Mynd: Bára Huld Beck

Vilja lækka skatta á alla sem eru með undir 900 þúsund krónur á mánuði

Í skýrslu um breytingar á skattkerfinu sem unnin var fyrir Eflingu eru lagðar til róttækar breytingar á skattkerfinu sem eiga að lækka skatta á 90 prósent framteljenda. Til þess þarf ríkið að auka tekjur sínar um tugi milljarða. Skýrsluhöfundar leggja til að það verði gert með auknum álögum á hátekjuhópa, stóreignafólk, auknu skatteftirliti og stóraukinni skattheimtu fyrir nýtingu auðlinda.

Koma þarf á stíg­andi skatt­kerfi með fjórum til fimm skatt­þrep­um, hækka þarf fjár­magnstekju­skatt til sam­ræmis við það sem almennt tíðkast á hinum Norð­ur­lönd­unum og breyta skatt­lagn­ingu rekstr­ar­hagn­aðar til sam­ræmis við skatt á launa­tekj­ur. Þá þarf að bæta fram­kvæmd reikn­aðs end­ur­gjalds sjálf­stætt starf­andi aðila þannig að end­ur­gjaldið verði einnig látið taka til fjár­mála­starf­semi, leggja þarf á stór­eigna­skatt með frí­tekju­marki fyrir eðli­legt verð­mæti íbúð­ar­hús­næð­is, sum­ar­húsa og einka­bif­reiða og sann­gjörn auð­linda­gjöld „fyrir allar atvinnu­greinar sem nýta sam­eig­in­legar auð­lindir þjóð­ar­inn­ar.”

Þá þarf að efla skatt­eft­ir­lit og herða eft­ir­fylgni skatt­rann­sókna og dóma.

Þetta eru helstu aðgerðir og til­lögur sem lagðar eru fram í skýrslu sem Stefán Ólafs­son, pró­fessor við Háskóla Íslands, og Ind­riði H. Þor­láks­son, fyrr­ver­andi rík­is­skatt­stjóri og um tíma ráðu­neyt­is­stjóri í fjár­mála­ráðu­neyt­inu í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu Sig­urð­ar­dótt­ur, hafa unnið fyrir Efl­ingu stétt­ar­fé­lag.

Skýrslan ber nafnið „Sann­gjörn dreif­ing skatt­byrð­ar: Hvernig leið­rétta má stóru skatta­til­færsl­una án þess að veikja vel­ferð­ar­kerf­ið“ og var kynnt í morg­un.

Til­lög­urnar eiga að færa lág­launa­fólki og líf­eyr­is­þegum á milli 20 og 29 þús­und króna lækkun á stað­greiðslu á mán­uði og sam­kvæmt þeim myndu um 90 pró­sent fram­telj­enda fá skatta­lækk­un. Þannig myndu allir með tekjur að um 900 þús­und krónum á mán­uði fá skatta­lækkun ef til­lög­unum yrði hrint í fram­kvæmd, sam­kvæmt skýrsl­unni.

Lítil breyt­ing yrði á skatt­byrði næstu fimm pró­sent­anna, þeirra sem eru með tekjur á bil­inu 900-1.300 þús­und krónur á mán­uði, sam­kvæmt mati skýrslu­höf­unda en tekju­hæstu fimm pró­sent lands­manna, myndu fá hækk­aða skatt­byrði.

Þarf að auka tekjur rík­is­sjóðs um tugi millj­arða

Skýrslan er unnin til að vera inn­legg í yfir­stand­andi kjara­við­ræður en fyrir liggur krafa verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar um að stjórn­völd komi til móts við skjól­stæð­inga hennar með skatt­kerf­is­breyt­ingum og end­ur­reisn milli­færslu­kerfa ef þær eiga að slá af launa­hækk­un­ar­kröfum sínum sem settar voru fram í kröfu­gerðum í aðdrag­anda við­ræðn­anna.

Sam­hljómur er á milli þeirra til­lagna sem lagðar eru fram í skýrslu Stef­áns og Ind­riða og þeirra sem mið­stjórn Alþýðu­sam­bands Íslands (ASÍ) sam­þykkti nýver­ið. Í þeim fólst að sett verði á fjögur skatt­­þrep, lagður verði á hátekju­skatt­­ur, tek­inn verði upp að nýju auð­legð­ar­skattur og skatta­yf­­ir­lit aukið veru­­lega til að fjár­­­magna þessar til­­lög­­ur.

