Samgönguáætlun hefur verið til umfjöllunar í umhverfis – og samgöngunefnd Alþingis í allt haust. Gestir hafa komið fyrir nefndina hvaðanæva af landinu og lýst lélegu ástandi vega í sínu nærumhverfi. Lái þeim hver sem vill, fjármögnun samgöngubóta hefur ekki verið fullnægjandi síðustu ár og ekki í takt við væntingar né uppsafnaða þörf. Og nú rétt fyrir þinghlé, jókst þrýstingur verulega á að klára samgönguáætlunina fyrir jól en ákveðið var að geyma afgreiðslu hennar þar til á nýju ári.
Því kom það verulega á óvart að þegar aðeins nokkrir dagar voru eftir af haustþingi, komu inn nýjar og óræddar tillögur frá ráðuneyti samgöngumála um vegagjöld, eða sérstakan vegaskatt, til að fjármagna framkvæmdir í samgönguáætlun. Þessar tillögur um vegaskattinn er algjör umbylting á fjármögnunarhugmyndum almennra samgönguframkvæmda og hvergi að finna í sáttmála ríkisstjórnarinnar, en eru í takt við tillögur sitjandi formanns umhverfis – og samgöngunefndar. Hann hefur verið í fundaherferð um landið síðustu mánuði ásamt tveimur öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, til að boða jákvæð áhrif vegaskatts.
En í yfirlýsingum sitjandi nefndarformanns og samgönguráðherra sjálfs um vegaskatta í fjölmiðlum að undanförnu, gleymist að lítið sem ekkert hefur verið rætt um þá skattlagningu í umhverfis -og samgöngunefnd Alþingis. Það er því fulldjarft og afskaplega bratt af hálfu nefndarformannsins sitjandi að staðhæfa í fjölmiðlum að full sátt sé um þessar fjármögnunarleiðir þegar þær eru alveg óræddar í þingnefndinni og á Alþingi. Öll þingleg meðferð tillagna um vegaskatt er eftir og útfærsla þeirra. Spurningum sem hefur ekki verið svarað eru til að mynda þessar; Á vegaskatturinn að fjármagna samgönguframkvæmdir á því svæði sem rukkað er eða að renna í einn stóran pott sem verður svo ráðstafað úr ? Hvernig verður fyrirkomulagið á þeim stóra potti ? Verður búið til ohf. fyrirtæki í kringum þennan vegaskatt ? Erum við kannski að taka fyrstu skrefin í einkavæðingu á vegaframkvæmdum ? Hvað kostar að útbúa vegaskattsinnheimtu ? Hver er raunveruleg kostnaðargreining á hugmyndum um vegaskatt ? Af hverju er 90% tillagna starfshóps samgönguráðherra um vegaskatt hringinn í kringum höfuðborgarsvæðið ? Eiga höfuðborgarbúar að borga vegaskatt inn og út af höfuðborgarsvæðinu en ekki að fá þá fjármuni sem safnast í samgöngubætur fyrir sitt svæði ? Og hvað með þær hugmyndir um vegaskatt innan höfuðborgarsvæðisins sem talað hefur verið um?
Skattur á höfuðborgarbúa
Það er alveg ljóst að hugmyndir starfshóps samgönguráðherra snúast um að höfuðborgarbúar greiði uppistöðu vegaskatts í landinu, því flestar hugmyndir um innheimtu vegaskatts eru í kringum höfuðborgarsvæðið. Kannski ekki að undra því mesta umferð á landinu fer fram á höfuðborgarsvæðinu, en þær tillögur bætast þá við aðrar fyrirhugaðar álögur sem allir nema höfuðborgarbúar munu njóta, því hugmyndir annars starfshóps samgönguráðherra um innanlandsflug og flugvelli snúast um að niðurgreiða flugfargjöld landsbyggðarfólks til Reykjavíkur. Sú niðurgreiðsla bætist við núverandi niðurgreiðslur á innanlandsflugi og hljóðar upp á allt að 1 milljarð á ári til viðbótar. Og það á tímum þegar við höfum undirgengist Parísarsamkomulagið um að draga úr útblæstri til að sporna við hlýnum loftlags þegar við vitum að flug er einn af helstu örsakaþáttum loftmengunar. Ef þessar niðurgreiðslur á flugi eru hugsaðar sem styrkur til íbúa landsbyggðarinnar, væri þá ekki nær að nýta frekar þennan tæpa milljarð á ári í langþráðar umbætur í vegakerfinu á landsbyggðinni eða jafnvel til að bæta innviðaþjónustu á landsbyggðinni ? Hvað um að efla almenningssamgöngur enn frekar í þágu umhverfisins?
