Það líður að einni markverðustu dagsetningu í sögu Bretlands, 29. mars 2019, þegar landið ætlar að yfirgefa Evrópusambandið, ESB. „Brexit“ kallast það, en Bretland gekki inn í ESB árið 1973 ásamt Írlandi. Um er að ræða einn frægasta „skilnað" fyrr og síðar.
Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með þessu ferli, hvernig það hefur bókstaflega tætt í sundur bresku þjóðina og ekki minnst Íhaldsflokkinn breska, undir stjórn Theresu May. Lygar og svik útgöngusinna hafa verið afhjúpuð og margir ráðherrar hafa sagt af sér vegna málsins. Þá er í gangi glæparannsókn á þáttum sem tengjast Brexit og útgöngusinnum, meðal annars sem tengist misnotkun á fjármagni í kosningabaráttunni.
May löskuð eftir vantraust
Sjálf hefur May gefið það út að hún muni ekki leiða Íhaldsflokkinn í næstu kosningum, enda þetta ferli sjálfsagt búið að reyna verulega á taugarnar hjá henni. Fyrir skömmu stóð hún af sér vantraust innan flokksins, en er samt verulega löskuð eftir það, þar sem um 30% þingmanna hennar greiddu með vantrausti á hana.
Fyrir liggur samningur á milli Bretlands og ESB um útgönguna, en hann hefur ekki enn verið afgreiddur af breska þinginu og í raun óvíst hvort hann verður samþykktur. Því var frestað fram yfir áramót fyrir skömmu, þar sem May sá að hún hafði ekki þann stuðning sem hún þarf til að koma samningnum í gegnum þingið. Verði hann ekki samþykktur stefnir í það sem kallað er „Hart-Brexit“ – þ.e. að Bretland slíti sig frá ESB án samnings. Það er nokkuð sem fáir vilja, nema ef til vill hörðustu Brexit-sinnar. Spyrja má hverjir hagsmunir þeirra séu?
„Vandræðin“
Einn mikilvægasti þáttur alls þessa ferlis er það sem snýr að; a) Írlandi og b) N-Írlandi, alveg sérstaklega. „Eyjan græna“ eins og Írland er kölluð er í raun tvö ríki, hið sjálfstæða Írland (The Irish Republic), þar sem búa um 4.5 milljónir manna, með höfuðborgina Dublin. Þangað tekur um tvo tíma að fljúga frá Íslandi.
Svo er það Norður-Írland, sem er hluti af Stóra-Bretlandi, en þar háðu sambandssinnar (sem vilja tilheyra Bretlandi) og sjálfstæðissinnar (sem vilja sameinast Írlandi) lengi grimmilega baráttu á 20. öldinni. Alvarlegasti kaflinn í þeirri baráttu má segja að hafi staðið frá 1969 til 1998, eða það sem heimamenn kalla „Vandræðin“ (The Troubles).
Á þessum tíma féllu um 3600 manns í átökum sem lýsa má sem borgarastríði, þar sem sambandssinnar, sem studdir voru af breskum hermönnum glímdu við Írska lýðveldisherinn (IRA, Irish Republican Army) og fylgismenn hans. Þúsundir í viðbót særðust og flest fórnarlömbin voru almennir borgarar. Friðarsamningar náðust árið 1998 og tóku gildi ári síðar en þetta kallast „The Good Friday Agreement." Síðan þá hefur verið friður á Írlandi öllu.
Hörð eða mjúk landamæri?
En með útgöngu Bretlands úr ESB óttast menn að komið geti aftur til vandræða, sérstaklega vegna landamæranna sem myndu skapast við útgönguna. Útganga Bretlands án samnings um hin 500 km löngu landamæri N-Írlands og Írlands myndi þýða „hörð landamæri“ með alvöru landamæraeftirliti, þar sem þetta yrðu þá „jaðarlandamæri“ ESB gagnvart Bretlandi (með yfir 200 landamærastöðvum ef allt færi á versta veg). Í dag er hinsvegar frítt/frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns yfir þessi landamæri og þannig vill fólk hafa það (kallað „fjórfrelsi").
Útganga Breta úr ESB er hins vegar hugsuð þannig að þeir yfirgefi líka „Innri markað“ ESB og þar með skapast vandamál. Menn vilja engin ný vandamál á þessu svæði, sérstaklega í ljósi sögunnar.
Óbreytt ástand, þangað til...
Því var búið til ákvæði í samningum Bretlands og ESB sem kallast „Backstop“ og sem í stystu máli fjallar það um að halda stöðunni á landamærunum óbreyttri fram til 2020, að því gefnu að Bretland og ESB hafi ekki náð samningum um viðskipti. Náist ekki samningur muni N-Írland áfram fylgja reglum ESB og Innri markaðarins (og Bretland þá í raun enn inni í ESB). Þetta fer gríðarlega í taugarnar á Brexit-sinnum.
Málið verður svo enn flóknara þar sem ríkisstjórn Theresu May er háð stuðningi DUP, sem er flokkur sambandssinna á N-Írlandi og var stofnaður árið 1971 af séra Ian Paisley, sem var ein af aðalpersónum átakanna frá 1969-1998. DUP vill yfirgefa ESB og ekki sjá að N-Írland verði áfram á Innri markaðnum. Þeir eru því harðir Brexit-sinnar.
Í raun má því segja að engin lausn hafi verið fundin á þessu máli, en það skuli hins vegar notast við „óbreytt ástand“ (status quo) til að byrja með, þangað til önnur lausn finnst, sem er mjög brýnt.
Enginn vill blóðsúthellingar
Allir eru sammála um að nýjar blóðsúthellingar sé eitthvað sem enginn vill sjá á N-Írlandi og þá jafnvel Írlandi. Sem er nánast að allra mati það land sem hefur hagnast hvað mest á veru sinni innan ESB frá því það gekk inn árið 1973. Talið er að um milljón starfa hafi orðið til við inngöngu Írlands frá aðild, að umfang viðskipta hafi 150-faldast og erlend fjárfesting hafi aukist úr 16 milljónum evra árið 1972 í 30 milljarða evra.
Það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi á þessari nágrannaeyju okkar og áhyggjur manna út af „Brexitinu“ á Írlandi mjög skiljanlegar.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði.