Það er orðinn sérstakur siður hjá Orkumálastjóra að senda út jólahugvekju og nota tækifærið til að sparka í hópa sem honum virðist í nöp við. Í þessu tilfelli er það íslensk náttúruverndarhreyfing sem hann kallar „fólk sem hatar rafmagn.“
Orkumálastjóri fylgdi þessu eftir á Þorláksmessu í viðtali á Sprengisandi. Þar fannst honum árangur íslenskra náttúruverndarsinna helst til mikill. Orkumálastjóri hvatti aðra hópa til að rísa upp og andæfa. Jólin eru hátíð ljóssins og handhafi ljóssins er auðvitað Orkumálastjóri. Það er eðilegt að hann tukti til þá sem hafa sýnt vanþakklæti. En það eru samt nokkrir þættir í málflutningi hans sem er mikilvægt að leiðrétta.
Í vor var ég með erindi í Harvard háskóla um orkustefnu Íslands. Þarna var samankominn hópur af gáfumennum úr öllum heimshornum og verkefnið var að skoða orkustefnu Íslands. Ég bjóst auðvitað ekki við því að lenda í þessu hlutverki þegar ég gaf út fyrstu ljóðabókina mína en ég á þetta mönnum eins og Guðna Orkumálastjóra að þakka.
Ég sagði hópnum í Harvard að við skyldum í fyrstu ekki hugsa um umhverfið heldur velferð stórfyrirtækja, mikilvægi þeirra í innviðum samfélaga, stærðarhagkvæmni, orkuþörf og mikilvægi þess að geta vaxið og staðið sig í alþjóðlegri samkeppni. Ég sýndi þeim yfirlitsmynd af iðnaðarsvæðinu í Helguvík og spurði hópinn: Hvar í heiminum finnurðu eftirfarandi á sömu lóð: Strandaða grind af álveri við hliðina á gjaldþrota kísilveri sem átti að verða eitt hið stærsta í heimi. Á sömu lóð áform um að reisa ennþá stærra kísilver, semsagt stærra en nágranni þess, hið stærsta í heimi. Öll þessi starfsemi er sett niður steinsnar frá næsta leikskóla og íbúabyggð. Þarna er síðan gjaldþrota höfn og milljarða vannýtt fjárfesting í innviðum fyrir orkuflutninga. Kostnaður við þá er óljós og velt á allan almenning í landinu.
Ég benti þeim á að í Reykjanesbæ hafi fólk orðið fyrir miklum óþægindum og umfangsmiklu fjárhags og heilsutjóni út af kísilverksmiðjunni. Að fjárfestar hafi tapað milljörðum. Ég benti þeim á að á Íslandi væru framkvæmdir stundum hafnar við að reisa verksmiðjur áður en ljóst væri hvaðan ætti að fá orku til að reka verksmiðjuna á fullum afköstum. Að menn hefji framkvæmdir án þess að umhverfismat orkuframkvæmda hafi klárast, án þess að fyrirkomulag línulagna sé ljós, án þess að ljóst sé hver muni greiða fyrir losun á CO2 ef kolefnisskattar verða lagðir á þjóðina á næstu árum. Þar á ofan virðist sem hið vandasama verk, að byggja verksmiðju ofan í íbúabyggð hafi verið sett í hendurnar á glæpamanni.
Það þarf ekki að taka fram að þessi fjölbreytti hópur sem ég ræddi við gat ekki talið upp mörg sambærileg dæmi í heiminum.
Þegar bygging álversins í Helguvík hófst þá fékk ég nokkur símtöl frá áhyggjufullu fólki í orkugeiranum. Það vildi ekki tjá sig opinberlega en benti á að það væri ekkert vit í því að hefja byggingu á verksmiðju í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi án þess að hafa 600MW tiltæk, eins og c.a eina Kárahnjúkavirkjun til að ná fullri stærðarhagkvæmni. Ef það er opinber stefna að reisa verksmiðjur, þá hljóta menn að vilja gera það vel. Eigendur Norðuráls byggðu verksmiðjuna út í loftið enda voru þeir að tefla refskák: Þeir ætluðu að nýta sér hrunið til að fá taugaveiklaða stjórnmálamenn til að gefa sér orkulindir landsins á 40 ára samningi.
