Ár styttri vinnuviku

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fjallar um kosti þess að stytta vinnuvikuna og spyr sig jafnframt eftir hverju sé verið að bíða.

Auglýsing

Á ári þar sem miklar og hraðar breytingar hafa orðið á verkalýðshreyfingunni og nýtt fólk tekið við víða hefur eitt staðið upp úr. Það er sú breiða samstaða sem náðst hefur hjá verkalýðshreyfingunni og hjá launafólki almennt um eitt af þeim stóru málum sem við hjá BSRB höfum barist fyrir árum saman.

Þegar BSRB fór fram með kröfur um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar skömmu eftir aldarmót var lítið hlustað. Síðan þá hafa ýmis augu opnast. Við höfum séð afleiðingarnar af miklu álagi í vinnunni. Við höfum séð hvernig langur vinnudagur bitnar á samskiptum við fjölskyldu og vini, starfsánægju og heilsu launafólks. Í dag er krafan um styttingu vinnuvikunnar orðin ein helsta krafa launafólks og flestir sem kynna sér málið átta sig á mikilvægi hennar.

Í stefnu BSRB, sem mótuð var á öflugu þingi bandalagsins í október, kemur fram að lögfesta þurfi styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu án launaskerðingar, en jafnframt að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks.

Auglýsing

Eftir hverju erum við að bíða?

Rannsóknir sýna að styttri vinnuvika leiðir til aukinnar ánægju í starfi og aukinna afkasta. Þá mun heilsa og vellíðan landsmanna batna með styttri vinnudegi og jafnrétti kynjanna aukast. Eftir hverju erum við þá að bíða?

Ekki skortir á rannsóknirnar sem sýna okkur hver á fætur annarri kosti þess að stytta vinnuvikuna. Þær hafa meðal annars orðið til úr tilraunaverkefnum sem BSRB hefur tekið þátt í ásamt Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar. Tilraunaverkefni borgarinnar, sem byrjaði með styttingu vinnutímans á tveimur vinnustöðum, var í ár útvíkkað verulega vegna jákvæðra niðurstaðna og nær nú til rúmlega 2.000 borgarstarfsmanna. Sömu sögu er að segja af tilraunaverkefni hjá ríkinu sem átti að standa til eins árs en ákveðið var að framlengja því um eitt ár til viðbótar vegna þess hve vel tókst til.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið samhliða tilraunaverkefnunum, sem og sambærilegar erlendar rannsóknir, sýna mælanlega betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju og minni veikindi. Það kann að koma einhverjum á óvart, en það sem þessar rannsóknir sýna ekki eru minni afköst.

Starfsfólkið nær að afkasta því sama á styttri vinnutíma, líður betur andlega og líkamlega og veikindi minnka. Það sem kemur okkur hjá BSRB mest á óvart er að atvinnurekendur séu ekki í stórum stíl farnir að stytta vinnuviku starfsfólksins til að bæta hag sinn og starfsfólksins. Einhverjir hafa þó þegar gengið á undan með góðu fordæmi og uppskera í kjölfarið ríkulega. Nokkur dæmi um slíka vinnustaði eru Hugsmiðjan, Hjallastefnan og Félagsstofnun stúdenta.

Úrtölufólk reynir gjarnan að halda því fram að kostnaðurinn fyrir atvinnurekendur verði gríðarlegur verði vinnuvikan stytt. Rannsóknir sýna að kostnaður þarf ekki að hækka, nema þá helst á vinnustöðum þar sem unnin er vaktavinna allan sólarhringinn. Það eru þó einmitt vaktavinnustaðirnir sem þurfa mest á því að halda að stytta vinnuviku starfsfólks. Slíkt vinnufyrirkomulag hefur neikvæð áhrif og stjórnendur þeirra vinnustaða ættu því að vera áhugasamastir allra um styttingu vinnuvikunnar til að bæta líðan og heilsu starfsfólksins.

Konur vinna meira en karlar

Stytting vinnuvikunnar stuðlar ekki bara að aukinni starfsánægju og bættum afköstum, minni streitu og bættri heilsu. Hún stuðlar einnig að jafnrétti kynjanna.

Konur vinna almennt lengri vinnudag en karlar. Nei, með þessu er ekki verið að snúa við staðreyndum. Það er hins vegar verið að leggja saman þann tíma sem fer í launuð störf á vinnumarkaði og þann tíma sem fer í ólaunuð störf á heimilinu.

Staðan er sú að karlar vinna lengri vinnudag á vinnumarkaði en konur. Konur taka að jafnaði meiri ábyrgð á rekstri heimilis og umönnun barna og vinna því mun meira af ólaunuðum störfum á heimilinu. Þetta hefur ekki bara áhrif á tekjumöguleika kvenna yfir starfsævina heldur þýðir einnig að lífeyrisgreiðslur þeirra verða lægri.

Stytting vinnuvikunnar getur stuðlað að breytingum á þessu mynstri þar sem konur leita þá síður í hlutastörf og karlar fá aukna möguleika til að samþætta fjölskyldu og atvinnulíf og þannig stuðla að jafnari ábyrgð á ólaunuðu störfunum.

Samið um styttingu í kjarasamningum

Þó krafa BSRB sé sú að stytting vinnuvikunnar í 35 stundir verði lögfest er ljóst að mörg verkalýðsfélög, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðinum, vilja semja um styttingu vinnuvikunnar í komandi kjarasamningum. Samningar á almenna vinnumarkaðinum eru lausir um áramót en kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB í lok mars 2019. Það styttist því í að við sjáum betur hvernig útfærslu á styttingu vinnuvikunnar er hægt að ná saman um.

Fyrir nærri hálfri öld síðan ákvað Alþingi að vinnuvikan skyldi vera 40 stundir. Árið sem nú er að líða er árið sem launafólk á landinu sameinaðist um að krefjast löngu tímabærrar breytingar á þessu fyrirkomulagi. Gerum árið 2019 að árinu sem við styttum vinnuvikuna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta af þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni í Hveragerði.
Lítið gerst í úttekt á Heilsustofnun í Hveragerði og óvíst hvort henni verði haldið áfram
Fyrir rúmum tveimur árum var gerður nýr þjónustusamningur við Heilsustofnunina í Hveragerði. Skömmu síðar var upplýst um rekstrarkostnað sem vakti upp spurningar. Ráðist var í úttekt á starfseminni í kjölfarið. Hún hefur engu skilað.
Kjarninn 17. júní 2021
Eimskip viðurkennir brot sín og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.
Eimskip viðurkennir alvarleg samkeppnislagabrot og fær 1,5 milljarða sekt
Eimskip hefur viðurkennt að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip árum saman og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt vegna máls sem hefur verið til rannsóknar frá 2013. Samskip eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn 16. júní 2021
Meira úr sama flokkiÁlit