Drífa Snædal, for­seti ASÍ, ræddi þær til­lögur í sjón­varps­þætt­inum 21 á Hring­braut í gær­kvöldi og sagði þar að hún reikn­aði með því að „það sé hug­­mynda­fræð­i­­legur ágrein­ingur innan stjórn­­­valda, innan rík­­is­­stjórn­­­ar­inn­­ar“ um hvernig eigi að breyta skatt­kerf­inu.

Í skýrslu Stef­áns og Ind­riða kemur fram að skatta­hækkun hæsta tekju­hóps­ins myndi ekki duga til að bæta hinu opin­bera upp tekju­tap þess vegna lægri skatta á lægri tekj­ur. Um 30 millj­arða króna myndi nettó vanta upp á. Því þyrfti að nota annað svig­rúm sem sé í rík­is­fjár­málum til að við­halda sömu ráð­stöf­un­ar­tekjum hins opin­bera. „Það mætti til dæmis gera með nýt­ingu þeirra 14 millj­arða sem rík­is­stjórnin hefur þegar eyrna­merkt til skatta­lækk­ana. Að auki mætti taka um 16 millj­arða af tekju­af­gangi á fjár­lög­um, það er lækka afgang­inn úr 29 í 13 millj­arða, til að brúa upp í um 30 millj­arða nettó kostn­að­inn sem fyrstu útfærsl­unni fylg­ir. Þetta skref væri því mjög auð­velt í fram­kvæmd,“ segir í skýrsl­unni.

Auk þess eru lagðar fram það sem kall­aður eru metn­að­ar­fyllri útfærslur með meiri skatta­lækk­unum og þar af leið­andi meiri kostn­aði sem þyrfti að brúa með öðrum hætti. Skýrslu­höf­undar telja þær útfærslur þó „ágæt­lega ger­leg­ar“.

Þær leiðir sem þar eru kynntar eru bæði ódýr­ari og dýr­ari fyrir rík­is­sjóð að hrinda í fram­kvæmd. Ein útfærslan felur til að mynda í sér að per­sónu­af­sláttur og skatt­leys­is­mörk yrðu hækkuð með þeim afleið­ingum að skatta­lækkun lægstu tekju­hópa fari mest í 24 þús­und krónur á mán­uði og hækkun skatt­byrðar á efri tekju­hópa verður ívið minni vegna þess að per­sónu­af­slátt­ur­inn gengur upp tekju­stig­ann. Sú útfærsla myndi kosta rík­is­sjóð um 37 millj­arða króna nettó sem skýrslu­höf­undar benda á að sé innan við­miða sem getið var um í sam­eig­in­legri skatta­stefnu ASÍ um ásætt­an­legan kostnað af skatta­breyt­ing­um, en þar voru efri mörk sett við 40 millj­arða króna.

Í skýrsl­unni er einnig sýnd útfærsla sem myndi kosta rík­is­sjóð um 48 millj­arða króna nettó. Í henni felst að per­sónu­af­sláttur sé hækk­aður í 70 þús­und krónur á mán­uði og skatt­leys­is­mörk í 215 þús­und á mán­uði. „Þar má sjá að þeir sem eru með tekjur á bil­inu 350-400 þús­und kr. á mán­uði gætu fengið hátt í 29.000 kr. skatta­lækkun á mán­uði. Vegna hins háa per­sónu­af­sláttar í þessu dæmi myndi skatta­lækkun ná alveg upp undir 1.200.000 króna tekjur á mán­uði og hækkun skatta á hæstu tekjur yrði heldur minni en í fyrri útfærsl­u­m,“ segir í skýrsl­unni.

Leggja til nýjar tekju­öfl­un­ar­leiðir

Stefán og Ind­riði leggja, líkt og áður sagði, fram ýmsar leiðir sem rík­is­sjóður getur farið til að borga fyrir þessar skatta­lækk­anir án þess að það fé sem hann er með til ráð­stöf­unar skerð­ist. Þær snúa allar að því að færa til skatt­byrð­ina, þ.e. af flestu launa­fólki og yfir á ann­ars konar skatt­greið­end­ur.

