Árið 2018 var um margt sérstakt á Alþingi Íslendinga. Framan af ári var lítið annað gert en að skipa í þverpólitíska starfshópa um hin ýmsu mál, oftast þau sem ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um, s.s. um miðhálendisþjóðgarð, orkustefnu, viðbrögð við plastmengun og um breytingar á stjórnarskránni svo dæmi séu tekin. Fá prinsipp var að finna hjá ríkisstjórninni, hvort sem litið var til kjaradeilu ljósmæðra, skipunar dómara, utanríkisstefnu, velferðarmála eða hvalveiða. Kjöraðstæður voru þó á árinu til að breyta samfélaginu í þágu jafnaðar og réttlætis en þær voru ekki nýttar svo neinu nemi.
Pólitíska stefnu vantaði í málin sem þingið fjallaði um í nefndum og í þingsal alveg þar til að fjármálaáætlunin var lögð fram í apríl og stefnan í ríkisfjármálum birt til næstu fimm ára.
Þar var svo sannarlega pólitík að finna.
Fjármálastefna fortíðar
Það voru vonbrigði að sjá aftur hægristefnuna í skatta- og bótamálum í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, nánast þá sömu og fylgt hefur verið síðastliðin fimm ár. Fjármálaáætlunin sem meirihlutinn samþykkti síðastliðið vor sýnir svart á hvítu að ekki á að efna loforðin um stórátak í innviðauppbyggingu. Með fjármálastefnu í járnum er ekki mögulegt að auka útgjöld eins og þarf nema að afla tekna. Það sér hver maður. Besta leiðin er að gera það í gegnum réttlátt skattkerfi en það stendur ekki til samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar.
Ríkisstjórnin vill að framtíðarskattkerfið verði einfaldara, skilvirkara og gegnsærra en nú. Ráðherrarnir vísa í hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2015 og samstarfsvettvangs um aukna hagsæld frá 2016. Báðar hugmyndirnar ganga út á bótakerfi sem sérstakan fátækrastyrk og að húsnæðisstuðningur í formi vaxtabóta heyri sögunni til. Einstaklingar fái mismunandi háan persónuafslátt eftir tekjum og vinnuframlagi en skattprósentan verði aðeins ein. Jafnaðarmenn líta svo á að skattkerfið hafi tvöfalt hlutverk - sé til tekjuöflunar en líka til tekjujöfnunar. Þessar hugmyndir stjórnarflokkanna ganga ekki út frá þeirri sýn. Nærtækara væri fyrir ríkisstjórnina að líta til hinna Norðurlandanna í þessum efnum frekar en að leita í smiðju til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ef skattkerfið á að stuðla að aukinni velferð fyrir alla.
Haustþingið hófst með kynningu á fjárlagafrumvarpinu sem samið var eftir útlínum fjármálaáætlunarinnar. Fjárlög voru síðan samþykkt í byrjun desember. Samfylkingin lagði fram raunhæfar og vel rökstuddar tillögur um betri heilbrigðisþjónustu um allt land, aukið fjármagn til skóla, lögreglu, vegagerðar og til ungra barnafjölskyldna ásamt sanngjarni leiðréttingu á kjörum öryrkja og aldraðra. Þetta átti að fjármagna með því að hætta við áform ríkisstjórnarinnar um lækkun veiðigjalda, hækka fjármagnstekjuskattinn og setja á auðlegðarskatt á umtalsverðar eignir umfram íbúðarhúsnæði, auk þess sem við stungum upp á sérstökum sykurskatti. Og til að auka afgang á ríkissjóði yrði því frestað að afnema bankaskattinn og arður nýttur af bönkunum. Allar tillögur Samfylkingarinnar voru felldar, líkt og allar aðrar tillögur frá stjórnarandstöðunni. Ekki ein einasta var samþykkt en slíka pólitíska einsýni sýndum við þingmenn Samfylkingarinnar ekki og samþykktum þær breytingartillögur stjórnarinnar sem við töldum til bóta.
Vandi mannkyns
Við í Samfylkingunni styðjum frekari aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum þó að við sættum okkur ekki við of lítið fé til heilbrigðisstofnanna, metnaðarleysi í menntamálum eða úrræðaleysi í húsnæðismálum. Stærsta sameiginlega verkefni mannkyns nú um stundir er að finna leiðir til að draga úr hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Það er sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af stöðunni hér á landi og vera tilbúin að gera enn betur. Ef við stöndum ekki við alþjóðlegar skuldbindingar okkar, eins og útlit er nú fyrir, verður íslenska ríkið að kaupa loftslagsheimildir á alþjóðamarkaði. Það mun valda okkur umtalsverðu fjárhagslegu tjóni en ekki síður ímyndartjóni.
Við höfum stært okkur af jákvæðri ímynd sem felst í orkuskiptum við húshitun og endurnýjanlegum orkugjöfum í okkar hreina, fallega Íslandi. Sú ímynd er á hröðu undanhaldi. Súrnun sjávar, hlýnun hafsins, hækkandi yfirborð sjávar, plastmengun í hafinu og rányrkja eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröftugum og skýrum hætti og þar ættum við að vera í fararbroddi.
