Við lok ársins ber hátt ýmsa viðburði til að minnast hundrað ára afmælis fullveldis íslensku þjóðarinnar. Danir hafa með margvíslegum hætti sýnt Íslendingum hlýju og virðingu af þessu tilefni, eins og löngum fyrr og síðar, sem undirstrikar hin sterku tengsl þjóðanna tveggja og djúpa vináttu milli þeirra.
Tillaga um 300 þúsund króna skattleysismörk
Á árinu lagði höfundur fram þrjú lagafrumvörp á Alþingi og þingsályktunartillögu studdur þingmönnum úr ýmsum flokkum. Þingsályktunartillagan miðar að því að rétta hag þeirra sem lægst hafa launin með því að gera tekjur undir 300 þúsund krónum skattlausar. Slíkar tekjur duga ekki til framfærslu samkvæmt opinberum viðmiðum og ætti fólk ekki að þurfa að sjá á bak hluta þeirra í skatt. Tillagan gerir ráð fyrir hækkun skattleysismarka til að ná þessu markmiði en persónuafsláttur taki síðan að lækka við mánaðartekjur 562 þúsund krónur og falli niður þegar tekjumarkinu 970 þúsund krónur er náð. Með tillögunni er undið ofan af langvarandi þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra.
Kostnaður við tillöguna er áætlaður 31,4 milljarðar króna og má bera hana saman við tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fyrir kosningarnar 2017 um að lækka neðra þrep tekjuskatts um tæp 2% niður í 35%. Kostnaður af þeirri tillögu er varlega talinn 22 milljarðar króna. Kostnaðarmunur milli leiðanna er minni en ætla mætti og skýrist af flutningi skattbyrðar milli tekjuhópa. Munurinn liggur markmiðum sem tillögunum er ætlað að ná. Fyrrgreinda tillagan miðar að því að rétta af mismuninn á skattbyrði tekjuhópa hér á landi þar sem hallar á láglaunafólk og færa skattbyrði hópa nær því sem gerist á Norðurlöndum um leið og ráðstöfunartekjum lægstu tekjuhópa er lyft yfir framfærslumörk. Hin tillagan lækkar skatta upp allan tekjustigann án sérstaks tillits til tekjulágra.
Hjúkrunarrými fyrir aldraða
Höfundur hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um málefni aldraðra til að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra sé varið í samræmi við upphaflegan tilgang, þ.e. til uppbyggingar og viðhalds húsnæðis fyrir aldraða. Verði frumvarpið að lögum mun bolmagn sjóðsins á hverju ári til að byggja heimili fyrir aldraða aukast um 67% frá því sem nú er eða úr um 1,4 milljörðum kr. í um 2,3 milljarða kr. Þetta jafngildir árlega um 30 hjúkrunarrýmum. Hafa verður í huga að sjóðnum hefur ekki enn verið bætt upp það fé sem runnið hefur úr honum til rekstrar á umliðnum árum í stað þess að vera varið til uppbyggingar hjúkrunarrýma.
Tangarsókn gegn verðtryggingunni
Höfundur hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér víðtækar breytingar á verðtryggingu lána. Frumvarpið felur í sér fjórar meginbreytingar: Fyrst ber að telja að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Í annan stað eru áhrif óbeinna skatta tekin út svo að hækkanir á áfengi, tóbaki, bensíngjöldum og kolefnisskatti til að rækja loftslagsmarkmið leiði ekki til hækkunar húsnæðislána og þyngri greiðslubyrði. Í þriðja lagi er eitraði kokteillinn svonefndi tekinn út, það er verðtryggð jafngreiðslulán mega ekki vera til lengri tíma en 25 ára í samræmi við tillögur nefndar sem falið var að undirbúa afnám verðtryggingar og skilaði þessari tillögu sem meginniðurstöðu. Í fjórða lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að vextir á verðtryggðum lánum fari ekki upp fyrir 2% og styðst sú tala við viðurkennd viðmið um aukningu á framleiðni og hagvöxt til langs tíma.
