Það hefur allt verið svo æðislegt á Íslandi að undanförnu því hagvöxtur hefur verið svo mikill. Bjarni Ben og co hafa notað orðið -hagvöxtur- alveg út í hið óendanlega sem sönnun þess að allir hafi það svo gott. En hvað þýðir hagvöxtur? Hvernig get ég trúað þessum áróðri þegar ég hef ekki hugmynd um hvað hagvöxtur er! Hver er formúlan? Ég tók mig til og hafði samband við sérfræðing og bað hann um að segja mér hvað hagvöxtur er á mannamáli. Og í stuttu máli. Það stóð ekki á svari; hagvöxtur er summa alls þess sem gengur kaupum og sölum.
Hagvaxtarformúlan inniheldur enga aðra hagsæld eða velferð fólks! Hún inniheldur ekki fátækt, ekki ástand í heilbrigðiskerfinu, ekki meðferð á launafólki á vinnumarkaði, ekki félagsleg undirboð, ekki mannsal, ekki líðan fólks almennt, ekki ofbeldi og kúgun, ekki mismunun kynjanna, ekki ójöfnuðinn og ekki arðránið. Og hún inniheldur ekki ástandið í umhverfsmálum. Hagvöxtur alls þess sem gengur kaupum og sölum er því sennilega eitthvað sem skiptir mestu máli fyrir þá sem mest eiga.
Alþjóðasamtök verkalýðsfélaga hafa kallað eftir splunkunýrri formúlu fyrir hagvöxt sem lýsir raunverulegri hagsæld almennings. Það er langt síðan sú krafa kom fram en ennþá gerist ekkert. Þetta er rætt á alþjóðlegum þingum verkalýðsfélaga og ráðstefnum en enginn árangur orðið. Þetta lýsir vel hversu staða verkalýðsfélaganna í heiminum hefur veikst. Hnattvæðingin hefur gjörsamlega brugðist launafólki. Vígtennurnar hafa verið teknar úr verkalýðshreyfingunni og baráttan öll orðin máttlausari.
Atvinnurekendur komast upp með að færa starfsemi sína óhindrað á milli landa, borga skítalaun, reka menn og ráða að vild og hóta að flytja annað ef launafólk er með múður. Atvinnuöryggi hefur minnkað ískyggilega og fólk iðulega ráðið í skamman tíma í senn án þess að hafa nokkra vissu um framhaldið. Þetta er orðið mjög áberandi í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu sem og annarsstaðar í heimum! Svo er launafólki hótað uppsögnum ef það vogar sér að vera í verkalýðsfélagi.
Nýja formúlan
En hvernig vill hin alþjóðlega verkalýðshreyfing hafa formúluna fyrir hagvöxt? Eins og fyrr segir er krafan um nýja formúlu gömul en hefur verið sett fram aftur og aftur. Svo var líka á nýafstöðnu þingi ITUC (International Trade Union Confereration) í Kaupmannahöfn í desember sl. Það þing sótti Drífa Snædal forseti ASÍ. ITUC er fulltrúi 207 milljón launmanna í 163 löndum og svæðum og í 331 alþjóðasambandi. Það vinnur í nánu samstarfi við Heimssamband verkalýðsfélaga (Global Union Federation), við Ráðgjafanefnd verkalýðsfélaga (Trade Union Advisory Committee) sem starfar fyrir OECD og við Alþjóðavinnumálastofnunina (International Labour Organization).
Formúlan er svo sannarlega á mannamáli og hljómar í aðalatriðum einhvern veginn svona: Þróunarmódel sem byggir á mannréttindum, heilbrigðum vinnuskilyrðum, jöfnuði, þátttökulýðræði, jafnrétti kynjanna og og félagslegu réttlæti. Formúla sem tekur til félagslegra, umhverfislegra og pólitískra þátta og hefur sig yfir formúlu sem byggir á hreinum efnahagslegum vexti.
Og ITUC segir algjörlega nauðsynlegt að smíða nýjan samfélagssáttmála fyrir 21. öldina sem byggir á þessari nýju formúlu.
Á þinginu í Kaupmannahöfn voru auk þess boðaðar nýjar og kraftmeiri aðgerðir til þess að verja kjör og réttindi launafólks í heiminum. Og boðuð var aukin samvinna milli landa og heimsálfa. Þróa á öflugri herferðir, nýta samfélagsmiðla betur og efla samstöðuna.
Auminginn
En af hverju gerist ekki neitt! Það er langt síðan hin alþjóðlegu verkalýðsfélög og sambönd hófu að boða róttækari aðgerðir. En ástandið bara versnar. Ójöfnuðurinn orðinn stjarnfræðilegur. Og ekkert bólar á þessari nýju formúlu sem mælir sanna hagsæld. Það vantar eitthvað. Hvað vantar? Vandamálið er að hin alþjóðlega verkalýðshreyfingin er að reyna fóta sig í heimskerfi sem vill ekkert með hana hafa. Hún er að reyna koma sér að á leiksviði kapítalisma og nýfrjálshyggju en fær bara að leika hinn betlandi aumingja.
Hin alþjóðlega verkalýðshreyfing hefur engar aðgerðir boðað til að breyta þessari sviðsmynd, hefur engar áætlanir um að skipta um leikstjóra eða breyta hlutverkaskipan. Ef þú færð bara pínulitla hlutverk aumingjans á sviði hins hnattvædda kapítalismans eru ansi litlar líkur á að þú komir þínum áherslum að; nýrri formúlu fyrir hagsvöxt, mannsæmandi kjörum fyrir alla, jöfnuði og að allir í heiminum geti lifað með reisn í sátt við umhverfi sitt og náttúru.
Nei það þarf að endurskoða baráttuna frá grunni. Verkalýðshreyfingin um heim allan þarf að taka sig saman og breyta sviðsmyndinni. Það þarf líka að breyta handritinu svoleiðis að hinar vinnandi stéttir fái aðalhlutverkin en hirði ekki bara þær litlu rullur sem auðvaldið hendir í þær.
En er það hægt? Getur verkalýðshreyfingin einhverju breytt? Mikið rosalega væri það skrýtið að alþjóðleg hreyfing, eins og ITUC, sem hefur á bak við sig 207 milljónir launamanna geti engu breytt um skipan mála á heimsvísu. Það er eitthvað mikið að. Það þarf að breyta um starfshætti, endursmíða markmið, leiðir og aðferðir í baráttunni. Verkalýðshreyfingin þarf að nýta mátt sinn og megin. Nýta yfirburðastöðu sýna á vinnumarkaði til þess eiga möguleika á að skapa réttlæti og jöfn kjör. Fyrr gerist ekki neitt. Og engin ný formúla verður til fyrir hagvöxt.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og MA í atvinnulífsfræðum frá Háskóla Íslands.