Flöt skattlagning sem leggst meira á þau tekjulægri
Vegaskattur er svokölluð fallandi skattlagning (e. regressive taxation) en skemmst er að minnast þess að landsfundur Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs árið 2017 ályktaði gegn vegagjöldum, enda í takt við stefnu hreyfingarinnar í skattamálum sem hefur beitt sér fyrir réttlátari, fjölþrepaskiptri skattlagningu og gegn flatri og fallandi skattlagningu því hún leggst hlutfallslega meira á þau tekjulægri en minna á þau efnameiri. Landsfundur VG hafnaði hugmyndum um uppbyggingu grunnvegakerfis byggðri á sérstökum vegatollum og taldi að vegakerfið skuli vera byggt upp og viðhaldið úr sameiginlegum sjóðum. Í þessu ljósi er líka vert að minna á að allar hugmyndir þeirra sem hafa tjáð sig mest um meðalgjöld á vegasköttunum eru mjög á reiki; nefndar hafa verið frá 140 krónur á ferð upp í 1000 krónur á ferð. Einnig hefur sitjandi formaður umhverfis og samgöngunefndar talað fjálglega um afslátt á stórneytendur, lesist rútufyrirtæki og bílaleigur. Það skiptir miklu máli að þessar tölur séu nákvæmar og útfærðar svo almenningur geti myndað sér skoðun á málinu og að við öll getum lagt raunverulegt mat á hvernig vegaskatturinn leggst misjafnt á fólk.
Umhverfisskattur eða alls ekki ?
Ef við ætlum að sveigja af fjármögnunarleið samgöngukerfisins sem hefur verið viðhöfð um áratugaskeið, og ákveðum að vegakerfi okkar og umbætur á því verði fjármagnaðar af sérstakri skattheimtu veggjalda, til að mynda ef markmiðið er að draga úr umferð í þágu umhverfisins, þarf að útbúa skýra heildarstefnu um eflingu almenningssamgangna og skýrari, grænni samgöngustefnu en nú er. Og vegaskattar geta ekki bara runnið í að fjármagna fleiri jarðgöng, flýta samgönguframkvæmdum og auka umferðarflæði sem býður upp á hraðari og meiri umferð einkabíla eins og bæði samgönguráðherra og nefndarformaður umhverfis og samgöngunefndar hafa talað um. Ef vegaskattur á að þjóna grænum, umhverfisvænum markmiðum á borð við skilyrta umferðartöf til að draga úr bílaumferð, þá þarf að vera skýrt að þeir fjármunir sem munu safnast við vegaskattlagninguna renni í eflingu almenningssamgangna, flýti framkvæmdum við Borgarlínu, áframhaldandi vinnu við hjólastíga og efli til muna möguleika gangandi fólks til að komast á milli staða með öruggum hætti. Það er því miður ekki að sjá eða heyra núna en mun vonandi breytast í meðferðum þingsins.
En til þess að tryggja framgang á nýrri fjármögnunaraðferðum samgönguframkvæmda sem eiga að þjóna grænum markmiðum, þarf líka að vinna að því í mun meiri sátt, samvinnu og með samtölum en ekki með digurbarkalegum yfirlýsingum sem einkennir karllæg stjórnmál sem ættu að vera úr sér gengin.
Höfundur er þingmaður VG í suðvesturkjördæmi og í umhverfis – og samgöngunefnd Alþingis.