30-50 þúsund manns hrakin af heimilum sínum
Fyrirspurnir til ráðherra geta verið öflugt tæki í höndum þingmanna til að afla upplýsinga úr stjórnsýslunni. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn höfundar kom fram að um 9.200 fjölskyldur hafa frá hruni þurft að yfirgefa heimili sín vegna nauðungaruppboða eða annarra slíkra aðgerða. Þá eru ótaldar allar þær fjölskyldur sem mátt hafa ganga út af heimilum sínum í kjölfar samninga við lánastofnanir. Líklega hafa ekki undir 30 þúsund manns hrökklast af heimilum sínum frá hruni og talan gæti verið of lág. Þessi fjöldi svarar til ekki minna en 10% þjóðarinnar. Erlendur maður gæti spurt hvort hér hafi geisað stórfelldar náttúruhamfarir eða styrjöld þegar húsnæðismissir fjölda fólks er slíkur sem raun ber vitni. Nei svörum við, en við höfum verðtrygginguna.
Húsnæðisliður vísitölunnar
Fjármálaráðherra upplýsti í svari við fyrirspurn höfundar að á fimm árum hafi húsnæðisliðurinn einn og sér lagt 118 milljarða króna ofan á höfuðstóla húsnæðislána. Á sama tíma ríkti verðhjöðnun á mörgum sviðum, ekki síst á innfluttum varningi. Vísitalan án húsnæðisliðarins lagði 15 milljarða króna á húsnæðislánin á sama tíma. Hér gengur laust gráðugt skrímsli sem engu eirir og sogar til sín fé skuldara í þágu lánastofnana. Fyrrgreint frumvarp höfundar gegn verðtryggingunni tekur á þessu máli.
Lyklafrumvarp til varnar heimilum
Höfundur hefur að tilstuðlan Hagsmunasamtaka heimilanna lagt fram lyklafrumvarp í þeim tilgangi að tryggt verði að skuldarar íbúðalána, sem missa heimili sín, þurfi ekki að þola áframhaldandi innheimtu eftirstöðva íbúðalánsins þegar hin veðsetta eign hrekkur ekki fyrir láninu. Slík frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi a.m.k. fimm sinnum frá hruni. Þeim var ætlað að verja fjölskyldur eftir hrunið gegn því að vera linnulaust sóttar af fjármálastofnunum til greiðslu eftir að hafa misst heimili sín. Að minnsta kosti 10 þúsund fjölskyldur hafa verið hraktar af heimilum sínum frá hruni. Margir reyndu þrautagöngu til umboðsmanns skuldara og síðan var beðið um gjaldþrot. Í framhaldinu voru fjölskyldurnar varnarlausar án möguleika á að byrja upp á nýtt. Alls staðar lokaðar dyr. Margir kusu að flýja land. Má ef til vill rekja aukin veikindi og örorku til þessa? Frumvarpið er reist á nýlegri lagaþróun og alþjóðlegum sjónarmiðum og sker sig þannig frá fyrri frumvörpum.
Afsökunarbeiðni
Síðla árs urðu mér á þau mistök að sitja of lengi undir orðræðu sem spannst í hópi samstarfsmanna og ratað hefur í fjölmiðla. Ég hefi beðist afsökunar á að ganga ekki fyrr af vettvangi og ítreka þá afsökunarbeiðni hér. Til mín hafa ekki verið rakin særandi eða meiðandi ummæli í garð nokkurs manns. Ég hlýt engu að síður að draga lærdóm af þessari dýrkeyptu reynslu.
Verkefnin fram undan
Fram undan eru fjölmörg brýn og aðkallandi verkefni á vettvangi stjórnmálanna. Í þeim mun ég hér eftir sem hingað til leggja mig allan fram í þágu þeirra málefna sem ég berst fyrir.
Lesendum Kjarnans og landsmönnum öllum óska ég farsældar á nýju ári.