Aðgerðir stjórnvalda verða að vera þannig að þær virki til að draga úr bensín- og dísilnotkun hér á landi og við aðkallandi orkuskipti í samgöngum. Aðkoma ríkisins að uppbyggingu borgarlínu og eflingu almenningssamganga um allt land er nauðsynleg. Aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti á árinu eru skref í rétta átt en við þurfum að gera betur og Samfylkingin verður með ríkisstjórninni í liði ef þau bretta upp ermar í þessum efnum.
Pólitískir afleikir
Pólitíski afleikur vorþingsins var frumvarpið um veiðileyfagjöld, með milljarða lækkun á stórútgerðina í landinu sem átti að þröngva í gegnum þingið rétt fyrir sumarhlé. Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir að af því yrði. En ríkisstjórnin lét ekki deigan síga í hagsmunagæslu fyrir útgerðina og fékk samþykkta lækkun á haustþinginu. Ríkisstjórnin var ekki eins snögg að hlaupa undir bagga með þeim sem minnst hafa handa á milli. Þetta er sláandi staðreynd því að sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa hagnast um 300 milljarða kr. á síðustu átta árum. Fyrirtækin hafa greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað mikið. Ríkisstjórnin réttir þeim nú 4 milljarða til viðbótar og bróðurparturinn af því fer til stórútgerðarinnar sem sannanlega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldraðir sem þurfa að reiða sig eingöngu á greiðslur Tryggingastofnunar.
Pólitíski afleikur haustþingsins var að ætla að þröngva samgönguáætlun í gegn rétt fyrir jól með hugmyndum um vegtolla til að fjármagna hluta hennar. Stjórnarandstaðan mótmælti eðlilega slíkum vinnubrögðum enda vegtollahugmyndin óútfærð og órædd í grasrót flokkanna. Flestir flokkanna, líka Vg og Framsókn, töluðu ákveðið gegn vegtollum fyrir kosningar. Málinu var frestað fram yfir áramótin og þá mun koma í ljós hvort ríkisstjórnin tali einum rómi um pólitíska prinsippið „þeir borga sem nota“ um þjónustu hins opinbera við almenning eða um hvernig gjaldtaka eftir orkuskipti í samgöngum eigi að verða.
Pólitískir skandalar ársins
Skandall vorþingsins voru viðbrögð stjórnarliða þegar að dómur hæstaréttar um embættisfærslur dómsmálaráðherra við skipan í Landsrétt kom fram. Þingmenn Vinstri grænna höfðu gagnrýnt dómsmálaráðherrann harðlega áður en þau settust í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í því ljósi var hrópandi skjaldborgin sem Vinstri grænir, Sjálfstæðismenn og Framsókn slógu um ráðherrann. Ríkisstjórnin var undir og hefði fallið með dómsmálaráðherranum og því fuku prinsippin.
Stóri skandall ársins var lögbannið sem sett var á Stundina fyrir kosningar 2017 og varði í 375 daga eða þar til að Stundin ákvað sjálf að rjúfa þögnina í lok október. Landsréttur komst að þeirri afgerandi niðurstöðu að lögbannið væri ólöglegt og upplýsingarnar um viðskipti fjármála- og efnahagsráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins og tengdra aðila sem tengdust Glitni í aðdraganda bankahrunsins hefðu átt erindi við kjósendur fyrir kosningar.
Lögbannið er skandall en líka hitt, að upplýsingarnar hafi engin áhrif haft á stöðu fjármála- og efnahagsráðherra.
Vanvirðing og brestir
Klaustursmálið er hræðilegt, hvernig sem á það er litið. Þarna voru þingmenn og fyrrverandi ráðherrar samankomnir á bar, þar sem þeir þamba bjór og ræða hástöfum á niðrandi og klámfenginn hátt um aðra þingmenn, einkum þingkonur en spörkuðu í samkynhneigða og fatlaða í leiðinn. Málsvörnin er svo sú að svona tali allir þingmenn, við séum öll á þessu sama stigi og þeir sýndu. Helsti sökudólgurinn í málinu á svo að vera konan sem afhjúpaði ósómann. Málið angar af mannfyrirlitningu, spilltri pólitík og siðferðisbresti. Virðing Alþingis hefur beðið hnekki og ekki eru enn öll kurl komin til grafar um þau áhrif sem upptökurnar munu hafa.
Eitt er víst að ef ekki ríkir virðing á milli fólks sem starfar saman innan þinghússins þá er hennar ekki að vænta utan þess.
Málið sýnir einnig hve stutt við erum komin eftir #metoo byltinguna og hve mikilvægt það er að stjórnmálaflokkar setji sér siðareglur og skýra ferla í slíkum málum með niðurstöðu og úrbótum. Það höfum við í Samfylkingunni gert. Því miður hefur reynt á þá ferla líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið. Það mál er þungbært fyrir þá sem það helst varðar en er einnig erfitt fyrir þingflokkinn og stuðningsmenn, þó að ferlið sem slíkt hafi sannað gildi sitt.
Megi árið 2019 vera gott með betri stjórnmálamenningu, ríkisstjórn sem leggur áherslu á velferð fyrir alla og beittri stjórnarandstöðu sem veitir nauðsynlegt aðhald.
Megi árið 2019 vera ykkur öllum farsælt.
Gleðileg jól!
Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.