Deilur hafa risið á síðustu dögum um það, hvað felist í kröfum verkalýðsfélaganna um hagsbætur, núna þegar verkföll virðast á næsta leiti. Kjarna málsins má sjá í fjórum skjölum á vefnum:
- Kröfugerð Starfsgreinasambandsins (SGS) frá 10. október 2018.
- Kröfugerð Eflingar (ódagsett).
- Grein á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins (SA) 22. febrúar 2019 með heitinu „Kröfur Eflingar um launahækkanir“.
- Svar Eflingar við grein í Fréttablaðinu sem virðist byggð á grein SGS.
Lesandinn er hvattur til að kynna sér þessar frumheimildir.
Þó að greinin á síðu SA hafi samkvæmt heiti sínu átt að fjalla um „kröfur Eflingar“ er meginefni hennar í rauninni túlkun höfunda á fyrrnefndri kröfugerð SGS sem er sett fram tiltölulega snemma í ferlinu (í október), er augljóslega að nokkru leyti efnislega úrelt og lýsir ekki kröfum Eflingar sem eru settar fram síðar. Auk þess er dregin inn í málið eftirfarandi fullyrðing: „Í viðræðum aðila kom fram að SGS vill sjá 1,5% bil milli launaflokka og 2,0% milli aldursþrepa.“
Þessi grautur er síðan notaður til að búa til launatöflur um títtnefndar „kröfur Eflingar“ eins og Samtök atvinnulífsins kjósa að lýsa þeim. Fréttablaðið tók við grautnum á fimmtudaginn var og virðist ekki vilja taka leiðréttingar til greina.
Efling hefur þegar svarað þessum málatilbúnaði og sýnt raunverulegar kröfur sínar í viðeigandi töflum með tölum. Þetta má sjá undir tengli hér á eftir en þessar aðferðir Samtaka atvinnulífsins minna helst á hugmyndir manna fyrr á öldum um skoffín og skuggabaldra sem voru afkvæmi refs og kattar skv. íslenskum þjóðsögum. Með því að velja það sem manni sýnist úr tveimur hugmyndakerfum, sem samrýmast ekki hvort öðru til fulls, má oft fá næstum hvaða niðurstöðu sem óskað er.
Í mistúlkun SA skiptir mestu að höfundar hundsa alveg eftirfarandi lykilsetningu í fyrrnefndu skjali um kröfugerð Eflingar, eftir að lýst er kröfum um hækkun lægstu launa: „Þess er krafist að sams konar krónutöluhækkun, ekki prósentuhækkun, verði gerð á öll laun sem eru ofan við 300 þúsund krónurnar.“ Ef þessi einfalda setning hefði verið tekin með í reikninginn hefði hrófatildur SA um prósentuhækkanir í heild lækkað um þrjá fjórðu hluta (úr 80 í 20 eða svo). Það munar um minna.
Erfitt er að skilja tilgang SA með þeirri hugarleikfimi sem hér er lýst. Efling er ekki „andstæðingur“ SA í venjulegri merkingu því að þessum aðilum er ætlað að ná samkomulagi að lokum. Sá tími kemur vonandi að þeir standi upp frá borðinu, takist í hendur og fái sér vöfflur. Hvaða hag hefur annar samningsaðilinn af því að skrumskæla málstað hins í upphafi og gera sem mest úr kröfum hans? Hér spyr sá sem ekki veit, og svo mikið er víst að svona skáldskapur er í raun til þess eins fallinn að lengja leiðina að væntanlegum samningi. Slíkar aðferðir er varla að finna í kennslubókum nútímans um skilvirka samningagerð jafnsettra aðila.
Jafnframt leikfimiæfingum í ætt við skoffín þjóðsagnanna hefur athyglin í umræðunni nú beinst að hátekjufólkinu í landinu, en einhverjir starfsmenn SA munu vera í þeim hópi. Því miður er vandséð að þeir séu að vinna fyrir kaupinu sínu með því að rugla fólk í ríminu með þessum hætti, þar á meðal valdamenn sem þyrftu að vita betur til að eðlilegt samningaferli geti haldið áfram.
Tenglar: