Á innan við ári hækkuðu laun bankastjóra Landsbankans um 82 prósent. Það þýðir að hún fékk hækkun uppá 1,7 milljónir á mánuði. Þessi staðreynd gerir mig reiða. Á Íslandi tíðkast ill meðferð á aðfluttu verkafólki. Sumt aðflutt verkafólk er fórnarlömb viðbjóðslegra glæpa eins og mansals og mun fleiri verða fyrir „hversdaglegri“ misnotkun, eins og að fá ekki rétt greitt fyrir unna vinnu; heildarlaunakröfur þeirra erlendu félagsmanna sem leituðu til Eflingar eftir aðstoð voru á síðasta ári 153 milljónir. Þessar staðreyndir gera mig reiða.
Áætlað er að 5000 til 7000 manns búi í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af 860 börn, sökum þess að þau hafa ekki aðgang að betra húsnæði. Þessi staðreynd gerir mig reiða.
Eftir að hafa unnið í leikskóla reknum af Reykjavíkurborg í 23 ár fær Eflingarkona, vinkona mín, 348.000 krónur í laun og heldur eftir af þeirri upphæð 280.000 krónum. Þessi staðreynd gerir mig reiða.
Á sama tíma og vinnutími félagsmanna Eflingar lengist um klukkustund á viku á milli ára aukast fjárhagsáhyggjur Eflingarfólks. Þessar staðreyndir gera mig reiða. Íslensk auðstétt, fjármagnseigendur, greiða af fjármagnstekjum sínum miklu lægri skatta en vinnuaflið af sínum tekjum. Þessi staðreynd gerir mig reiða.
Fólk hefur rétt á því sýna tilfinningar og fólk hefur rétt á því að tala um þær. Reiði er fullkomlega eðlilega tilfinning sem vaknar þegar fólk verður vitni að óréttlæti eða upplifir það í eigin lífi. Að reiðast vegna óréttlætis er til marks um heilbrigða siðferðiskennd og hæfileika til að finna til samhygðar með öðrum. Það eru fullkomlega eðlileg viðbrögð hjá verka- og láglaunafólki að upplifa og sýna reiði yfir því að vera gert að sætta sig við stéttskiptingu og misskiptingu, gert að sætta sig við að bera ábyrgð á stöðugleika óréttláts samfélags, og sýna undirgefni við þá sem halda að þeir stjórni veröldinni. Það að láta sem slík reiði sé til marks um vanstillingu eða afbrigðilegt eðli er fáránlegt og einungis gert til að afvegaleiða umræðuna um grundvallaratriðin sem eru þessi:
Er hægt að ætlast til þess lengur að verka og láglaunfólk þegi og láti sem ekkert sé í samfélagi þar sem laun duga ekki fyrir daglegum útgjöldum sökum þess að húsnæðiskostnaður hefur aukist geigvænlega og matarkostnaður er svimandi hár? Er hægt að ætlast til að láglaunakonur haldi áfram að vinna við undirstöðuatvinnugreinina sem umönnunarstörf eru (konum í umönnunarstörfum er gert að búa á einhverjum fáránlegum landamærum kapítalismans, þar sem allt hefur verið verðlagt mjög rösklega af gróðasjúku fólki og allar vinnuhendur kallaðar á dekk, og nauðsynlegrar félagslegrar endurframleiðslu sem hefur verið færð út af heimilinu en er samt rekin eins og hún eigi helst að vera unnin frítt, sem gerir það að verkum að konurnar sem sinna félagslegri endurframleiðslu inni á þar til gerðum stofnunum fá varla nóg til að sinna sinni eigin félagslegu endurframleiðslu!) á ömurlegum útsöluprís samræmdrar láglaunastefnu? Er hægt að ætlast til þess að aðflutt verkafólk sætti sig áfram við launaþjófnað og illa meðferð?
Er hægt að ætlast til þess að kona með rétt rúmlega þrjúhundruð þúsund á mánuði eigi að þola yfirhalningar karla með þrjár milljónir á mánuði þegar hún leyfir sér að biðja um aðeins réttlátara samfélag?
Talsmenn óbreytts ástands og hins falska stöðugleika reyna að gera lítið úr málflutningi mínum og fullkomlega eðlilegum tilfinningum (sjáiði þessa konu, alltaf í uppnámi!) vegna þess að þeir hræðast ekkert meira en að umræðan snúist um það sem í alvöru skiptir máli, hræðast ekkert meira en að við sameinuð náum raunverulegum árangri í baráttu okkar fyrir efnahagslegu réttlæti.
