R-listablokkin

Nýjar víglínur að teiknast upp á átta flokka Alþingi

Þrír flokkar virðast vera að mynda óformlega samstarfsblokk yfir miðju stjórnmálanna sem myndi gera henni kleift að vinna með annað hvort Vinstri grænum eða Framsókn í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Vendingar vegna Klausturmálsins og ris Sósíalistaflokksins hefur breytt viglínunum á þingi og mögulegum ríkisstjórnarmynstrum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó sýnt af sér ótrúlega seiglu við að halda völdum og sigra kosningar þrátt fyrir minnkandi fylgi.

Að óbreyttu verður næst kosið til Alþingis vorið 2021. Hald­ist sú tíma­lína mun það verða í fyrsta sinn sem rík­is­stjórn hefur setið út það tíma­bil sem hún ætl­aði sér í krafti þess umboðs sem kjós­endur veittu henni frá því að rík­is­stjórn Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur haltr­aði yfir lín­una 2013.

Síð­ustu kosn­ingar hafa allar verið haldnar í kjöl­far mik­illa póli­tískra tíð­inda og nið­ur­stöð­urnar sem hafa komið upp úr kjör­köss­unum hafa skilað þingi sem er ólíkt því sem áður hefur þekkst. Árið 2016 voru sjö flokkar kjörnir á þing. Árið síðar urðu þeir átta. Sama var uppi á ten­ingnum í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum 2018.

Stjórn­mála­menn eru að átta sig á því betur og betur að þetta er sá veru­leiki sem mun að öllum lík­indum verða normið í íslenskum stjórn­málum næstu miss­erin hið minnsta. Tími sterkra tveggja flokka rík­is­stjórna er lið­inn, að minnsta kosti um sinn, og aukin fjöl­breytni í sam­setn­ingu þjóð­ar­inn­ar, minni tryggð við stjórn­mála­flokka og hraðar sam­fé­lags­breyt­ingar mun áfram hafa þær afleið­ingar að sífellt fleiri muni keppa um athygli kjós­enda.

Þeir flokkar sem sitja á þingi hafa vissu­lega gert sitt til að auka for­skot sitt á aðra sem eru ekki þegar komnir inn fyrir þrösk­uld­inn. Það birt­ist helst í gríð­ar­legri aukn­ingu á greiðslum úr rík­is­sjóði til stjórn­mála­flokka. Þær greiðslur voru hækk­aðar um 127 pró­sent á milli áranna 2017 og 2018 og í ár skipta flokk­arnir átta sem eiga full­trúa á Alþingi með sér 744 millj­ónum króna. Auk þess hefur starf­semi þeirra verið styrkt veru­lega með auknum fram­lögum til ráðn­ingu aðstoð­ar­manna.

Litið á kjör­tíma­bilið sem upp­bygg­ing­arfasa fyrir það næsta

Af sam­tölum við áhrifa­fólk í stjórn­málum dags­ins í dag er ljóst að margir eru að spila leik­inn til lengri tíma ekki síður en að takast á við mál­efni dags­ins í dag. Margir eru að horfa til næstu kosn­inga. Og blokkir flokka sem eiga fleiri sam­eig­in­lega fleti en aðrir eru klár­lega að mynd­ast.

Við­mæl­endur innan Sam­fylk­ingar og Við­reisnar fela ekki þá skoðun sína að þeir líti á yfir­stand­andi kjör­tíma­bil sem tæki­færi til að byggja flokk­ana upp og gera alvöru atlögu að valda­stólum vorið 2021, þá í sam­floti með Píröt­um.

Það vakti tölu­verða athygli nýverið þegar Logi Ein­ars­son, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, opin­ber­aði hvar vilji hans lægi við stjórn­ar­myndun í við­tali við Mann­líf. Þar sagði hann: „Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmti­­legum og góðum málum á dag­­skrá ef við myndum mynda rík­­is­­stjórn frá miðju til vinstri þar sem Sam­­fylk­ingin væri kjöl­­fest­u­­flokkur og við hefðum svo Við­reisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okk­­ur.“

Logi ræddi þetta einnig í sjón­varps­þætt­inum 21 á Hring­braut í nóv­em­ber á síð­asta ári. Þar sagði hann að sér hefði lengi þótt ákjós­an­leg sú til­hugsun að flokkar færu með­vit­aðri og upp­lýst­ari inn í kosn­ingar og gæfu kjós­endum sínum skýr­ari skila­boð um hvað þeir ætli að gera. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, for­maður Við­reisn­ar, tók undir með honum og sagði tvo ása vera til staðar í íslenskum stjórn­mál­u­m. „Það er frjáls­lynd­i-ás­inn. Svo er íhaldsami-ásinn, en það má líka kalla hann Trump-ás­inn. Hann er birt­ing­ar­mynd þess sem ákveðnir flokk­ar, eða hópar innan ákveð­inna flokka, vilja standa frammi fyr­ir. Ég vona að íslenskir kjós­endur fari að átta sig á nákvæm­lega þessu. Það hefur oft verið gaman í póli­tík en þetta eru mjög áhuga­verðir og skemmti­legir tím­ar.“Þessar yfir­lýs­ingar end­ur­spegla það sýni­lega sam­starf stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna þriggja sem þegar á sér stað, og þá lítið földu stað­reynd að uppi­staða þing­flokks Vinstri grænna ætti að geta átt ágætt sam­starf með þeim, með sama hætti og á sér stað í meiri­hluta borg­ar­stjórnar Reykja­vík­ur, þar sem hið nýja R-lista módel situr við völd.