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar, en skýrslan var unnin fyrir það stéttarfélag.
Mynd: Bára Huld Beck

Í skýrsl­unni er einnig fjallað um þá „sem hafa þann starfa að sýsla við hirð­ingu eigin fjár, oft kall­aðir fjár­fest­ar, athafna­menn o.s.frv. hvort sem er í eigin nafni eða fyrir hönd eigin einka­hluta­fé­lags“. Þeir eru sagðir hafa þá sér­stöðu nær einir starf­andi manna að þurfa ekki að reikna sér laun fyrir vinnu sína eða geta reiknað sér lág laun, til dæmis lagað þau að skatt­leys­is­mörk­um. „Verður ríkið þá af veru­legum tekjum og sveit­ar­fé­lögin missa af útsvari nema að því leyti sem ríkið greiðir þeim sem ónýttan per­sónu­af­slátt upp í útsvar. Tryggja þarf jafn­ræði í tekju­skatt­lagn­ingu með því að loka þessum leiðum til skatta­hag­ræð­ing­ar. Nýlegar upp­lýs­ingar sýna að fjöldi tekju­hárra og efn­aðra borg­ara kom­ast hjá því að borga skatta með þessum hætti og með öðrum leiðum sem almennum borg­urum standa ekki til boða, svo sem að fela tekjur í eign­ar­halds­fé­lögum og taka þær ekki út nema að hluta og þá sem fjár­magnstekj­ur.“

Þeir leggja meðal ann­ars til að ákveðið lág­mark heild­ar­tekna (launa -og fjár­magnstekna) ein­stak­linga verði skatt­lagt sem almennar tekj­ur, að reglur um reiknað end­ur­gjald verði látnar ná til allrar atvinnu­starf­semi en fjár­mála­starf­semi o.fl. verði ekki und­an­skilin eins og nú er. og að tekjur og eigna­myndun ein­stak­linga í einka­hluta­fé­lögum sem ekki sinna raun­veru­legri atvinnu­starf­semi (sölu á vörum eða þjón­ustu) verði skatt­lögð hjá eig­endum þeirra og eign­ar­halds­fé­lög sem ekki hafa með höndum atvinnu­starf­semi verði ekki sjálf­stæðir skatta­að­il­ar.

Sér­stakur stór­eigna­skattur er lagður til og sam­kvæmt til­lög­unum ætti hann að vera á bil­inu 1-1,5 pró­sent á öll verð­mæti umfram frí­tekju­mark sem ætti að mið­ast við eðli­legt verð­mæti íbúð­ar­hús­næð­is, sum­ar­húsa og einka­bif­reiða til eigin afnota.

Auð­linda­gjöld í sjáv­ar­út­vegi verði síðan miðuð við að þjóðin fái í sinn hlut að minnsta kosti 75 pró­sent af umfram­arði í atvinnu­grein­inni með veiði­gjöldum og/eða upp­boði á kvóta. Til að byrja með leggja skýrslu­höf­undar til að veiði­gjöld verði hækkuð veru­lega og „óháðum erlendum aðila verði falið að leggja mat á auð­lindaarð í sjáv­ar­út­vegi sem frek­ari breyt­ingar verði byggðar á.“ Til við­bótar leggja þeir til að svo­kallað orku­gjald verði lagt á orku­sölu til stór­iðju sem mið­ist við mis­mun á verði til stór­iðju hér á landi og verð á orku til iðn­aðar í Evr­ópu, að teknu til­liti til fjar­lægð­ar­á­hrifa, að auð­linda­gjald verði lagt á öll önnur leyfi til nýt­ingar á nátt­úru­legum auð­lindum eins og vegna fisk­eldis eða náum­vinnslu og að kann­aðar verði leiðir til að leggja auð­linda­gjald á þá aðila sem fengið hafa einka­rétt til nýt­ingar á nátt­úru­auð­lindum til ferða­þjón­ustu.

Í skýrsl­unni segir að ofan­greindar leiðir gætu „skilað tugum millj­arða auka­lega til sam­eig­in­legra þarfa þjóð­ar­innar og kjara­bótum fyrir almenn­ing. Svig­rúm rík­is­ins til leið­rétt­ingar á stóru skatta­til­færsl­unni er því í reynd mik­ið.“

Vilja stór­auka skatta­eft­ir­lit

Mikið púður í skýrsl­unni fer einnig í að setja fram til­lögur um bætt skatta­eft­ir­lit. Höf­undar segja að sá veik­leiki sé í með­ferð skatta­svika­mála „að brot á skatta­lögum verða oft­lega ekki opin­ber eins og ger­ist með önnur laga­brot sem framin eru, rann­sökuð og sæta ákæru­með­ferð. Þegar sá sem brotið hefur skatta­lög verður þess var að hann sætir skatt­eft­ir­liti getur hann sent inn leið­rétt­ingu á fram­tali sínu áður en form­leg skatt­rann­sókn hefst og síðan greitt álögur og sektir skv. skatta­lögum og þannig kom­ist hjá því að brotin verði opin­ber, jafn­vel þótt und­an­skotin séu stór­felld, ásetn­ing­ur­inn aug­ljós og brotin gróf.“

