Þótt það hljómi ótrúlega þá eru enn til stjórnmálamenn sem halda því fram í tíma og ótíma að íslenska krónan hafi „bjargað“ þjóðinni í hruninu og eftirleik þess. Þessir sömu stjórnmálamenn ættu að standa augliti til auglits við þá einstaklinga sem töpuðu aleigu sinni og var gert að flytja úr íbúðum sínum og upplýsa það fólk um hverju krónan „bjargaði“. Vissulega má til sanns vegar færa að krónan stuðlaði að því að upp rann gósentíð nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja, en gagnvart öllum fjöldanum var íslenska krónan beinlínis völd að þeim hörmungum sem leidd voru yfir almenning í hruninu og í kjölfar hrunsins.
Uppgangur í ferðaþjónustu sem varð hér á landi má aðeins að litlu leyti rekja til lægra gengis íslensku krónunnar, aðrir þættir á borð við beina og óbeina, ómeðvitaða, landkynningu vógu þyngra. Enda hefur sýnt sig að hærra gengi krónunnar hefur aðeins haft óveruleg áhrif á straum ferðamanna til landsins því ekki hefur dregið úr straumnum, heldur aðeins slegið á hina stöðugu aukningu hans og alls óvíst að það komi gengi krónunnar við.
Reynsla Íslendinga af eigin gjaldmiðli er harmsaga hvernig sem á það er litið. Verðgildi íslensku krónunnar er nú aðeins brotatbrot af verðgildi dönsku krónunnar sem íslenska krónan var skilin frá fyrir tæpum hundrað árum. Það eru til stjórnmálamenn sem segja „það þarf bara betri hagstjórn“ eða „það á ekki að vera að tala krónuna niður“ en ætti allt slíkt ekki að vera fullreynt í bráðum hundrað ár? Spurningin er hversu lengi á að láta þetta viðgangast, hversu lengi á að leggja á þjóðina að halda úti örmynt, minnsta gjaldmiðli sem um getur, með tilheyrandi fórnum almennings og kostnaði samfélagsins?
Þetta þarf ekki að vera svona
Íslenska krónan og tilhögun gjaldmiðilsmála er langt frá að vera náttúrulögmál. Þjóðin býr við íslenska krónu af þeirri ástæðu að stjórnmálaflokkarnir sem ráða, sjá sér hag í halda óbreyttu ástandi. Það hentar ágætlega sérhagsmunahópunum sem þeir berjast fyrir en það hentar ekki almenningi. Það er vitað að upptaka nýrrar myntar er engin töfralausn, enda hefur enginn haldið því fram, heldur aðeins leið til að reyna fækka breytum efnahagsstjórnarinnar svo hægt sé að takast á við verðugri viðfangsefni til framtíðarmótunar samfélagsins í þágu hagsmuna almennings.
Mynd 1 sýnir okkur verðbólgu á Íslandi í hundrað ár. Á Íslandi hefur verðbólga ætíð verið ávísun á gengisfellingu krónunnar og gengisfelling svo aftur ávísun á meiri verðbólgu; þetta sem var í eina tíð kallað „vítahringur verðlags og kaupgjalds“. Fyrsta áratug krónunnar sem sjálfstæðs gjaldmiðils var e.t.v. ekki með öllu útilokað að myntin gæti sveiflast í báðar áttir þannig að hún yrði til raunverulegrar sveiflujöfnunar. En síðan ekki söguna meir. Nær allan líftíma krónunnar hefur hún verið nýtt til að „tryggja afkomu útflutningsatvinnugreinanna“ eins og það hefur heitið lengst af eða m.ö.o. að flytja fjármuni frá launþegum til útflutningsatvinnuveganna.
Reynir á hæfni stjórnmálamanna
Hefði íslensku krónunni ekki verið til að dreifa og þjóðin notast áfram við danska krónu er ljóst að öll hagstjórn, stjórnun og rekstur fyrirtækja, kjarasamningar o.fl. hefði þurft að haga með öðrum hætti en gert var. Þess í stað hefur ætíð verið brugðið á það ráð að segja „allt í plati“ þegar í óefni er komið hjá útflutningsfyrirtækjunum. Gengi krónunnar er látið síga og leikurinn hefst á ný. Þannig er krónan „freistnivandi“ (moral hazard) íslenskrar hagstjórnar, sem stjórnmálamenn reiða sig á að verði gjaldfelld, þegar vanhæfni þeirra hefur verið opinberuð. Harmsaga íslensku krónunnar er ágætlega rakin á myndinni sem sýnir þróun verðbólgu og samhengi hennar og gengisfellinga krónunnar á hundrað ára tímabili.
