Umferð í borgarumhverfi og umferð í dreifbýli er um mjög margt ólík. Í dreifbýli er langt milli áfangastaða, nágrenni veganna markast af náttúrulegu umhverfi og yfirleitt er umferð lítil en hraði mikill. Í borgarumhverfi blandast saman fjöldi ferðamáta sem þvera stefnu hvers annars, nágrennið allt er einhverskonar íverustaður fólks hvort sem þar er byggð eða svæði til útiveru sem umferðin hefur áhrif á. Hver blettur borgarinnar er mögulegur áfangastaður.
Reynsla og styrkleikar Vegagerðarinnar hafa helst verið við þjóðvegagerð í dreifbýli en nokkur núningur hefur verið milli borgarhönnuða og Vegagerðar um hvaða stefnu skuli taka varðandi þjóðvegi í Þéttbýli. Nú stefnir í að fjárfestingar í fjölbreyttum samgöngum á Höfuðborgarsvæðinu verði auknar og því þörf á skýrri stefnumörkun. Á þeim tímamótum langar mig að viðra hugmynd.
Borgarumferð undir einn hatt
Umferð í dreifbýli og þéttbýli þarfnast ólíks kúltúrs í hugsun og krefst ólíkrar sérhæfingar í hönnun. Til að sérhæfing nái að blómstra þarf að rækta hana í réttu umhverfi. Tillaga mín er því að skipta upp hlutverki Vegagerðarinnar í tvær stofnanir. Önnur sinni uppbyggingu og rekstri vega í dreifbýli, um margt svipað og meginþunginn í starfsemi stofnunarinnar er í dag. Hins vegar verði sett á fót ný stofnun sem sinni samgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem samþætti stjórnun allra samgöngumáta á því svæði. Sú stofnun verði undir sameiginlegri stjórn og fjármögnun Ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í hlutfalli við framlög.
Þörf fyrir eindrægni
Ýmis rök hníga einnig til þess að unnið sé markvissar með lausn ferðaþarfar fólks á höfuðborgarsvæðinu og að mögulegt sé að leysa ferðaþörfina betur án tillits til fararmáta undir einum hatti. Opinber stefnumörkun í þessum efnum er sumpart plöguð af því að um er að ræða samkeppni milli stofnana sem hver sinnir sínum fararmáta. Þótt hlutverkin virðist lík falla markmiðin ekki alltaf hvert að öðru. Stofnun sem hefði það hlutverk að koma fólki á milli staða óháð fararmáta gæti betur tekist á við það verkefni og fjárfest þar sem ábatinn er mestur. Fyrirmynd að þessu fyrirkomulagi er til dæmis Transport for London, félags sem sinnir öllum samgöngum innan Lundúna svæðisins.
Tækifæri fyrir Akureyri
Hin stofnunin, sem væri ekki mjög ólík Vegagerðinni sem við þekkjum í dag, þyrfti því ekki lengur að vera staðsett í Reykjavík en gæti til dæmis flust til Akureyrar. Það væri Íslandi hollt að hafa annað borgarsvæði sem gæti veitt höfuðborgarsvæðinu mótvægi og samkeppni. Það er styrkur að því að hafa aðra borg líkt og Árósar eru gagnvart Kaupmannahöfn, Gautaborg gagnvart Stokkhólmi, Björgvin gagnvart Ósló og svo framvegis. Flutningur svo stórs vinnustaðar fyrir vel menntað starfsfólk gæti verið verulegur styrkur fyrir vöxt Akureyrar sem annarrar borgar Íslands.