Lífstíll þeirra sem tróna á toppi valda og tekjupíramídans, þeirra sem halda að þau geti reiknað út sannleikann, ekki um eigin líf og tilveru, nei, aldrei nokkurn tímann, heldur um tilveru okkar verka- og láglaunafólks, tilveru sem þau vita ekkert um og hafa engan áhuga á að kynnast, er tilkominn vegna vinnu okkar. Hann er tilkominn vegna þess að vinna okkar kom Íslandi upp úr kreppunni (sem var ekki sköpuð af vinnandi fólki, nei aldrei nokkurn tímann), vinnuhendurnar okkar bjuggu til hagvöxtinn og uppsveifluna. Við erum samt ekki að krefjast þess að fá 82% launahækkun, langt því frá; í samanburði við kröfur fólks sem fær aldrei nóg eru kröfur okkar svo hófstilltar og jarðbundnar að ég skammast mín því sem næst.
En þrátt fyrir að kröfur okkar séu hófsamar eru dogmatískir áhangendur nýfrjálshyggjunnar ófærir um heyra eða skilja. Það er ótrúlegt að verða hvað eftir annað vitni að því. Allar vísbendingar, öll varnaðarorð um samfélagslegan óróa vegna vaxandi misskiptingar eru látin sem vindur um eyru þjóta. Trúin á kapítalismann og brauðmolahagfræði hans eru skynseminni yfirsterkari. Trúin gerir það að verkum að þeir trúuðu staðhæfa eins og ekkert sé að þjóðhagslegar hamfarir bíði okkar allra verði lágmarkslaun 425.000 á þremur árum á meðan að þeim finnst sjálfsagt og eðlilegt að manneskja hafi á einu ári heildartekjur upp á 3 milljarða en greiði af þeim lægri skatta en konan sem skúrar.
Ég tala við fullt af verka og láglaunafólki. Sum fæddust hér og önnur koma utan úr heimi. Þau hafa frá ýmsu að segja; því að geta ekki lengur búið í borginni sinni vegna þess að launin duga ekki fyrir húsnæðiskostnaði, því að hafa ekki efni á að fara til læknis, því að hafa endalausar fjárhagsáhyggjur, því að glíma við heilsuleysi vegna of mikils álags og of mikillar vinnu, því að þurfa að þola svívirðilega meðferð af hálfu atvinnurekenda. Ekkert af þessu fólki er galið eða vanstillt. Aftur á móti er kerfið sem þau eru látið lifa inn í og beygja sig undir bæði galið og vanstillt. Svo galið og vanstillt að það hlýtur að gera alla með sæmilegan siðferðisáttavita reiða.
Fyrir tíu árum dundi yfir heimsbyggðina efnahagsleg katastrófa, orsökuð af brjálsemi fjármálavædds kapítalismans. Óskiljanleg viðskiptalíkön, „áhættustjórnun“ sérstaklega útbúin til þess að búa til enn meiri og stærri kerfisáhættu og óstöðugleika, klikkuð markaðslögmál sem bjuggu til endalaus tækifæri fyrir gráðugt og hömlulaust fólk sem fékk afkastahvetjandi bónusa og kauprétti til að láta villtustu drauma sína rætast, spillt stjórnmálafólk veikt af ofdrambi annarsvegar og undirgefni hinsvegar; á endanum sprakk þetta allt saman í loft upp með hrikalegum afleiðingum fyrir vinnandi fólk, sem þó hafði ekkert til saka unnið, nema kannski að vera of trúgjarnt á þvaðrið í þeim sem þóttust geta reiknað út alla mannlega tilveru en gátu svo ekkert nema að rústa heimshagkerfinu. Bankamenn, fjármálasnillingar, hagfræðingar, stjórnmálafólk, alþjóðleg yfirstétt og seðlabankar færðu okkur Hrunið 2008, vinna okkar verkafólks færði okkur leiðina út úr kreppunni.
Við vitum öll að þetta er satt. Er ekki kominn tími til að við fáum að njóta árangursins af okkar eigin erfiði? Eða eigum við ennþá að sætta okkur við að lifa undir lögmálum galinna trúarbragða fólks með skerta samhygð, fólks sem reynir að gera lítið úr heilbrigðum viðbrögðum okkar við óréttlætinu á meðan það sjálft gerir ekkert nema að hella olíu á eldinn?
Sumum finnst í lagi að búa í samfélagi þar sem hömluleysi yfirstéttarinnar er öllum augljóst en láglaunafólk á að sætta sig við líf fullt af vinnu á útsölumarkaði arðránsins. Sumum finnst hins vegar ekki í lagi að búa í samfélagi þar sem fámenn auðstétt gerir allt sem henni sýnist á meðan að láglaunafólki er sagt að halda sig á mottunni og halda áfram að vinna.
Ég er mjög ánægð með að tilheyra seinni hópnum og það að ég verði stundum reið vegna forherðingar meðlima fyrri hópsins er bara nákvæmlega allt í lagi. Ég veit nefnilega hvernig það er að vinna baki brotnu við undirstöðuatvinnugrein og fá samt ekkert nema fingurinn frá yfirvaldinu. Ég hef bókstaflega, með því að nota hendurnar mínar, heilann minn og hjartað mitt, unnið mér inn réttinn til að vera reið.
Höfundur er formaður Eflingar.