Mið­flokk­ur­inn ein­angr­aði sjálfan sig

Það nýtil­komna sjálfs­traust end­ur­speglar stöð­una sem birst hefur í könn­unum það sem af er kjör­tíma­bili þar sem sam­eig­in­legur stuðn­ingur við Sam­fylk­ingu, Við­reisn og Pírata hefur vaxið úr 28 pró­sent í 40,9 pró­sent. Sam­eig­in­legt fylgi þeirra hefur ekki verið hærra á kjör­tíma­bil­inu og allir flokk­arnir þrír eru tölu­vert yfir kjör­fylgi.

Viltu styrkja frjálsan og óháðan fjölmiðil? Gerðu það hér:

Vertu með
Styrktu sjálfstæðan íslenskan fjölmiðil með mánaðarlegu framlagi.

Sam­an­lagt myndu þessir þrír þing­flokkar lík­lega bæta við sig um tíu þing­mönnum miðað við þær tölur og vera með 27. Það þyrfti því ein­ungis fimm til við­bótar til að vera með meiri­hluta á þingi.

Önnur ástæða þess að hin óform­lega sam­starfs­blokk er að verða form­legri er að finna í Klaust­ur­mál­inu. Með til­urð þess, og ekki síður því hvernig Mið­flokk­ur­inn hefur ákveðið að takast á við það, hefur flokk­ur­inn verið jað­ar­settur í íslenskum stjórn­mál­um. Fylgi hans mæld­ist 6,5 pró­sent í síð­ustu könnun Gallup og hefur því nán­ast helm­ing­ast frá síð­ustu kosn­ing­um.

Eng­inn núver­andi stjórn­ar­and­stæðu­flokkur mun starfa með þeim í rík­is­stjórn og afar ólík­legt verður að telj­ast að Sig­urður Ingi Jóhanns­son, sem fór gegn Sig­mundi Davíð í for­manns­slag haustið 2016, og Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, sem hefur kallað þá sem sátu á Klaustur bar ofbeld­is­menn sem eigi ekki að hafa dag­skrár­vald í sam­fé­lag­inu, muni ljá því máls að mynda með þeim stjórn ef slíkur mögu­leiki myndi opn­ast. Ólík­legt er auð­vitað ekki það sama og ómögu­legt, og muna verður að fras­inn „vika er langur í póli­tík“ er mikið not­aður vegna þess að hann er sann­ur.

Ef Fram­sókn er ekki mögu­leiki þá stendur eftir stærsti flokkur lands­ins, Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem mælist með 23,4 pró­sent fylgi og myndi aldrei geta borið Mið­flokk­inn til valda einn.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn seigur en sífellt í þrengri stöðu

Leið Sjálf­stæð­is­flokks­ins inn í enn eina rík­is­stjórn­ina virð­ist því fyrst og fremst liggja í gegnum það að við­halda núver­andi stjórn­ar­mynstri. Flokk­ur­inn hefur sýnt af sér ótrú­lega seiglu við að halda áhrifum sam­hliða því sem fylgi hans hefur fallið mjög frá því sem það var á árum áður. Hann hefur verið hryggjar­stykki í öllum rík­is­stjórnum sem mynd­aðar hafa verið hér­lendis utan einnar frá árinu 1991, eða í tæp­lega þrjá ára­tugi.

Styrk­leikar Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa legið í því að hann er, þrátt fyrir 23,7-29 pró­sent fylgi í síð­ustu fjórum kosn­ing­um, enn stærsti flokkur lands­ins og ómögu­legt hefur verið að mynda tveggja til þriggja flokka rík­is­stjórnir án hans frá 2013. Bjarni Bene­dikts­son, for­maður flokks­ins, sagði í við­tali við Þjóð­mál í fyrra­haust að tæki­færi flokks­ins hefði legið í því að vera kjöl­festa á umbrota­tím­um. Hann taldi ekki ómögu­legt að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn gæti náð fyrri styrk.

