Þegar lífeyrissjóðunum var komið á fót á sínum tíma var hugsunin sú að söfnun í sjóðina myndi hækka eftirlaunagreiðslur og bæta lífsgæði fólks á efri árum. Fólk átti að geta hætt að vinna áhyggjulaust þegar að starfslokum kæmi og notið sparnaðar síns. Greiðslur úr lífeyrissjóðum áttu að bætast við sanngjarnar greiðslur almannatrygginga.
Ein mest aðkallandi spurning samtímans þegar kemur að kjaramálum er sú hvort þetta kerfi sé í raun og veru að virka. Eru launþegarað njóta góðs af lífeyrissparnaði sínum? Hefur ríkisvaldið kippt stoðunum undan þessu kerfi?
Sátt um sparnað
Á meðal aðila vinnumarkaðarins hefur ríkt góð sátt um það markmið, að byggja upp öflugan sparnað í gegnum lífeyrissjóðina. Á undanförnum árum hafa aðildarfélög ASÍ unnið að því að jafna lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Stórt skref var stigið í tengslum við hið svokallaða rammasamkomulag þar sem samið var um að mótframlag atvinnurekenda yrði hækkað upp í 11,5% eða um 3,5 prósentustig. Þar með er búið að móta grundvöll fyrir því að réttindaávinnsla iðgjalda í lífeyrissjóði geti skilað sjóðfélögum 72% af meðalævitekjum viðkomandi. Fyrir breytinguna voru iðgjöld að veita að lágmarki 56% af meðalævitekjum þess sem greitt hafði í lífeyrissjóð af öllum launum. Það sér hver maður að þegar þessi hækkun er farin að skila sér í vasa þeirra sem hafa greitt hækkað iðgjald heila starfsævi þá getur munað verulega um þennan sparnað á efri árum.
Grimmilegar skerðingar
Allt er þetta til sóma. En víkjum þá að afskiptum ríkisvaldsins. Þetta góða kerfi hefur aldrei fengið að standa í friði. Vegna ágangs ríkisvaldsins fær kerfið ekki að skila árangri, óhindrað. Þetta er sorglegt. Ríkisvaldið virðist ekki getað unað við þá hugsun, að fólk fái að njóta sparnaðar á efri árum. Einkar grimmilegum skerðingum er beitt af hálfu ríkisins. Launþegar sem spara í lífeyriskerfinu fá minna úr almannatryggingakerfinu, nánast sem sparnaði sínum nemur. Þannig kemur ríkisvaldið aftan að launþegum. Spurningin er orðin stór og aðkallandi: Af hverju á fólk að spara kaupið sitt núna, ef sparnaðurinn leiðir einungis til skerðinga á öðrum tekjum síðar? Viljum við virkilega að það sé betra að sleppa því að spara?
Afskipti ríkisins af kjaramálum
Í tengslum við gerð kjarasamninga verður auðvitað að ræða þessi mál. Fulltrúum ríkisvaldsins er tíðrætt um að aðkoma ríkisins eigi að vera sem minnst, og að aðilar vinnumarkaðarins eigi að sjá um að semja sín á milli. Fjármálaráðherra ítrekaði þetta sjónarmið í ræðustól Alþingis fyrir skömmu. Það er gott og gilt. Það sem flækir málið er hins vegar sú staðreynd, að ríkisvaldið virðist ekki tvínóna við að stíga inn í kjaramálin þegar kemur að því að kippa grundvellinum undan kerfum sem vinnumarkaðurinn hefur með samningum komið á fót. Á meðan svo er, þá er ríkisvaldið auðvitað ákaflega stór aðili að kjarasamningum og verður að koma að borðinu. Ríkið getur ekki sífellt hoggið úr launsátri, eftir á.
Á skjön við heilbrigð markmið
Það er sjálfsögð krafa almennings að þessum skerðingum verði alfarið hætt enda eigum við að tryggja öllum mannsæmandi ellilífeyri. Lífeyrissparnaður er afrakstur vinnu fólks og á ekki að leiða til skerðinga á kjörum síðar. Það á ekki að refsa fólki fyrir að spara.
Afskipti ríkisins eru hróplega á skjön við heilbrigð markmið vinnumarkaðarins. Sama er uppi á teningnum þegar kemur að málefnum öryrkja. Á vinnumarkaði er keppt að því að öryrkjar geti aflað sér tekna og lagt fyrir, þrátt fyrir skerta starfsgetu. Ríkisvaldið hins vegar vinnur gegn slíkum markmiðum. Fólk festist í láglaunagildrum hins opinbera. Ef tækifæri gefst til að afla einhverra tekna er hver króna tekin af viðkomandi með skerðingum Tryggingastofnunar. Allir bjargir eru bannaðar. Jafnvel vaxtatekjur af sparnaði eru teknar inn í skerðingarútreikninga.
Óréttlát stefna
Á sama tíma og þessar skerðingar eiga sér stað, styður hið opinbera dyggilega við bakið á þeim sem eiga fyrirtæki, taka arðgreiðslur út úr fyrirtækjum og greiða sáralítið til samfélagsins og samneyslunnar.
Svona eru afskipti ríkisins. Næst þegar fjármálaráðherra segir að ríkið eigi ekki að skipta sér af kjaraviðræðum, mætti hann gjarnan íhuga þessi mál af meiri dýpt. Hann mætti hugsa um skerðingarnar og hvernig þær eru einmitt dæmi um frekleg afskipti af kjaramálum. Fátt myndi hafa betri áhrif á vinnumarkaðinn, en ef ríkisvaldið myndi hætta þessum skerðingum á tekjum þeirra sem verst hafa það í samfélaginu. Þar er boltinn hjá Bjarna.
Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 2. varaforseti Alþýðusambands Íslands.