Kaflaskil eru að verða í íslensku efnahagslífi eftir uppgangsár síðustu ára. Framundan eru talsverðar efnahagslegar og pólitískar áskoranir. Krónan hefur gefið eftir og verðbólgan er komin á kreik. Gjaldmiðillinn er myllusteinn íslenskra heimila og fyrirtækja og kostnaðurinn við hann er ekki lengur ásættanlegur. Spurningin er ekki hvort við eigum að skipta um gjaldmiðil heldur hvers vegna við ættum að halda í krónuna? En ríkisstjórnin hefur valið leið strútsins. Hún horfir fram hjá stærsta efnahagslega vandamáli þjóðarinnar og hefur engar lausnir fram að færa. Samstarf framsóknarflokkanna þriggja gengur enda út á kyrrstöðu – að standa vörð um óbreytt ástand.
Ég held að árið 2018 fari almennt í sögubækurnar sem alveg ágætis ár fyrir okkur Íslendinga. Við stöndum vel á alla þá mælikvarða helsta sem við notum til viðmiðunar um velmegun okkar og hamingju. Á undanförnum árum hefur kaupmáttur okkar aukist mikið og almennur uppgangur ríkt í efnahagslífinu. Við erum meðal hamingjusömustu þjóða heims og hvergi mælist jafnrétti meira en hér. Okkur hefur fjölgað mikið og erum orðin alþjóðlegra, fjölbreyttara og skemmtilegra samfélag eftir sögulega fjölgun innflytjenda á undanförnum árum.
Þótt árið hafi verið í flesta staði gott markaði það um leið efnahagsleg kaflaskil. Eftir mikinn og samfelldan hagvöxt undanfarin 8 ár birtast nú ótvíræð merki víða í samfélaginu að tekið sé að hægja á. Fréttum af uppsögnum fyrirtækja á starfsfólki hefur farið fjölgandi og ef marka má kannanir meðal stjórnenda má vænta frekari uppsagna á komandi ári. WOW lenti í alvarlegum rekstrarvanda og þótt útlit virðist fyrir að tekist hafi að koma flugfélaginu fyrir vind verður starfsemi þess talsvert umfangsminni á næsta ári með tilheyrandi áhrifum á ferðaþjónstuna. Aukinnar svartsýni gætir enda í atvinnulífinu og hafa stjórnendur fyrirtækja ekki verið svartsýnni frá því fyrir hrun. Það virðist ljóst að við getum ekki vænst viðlíka efnahagsuppgangs á næsta ári og undanfarin ár hafa fært okkur.
Árið 2018 var líka árið sem blessuð krónan minnti á sig að nýju. Eftir að hafa verið svo stór og sterk innan veggja gjaldeyrishafta allt frá hruni byrjaði krónan að falla þremur mánuðum eftir afnám þeirra og hefur verið að veikjast jafnt og þétt síðan. Annar góðkunningi, verðbólgudraugurinn, minnti líka á sig á þessu ári. Eftir fjögurra ára verðstöðugleika rauk verðbólgan af stað í haust og er nú að nálgast 4%. Líklegt verður að telja að verðbólga verði talsverð á næsta ári líka. Spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir tæpum 4% og stjórnendur fyrirtækja búast við svipaðri hækkun verðlags. Krónan, sem ríkisstjórnin telur öllum öðrum gjaldmiðlum fremri, mun því væntanlega rýra kaupmátt okkar með kunnuglegum hætti á næsta ári. Ekki að því hafi verið bætandi við þá rúmu 200 milljarða króna sem hún kostar okkur í vaxtaálag á hverju ári.
Slæmar fréttir fyrir eyðslufreka kyrrstöðustjórn
Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir ríkisstjórnina. Flokkarnir sem að henni standa sameinuðust um kyrrstöðu. Að standa vörð um óbreytt ástand. Yfir þá staðreynd er síðan breitt með áformum um stóraukin ríkisútgjöld. Blásið skuli til stórsóknar í velferðar- og menntamálum svo dæmi séu tekin. Engin árangursviðmið hafa þó verið skilgreind önnur en útgjaldaaukningin sjálf. Það endurspeglar fullkomið ábyrgðarleysi í meðferð á sköttum almennings. Þau kaflaskil sem nú hafa orðið í efnahagslífinu mun hins vegar valda ríkisstjórninni miklum vanda í að efna stóru útgjaldaloforðin samhliða fyrirheitum um óbreytta eða lægri skatta. Þessi vandi hefur þegar komið fram. Spár um aukna verðbólgu á næsta ári leiddu til niðurskurðar í framlögum til öryrkja og eldri borgara sem og til uppbyggingar í heilbrigðiskerfinu. Þessir liðir voru skornir niður um 7 milljarða króna á milli 1. og 2. umræðu fjárlaga. Peningarnir reyndust ekki vera til. Á sama tíma var hins vegar lögum um veiðigjöld breytt sem leiddu af sér 4 milljarða lækkun á tekjum ríkissjóðs. Þarna kom forgangsröðun ríkisstjórnarinnar berlega í ljós. Sérhagsmunirnir réðu för og velferðarkerfið fékk að blæða.
