Mikilvægasti vinnutíminn á hverjum vinnustað er í kaffitímaspjallinu. Að borða saman er veigamikil félagsleg athöfn sem bætir tengsl þeirra sem saman koma. Þar til viðbótar eru þessir afmörkuðu og óformlegu fundir samstarfsfólks á kaffistofunni skilvirkasta leiðin til að miðla reynslu, upplýsingum og hugmyndum, koma á framfæri kvörtunum og stinga upp á úrbótum.
Vinnustaður sem á ekki góða kaffistofu er ekki góður vinnustaður.
Á góðum vinnustað vinnur fólk sem deilir sameiginlegum áhuga á viðfangsefnum vinnustaðarins. Það þarf ekki að vera svo að fólk tali bara um vinnuna í kaffitímunum og á endilega ekki að vera svo. Allir tímarnir sem fara í að spjalla um daginn og veginn, spyrja ráða og miðla reynslu af matreiðslu, barnauppeldi og bílaviðgerðum eða segja sögur af sveitungum og ferðalögum, allir þeir tímar virkja tengslamyndun samstarfsfólksins og tilfinninguna fyrir að vera hluti af heild.
Góðir stjórnendur eru þátttakendur á kaffistofunni og kunna að nýta hana bæði til að hlusta og til að miðla. Þess vegna á kaffistofan að vera sameiginlegt rými allra starfsmanna, stjórnenda, sérfræðinga og allra hinna. Mikilvægasta aðsetur þróunardeildar vinnustaðar er kaffistofa hans. Með góðri kaffistofu má spara heilmikinn tíma í undirbúning formlegra starfsmannafunda og samanlögðum tíma allra þeirra sem sitja þá. Á kaffistofunni kemur líka svo margt fram sem aldrei kæmi fram á formlegum starfsmannafundi af því form þeirra hentar ekki öllum.
Sú tillaga SA að mæta kröfum um styttingu vinnutíma verkafólks með því að stytta kaffitímana eða fella þá alveg niður, kemur frá stjórnendum sem kunna ekki að vinna. Fólk sem kann ekki að vinna á ekki að fást við að stjórna vinnustöðum. Það endar bara á því að reita hár sitt og ráða almannatengil til að skrifa fyrir sig afsökunarbréf sem endar á VÁ!