Nýverið kom fram skýrsla frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands varðandi hvalveiðar. Í henni var því m.a. haldið fram að ef við Íslendingar gætum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að minnka hvalastofna hér við land um sirkabát 40%, þá gætum við hinir sömu lukkulegu landar mögulega átt von á tugmilljarða hagnaði í útflutningstekjum. Fullt af seðlum. Þetta er ekki grín. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lagði þetta til.
Hagfræðistofnun Háskóla Ísland hefur vafalítið sér til málsbóta að styðjast við svokallaðar „rannsóknir“ Hafrannsóknarstofnunar Íslands. Einkum þær sem varða hjákátlega einfalda formúlu Hafrannsóknarstofnunar Íslands hér á árum áður, sem snerist um svonefnt „fjölstofnalíkan“. Þessu var hampað af Gísla Víkingssyni og yfirmanni hans sem frábæru reiknilíkani um það hvernig setja mætti í einn hóp, svona þrjár hvalategundir, rækju og loðnu og láta síðan rosalega flott algrím reikna út hvort að í þessu gæti ekki mögulega falist ávinningur fyrir landann. Með því að drepa hvali.
Þetta „hermilíkan“ er innantómur haldlaus þvættingur og það er ekkert að marka það. Enda hefur því hefur margsinnis verið hafnað af fræðasamfélaginu sem vitleysu. Það getur hver sæmilega viti borinn líffræðingur sagt sér. Hann þarf ekki einu sinni að vera sjávarlíffræðingur. Það er meira að segja einfaldlega ekki hægt að halda því fram, að það að útrýma öllum hvalastofnum hér við land leiði til „aukinna útflutningstekna“ Íslendinga. Það er ekki til ein einasta „vísindaleg“ skýring á slíkri niðurstöðu. Hvað þá að það felist mögulegur ávinningur í því að „fækka hvalastofnum um 40%“.
Sjálfur Gísli Víkingsson, sá hinn sami sem lætur taka af sér portrett – mynd þar sem hann glottuleitur heldur um skutul, gæti ekki komið fram með haldbær rök fyrir viðlíka bulli. Þetta veit hann. En Hafrannsóknarstofnun Íslands hefur haldið úti þessum hugmyndum um áratuga skeið með þeim árangri að sumir skipperar eru þess ævinlega albúnir að væla kjökrandi í blöðin ef að hvalir torvelda veiðar þeirra. Og furðulega margir Íslendingar taka hjartanlega undir þennan söng. Drepum hvali og græðum!
Nú ber svo við að öllu einfaldari skýringar eru á þessu háttalagi hunds um nótt. Hagfræðistofnun Háskóla Ísland fékk sumsé greiddar sex milljónir í sinn hlut til þess að gera okkur Íslendingum grein fyrir því að okkur væri nær að drepa þúsundir hvala til þess að vera í betri málum. Það var og. Þessi sama Hagfræðistofnun Háskóla Ísland leggur samt ekki neitt mat á mögulegar útflutningstekjur okkar af þessum tugþúsundum tonna af hvalkjöti. Samt eru dæmin nærtæk.
Kristján Loftsson hefur verið að baslast við að senda einhver tonn af hvalkjöti sínu til Japans yfir hálfan hnöttinn, þar sem engir aðrir en fátækir öldungar kaupa þvestið. Niðurgreitt af yfirvöldum. Og nú leggur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að við Íslendingar stöndum fyrir viðurstyggilegu blóðbaði þar sem tugþúsundum hvala verður slátrað í nafni „aukinna útflutningstekna.“
Að þessu sögðu þykir mér tilhlýðilegt að spyrja Hafrannsóknarstofnun Íslands að því hversu margar milljónir silfurpeninga sú stofnun hefur fengið í sinn hlut við það undirbyggja svona skrípalæti.