Stjórnarsamstarfið hefur hins vegar verið fremur tíðindalítið á þessu ári ef frá eru talin fyrrnefnd útgjaldaáform og lækkun veiðigjalda. Það hefur í sjálfu sér ekki verið mikil pólitík í þessari stjórn og flest þau mál sem fram hafa komið verið innleiðing á EES gerðum og embættismannamál sem ágæt samstaða hefur verið um í þinginu. Það skýrir einna helst hversu vel þinginu hefur gengið að halda starfsáætlun. Þessi ríkisstjórn er ef til vill mun samstilltari en af er látið. Hún sameinast nefnilega í nokkurs konar þjóðernisíhaldi. Óbreytt ástand skuli ríkja í gjaldmiðlamálum enda sé íslenska krónan eins konar ofurmynt. Óbreytt landbúnaðarstefna, þótt hún hafi skilað okkur einu hæsta matvælaverði í Evrópu, enda er íslenska lambið best í heimi (um það erum við auðvitað öll sammála – sum okkar ósátt við verðmiðann). Síðast en ekki síst verði að slá skjaldborg um útgerðina í landinu og lækka veiðigjöldin enda sé hún á vonarvöl. Sú röksemdafærsla stendur óhögguð þó svo arðsemi greinarinnar hafi verið mun betri en flestra ef ekki allra annarra atvinnugreina hér á landi og umfang fjárfestinga útgerðarfyrirtækja í óskyldum atvinnugreinum sé farið að minna óþyrmilega á gamla Kolkrabbann.
Hvenær er nóg komið?
Þrátt fyrir að margt hafi tekist hér einstaklega vel á undanförnum árum búum við enn við sömu grunnveikleikana í efnahagslífinu og fyrir hrun. Óstöðugan gjaldmiðil, mjög sveiflukennt hagkerfi og meiri verðbólgu en aðrar þjóðir eiga að venjast. Ábyrgð stjórnmálamanna þegar kemur að versnandi horfum í efnahagslífinu er því mikil. Þótt við sköpum ekki störfin berum við ábyrgð á þeirri efnahagsumgjörð sem atvinnulífi og heimilum er búin. Við eigum þar ærið verkefni fyrir höndum en það þarf framsýni og kjark til að takast á við þær áskoranir sem eru framundan. Þann kjark og þá sýn skortir þessa ríkisstjórn hins vegar.
Það gleymist gjarnan í umræðu um efnahagsmál að við erum eitt sveiflukenndasta hagkerfi hins vestræna heims og höfum verið um áratuga skeið. Þrátt fyrir ítrekaðar staðhæfingar stjórnmálamanna um hið gagnstæða vöxum við ekkert hraðar en aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Landsframleiðsla okkar er í dag svipað hlutfall af landsframleiðslu hinna Norðurlandanna og hún hefur verið að meðaltali undanfarin 30 ár. Hið sama á við í samanburði við ríki ESB, Bandaríkin eða meðaltal OECD ríkjanna. Vöxturinn hér er miklu sveiflukenndari. Upp- og niðursveiflur öfgakenndari. En vöxturinn er ekkert meiri til lengri tíma litið.
Krónan okkar er heldur ekki að hjálpa okkur. Hún er brothætt og gríðarlega sveiflukennd örmynt sem magnar frekar hagsveifluna hér á landi en að jafna hana. Þegar efnahagslífið er á uppleið og hagur okkar vænkast styrkist krónan jafnan. Með vindinn í bakinu vegnar henni vel og kaupmáttur okkar eykst enn frekar. Uppsveiflan verður sterkari fyrir vikið. Þegar á móti blæs hins vegar veikist krónan og kaupmáttur okkar rýrnar. Niðursveiflan verður dýpri. Að auki kostar krónan stórfé. Vextir eru hér að jafnaði 4-5% hærri en í nágrannalöndum okkar. Það kostar heimilin, fyrirtækin og hið opinbera meira en 200 milljarða króna í viðbótarvexti á hverju ári. Þá er ýmis kostnaður ótalin. 700 milljarða gjaldeyrisvaraforði kostar um 30 milljarða á ári. Við greiðum 6 milljarða í viðbótargjaldeyrisálag til kortafyrirtækjanna. Því til viðbótar kemur síðan alger skortur á samkeppni á bankamarkaði þar sem enginn erlendur banki vill starfa á þessu agnarsmáa myntsvæði. Síðast en ekki síst má ekki gleyma þeim kostnaði sem öllum sveiflunum fylgja fyrir atvinnulífið. Fyrirtækin sem aldrei komust á legg eða flúðu land vegna óstöðugleikans. Fjárfestingarnar sem ekki var ráðist í vegna hás vaxtakostnaðar og svo mætti lengi áfram telja.