Nú er sama sagan að endurtaka sig varðandi kísilverin í Helguvík. Hver áfangi af fjórum sem fer til kísiveranna þarf c.a 25-30MW. Ekki hefur verið sýnt fram á hvar eigi að virkja 250MW til að koma verksmiðjunum í fulla stærð. Enginn hefur sýnt fram á að það sé mögulegt að reisa tvær stærstu kísilverksmiðjur í heimi ofan í íbúðabyggð án þess að íbúar í Reykjanesbæ skaðist enn frekar.
Ég spurði þennan hóp í Harvard. Burtséð frá náttúruverndarsjónarmiðum: Teljið þið að iðnaðarsvæðið í Helguvík sé gott dæmi um faglega stjórnsýslu og vandaða langtíma stefnumótun í orkumálum? Sýnist ykkur þetta land vera með faglega innviði miðað við áratuga áherslu á uppbyggingu á orkufrekum iðnaði? Mynduð þið telja að fjárfestingar ykkar væru öruggar í svona landi? Lítur þetta út eins og dæmi frá vestrænu ríki eða er þriðja heims bragur á þessu?
Spurningin sem eftir stendur gæti verið þessi: Getur verið að Orkustofnun eigi einhverja sök hér? Samkvæmt lögum gegnir hún veigamiklu hlutverki í skipan raforkumála. Guðni segir að skemmdarverkin í Kona fer í stríð séu lítil í samanburði við rétt almennings til að hnekkja vanhugsuðum ákvörðunum fyrir dómstólum. En getur verið að Guðni horfi framhjá því tjóni sem kontóristar valda þegar þeir vanrækja hlutverk sitt sem ráðgefandi aðili hins opinbera? Getur verið að bændur, landeigendur, náttúruverndarsamtök og aðrir hafi þurft að leggja of mikla vinnu á sig til að vinda ofan af vanhugsuðum framkvæmdum með málarekstri til að knýja fram niðurstöður sem nálgast heilbrigða skynsemi?
Guðni veifar röngu jólatré
Í jólakveðju sinni hefur Guðni áhyggjur af óhóflegri friðun vatnsfalla og leggur fram tölu sem hann virðist meta sem fórnarkostnað „okkar“ fyrir að virkja ekki. Hann talar þar um að „útflutningstekjur“ af einni terawattstund, eða 150MW virkjun séu um 25 milljarðar á ári. Guðni ber þessa tölu saman við útflutningstekjur sjávarafurða sem eru 197 milljarðar á ári.
Hér gerist Guðni sekur um alvarlegan misskilning. Útflutningstekjur stóriðjufyrirtækja koma almenningi á Íslandi eða Ríkissjóði alls ekkert við. Þegar Orkumálastjóri veifar veltu alþjóðafyrirtækja sem gera upp sína reikninga í skattaskjólum og reiknar sem tekjur „Íslands“ þá er hann kominn alvarlega út fyrir sitt svið. Í knattspyrnuleik væri hann að skora sjálfsmark. Í raun er hann að taka undir aðferðir stórfyrirtækja sem stunda andlega nýlendustefnu. Með því að veifa „útflutningstekjum“ er markmiðið að smælingjarnir bendi á verksmiðjuna og segi: „Þetta er fyrirvinna þjóðarinnar.“ Þannig fær fyrirtækið vald og pólitískt vægi sem er í engu samræmi við raunverulegt framlag til samfélagsins. Með því að veifa útflutningstekjum er í rauninni verið að brengla heimsmynd almennings.
Ég kenndi einu sinni hópi á MBA námskeiði í HR og bað fólkið sem hafði mikla reynslu úr atvinnulífinu að reikna sjálft og finna þessar svokölluðu „útflutningstekjur“. Þá var staðhæft að Alcoa færði íslensku þjóðinni 100 milljarða árlega eða tæpan hálfan sjávarútveginn. Þegar við reiknuðum út hversu mikið raunverulega yrði eftir í landinu þá fannst ekki nema c.a 10% af upphæðinni.
Klifun um útflutningstekjur frá erlendum stóriðjuverum er gagnslaus aðferð til að mæla þjóðarhag. Hugtakið hentar hins vegar vel þegar fyrirtækið vill gera sig mikilvægt, knýja á um sérsamninga um skattfrelsi eða láta almenning niðurgreiða fyrir sig innviði. Sá sem furðar sig á því að fámenn kísilverksmiðja á Húsavík hafi fengið 5 milljarða einkajarðgögn í heimanmund ætti að skilja hvernig tal um tugmilljarða „útflutningstekjur“ er markvisst notað til að rugla stjórnmálamenn í ríminu. Nú beitir Orkumálastjóri þessum ýktu tölum í andófi gegn stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þannig getur hann mælt fórnarkostnaðinn af friðun fossa og vatnasviða með óheyrilega mörgum milljörðum. Enn eitt sjálfsmarkið.
