Video killed the radio star sungu The Buggles í mínu ungdæmi, en sáu ekki fyrir endurreisn hins talaða orðs í hlaðvörpum nútímans. In my mind and in my car, we can't rewind we've gone to far, reyndist ekki alveg rétt mat. Textahöfundar höfðu ekki hugmynd um að árið 2018 yrði Vera Illugadóttir stjarna fyrir það að tala við hlustendur sína um hin ýmsu hugðarefni. Internetið, með öllum sínum möguleikum á því að útvarpa skoðunum, gaf fólki um allan heim rödd. Allt í einu gátum við talað saman þvert yfir stigaganga, borgarhverfi, landshluta, landamæri. Við gátum sagt heiminum hvað okkur fannst um hitt og þetta. Og hlustað. Svarað. Hugsað. Hlustað meira. Svarað aftur og farið svo að sjóða ýsu og kartöflur í matinn. Rökræðan varð eðlilegur hluti hins daglega lífs, við byrjuðum miðvikudagsmorgna á að kanna hvað þessi eða hinn hefði um eitthvað að segja á Feisbúkk. Og mánudagsmorgna. En svo er eins og við höfum hætt að hlusta. Við urðum eins og kallinn á kassanum sem finnst ekkert mikilvægara en að koma sínum skoðunum á framfæri, skoðanir annarra skipta litlu sem engu.
Internetið drap rökræðuna. Nei, það er jafn röng fullyrðing og ótímabærar andlátsfregnir af útvarpsstjörnunum. Internetið endurskapaði rökræðuna. Við búum við nýjan veruleika, þar sem meira máli skiptir að koma á framfæri skjótum og afdráttarlausum viðbrögðum, en að hlusta og hugsa áður en við tölum. Þegar ég segi við, á ég við okkur öll, líka mig og aðra stjórnmálamenn.
Hlustum meira
Ég hef löngum ferðast með minn kassa í gegnum lífið, komið honum haganlega fyrir hér og þar og hafið upp raust mína. Talað yfir fólki, bæði í einkalífi og á öðrum sviðum. Talið mínar skoðanir staðreyndir. Og ég get talað, úff, hvað ég get talað. Fólk hefur þurft að sitja undir steypiregni orða, þar sem ég útlista málin án þess endilega að hlusta mikið. Til hvers að hlusta, ef maður veit nákvæmlega hvernig þetta allt saman er?
Jú, maður á að hlusta af því að maður veit aldrei allt og sjaldnast nóg. Af því að manns eigin skoðanir eru ekki endilega staðreyndir. Af því að í raun er mikilvægara að kynnast skoðunum annarra en að básúna sínar eigin. Af því að samfélag á að byggjast upp á samræðum og samkennd. Og af því að stjórnmál án samræðna, samfélag án rökræðna, felur í sér mikla hættu. Svo maður gerist dramatískur.
Ég hef nefnilega raunverulegar áhyggjur af stöðu stjórnmála, ekki bara á Íslandi heldur mun víðar. Þar helst margt í hendur, en í grunninn byggir það allt á óþoli og kröfu um einfaldleika. Samfélög eru nefnilega flókin og það borgar sig oft að huga vel að ákvörðunum. Við höfum í það minnsta skýrt dæmi um það í vestri að snöggsoðnar ákvarðanir, sem tilkynnt er um á Twitter, eru ekki endilega góðar ákvarðanir.
Þannig finnst mér vestræn stjórnmál, íslensk þar með talið, verða æ yfirborðskenndari. Við stjórnmálamenn tölum æ meira í frösum og staðreyndir urðu fyrsta fórnarlambið. Allt í einu varð ekkert mál að afneita því sem áður var sameiginlegur grunnur að samtali. Fimm milljarðar voru ekki lengur fimm milljarðar, 5% eitthvað allt annað, hækkun varð lækkun, tap varð að gróða og jafnvel deilt um fjölda fólks sem einhvers nyti, allt eftir því hver talað hverju sinni. Eflaust hefur þetta alltaf verið til staðar, en mér finnst sem þetta hafi ágerst eftir hrun og það ágerist bara. Það er eðlilegt að deila um hvort eitthvað sem gert er sé af hinu góða eða ekki, hvort áhrif séu nógu víðtæk, hvort aðra leið hefði átt að fara. En ef við komum okkur ekki saman um þær staðreyndir sem við byggjum skoðanir okkar á, þá er stutt í að staðreyndir verði jafngildar skoðunum. Við getum haft skoðanir á staðreyndum, en gætum að því að með því að afneita staðreyndunum sjálfum opnum við á að óþægilegar staðreyndir séu bara falsfréttir.