Mesti vandinn sem við var að glíma á Íslandi í kjölfar hrunsins, og sem enn er glímt við, voru þau vandkvæði sem leiddi af hækkun húsnæðislána almennings. Hækkun húsnæðislána var það sem olli mestum harmi sem leiddur var yfir íslensk heimili í hruninu þegar fólk missti húsnæði sitt vegna hækkunar lánanna. Fjármagnskostnaður húsnæðislána, skiptir þá engu hvort þau eru verðtryggð eða óverðtryggð, ræðst að stærstum hluta af verðbólgu. Verðbólgan sem varð á Íslandi í kjölfar hrunsins magnaði upp fjármagnskostnað húsnæðislána í íslenskum krónum. Hvergi í nágrannalöndum okkar hækkuðu húsnæðislán í kjölfar hrunsins líkt og hér á landi, heldur þvert á móti, þá lækkaði fjármagnskostnaður víðast hvar í hruninu.
Vextir lækkuðu í nágrannalöndunum
Á mynd 2 má sjá þróun vaxta (og verðtryggingar) á Íslandi og nokkrum evru-löndum frá aldamótum til dagsins í dag. Allan þennan tíma, í aðdraganda hrunsins, í hruninu og eftir það, hefur fjármagnskostnaður húsnæðis verið umtalsvert hærri á Íslandi en evru-löndunum. Enda sýndi sig að í kjölfar hrunsins, missti fólk hvergi húsnæði sitt af völdum hækkandi fjármagnskostnaðar nema á Íslandi. Þeir sem lentu í vandkvæðum við að greiða af húsnæðislánum sínum í nágrannalöndunum gerðu það vegna atvinnumissis en ekki hærri fjármagnskostnaðar. Almenningur á Íslandi lenti ekki bara í atvinnumissi og hækkun húsnæðislána því framfærslukostnaður rauk einnig upp vegna stórfelldra verðhækkana á nauðsynjavörum sem gerðist ekki í nágrannalöndunum. Þannig magnaði íslenska krónan á fleiri en einn veg þá erfiðleika sem íslenskur almenningur mátti þola.
Mynd 2 sýnir svo ekki verður um villst hvernig fjármagnskostnaður jókst verulega á Íslandi og mestu vandkvæðin sem urðu hér á landi vegna hrunsins voru hækkun húsnæðislána. Sú hækkun olli mestri sundrungu, illindum og óhamingju fjölda fólks sem enn er verið að vinna úr. Í evru-löndunum m.a.s. þeim sem hafa átt við mesta erfiðleika að glíma (Grikkland, Spánn o.fl.) þá voru og eru vextir af húsnæðislánum aðeins brot af því sem þeir eru hér á landi og enginn missti húsnæði sitt þar vegna hærri fjármagnskostnaðar.
Auðveldara að komast frá hruninu með evru – engin eftirmál vegna hækkunar húsnæðislána
Mýtan um krónuna gengur út á að með því gengisfalli sem varð á krónunni þá hafi efnahagsstarfsemin á Íslandi verið fljótari að komast á réttan kjöl en í nágrannalöndum okkar. Þá er aðeins verið að horfa til nokkurra þátta atvinnulífsins en ekki hversu grátt gengisfallið lék almenning. Sagt er að krónan hafi leikið lykilhlutverk í þeim umskiptum sem urðu hér í efnahagslífinu og því sé svo „gott að hafa krónuna“. Víst er að sjávarútvegsfyrirtæki fengu fleiri krónur fyrir hvert selt kíló af fiski en sá afkomubati rann eingöngu til fyrirtækjanna sjálfra og eigenda þeirra en ekki til launamanna.
Hvaða hlutverk lék íslenska krónan við að koma efnahagslífi þjóðarinnar aftur á réttan kjöl? Til samanburðar má horfa til Írlands og átta sig á hvort gjaldmiðillinn þar í landi, evran, hafi hamlað uppgangi efnahagslífsins fyrst þeir höfðu ekki eigin gjaldmiðil til að fella. Einfaldast er að bera saman breytingu á landsframleiðslu þessara tveggja landa fyrir og eftir hrun en landsframleiðsla segir einfaldlega til um andvirði þess sem framleitt er í landinu (framleiddar vörur og veitt þjónusta) á tilgreindu tímabili. Breytinguna frá einum ársfjórðungi til annars má sjá á mynd 3.