Guðni er menntaður maður, hann er svo menntaður að hann er undir D-liðnum í stafsmannaskrá Orkustofnunar. Sem Dr. Guðni. Fólk á að geta treyst honum og hann á ekki að beita fyrir sig marklausri tölfræði og rugla almenning í ríminu.
Guðni gengur enn lengra í sínum málflutningi og hann sakar umhverfishreyfinguna á Íslandi beinlínis um hræsni. Hann segir að það fari ekki saman að friða hálendi Íslands og berjast gegn loftslagsbreytingum. Þetta er söngur sem heyrist oft og hann orðar þetta mjög skýrt. Ef þú vilt bjarga heiminum þarftu að fórna Íslandi. Annars ertu með „asklok fyrir himinn“.
Dr. Guðni er menntaður maður og í málflutningi hans mætti ætla að heiminum sé stjórnað af einhverskonar skynsemi. Að Íslendingar sem þjóð geti þokað burt tilfinningarökum og fært skynsamlegar fórnir fyrir heimsbyggðina. Hann klifar á möntrunni um kolaálver í Kína vs. hreina álið á Íslandi.
Einhverra hluta vegna hafa þeir ekki fengið memóið í Kína. Frá árinu 2000 hefur álframleiðsla í Kína aukist um 1500%. Framleiðsla í Kína er komin í c.a 30 milljón tonn. Það þýðir einfaldlega að þeir hafa byggt næstum 100 álver á stærð við meðalstærð álvera á Íslandi frá árinu 2000. Til þess að framleiða 30 milljón tonn af áli þyrfti c.a 100 Kárahnjúkavirkjanir. Það er enginn sem segir að þótt Íslendingar byggi álver þá komi þeir í veg fyrir byggingu verksmiðju annarsstaðar, hvað þá í Kína. Það sem Íslendingar framleiða er hrein viðbót við núverandi offramleiðslu og verðlækkun á áli í heiminum. Ef Guðni vill bjarga heiminum þá ætti hann að fara fram á alþjóðlegt bann við sölu á áli sem er framleitt með kolaorku. Virkjanir hér skipta engu máli vegna þess að heimurinn er risavaxin og óendanleg hít. Heimurinn er Títanic og stefnir á ísjakann. Það skiptir engu máli þótt Guðni sé með fötu, tilbúinn að ausa ef skipstjórinn er fullur og stefnunni er ekki breytt.
Í Bandaríkjunum fara tæplega milljón tonn af áli á ruslahaugana í dósum eingöngu. Álið sem þeir henda myndi duga til að endurnýja allan flugflota Bandaríkjanna fjórum sinnum á ári. Með því að gefa Bandarískum fyrirtækjum ódýra orku er einfaldlega verið að viðhalda kerfi sóunar og eyðileggingar. Þarna fara c.a þrjár Kárahnjúkavirkjanir í ruslið, í dósum eingöngu. Ef Dr. Guðni vill bjarga heiminum þá ætti hann að tala yfir hausamótunum á lobbíistum í USA. Eflaust gefst kjörið tækifæri þegar Kona fer í stríð verður endurgerð í Hollywood.
Dr. Guðni segir að sá sem vill vernda heiminn verði að fórna fossunum. Annars er hann ekki heill, annars er hann hræsnari. Þetta hljómar skemmtilega Biblíulega. Við þurfum að blíðka veðurguðina, fara upp á fjallið og myrða eitthvað heilagt. En það er einfaldlega rangt. Í heiminum er algert offramboð af áli og nú reyna menn að koma því í verð með einhverjum hætti. Búa til einnota umbúðir, Costco gíraffa og skínandi garðálfa. Álið er staðkvæmdarvara fyrir önnur efni og þegar verðið lækkar þá nota menn ál í staðinn fyrir stál, timbur, plast, pappír eða koltrefjar.