Og talandi um fréttir. Rekstrarumhverfi fjölmiðla er þannig að æ minni tími gefst til að kafa ofan í yfirlýsingar og gjörðir stjórnmálamanna. Fyrir vikið hefur starf fréttafólks orðið erfiðara, það þarf að koma fréttunum út og þar er oft og tíðum fyrst og fremst horf á magn. Status á Feisbúkk verður frétt, viðbrögð annarra við honum að annarri frétt og svo bregst statushöfundurinn við sem verður að nýrri frétt. Of lítill tími er til þess að gera það sem áður var hin gullna regla fjölmiðlanna; að gera öllum sjónarmiðum skil í einni og sömu fréttinni. Enn minni tími gefst til að setja sig ofan í ákvarðanir stjórnvalda, samþykktir Alþingis, að setja orð okkar stjórnmálafólks í samhengi (kannski hefur einhver á fjölmiðlum tíma til að setja þessi orð mín í samhengi við eitthvað af því fjölmarga sem ég hef áður sagt, ekki efa ég að þar finnist mótsagnir).
Hviklyndi í kviksendi
Þetta helst í hendur við hviklyndi okkar sem birtist best í því kviksendi sem Feisbúkk er. Takturinn virðist vera sá að við hneykslumst og tjáum okkur með gífuryrðum, úthrópum þennan eða hinn, fjölmiðlar skrifa fréttir um hneykslan fólks, sem veldur nýrri hneykslan og svo kemur ný vika með nýju hneykslismáli.
Þetta hefur áhrif á það hvernig við stjórnmálamenn tölum. Við pössum hvert einasta orð sem frá okkur kemur, gætum að svipbrigðum í þingsal. Segjum við eitthvað nógu umdeilt megum við bóka hvirfilbyl af töggum og statusum á Feisbúkk um það hvað við séum vont fólk sem hugsi bara um eigin rassgat. Og af hverju svörum við þessu ekki öllu, þykjumst við of góð til að vera í samtali á Feisbúkk? Einfalda leiðin er að segja sem minnst, en á því ber víða í hinum vestræna heimi. Það örlar á þessari þróun hér, þó hún sé skammt á veg komin.
Lækin tifa létt um máða steina og við stjórnmálafólk lifum sífellt meira á því að sem flest læki við það sem við segjum. Og ekki bara stjórnmálafólk, þannig tölum við orðið um stjórnmál. Þumallinn er þungur, ræður oft og tíðum því hvað er á dagskrá hverju sinni. Í þeim lækleik er auðvelt að afbaka og skrumskæla. Þannig mun fólk ekki eiga í neinum vandræðum með að taka einstaka setningar úr þessum pistli, skella í gæsalappir og sýna fram á að þessi Kolbeinn vilji banna fólki að ræða um stjórnmál. Eða hann vilji ritstýra umræðunni eða kveinki sér undan rökræðum, hvað er eiginlega orðið um Vinstri græn! Slíkt mun fá mörg læk á næsta samfélagsmiðli.
Hraðinn er orðin aðalkrafan. Það þarf að setja út frétt strax. Við þurfum að hneykslast strax og heimta aðgerðir strax. Fyrr á árinu gerðu Bandaríkjamenn loftárásir á valin skotmörk í Sýrlandi um miðja nótt. Um hádegisbil daginn eftir, á laugardegi vel að merkja, var óþolið yfir viðbragðsleysi orðið svo mikið að um það voru skrifaðar fréttir. Enn hefur þessi ekki sagt neitt. Krafa er um skjót viðbrögð, við höfum ekki þolinmæði fyrir ígrundun og yfirvegun, slíkt er litið á sem svik og vingulshátt. Á sama tíma viljum við að stjórnmál verði faglegri, en hneykslumst um leið á því að stjórnmálaflokkar fái meiri stuðning og köllum sjálftöku.