Er krónan þess virði? Stutta svarið er nei!. Upptaka annars gjaldmiðils er eitt stærsta tækifæri okkar til að bæta stöðu heimilanna og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Stjórnvöld kjósa hins vegar að stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við þann vanda sem krónan skapar. Spurningin er ekki lengur hvort við eigum að skoða upptöku annars gjaldmiðils. Spurningin er miklu fremur af hverju í ósköpunum ættum við að nota krónuna áfram, eftir allt sem á hefur gengið og allan þann kostnað sem hún hefur valdið heimilum og fyrirtækjum í landinu.
Lýðræðið á í vök að verjast
En það er ekki bara á sviði efnahagsmála sem vert er að hafa áhyggjur af stöðu mála. Uppgangur þjóðernispoppúlisma í Bandaríkjunum og um alla Evrópu er mikið áhyggjuefni. Saga þriðja áratugar síðustu aldar kennir okkur hversu mikil ógn slík þróun er fyrir lýðræðissamfélög. Lýðræðisvísitala tímaritsins Economist hefur farið stöðugt lækkandi í meira en áratug. Lýðræðiseinkunn rúmlega helmings þeirra 167 ríkja sem tímaritið fylgist með lækkaði á milli ára. Það þarf ekki annað en horfa til þróunarinnnar í Bandaríkjunum, Rússlandi, Póllandi, Ungverjalandi eða Tyrklandi til að sjá þá ógn sem steðjar að lýðræðinu.
Aukinn ójöfnuður og óvissa í efnahagslífinu samhliða þverrandi trausti almennings á stjórnmálum hefur leitt til valda leiðtoga sem ala á ótta og sundurlyndi. Þeir aðhyllast einangrunarhyggju. Sækja í átök við nágrannaþjóðir til að sýna mátt sinn og megin. Lýðræðinu og lýðræðislegum stofnunum sýna þeir hins vegar afar takmarkaða virðingu. Tilburðir þeirra eru hinir sömu og tilburðir einræðisherra í gegnum söguna.
Lýðræðið er langt í frá fullkomið stjórnskipulag en það er svo sannarlega mun betra en hvað annað fyrirkomulag sem reynt hefur verið. Lýðræðið tryggir best almenn mannréttindi, velferð og jöfnuð og ekki síst jöfn tækifæri. Ekkert veitir stjórnmálamönnum meira aðhald en almennur kosningaréttur. En lýðræðið eitt tryggir ekki ofangreinda þætti. Öll þau lönd sem að ofan eru nefnd glíma t.d. við talsverðan og vaxandi efnahagslegan ójöfnuð þó svo þau teljist búa við lýðræðislegt stjórnskipulag. Mannréttindi teljast heldur ekki sérlega trygg í mörgum þeirra og oftar en ekki beinlínis alið á fordómum og þjóðfélagshópum att saman. Það er einmitt við slíkar aðstæður sem þjóðernispoppúlismi fær best þrifist.
Þótt staðan hér á landi sé allt önnur og betri er þessi þróun okkur holl áminning. Þótt margt hafi gengið okkur í haginn á undanförnum árum hefur ekki tekist að endurreisa traust á stjórnmálunum eftir hrun. Þrátt fyrir að sett hafi verið lög um aukið gagnsæi í starfsemi og fjármálum stjórnamálaflokka, hagsmunaskráning ráðherra og þingmanna bætt til muna og þingmönnum og ráðherrum settar siðareglur, ríkir enn mikið vantraust í garð stjórnmálanna. Uppákoman í kringum svonefnt Klaustursmál er heldur ekki til þess fallin að ala á trausti.
Það tekur nefnilega langan tíma að byggja upp traust að nýju og það gerum við best með athöfnum en ekki orðum. Og þar er ábyrgð okkar stjórnmálamanna hvað mest.