Í Garðabæ dregur til tíðinda í skipulagsmálum sem varða íbúðauppbyggingu og þá kosti sem boðið er upp á til búsetu í bæjarfélaginu. Uppbyggingin hefur áhrif á samfélagið til framtíðar þar sem sérstaklega er verið að koma til móts við þarfir ungs fólks og allra sem kjósa minni húsakost og ódýrari. Og um leið tekin hliðsjón af fjölbreyttum samgöngumáta þar sem einkabíllinn er ekki endilega í fyrirrúmi. Með þessum uppbyggingarkjörnum, þ.e. nýju hverfi á Lyngássvæðinu og úti á Álftanesi, er sérstaklega horft til þess að Garðabær laði að sér ungt fólk til búsetu. Gert er ráð fyrir um 400 íbúðum á hvorum stað og ljóst að Garðabær er að leggja í spennandi vegferð. Ef ýta á markvisst undir fjölbreytt samfélag skiptir máli að horft sé til framtíðar. Til unga fólksins sem mun búa í samfélaginu, taka þátt í uppbyggingunni og gera það að verkum að samfélagið vex og dafnar. Það skiptir máli og hefur áhrif á alla samfélagsgerðina.
Þétting byggðar þar sem fókusinn er á ungt fólk, fjölbreyttar samgönguleiðir og ódýrara húsnæði gefur einmitt ungu fólki tækifæri til þess að setjast að í Garðabæ. Ungu fólki með ólíkan bakgrunn og ólíka sýn á lífið sem gefur samfélaginu frekari tækifæri til þroska og vaxtar. Við í Garðabæjarlistanum fögnum þessu mjög. Jafnframt gefst tækifæri til frekari vaxtar leigumarkaðar og verður spennandi að sjá hvort samstarf verður tekið upp við leigufélög til þess að tryggja enn fleiri valkosti, í takt við áherslur okkar í Garðabæjarlistanum. Hér skiptir samstaða um fjölbreytt samfélag máli, hvar í flokki sem staðið er. Bæði uppbyggingarsvæðin gefa fjölbreyttari hópi ungs fólks tækifæri til þess að velja Garðabæ sem sinn heimabæ og það er mikið fagnaðarefni.
Við sem höfum fengið það hlutverk að fara fyrir sveitarfélaginu berum skyldu til þess að vera ávalt á tánum og horfa til framtíðar. Þá getur það gerst að viðhorf þeirra sem eldri eru þurfi að víkja fyrir framtíðinni, unga fólkinu. Garðabær hefur haft þann blæ yfir sér hingað til að þar rísi stærri og færri hús, þar sem einbýli eru fleiri en fjölbýli, byggt er lágt en ekki hátt og meira um víðáttu en annars væri. Því eru byggingaráformin nú í raun mun meiri tíðindi en ella og verður spennandi að sjá hvernig íbúasamsetningin kemur til með að þróast næstu árin með þessa nýju íbúðakjarna. Um leið er hér verið að gefa ungum Garðbæingum fær á að að flytja aftur í heimabæinn sinn, en það höfum við í Garðabæjarlistanum lagt mikla áherslu á. Samhliða ákvörðunum sem þessum þá skiptir máli að öll grunnþjónusta sé með þeim hætti að allir njóti. Fyrir ungt fólk skiptir gott aðgengi að leik- og grunnskólum, sem og íþrótta- og tómstundastarfi, miklu máli.
Í Garðabæ er vissulega góð þjónusta, en tryggt þarf að vera að ungar barnafjölskyldur fái notið hennar til jafns við aðra íbúa. Þar þarf að vanda til verka og taka skýra afstöðu með því að Garðabær styðji við fjölbreytta uppbyggingu þar sem allir hafa valið og geta notið. Það gera kjörnir fulltrúar til að mynda með ákvörðunum um gjaldskrár fyrir þá grunnþjónustu sem boðið er upp á og svo með stuðningskerfi við íþrótta- og tómstundastarf þannig að öll börn fái notið óháð efnahag.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.