptöku veiðigjalds í sjávarútvegi. Í greinargerð við veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem nú er til umræðu, er vísað til nefndarinnar m.a. með þessu: „Í álitsgerð sinni lagði nefndin til að heimilt yrði að úthluta aflaheimildum gegn gjaldi. Rökrétt afleiðing af því mundi vera að bein tengsl yrðu á milli varanleika og forms aflaheimilda annars vegar og greiðslu fyrir nýtingarréttinn hins vegar.“ Það er áhugavert að sjá vísað í þessi orð í greinargerð með frumvarpi þessarar ríkisstjórnar sem getur ekki hugsað sér að ræða varanleika aflaheimilda í umræðu frumvarpsins. Er þessi setning óvart þarna inni?
Í lok umræðunnar situr spurning sem ekki hefur fengist svarað: Hvers vegna eru Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn á móti því að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni?
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.