Í nýlegum umræðum um skattamál hefur komið fram að skattbyrði hefur verið færð af hálauna- og stóreignafólki yfir á lægri og milli tekjuhópa á síðustu 2-3 áratugum. Þetta hefur bitnað hlutfallslega mest á þeim allra lægst launuðu (sjá hér).
Þessi þróun hefur verið einstök í hópi vestrænna OECD-ríkja. Þar hefur frekar dregið úr skattlagningu láglaunafólks.
Myndin hér að neðan sýnir breytingu á skattbyrði láglaunahjóna sem eru með tvö börn á framfæri sínu, í OECD-ríkjunum frá 2000 til 2017.
Af 32 OECD-ríkjum var skattlagning láglaunahjóna lækkuð í 26 á tímabilinu, en skattbyrði var aukin í 6 löndum – langmest á Íslandi.
Álagning á láglaunahjón hér á landi fór úr um 20% í 25% frá árinu 2000 til 2017.
Hinar norrænu þjóðirnar voru áður með meiri skattbyrði á þennan hóp en Ísland, en hafa allar lækkað þessa skattbyrði láglaunafólks í seinni tíð. Einungis Danmörk er enn með meiri álagningu á láglaunahjón en Ísland (en þar fær fjölskyldufólk meira frá velferðarkerfinu til baka en á Íslandi).
Að meðaltali lækkaði skattbyrði láglaunahjóna um 1,7 %-stig i OECD-ríkjunum, en jókst um 5,1 %-stig á íslandi (sem er um 25% hækkun á skattgreiðslum).
Nú er Ísland komið með eina hæstu skattbyrðina á láglaunafjölskyldur meðal OECD-ríkja (3. hæstu fyrir einstætt foreldri með 2 börn og sjöundu hæstu fyrir láglaunahjón með 2 börn).
Þessi þróun á Íslandi hefur því ekki einungis verið óvenjuleg, heldur beinlínis einstök! Og hún hefur aukist verulega á síðustu 4-5 árum.
Á sama tíma lækkaði skattbyrði hátekjufólks
Eins og ég hef áður rakið þá jókst skattbyrði lágtekjufólks á Íslandi vegna kerfisbundinnar rýrnunar persónuafsláttarins (og þar með skattleysismarkanna) og einnig vegna rýrnunar vaxta- og barnabóta.
Það eru einungis einstæðir foreldrar og landsbyggðarfólk sem enn fær slíkar bætur hér á landi – sem þó hafa rýrnað.
Þörfin fyrir slíkan stuðning er auðvitað langmest á höfuðborgarsvæðinu, þar sem húsnæðisverð hefur farið í allra hæstu hæðir.
Á sama tíma hefur hátekju- og stóreignafólk notið sérstakra skattfríðinda í formi fjármagnstekjuskatts, sem færði þeim mun lægri skattbyrði en venjulegt vinnandi fólk býr við.
Braskarar (hátekjumenn sem láta peningana vinna fyrir sig) eru sem sagt verðlaunaðir í skattkerfinu en venjulegt vinnandi fólk skattpínt – með vaxandi þunga.
Vegna þeirra fríðinda sem hátekju- og stóreignafólk býr við þarf sífellt að hækka skatta á láglaunafólkið til að ríkið haldi tekjum sínum.
Svona öfugsnúið er tekjuskattskerfið á Íslandi orðið.
Skattbyrði láglaunafjölskyldna hefur aukist meira hér en í nokkru öðru vestrænu OECD-ríki á síðustu tveimur áratugum.
Er ekki mál að linni og undið sé ofanaf stóru skattatilfærslunni?
Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.
Skýring:
Láglaunahjón eru skv. skilgreiningu OECD hjón eða sambúðarfólk þar sem annar aðilinn er með meðallaun en hinn með tæplega þriðjung meðallauna. Þau sem eru með minna en þetta eru undir fátæktarmörkum.