Málamiðlun er dauði
Stjórnmálaumræðan í þingsal einkennist síðan af því sem hér var lýst að ofan; svart er hvítt fyrir sumum. Skiptir þá engu hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Heilbrigðisráðherra er vikulega sakaður um að drepa fólk og alltaf kemst það í fréttir og í umræðuna. Við stjórnarliðar sökum stjórnarandstöðuna um hitt og þetta, stjórnarandstaðan okkur um hitt og þetta. Og tilraunir til að ræða raunverulega saman fara oft og tíðum fyrir lítið. Á dögunum sagði ég í pontu að umræður um sjávarútveg drægju fram það versta í öllu stjórnmálafólki, við sökuðum hvert annað ýmist um að vera undirlægjur útgerðarinnar eða að vilja byggð á landsbyggðinni feiga. Dagurinn var ekki liðinn þegar einn þingmanna stjórnarandstöðunnar afsagði orð mín þannig að þau hefðu aðeins átt við um stjórnarandstöðuna og sagði mig brokkandi um á siðferðilegum háhesti. Ég skil hann vel, ég er í stjórnarliðinu og hví ætti hann að hlusta á mig nema í gegnum hlustunarpípu andstæðra hagsmuna?
Skilaboðin eiga líka að vera skýr. Þetta er svona eða hinsegin, það er enginn millivegur. Annað hvort er þetta gott eða slæmt. Annað hvort stendur ríkisstjórnin sig vel eða illa, það er ekkert rými fyrir að hún standi sig vel í sumu, illa í öðru. Pólaríseringin eykst, þvert á það sem til dæmis ég hafði vonað og óskað eftir í samskonar pistli hér fyrir ári. Málamiðlanir eru fyrir allt of mörgum svik, ekki tilraunir til að reyna að þoka málum áfram í rétta átt. Þolinmæðin fyrir því að eitthvað sé flókið og á því engin einföld lausn, hún er engin.
Pólaríseringin hefur síðan tilhneigingu til að vinda upp á sig. Þetta fólk er gott, hitt vont. Þau eru frábær, hin landníðingar. Allt sem þau segja er æði, allt sem frá hinum kemur skelfilegt.
Æ, ég veit það ekki, kannski er ég of svartsýnn. Ég hef samt raunverulegar áhyggjur af því að allt þetta lagt saman boði ekkert gott. Skiptir þá engu hvaða ríkisstjórn er við völd, áhrifin á umræðuna lifa ríkisstjórnir af. Óþolið fyrir flóknum útskýringum, krafan um einföld og skýr skilaboð, það að líta á málamiðlanir sem svik, tímaleysi fjölmiðla til að skýra og veita almennilegt aðhald, tilhneiging okkar stjórnmálafólks til að tala í frösum, eintal frekar en samtal, það að við hlustum ekki á sjónarmið annarra, þrá okkar allra eftir einföldum og auðskildum lausnum – allt þetta, og raunar meira til, lagt saman er gróðrarstía popúlismans.
Við og þið
Þar liggja nefnilega mínar áhyggjur; að innan tíðar sjáum við vinsælan stjórnmálamann sem byggir allt sitt á pólaríseringunni og einföldum heildarlausnum, sem ef nánar er að gáð standast illa skoðun. Stjórnmálamann sem fer enn lengra með að skipta öllu upp í okkur og ykkur, er enn ákveðnari í að hafna staðreyndum, boðar enn einfaldari svör við æ flóknari spurningum.
Við Íslendingar erum nefnilega ekkert öðruvísi en annað fólk og alls staðar í löndunum í kringum okkur er staðan einmitt svona. Það fer síðan eftir því hve geðþekkir leiðtogar slíkra flokka eru hve stórir flokkarnir verða, en það hefur sýnt sig að nógu þekkir leiðtogar geta skilað fylgi upp á einhverja tugi prósenta. Þegar þangað er komið er of seint að boða meiri samtöl, frekari rökræður sem byggi á upplýsingum, flóknari umræður en ekki einfaldari, að við hlustum meira hvert á annað. Þau sem þá þannig tala verða einfaldlega flokkuð í flokkinn þið, ekki hluti af menginu við og fyrr en varir verður umræðan enn markeraðri eftir þeim nótum og það teygir sig í raðir æ fleiri flokka.
Við lifum ár öfganna, nú um stundir. Það er undir okkur sjálfum komið hve mörg þau verða og hve afdrifaríkar þær öfgar verða.
Annars er ég bara nokkuð hress. Áramótaheit mitt er að rökræða meira á árinu 2019, hlusta meira, bera meiri virðingu fyrir skoðunum annarra. Gleðilegt nýtt ár.