Þegar maður er beðinn um að „gera upp árið 2018” í stuttri grein þá fer hugurinn víða. Hvað gerðist árið 2018? Mér finnst það ekki vera eitthvað sem ég á að telja upp, til þess eru fréttaannálar. Hvað gerðist hjá mér og Pírötum árið 2018? Jú, það væri kannski sniðugt að fjalla um það þar sem þetta á víst að vera grein í einhverri seríu greina frá hverjum þingflokki fyrir sig. Mér finnst hins vegar það sem gerðist ekki vera jafn merkilegt og það sem gerðist. Það sem gerðist ekki var að Ísland fékk nýja stjórnarskrá. Það er merkilegt af því að það var góður möguleiki á að það tækist.
Árið 1874 fékk Ísland gefins stjórnarskrá frá Kristjáni IX. 1918 greiða Íslendingar atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um sambandslögin og fullveldi Íslands. 1944 samþykkja Íslendingar stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. 2012 voru tillögur stjórnlagaráðs samþykktar með 64,2% atkvæða í ráðgefandi atkvæðagreiðslu. Á vefnum www.thjodaratkvaedi.is er vitnað í þrjár aðrar ráðgefandi atkvæðagreiðslur, frá 1908 um innflutningsbann á áfengi, 1916 um þegnaskylduvinnu karlmanna og frá 1933 um afnám áfengisbanns. Kosningaþáttaka í þeim kosningum var mest 71,5% og minnst 45,5%. Í öllum tilvikum var farið eftir vilja þeirra sem greiddu atkvæði. Í kosningunum um tillögur stjórnlagaráðs tóku tæp 49% kjósenda þátt, rúmlega 115 þúsund manns.
Forsíða - Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október 2012 - kynningarvefur www.thjodaratkvaedi.is. Hér eru settar fram helstu upplýsingar um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012. Tilgangurinn er að veita kjósendum yfirsýn yfir meginatriði þess málefnis sem kosið er um og auðvelda þeim að kynna sér það frekar. Textinn er unninn af sjálfstæðum og hlutlausum aðila, Lagastofnun Háskóla Íslands, samkvæmt beiðni frá skrifstofu Alþingis.
Eftir alþingiskosningarnar 2016 og 2017 fóru í gang langar stjórnarmyndunarviðræður. Í þeim samningaviðræðum sem farið höfðu fram áður en ríkisstjórn var mynduð voru komin samþykkt drög af hálfu meirihluta þeirra flokka, sem náðu svo ekki saman um önnur atriði, að klára að samþykkja nýja stjórnarskrá á einu kjörtímabili. Athugið að meiri hluti var fyrir því á þingi að klára nýja stjórnarskrá á einu kjörtímabili. Meiri hluti var hins vegar myndaður um önnur mál eftir kosningar 2016 og 2017.
Loforðinu um nýja stjórnarskrá hefur verið haldið að Íslendingum í mjög mörg ár. Í dagblaðinu Íslendingur þann 19. maí 1944 er minnst á það að óánægja sem með að forseti lýðveldisins sé gerður valdlaus persóna. Skoðanir séu skiptar um hversu mikið vald eigi að leggja í hendur forseta og að ákvæði stjórnarskrárinnar þar um verði endurskoðuð fljótlega ásamt öðrum ákvæðum hennar. Síðan eru liðin 74 ár. Það er orðið styttra í 200 ára afmæli stjórnarskrárinnar sem við fengum gefins frá Kristjáni IX en síðan stutt var talið að endurskoðun þeirri stjórnarskrá sem við samþykktum árið 1944.
Þegar ég geri upp árið 2018 þá finnst mér það vera árið sem við hefðum getað svarað stóru spurningunum. Hvernig byggjum við aftur upp traust í kjölfar hrunsins? Hvernig byggjum við upp samfélag fyrir alla til framtíðar? Svörin sem við fengum í ár voru hins vegar þau sömu og alltaf, samantekin ráð um völd gærdagsins, hagsmuni gærdagsins og stjórnarskrá gærdagsins. Svörin við vandamálum framtíðarinnar finnast ekki í fortíðinni. Svörin er að finna í niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá því 2012.
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.
Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða. Aðfararorð úr frumvarpi stjórnlagaráðs.
Gleðilega hátíð og gerum betur á nýju ári.