Nú þegar kjaraviðræðum VR, Eflingar og Verkalýðsfélaganna á Akranesi og í Grindavík hefur verið slitið þá stilla atvinnurekendur og taglhnýtingar þeirra upp gróflega ýktum myndum af kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar.
Fjármálaráðherra hefur svo bergmálað þessar rangfærslur.
Hugmyndin með þessum málflutningi virðist vera sú, að telja fólki trú um að kröfurnar séu óhóflegar og óábyrgar – eins og hins vegar gildir um hækkanir toppanna í samfélaginu á síðustu árum sem stjórnvöld og SA hafa samþykkt.
Erfitt er að sjá hvernig slíkar afbakanir og óbilgirni ættu að greiða fyrir samningum og sátt.
Staðreyndirnar á hreinu
Svo allt sé á hreinu og menn geti metið þetta á eðlilegan hátt er hér gerður samanburður á kröfugerð VR, SGS og Eflingar og tilboði SA, bæði í krónutölu og %-hækkunum á fyrsta ári nýs kjarasamnings.
Gert var ráð fyrir að samið yrði um slíkar breytingar þrjú ár í röð – ef yfir höfuð tekst að gera samning lengur en til eins árs.
Verkalýðsfélögin eru með kröfu um flata krónutöluhækkun ofan á greidd laun sem nemur 42.000 á mánuði – þrjú ár í röð. Lágmarkslaun fari upp í 425.000 krónur í lok samningstíma. Menn hafa auðvitað reifað ýmsar ólíkar útfærslur á þessu, svo sem með breytingum á launatöflum.
Þessi nálgun gefur mesta prósentuhækkun í launalægstu hópum, frá 15,7% hækkun á allra lægsta taxta og tæplega 14% hækkun 300 þús. króna lágmarkslauna og niður í 1,7% hækkun á laun sem eru 2.500.000 á mánuði (dálkur 3).
Meðalhækkun reglulegra launa yrði samkvæmt þessu 6,5% á ári en meðalhækkun heildarlauna yrði 5,4%.
Samkvæmt nýjustu verðbólguspá Hagstofunnar (birt í þessari viku) þá verður verðbólga árið 2019 um 3,8%. Ef svigrúm til launahækkana er metið sem verðbólga að samanlagðri langtíma meðalhækkun framleiðni þá getur atvinnulífið að öðru óbreyttu borið 5,3% aukningu launakostnaðar án beinna mótvægisaðgerða (t.d. aukinnar hagræðingar).
Krafa verkalýðshreyfingarinnar er því um meðalhækkun launa sem er einungis lítillega yfir þessu hóflega skilgreinda svigrúmi. Hins vegar er svigrúmið nýtt hlutfallslega meira fyrir lægstu launahópana.
Tilboð SA
Það tilboð sem SA lagði fram fyrir slit viðræðna hljóðaði hins vegar upp á 15.000 króna hækkun greiddra launa og 5.000 króna hækkun til viðbótar á virka launataxta, sem flestir eru undir 301.000 krónum á mánuði (dálkur 4).
Þessi 15.000 króna hækkun er boðin upp að 600.000 króna launum en þá taki við flöt hækkun upp á 2,5% upp stigann.
Eins og sjá má í dálki 4 þá fer krónutalan hækkandi með þessari prósentuhækkun fyrir ofan 600.000 króna launin.
Sá sem er með 1.700.000 króna laun á mánuði fengi þannig svipað og nemur kröfu verkalýðsfélaganna, eða um 42.500 króna hækkun, samkvæmt tilboði SA!
Krafa verkalýðsfélaganna þykir SA-mönnum sem sagt hæfileg fyrir 1.700.000 króna manninn og þeir bjóða enn betur til þeirra sem eru þar fyrir ofan, þ.e. til toppanna sem hafa þegar fengið langmestu hækkanirnar á síðustu árum.
Þarna kemur hugarfar elítunnar berlega í ljós. Flestar krónur skulu fara til toppanna!
Sá sem er með tvær og hálfa milljón á mánuði fengi 20.500 krónum meira en nemur kröfu verkalýðshreyfingarinnar, eða 62.500 króna hækkun á mánuði (á móti 42.000 kr. kröfunni).
Þeir sem eru á meðallaunum fengju hins vegar einungis um 16.125 krónur í hækkun grunnlauna og 19.350 í hækkun heildarlauna.
Þeir sem eru með laun á bilinu 300 til 600 þúsund krónur á mánuði fengju einungis 15.000 króna hækkun.
Þetta telja SA-menn „ábyrgt og sanngjarnt“ á tíma þar sem hagvöxtur er ágætur og horfur góðar, þó vöxtur sé heldur minnkandi samkvæmt nýjum spám (sem þó virðast óeðlilega svartsýnar).
Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig kaupmáttarbreytingin yrði á fyrsta ári samkvæmt tilboði SA og nýjustu verðbólguspá Hagstofunnar.
Miðað við nýjustu verðbólguspá er um að ræða kaupmáttarskerðingu fyrir alla sem eru með yfir 400.000 króna laun á mánuði.
Allur þorri launafólks fengi kaupmáttarskerðingu!
Meðallaunafólk, sem er með 600-700 þús kr., fengi kaupmáttarrýrnun upp á um 1,3% á árinu og í kringum 3% kaupmáttarrýrnun ef samið yrði svona til þriggja ára.
Láglaunafólk á 300.000 króna lágmarkslaunum fengi einungis smávægilegan kaupmáttarauka (2,9%).
Fyrir allt það láglaunafólk sem berst í bökkum yrði staðan að mestu óbreytt – og framlag af fyrstu hugmynd stjórnvalda um skattalækkun breytir alltof litlu.
Þeir sem skoða stöðuna af sanngirni og heiðarleika hljóta að sjá að verkalýðshreyfingin getur lítið slegið af þessum kröfum sínum.
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í hálfu starfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.