Að byggja upp gott fyrirtæki sem skarar fram úr tekur að jafnaði tíu ár. Oft virkar það á mann eins og fyrirtæki spretti upp úr nánast engu og verði heimsfræg, þ.e. nái umtalsverðri útbreiðslu. Stofnendur þekktra fyrirtækja á borð við Uber, Lyft og AirBnb höfðu t.d. allir unnið að þróun fyrirtækjanna í tíu ár áður en þau urðu þekkt fyrir það sem þau gera í dag. Ekkert gerir sig sjálft og oftar en ekki er það þrautseigja og útsjónarsemi frumkvöðlanna í bland við heppni sem kemur góðum fyrirtækjum á þann stað sem þau verðskulda.
Startup Reykjavik (SR) var fyrst haldið árið 2012. Þegar við byrjuðum vissum við ekki endilega út í hvað við vorum að fara. Við vissum þó þrennt. Í fyrsta lagi vildum við nota sannreynt kerfi til að styðja íslensk sprotafyrirtæki til þess að þróast. Þess vegna gerðumst við aðilar að GAN (Global Accelerator Network) og vorum einn af allra fyrstu viðskiptahröðlum á alþjóðavísu til að gera það. Í gegnum GAN (sem árið 2012 hét Techstars International) fengum við n.k. handbók sem var byggð á aðferðafræði Techstars. Þegar fram í sótti öðluðumst við meiri reynslu, sáum hvað virkaði og hvað ekki. Ég veit að starfsemi SR stenst í dag að fullu samanburð við aðra hraðla í GAN. Þessi vinna hefur verið leidd af hinu góðu fólki í Icelandic Startups, sem ég met mikils.
Í öðru lagi vissum við í Arion banka að þetta gæti aldrei orðið PR verkefni en það er auðvitað auðvelt að stimpla það sem slíkt. Í okkar aðkomu yrði að felast raunverulegur stuðningur við frumkvöðla til að verkefnið öðlaðist trúverðugleika í umhverfinu. Ég veit ekki hversu oft á fyrstu 2-3 árunum ég leit í skeptísk augu fólks fyrir utan bankann sem hafði litla trú á þessari nálgun. Það er engan veginn sjálfsagt að einkafyrirtæki taki upp á sitt einsdæmi að kosta jafn umfangsmikið verkefni og Startup Reykjavik er. Heildarfjárfesting Arion banka í Startup Reykjavik frá upphafi árið 2012 er 176 milljónir króna hingað til, sem er það há upphæð að ekki væri lagt í slíkt verkefni nema með skýra hugmyndafræði að baki og skilning og stuðning stjórnenda bankans sem hafa tekið upplýsta ákvörðun um. Því skal þó haldið til haga að Arion banki greiðir Icelandic Startups að auki fyrir þeirra aðkomu að rekstri og tilhögun SR. Hugmyndafræðin er að sýna raunverulega stuðning í verki og stuðla að öflugri uppbyggingu nýsköpunar á Íslandi. Þó svo ég sé ekki hlutlaus, sé ég glöggt að tilkoma Startup Reykjavik hefur haft mikið að segja fyrir sprota- og frumkvöðlaumhverfið í heild sinni til hins betra.
Í þriðja lagi vissum við að þetta yrði langtímafjárfesting og þar með langtímaverkefni. Við fjárfestum í hverju og einu fyrirtæki sem tekur þátt í SR. Með öðrum orðum, við sitjum í sama báti og stofnendur og deilum þannig vegferðinni, hvort sem vel gengur eða illa. Búast má við að það ferðalag sé í kringum 10 ár fyrir hvert og eitt fyrirtæki, ekki ósvipað og búast má við hjá framtaksfjárfestingasjóðum (e. venture capital).
Hvernig hefur svo gengið?
Stutta svarið er: Upp og niður. Eins og búast mátti við. Alls hafa nú þegar 68 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn og því ljóst að breytileikinn er mikill. Skoðum smá tölfræði. Í heildina hafa þessi fyrirtæki fengið um 3,8 milljarða króna í fjárfestingu eða styrkveitingar frá ýmsum aðilum. Skiptingin milli árganga er misjöfn. Eðlilegt er að fyrri árgangar hafi sótt sér meira fjármagn en þau sem nýverið hafa farið í gegnum SR.
Það er jafnframt áhugavert að skoða hvaða fyrirtæki eru enn virk í dag og hver hafa lagt upp laupana. Í neðangreindri framsetningu eru þrír flokkar. Virk fyrirtæki eru starfandi í dag. Óvirk fyrirtæki liggja í dvala og alls óvíst um frekari starfsemi. Seld fyrirtæki eru ekki lengur í eignasafni Startup Reykjavik Invest (SRI) og þá að jafnaði vegna þess að vitað var að frumkvöðlarnir hygðust ekki halda viðskiptahugmyndinni gangandi. Þá er engum greiði gerður með því að hafa n.k. draugafyrirtæki í eignasafninu. Í nær öllum tilfellum hefur hlutur SRI verið seldur aftur til frumkvöðlanna sjálfra sem þá geta nýtt fyrirtækið í það sem þeir kjósa sjálfir.
Virði eignasafns Startup Reykjavik Invest er þannig 278 milljónir króna. Virðið er fengið miðað við síðasta verðmat sem fjárfestar hafa greitt fyrir hluti í þeim fyrirtækjum sem hafa fengið fjárfestingu. Önnur fyrirtæki eru metin út frá líkum á árangri út frá virkni þeirra og samskiptum við SRI.
Tekið saman í skífurit lítur þetta þá svona út. Rétt rúmlega helmingur fyrirtækja flokkast sem virk.
Til lengri tíma má búast við því að 5-10% af eignasafninu skili stærstum hluta virðis eignasafnsins. Það þýðir að hver og ein þessara fjárfestinga skili sér 5-30x . Önnur 5-15% af eignasafninu eru líkleg til að skila sér 1-5x. Tíminn einn mun skera úr um það.
Það hefur verið yfirlýst markmið okkar sem að SR stöndum að heildarfjárfestingin muni á endanum skila sér og vonandi gott betur. Á sama tíma hafa hluthafar (stofnendur og fjárfestar), neytendur í formi góðra vara eða þjónustu og hið opinbera í formi aukinna skatttekna notið góðs af þeirri starfsemi sem fyrirtækin úr SR hafa þróað. Til þess er jú leikurinn gerður. Þá er ótalin sú reynsla sem frumkvöðlarnir hafa öðlast og margfeldisáhrifin í þeirra lífi sem hún kann að hafa. Í stuttu máli er þetta það sem nýsköpun snýst um.
Höfundur starfar við nýsköpun hjá Arion banka. Greinin birtist einnig á vefsíðu höfundar.