Fróðlegt hefur verið að fylgjast með fyrstu viðbrögðum við vandaðri skýrslu þeirra Indriða Þorlákssonar og Stefáns Ólafssonar um íslenska tekjuskattskerfið. Í fyrstu ríkti þögn eins og menn áttuðu sig ekki á því að skýrslan er afar vönduð og skrifuð af yfirburða þekkingu – og sætir þannig miklum tíðindum í íslenskri þjóðmálaumræðu. En björninn vaknaði á sunnudagsmorgun í Silfrinu.
Mér sýnist að því verði vart í móti mælt að tekjuskattsbyrði á Íslandi hafi færst á undanförnum áratugum frá þeim tekjuhæstu til þeirra sem minnstar hafa tekjurnar. Sumir halda því fram að þetta hafi allt gerst samkvæmt leikreglum lýðræðisins. Það er þó því miður aðeins hálfsannleikur, því að músin sem læðist á það til að gabba fólk til verka í smáskömmtum þannig að fáir geri sér grein fyrir hvað í þeim felst, og slíkt getur ekki talist til lýðræðis.
Þetta er rakið og útskýrt í skýrslunni allar götur frá 1993 eða svo, til dæmis hvernig skattar af hæstu tekjum hafa verið lækkaðir vísvitandi og skattleysismörkum haldið föstum í krónutölu milli ára með þeim afleiðingum – sem voru auðvitað fyrirsjáanlegar ef menn hefðu viljað sjá – að skattbyrði á láglaunafólk jókst mjög. En þessa sögu má rekja lengra aftur í tímann.
Þessi aðferð var ekki bara notuð óspart í fjárveitingum heldur einnig til dæmis í ákvörðunum í fjárlögum um álagningu tekjuskatts. Í skattstiga eru settar niður tölur sem ákvarða til dæmis skattleysismörk og tekjumörk þar sem álagningarprósentan breytist (yfirleitt til hækkunar með vaxandi tekjum). Hinar ýmsu ríkisstjórnir eftirstríðsáranna komust að því að þær gátu – svo að lítið bæri á -- haldið þessum krónutölum föstum frá ári til árs. Þannig leit út fyrir að ekkert hefði breyst í skattakerfinu milli ára, þegar reyndin var hins vegar sú, vegna verðbólgu og launahækkana, að bæði hækkuðu skattar á lægstu tekjur verulega og auk þess fækkaði þeim sem greiddu enga skatta vegna lágra tekna. Með þessari aðferð fékk ríkisstjórn hvers tíma kærkomna hjálp við það erfiða verkefni að hækka tekjur ríkissjóðs til móts við vaxandi verkefni hans á þessum tíma, vegna hvers konar innviða svo sem velferðarmála, skólahalds, heilbrigðismála, samgöngumála og svo framvegis.
Flokkarnir sem standa að núverandi ríkisstjórn hafa samtals 35 þingmenn af 63. Af þessum 35 eru 16 sjálfstæðismenn en þeir hafa, með þegjandi samþykki hinna 19, hagað sér eins og þeir væru 20-25, en það eru gamlar tölur sem kjósendur hafa breytt. Þannig hefur hingað til stefnt í það að þessi stjórn yrði í raun skráð á blöð sögunnar sem hægri stjórn. En ef hún snýr nú við blaðinu eins og hér er lagt til, þá yrði hún kannski kölluð miðjustjórn eins og flestir hefðu væntanlega gert ráð fyrir þegar hún var mynduð.
Höfundur er prófessor á eftirlaunum og áhugamaður um þjóðfélagsmál.