Ef skoðuð er þróun landsframleiðslu Íslands og Írlands frá aldamótum og fram á síðasta ár má sjá að bæði löndin voru í svipuðum málum megnið af tímabilinu. Landsframleiðsla er í hærri kantinum í báðum löndum og bæði lentu þau harkalega í hruninu þegar landsframleiðsla þeirra dróst verulega saman. Myndin sýnir síðan, svo ekki verður um villst, að Írlandi hefur síst vegnað verr en Íslandi jafnvel þó horft sé fram hjá gríðaraukningu í landsframleiðslu Írlands árin 2014-2016 sem má rekja til sérstakra aðstæðna vegna breyttra eins-skiptis matsreglna þar í landi þau ár og því ekki rétt að taka þá aukningu með í reikninginn. Landsframleiðsluaukning þessara beggja landa er sambærileg á þessum tíma en grundvallarmunurinn er sá að almenningur á Írlandi þurfti ekki að horfa á húsnæðislán sín hækka upp úr öllu valdi. Einnig var engin hækkun varð á nauðsynjavörum til framfærslu írskra heimila, svo við hljótum að spyrja okkur, hverju bjargaði krónan hér á landi, lagði hún ekki bara fjárhagsbyrðar á almenning og olli sundrungu og harmi?
Útboðskrónur með afslætti - enn skal haldið áfram án framtíðarsýnar
Vegna skorts á erlendum gjaldeyri strax eftir hrunið neyddist Seðlabankinn til að efna til útboða í því augnamiði að fá meiri erlendan gjaldeyri inn í landið. Þeir sem voru reiðubúnir að skipta háum erlendum fjárhæðum fyrir krónur og binda krónurnar í fasteignum eða verðbréfum fengu fleiri íslenskar krónur fyrir evrur, dollara, pund en öðrum stóð til boða. Þegar gjaldeyrisvaraforði bankans var orðinn nægur var þessu hætt. Þeir sem notfærðu sér þetta voru m.a. dæmdir og ódæmdir „útrásarvíkingar“ sem sendu heim fjármuni sem þeir höfðu komið höndum yfir og geymdu erlendis. Einnig sáu erlendir auðmenn sér leik á borði og skiptu útlendum gjaldeyri í krónur á afar hagstæðu gengi og fjárfestu m.a. í jarðnæði.
Þessi aðferð við að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð er að sjálfsögðu óþörf ef sá gjaldmiðill sem notaður er hér á landi væri sá sami og í helstu viðskiptalöndum okkar. Lausnir sem þessar verða alltaf uppi á borðum í íslenskri hagstjórn á meðan ráðamenn þjóðarinnar krefjast þess að á Íslandi sé haldið úti örmynnt, smæsta gjaldmiðli í heimi, sem er hvergi gjaldgengur nema á Íslandi.
Áfram verður nýjum „útrásarvíkingum“ og öðrum sem spila vilja á gengi íslensku krónunnar boðið upp á sama leikinn og hver nema almenningur mun þurfa að taka skellinn?
Samtök atvinnulífs og ríkisstjórn standa frammi fyrir sömu viðfangsefnum á vinnumarkaði og þau hafa gert svo oft áður og nú eru viðfangsefnin jafnvel enn erfiðari viðfangs. Þessir aðilar hafa lítið gert til að hemja þá óánægju sem ríkir í samfélaginu og bera því mikla ábyrgð. Í besta falli má ætla að ríkisstjórnin vonist til að kjaramálin „bjargist“ með lágmarks aðkomu hennar í húsnæðismálum. Ekki er að sjá neinar hugmyndir um framtíðarskipan gjaldmiðilsins aðrar en þær að halda áfram með íslensku krónuna í stað þess að skoða þá valkosti sem Íslendingum standa til boða um gjaldmiðil sem breytt gæti hagstjórn á Íslandi til frambúðar og komið í veg fyrir að almenningur þurfi eftirleiðis, sem hingað til, að taka á sig þær byrðar sem af íslensku krónunni leiðir.
Höfundur er hagfræðingur.