Vandinn á húsnæðismarkaði er mikill. Sífellt er erfiðara að kaupa fasteignir sökum hárrar greiðslubyrði lána. Vextir eru alltof háir og fasteignaverð hækkar sífellt.
Nýjar tillögur starfshóps um aðgerðir í húsnæðismálum eru um margt mjög jákvæðar. En er ástæða til bjartsýni um að eitthvað verði gert í húsnæðismálum í tilefni kjarasamninga?
Óljós staða á leigumarkaði
Í tillögunum er leitast við að horfa heildstætt á stöðuna. Meðal annars er fjallað um mögulegar leiðir til að fjármagna byggingu almennra leiguíbúða. Þetta er einn mikilvægasti kafli tillagnanna. Bjarg, leigufélag í eigu ASÍ og BSRB, er í fararbroddi við byggingu hagstæðra leiguíbúða fyrir tekjulægsta hópinn í landinu. Sömu samtök eiga einnig annað leigufélag, fyrir tekjulágt fólk, sem kallast Blær. Það hefur ekki getað hafið starfsemi. Of erfiðlega hefur gengið að fjármagna félagið á viðráðanlegum kjörum. Niðurstaða starfshópsins er að ekki skulið tekið á þessu vandamáli heldur er vísað til kjaraviðræðna með þá fjármögnun.Það er því niðurstaða starfshópsins að ríkisvaldið komi ekki að fjármögnun Blæs. Samtök atvinnulífsins hafa heldur ekki tekið jákvætt í fjármögnun á rekstrinum. Staða Blæs er því vægast sagt óskýr.
Mikið í húfi
Af þessari ástæðu, og fleirum, er spurningin áleitin: Stendur í raun og veru til, af hálfu ríkisstjórnarinnar, að bæta húsnæðismarkaðinn? Það er mikið í húfi. Fyrir fólk sem er á leigumarkaði er öruggari leigumarkaður grunnforsenda bættra kjara. Áætla má að um 17% fullorðinna einstaklinga sé á leigumarkaði og að um sé að ræða um 35.000 heimili. Varnir sem þessir einstaklingar hafa til að verjast leiguokri er litlar í dag. Yfirleitt stendur eingöngu til boða leiga til skamms tíma. Algengt er að samningstíminn sé eitt til tvö ár í lengri leigusamningum. Það er augljóst að slíkur leigutími veitir sama sem ekkert húsnæðisöryggi. Leiðin til að laga þetta felst m.a. í því að koma á fót leigufélögum eins og Blæ.
Engin viljayfirlýsing
Tillögur starfshópsins snerta á flestum þeirra atriða sem máli skipta á húsnæðismarkaði. Veikleikarnir blasa hins vegar við. Einungis er um að ræðatillögur starfshóps. Ekkert kemur fram um það hvað stjórnvöld, ríkisstjórnin, hyggst framkvæma af þessum tillögum í tengslum við gerð kjarasamninga. Það kemur hvergi fram viljayfirlýsing um eitt eða neitt. Það er ekki búið að fjármagna þá þætti sem máli skipta. Það er augljóst að ef þetta á að teljast innlegg í kjaraviðræður þá þarf ríkisstjórnin að segja með skýrum hætti hvaða tillögur hún telur raunhæft að framkvæma.
Talað í allar áttir
Þetta er óútkljáð. Sama gildir raunar um önnur mál sem snúa að ríkisstjórninni. Í skattamálum talar ríkisstjórnin í allar áttir. Óljóst er hvort fulltrúar hennar geta sæst á grundvallarkröfur um lækkun skattbyrði milli- og lágtekjuhópa, sérstaklega þess síðar nefnda. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa fremur talað fyrir því að einfalda skattkerfið. Það þýðir hins vegar bara eitt: Lækkun skatta á ofurlaun og stóreignafólk.
Það er því von að spurt sé: Hver verða raunverulega útspil ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga? Þessu þarf að svara.
Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 2. varaforseti Alþýðusambands Íslands.