Bjarni slær á vanga­veltur um að hann sé að hætta

Mikið hefur verið rætt um það á meðal stjórn­mála­manna allra flokka hvort að Bjarni muni leiða Sjálf­stæð­is­flokk­inn í gegnum aðrar kosn­ing­ar. Hann hefur verið for­maður flokks­ins í tíu ár í mars og þótt hann hafi sýnt mikla póli­tíska seiglu með því að halda flokknum við völd, skilað oftar en ekki betri nið­ur­stöðu úr kosn­ingum en kann­anir gáfu til kynna og sé nú óskor­aður leið­togi eftir afar erfið fyrstu ár á for­manns­stóli, þar sem Hanna Birna Krist­jáns­dóttir gerði sér­stak­lega harða atlögu að hon­um, þá hefur Bjarni farið í gegnum fleiri póli­tíska brim­skafla en flest­ir.

Margir við­mæl­endur telja aug­ljóst að Bjarni vilji að Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, vara­for­maður flokks­ins, verði eft­ir­maður hans á for­manns­stóli. Það sjá­ist til að mynda á því að hann hafi gert hana að ráð­herra í tveimur rík­is­stjórnum fram yfir odd­vita kjör­dæmis henn­ar. Ekki er þó víst að Þór­dís sé val allra í flokknum og óljóst er um hversu sterkt bak­land hennar er til að verða fyrsti kven­for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, ákveði Bjarni að stíga til hliðar í nán­ustu fram­tíð.

Bjarni sjálfur gaf lítið fyrir slíkar bolla­legg­ingar í áður­nefndu við­tali og sagð­ist ekki vera far­inn að hugsa um að hætta. Svarið var þó ekki meira afger­andi en svo að hann sagð­ist ætla að „geyma mér allar vanga­veltur um það hversu lengi ég held áfram.“

Staðan er samt sem áður svo að fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins hefur farið hríð­lækk­andi í for­mennsku­tíð hans. Flokknum hefur gengið sér­stak­lega illa að höfða til yngra fólks og það er þróun sem honum hefur ekki tek­ist að snúa við í for­mann­s­tíð Bjarna.

Rík­is­stjórnin fallin ef kosið yrði í dag

Stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina hefur verið að þok­ast lít­il­lega upp síð­ust vik­ur, sér­stak­lega eftir Klaust­ur­mál­ið. Nú segj­ast 49 pró­sent, eða minni­hluti þjóð­ar­inn­ar, styðja hana. Skömmu eftir að rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur var mynduð mæld­ist stuðn­ingur við hana 74,1 pró­sent.

Stjórnarsamstarf þeirra ólíku flokka sem mynda ríkisstjórn virðist vera að ganga ágætlega og fátt sem bendir til þess að sprungur séu að myndast.
Mynd: Bára Huld Beck

Sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna er þó tölu­vert minna. Allir mæl­ast þeir undir kjör­fylgi. Mest myndu Vinstri græn (11,3 pró­sent fylgi) missa ef kosið yrði í dag, eða fjóra þing­menn, en Fram­sókn (8,8 pró­sent fylgi) myndi líka missa tvo.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn myndi tapa fylgi en halda sama fjölda þing­manna. Sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna mælist ein­ungis 43,5 pró­sent sem myndi skila þeim 29 þing­mönn­um. Það nægir ekki til að mynda meiri­hluta­stjórn. Þannig hefur staðan verið meira og minna síð­ustu miss­eri.

Sós­í­alistar breyta dýnamíkinni

Það er ekki bara miðju­flokk­arnir sem eru að taka óánægju­fylgi frá Vinstri grænum vegna veru flokks­ins í íhalds­samri rík­is­stjórn þessi dægrin. Spút­níkaflið í íslenskum stjórn­mál­um, Sós­í­alista­flokkur Íslands, í dag er til vinstri við flokk­inn. Flokk­ur­inn bauð fram í fyrsta sinn í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í fyrra­vor og náði þar inn manni, Sönnu Magda­lenu Mörtu­dótt­ur, með því að fá 6,4 pró­sent atkvæða. Í nýj­ustu könnun Gallup, sem birt var um helg­ina, mæld­ist Sós­í­alista­flokk­ur­inn með sitt mesta fylgi í slíkum 5,3 pró­sent, sem myndi duga til að ná inn þremur þing­mönn­um.

Sá flokkur virð­ist því, að óbreyttu, ætla að taka stað Flokks fólks­ins í átta flokka kerf­inu og honum virð­ist vera að takast það ætl­un­ar­verk að fylla upp í tóma­rúmið sem mynd­ast hefur vegna rof­inna tengsla vinstri- og jafn­að­ar­manna­flokka lands­ins við verka­lýðs­hreyf­ingu lands­ins. Ef harka fær­ist í yfir­stand­andi kjara­við­ræð­ur, líkt og sumir verka­lýðs­for­ingjar boða að sé fyr­ir­liggj­andi, þá gæti það aukið enn fylgi Sós­í­alista­flokks­ins.

Telja verður lík­legt að Sós­í­alista­flokk­ur­inn myndi ein­skorða mögu­lega rík­is­stjórn­ar­þátt­töku sína við sam­starf við flokka sem starfa til vinstri, og því nær úti­lokað að þeir myndu verða val­kostur fyrir hægri- eða íhalds­flokka í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar