Söngurinn um að gæta verði hófs í launahækkunum er sérstaklega athyglisverður um þessar mundir og ótrúverðugur. Það er öllum ljóst að þeir aðilar sem halda þessum sjónarmiðum mest á lofti ætla ekki að láta þau gilda um sig sjálfa. Ríkisstjórnin ætlar ekki að láta hófsemdakröfur ná til sín og sinna launa. Hún er undanskilin og það eru líka þingmenn, ráðuneytisstjórar og allir helstu embættismenn sem fara með stjórn landsins.
Tundurskeytið
Stjórnvöld í landinu hafa haft ríflega tvö ár til þess að leiðrétta ótrúlegan úrskurð Kjararáðs um laun opinberra embættismanna, ráðherra og þingmanna. Sá úrskurður færði þessum aðilum tugi prósenta í afturvirkar launahækkanir. Úrskurðurinn hvellsprengdi launarammann. Hann var eins og tundurskeyti inn í allt umhverfi kjaraviðræðna á Íslandi. Ekki var mikið spáð í að gæta hófs.
Innantómt tal
Staðreyndin er sú, að á meðan úrskurður Kjararáðs er látinn gilda eru stjórnvöld í engri stöðu til þess að mæla gegn ríflegum og réttlátum kjarabótum til handa öðrum launþegum. Sjónarmið um stöðugleika eru algjörlega innantóm. Það var ekki nóg að leggja Kjararáð niður, eins og nú hefur verið gert með lögum. Eftir stendur úrskurðurinn, óhaggaður. Alþingismenn og ríkisstjórn féllu á prófinu. Þeim reyndist ómögulegt að sleppa höndunum af silfrinu. Hækkanirnar standa ekki bara óhaggaðar heldur voru þær beinlínis hoggnar í stein. Laun þingmanna verða hér eftir vísitölutryggð. Úrskurðurinn er þannig festur í sessi. Ekki tomma er gefin eftir.
Skilyrðislaus krafa
Hvernig eigum við, aðilar vinnumarkaðarins, að nálgast kjaramálin fyrst að stjórnvöld haga sér svona? Það hlýtur að vera skilyrðislaus krafa okkar, fyrst úrskurðinn skal standa, að stjórnvöld láti nú þegar af öllu tali sínu um hófsemd í kjaraviðræðum og að launahækkanir ógni stöðugleika. Ef stöðugleika var ekki ógnað með úrskurði Kjararáðs hví skyldi honum þá ógnað með sambærilegum launahækkunum öðrum til handa?
Kristján Þórður Snæbjarnarson er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 2. varaforseti Alþýðusambands Íslands.