Þeir leggja til að eft­ir­lits­starf skatt­yf­ir­valda og skatt­rann­sókna verði eflt og sjálf­stæði þeirra gagn­vart hugs­an­legum áhrifum póli­tískra afla styrkt. „Auk­inn mann­afli í þessi verk­efni er lyk­ill að árangri og góð fjár­fest­ing því marg­sannað er að gott skatt­eft­ir­lit skilar rík­is­sjóði marg­földum kostn­að­inum til baka auk þess að tryggja jöfnuð og sann­girni í sam­fé­lag­in­u.“

Þá vilja skýrslu­höf­undar að gerð verði úttekt á  skipu­lagi skatt­eft­ir­lits og skatt­rann­sókna með teknu til­liti til skil­virkni og sam­spils þeirra við rétt­ar­kerfið og end­ur­skoða máls­með­ferð, að eft­ir­lit með stór­fyr­ir­tækjum og við­skiptum yfir landa­mæri verði eflt og að ákvæði um keðju­á­byrgð verði lög­fest ásamt bann við atvinnu­starf­semi þeirra sem ger­ast brot­leg­ir.

Skýrslu­höf­undar leggja til að gerð verði úttekt á tekju- og eigna­myndun sem ekki komi fram í skatt­skilum ein­stak­linga og lög­að­ila þar sem ætla megi „ að miklar eignir séu duldar í einka­hluta­fé­lög­um, m.a. vegna eigna sem færðar hafa verið á kaup­verði og síðan afskrif­að­ar. Þetta getur átt við um hluta­bréf, fast­eignir hér á landi og erlend­is. Árs­reikn­ingar gefa ekki rétta mynd af eignum félags­ins og því skatta­lega hag­ræði sem það veit­ir.“

Þeir vilja einnig að lög­fest verði skylda íslenskra aðila sem eiga ráð­andi hlut í í erlendu félagi sem skráð eru í landi sem hefur ekki sam­bæri­legar reglur um skrán­ingu félaga og Ísland, að skrá það á Fyr­ir­tækja­skrá hér á landi, skila árs­reikn­ingum til Árs­reikn­inga­skrár og skatt­fram­tali sam­kvæmt íslenskum regl­um. Það myndi til að mynda eiga við eig­endur þeirra aflands­fé­laga sem opin­beruð voru í Panama­skjöl­unum vorið 2016.

Þá er lagt til að raun­veru­legir eig­endur allra félaga séu skráðir og að upp­lýs­ingar um þá liggi fyrir í Fyr­ir­tækja­skrá Rík­is­skatt­stjóra og að lög­festar verði á Íslandi laga­reglur sem séu sam­bæri­legar þeim sem sé að finna í reglu­gerð Evr­ópu­sam­bands­ins gegn skattaund­anskot­um, en hún kom til fram­kvæmda um síð­ustu ára­mót. Í henni fel­ast fimm skil­greindar aðgerðir sem eiga að vinna gegn skattsvik­um.

Segja til­lög­urnar stuðna að sann­gjarn­ara skatt­kerfi

Stefán og Ind­riði segja í skýrsl­unni að tekju­skatt­kerfið sem þeir útfæra í henni sé „ekki aðeins sann­gjarn­ara og skil­virkara en núver­andi skatt­kerfi. Það myndi leið­rétta að hluta hina stóru og órétt­látu skatta­til­færslu sem hér varð fyrir til­stilli stjórn­valda, án þess að það væri kynnt eða rætt í sam­fé­lag­inu. Til­færslan fór að mestu leynt. Þær útfærslur sem kynntar eru í skýrsl­unni myndu að auki jafna ráð­stöf­un­ar­tekjur milli kynj­anna, því konur eru að mestu leyti í þeim tekju­hópum sem fengju mestu skatta­lækk­un­ina. Karlar eru oftar í hátekju­hóp­unum sem fengju skatta­hækk­un.“ 

Umbæt­urnar yrðu því stórt skref til jöfn­unar á afkomu kynj­anna.

Þá myndi hagur elli­líf­eyr­is­þega og öryrkja sér­stak­lega bæt­ast ef farið yrði í útfærsl­urn­ar, að mati skýrslu­höf­unda, þar sem að það fólk sé að  stærstum hluta í þeim tekju­hópum sem fengju mesta skatta­lækk­un. „Einnig væri þetta skatt­kerfi hag­stæð­ara ungu fólki á vinnu­mark­aði sem er að hefja starfs­feril og stofna fjöl­skyldu, ekki síst ef leið­rétt­ing barna­bóta og hús­næð­is­stuðn­ings, sem að er stefnt í stefnu­mörkun ASÍ, nær fram að ganga.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar