Alþingi samþykkir lög af margvíslegu tagi sem segja fyrir um hvernig málum skuli skipað í samskiptum manna í milli, kveða á um réttindi og skyldur. Almenn hegningarlög eru afar mikilvæg í þessu samhengi. Þar er sagt fyrir um hvaða hegðun, athafnir og athafnaleysi, er metin svo alvarleg að rétt sé að beita refsingum ef út af er brugðið. Hegningarlögin eru því góður aldarspegill en þó þeirrar náttúru að ákvæði þeirra sigla í kjölfar samfélagslegra breytinga frekar en að þau séu framsækin og marki með skýrum hætti stefnu gagnvart þróun sem er yfirvofandi og sendi þannig frá sér skýr refsipólitísk skilaboð í forvarnarskyni.
Refsingar eiga aldrei að koma í stað forvarna. Refsingar eru neyðarúrræði þegar forvarnir hafa ekki skilað árangri. Þegar hegningarlögum er breytt er sérstaklega mikilvægt að fylgja þeim eftir með fræðslu og upplýsingum til þess að þau skili ætluðum árangri.
Breytt skilgreining nauðgunar
Gott dæmi um mikilvæga breytingu á hegningarlögum eru lög nr. 16/2018 sem tóku gildi í apríl 2018, Viðreisn lagði málið fram og var það svo samþykkt af öllum flokkum á Alþingi. Lögin breyttu skilgreiningu nauðgunar í 194. gr. með því að bæta við því sem í daglegu tali er kallað samþykkisregla. Í henni felst í stuttu máli að hver sá sem hefur kynferðismök við aðra manneskju án samþykkis gerist sekur um nauðgun og að samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja, en ekki ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Það telst einnig nauðgun að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm, aðra andlega fötlun eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.
Með þessari breytingu gefur löggjafinn út refsipólitíska yfirlýsingu sem er skýr og afdráttarlaus og er ætlað að takast á við samfélagslegt mein sem felst í kynferðislegu ofbeldi. Refsiramminn er hinn sami og sönnunarbyrðin sem fyrr á ákæruvaldinu.
Samþykki og frjáls vilji eru grundvallaratriði og taka af allan vafa um hver útgangspunkturinn er og gefur skýrar leiðbeiningar um leiðarstef í samskiptum kynjanna þegar kynferðislegt samneyti er annars vegar sem er kynfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur hvers og eins.
Breytingu fylgt eftir
Til þess að fylgja þessari breytingu eftir og virkja forvarnargildi hennar er nauðsynlegt að koma efni hennar til skila út í samfélagið, þar með talið réttarvörslukerfið sjálft þannig að reglan verði virkjuð með réttum hætti og skili sér inn í rannsóknir mála frá upphafi til enda og loks til dómstólanna sem dæma. Þess vegna hefur undirritaður lagt fram þingsályktunartillögu, ásamt sjö öðrum þingmönnum, til þess að fylgja þessari mikilvægu lagabreytingu eftir.
Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra, í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka, að skipuleggja og hefja viðvarandi fræðslu, eigi síðar en árið 2020, um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum og verja til þess nauðsynlegum fjármunum en fyrstu þrjú árin verði að minnsta kosti 150 millj. kr. varið til verkefna sem verði á ábyrgð forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og dómsmálaráðherra.
Þunginn verði lagður í gerð fræðsluefnis og miðlunar þess. Sjónum verði beint að öllum skólastigum sem og öllum stofnunum réttarvörslukerfisins. Þá verði sérstök áhersla lögð á að styrkja frjáls félagasamtök, fjölmiðla og stofnanir til miðlunar fræðslu og sérstakra herferða sem beint verði að skilgreindum markhópum samfélagsins enda mikilvægt að styðja við þá sem leggja þessum málefnum lið með mikilvægu starfi og sérþekkingu.
Það er löngu tímabært að leggja af stað í varanlega vegferð þar sem fjármagn er tryggt til að allir fái viðeigandi fræðslu um ofbeldi, samskipti, löggjöfina og kynfræðslu. Það hafa verið gerð ótalmörg tímabundin átök í gegnum tíðina sem hafa skilað árangri um hríð. Þegar kemur að forvörnum og fræðslu um þennan málaflokk duga hins vegar ekki tímabundin átök heldur þarf ríkið og fjárveitingavaldið að tryggja að fræðslan sé viðvarandi og nái til allra skólastiga og skili þannig tilætluðum árangri til lengri tíma.
Mikill ávinningur
Við erum sem betur fer að vakna til vitundar um skelfilegar og langvinnar afleiðingar kynferðisofbeldis og að ofbeldi af þessu tagi er útbreitt samfélagslegt mein sem við verðum að horfast í augu við og hefjast handa án tafar til að vinna bug á því. Fjárútlát á þessu sviði eru smámunir miðað við þann ávinning sem er í húfi, samfélagslegan sem fjárhagslegan þegar til lengri tíma er litið.
Ég skora á alla sem láta þessi mál varða þrýsta á að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga. Með því móti gæðum við samþykkisregluna lífi.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.