Stálframleiðsla heimsins er um milljarður tonna á ári en álframleiðslan er c.a 60 milljón tonn. Álframleiðslan notar hins vegar meira rafmagn en öll stálframleiðslan. Sá sem býr til stól úr áli notar 30 sinnum meiri raforku og auðlindir heldur en sá sem býr til stól úr stáli og málmurinn er allt of ódýr. Framleiðsla mætti fara niður í þriðjung af því sem hún er í dag án þess að sæist högg á vatni í okkar daglegu neyslu.
Dr. Guðni klifar á vondu kolaálverunum í Kína en þar býr fólk sem vill koma auðlindum sínum í vinnu, rétt eins og Guðni vill að fossarnir okkar hætti að pissa út fyrir túrbínurnar. Í Kína eru Orkumálastjórar í fátækum héröðum sem líta svo á að kolin verði engum til gagns í iðrum jarðar, að þau séu best nýtt til að rífa þjóðina upp úr fátækt og volæði. Það hefur þeim sannarlega tekist.
Fólk sem sleikir dverghamstra
Guðni minnist ekkert á nýjustu orkubóluna í kaflanum sínum sem heitir „fólk sem hatar rafmagn“. Það má nefnilega spyrja orkumálastjóra hvort siðferðileg skylda okkar nái líka yfir Bitcoin. Að framleiða hreina orku fyrir eitthvað sem er bara steypa. Hver færsla með Bitcoin notar orku á við 200.000 Visa færslur. Orkuþörf Bitcoin var komin upp í 80 Terawattstundir í fyrra. Samtals voru Bitcoin og Etherum komin upp í rúmar 100 Terawattstundir í 100% orkusóun. Það er eins og 20 Kárahnjúkavirkjanir eða rúmlega þrefalt virkjanlegt vatnsafl á Íslandi fyrir BullGull. Að tala um „orkuþörf“ og „gagnaver“ er í rauninni ósanngjarnt, vegna þess að gagnaverin gera ógagn og orðin eru ekki nógu súrrealísk. Á Íslandi eru 100 - 150 MW komin í slíka starfsemi samkvæmt óljósum heimildum í mannlausum skemmum. Hverjar eru „útflutningstekjurnar?“. Hvað segir Orkumálastjóri sem sér svo vel gegnum Asklokið. Er Bitcoin jafn mikilvægt og 10 Svartár og ein Hvalá? Er betra að leita að óþarfa með hreinni orku á Íslandi heldur en með drullukolum í Kína? Er pirrandi að horfa upp á Aldeyjarfoss svona frjálsan og trylltan, þegar hann gæti verið að grafa eftir falsmyntum?
Bitcoin hefur hríðfallið í verði en sóar enn orku á við alla orkuþörf Singapúr. Etherum sem er önnur falsmynt notar álíka mikla raforku og Eistland. Hér er vitleysan svo yfirgengileg að enginn, ekki nokkur heilbrigður einstaklingur á að taka þátt í þessu. Orkumálastjóri ætti að taka sitt eigið asklok frá himninum og ganga fram fyrir skjöldu. Hann mætti mæla fyrir alþjóðlegu banni við þessari glæpsamlegu orkusóun á næsta alþjóðaþingi Orkumálastjóra. Þar gæti hann sparað heiminn meira beint af kontórnum en öll samanlögð vatnsföll á Íslandi. Guðni mætti í leiðinni nefna dósasóun í Ameríku og tala opinberlega fyrir því að ál sem er framleitt með kolum verði sérmerkt eins og tóbak og helst bannað.
Á trylltri öld er það eina sem við getum gert er að vera gott fordæmi. Á trylltri öld er þjóðgarðurinn langstærsta og mikilvægasta framlag okkar til heimins. Það hefur enginn í náttúruverndarbaráttunni áhuga á að vera í stríði og allir vilja minnka sóun, spara rafmagn, vernda landið og berjast gegn loftslagsbreytingum. Í því er engin þversögn. Á meðan ógn steðjar að fegurstu stöðum landsins í þeim eina tilgangi að auka mengun og sturta þeim ofan í enn eina hítina er eina rétta viðbragðið að standa vaktina og standa í lappirnar. Með reiddan bogann.
p.s. Lokalínan er svokallað stílbragð. Ekki hringja í Orkumálastjóra eða Landsnet og spyrja hvort þau óttist skemmdarverk af minni hálfu. Við Guðni erum ágætlega málkunnugir, mér líkar almennt vel við hann og hans fólk sem ég óska honum gleðilegs árs.