Sementsverksmiðja ríkisins í aðdraganda Hvalfjarðarganga

Dr. Guðmundur Guðmundsson fer yfir sögu Sementsverksmiðju ríkisins í aðsendri grein.

Sementsverksmiðja ríkisins, fyrstu árin í myndum Ólafs Árnasonar og Jóhannesar Gunnarssonar. Sýning á skjá á Bókasafni Akraness.
Sementsverksmiðja ríkisins, fyrstu árin í myndum Ólafs Árnasonar og Jóhannesar Gunnarssonar. Sýning á skjá á Bókasafni Akraness.
Auglýsing

Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um aðdraganda, undirbúning og byggingu Hvalfjarðarganga, sem opnuð voru fyrir umferð 11. júlí 1998 og urðu gjaldfrjáls í septemberlok á síðasta ári. Lítið hefur þó farið fyrir einum þætti í þessari sögu; hlutverki Sementsverksmiðju ríkisins í þeirri vinnu, sem að lokum leiddi til þess að Hvalfjarðargöngin voru byggð. Með þessari grein er reynt að varpa ljósi á þá ákvörðun Sementsverksmiðjunnar, Íslenska járnblendifélagsins og verktakafyrirækisins Krafttaks sf., að hefja baráttu fyrir því að ráðist yrði í gangagerðina og jafnframt að fá að taka virkan þátt í þessari flóknu og viðamiklu framkvæmd.

Dr. Guðmundur GuðmundssonSementsverksmiðja ríkisins (SR) hóf starfsemi árið 1958 og var alfarið í eigu íslenska ríkisins. Íslenska járnblendifélagið (ÍJ) hóf rekstur árið 1979. Það var hlutafélag, þar sem ríkið átti 55% eignarhlut en fyrirtækið Elkem í Noregi átti 30% hlut og japanska fyrirtækið Sumotomo Corporation 15% á þeim tíma sem umræðan um Hvalfjarðargöng hófst. Krafttak sf. var íslenskt/norskt sameignarfyrirtæki Ellerts Skúlasonar hf. og Aker Entreprenör í Noregi. Krafttak var byggingaverktaki við Blönduvirkjun og Ólafsfjarðargöng.

Sementsverksmiðja ríkisins og Íslenska járnblendisfélagið

Mikil samvinna hófst milli SR og ÍJ þegar á byggingartíma Járnblendifélagsins og hélt óslitið áfram um árabil, meðal annars útfrá rannsóknum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins (RB), sem sýndu að kísilryk sem myndast við framleiðslu járnblendisins, gat komið í veg fyrir alkalískemmdir í steypu og hafði þar að auki fleiri jákvæð áhrif á gæði hennar. Áframhaldandi rannsóknir hjá RB og rannsóknarstofum verksmiðjanna beggja leiddu í ljós að með íblöndun kísilryks í sement, steinsteypu og múr mátti breyta og bæta eiginleika þessara efna. Upp kom hugmynd um að stofna sameignarfyrirtæki SR og ÍJ til að sinna frekari rannsóknum og tilraunum á þessu sviði.

Auglýsing

Það fyrirtæki var stofnað 1985 með jafnri þátttöku beggja fyrirtækja og hlaut nafnið Sérsteypan sf. Sérsteypan starfaði í um áratug og þróaði á þeim tíma nýjar múr- og steypugerðir, sem gáfu möguleika á ýmissi notkun slíkra efna, sem ekki höfðu áður þekkst hér á landi. Má þar nefna tilbúnar viðgerða- og múrblöndur, nýtt íslenskt múrkerfi, trefjasteypu og þjappaða þurrsteypu til notkunar í stíflur og vegagerð. Samstarf Sérsteypunnar og SR við Krafttak sf. hófst þegar Krafttak tók til við byggingu Blönduvirkjunar 1984. Framleiddi Sérsteypan sérstaka múrblöndu til þéttingar á vatnsleka inn í jarðgöngin við Blönduvirkjun og einnig Ólafsfjarðargöng, þegar Krafttak sf. varð þar aðalverktaki 1988. Þessi samvinna um framleiðslu á þéttiblöndum fyrir vatnslekann í jarðgöngunum við Blönduvirkjun varð einnig til þess að Njörður Tryggvason, framkvæmdastjóri Sérsteypunnar, lagði mikla vinnu í að skoða möguleikann á að nota þjappaða þurrsteypu í Blöndustíflu.

Hugmynd fæðist

Stjórnendur ÍJ og SR höfðu oft rætt um óhagræði þess fyrir Akurnesinga og aðra að þurfa að aka fyrir Hvalfjörð til að komast til Reykjavíkur. Staðsetning SR á Akranesi var einnig óhagstæð fyrir dreifingu á sementinu, þar sem notkun þess var að langmestu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Til hagræðingar við dreifinguna var sementið flutt með Skeiðfaxa, skipi verksmiðjunnar, í dreifingastöð í Reykjavík og dreift þaðan um höfuðborgarsvæðið með tankbílum. Fyrirséð var að með göngum undir Hvalfjörð yrði unnt að lækka dreifingarkostnað verulega. Framkvæmdastjórar Sementsverksmiðjunnar á þessum tíma voru tveir; Gylfi Þórðarson, sem sá um rekstrarhliðina, og undirritaður, Guðmundur Guðmundsson, sem sá um tæknimálin. Leist okkur báðum vel á þennan kost.

Fulltúar Elkem sem komu í heimsókn til ÍJ um þetta leyti létu í ljós undrun á því að ekki hefði verið skoðað af neinni alvöru að gera jarðgöng undir Hvalfjörð til að stytta þessa leið og bentu á reynsluna frá Noregi, þar sem margir firðir höfðu verið þveraðir með göngum. Stjórnendur ÍJ voru ekki fyllilega sannfærðir en hófu skoðun á rekstri bílferja yfir fjörðinn, skammt frá Grundartanga, sem millilausn. Sú leið hefði verið mun styttri og fljótfarnari en ferðir Akraborgarinnar milli Reykjavíkur og Akraness.

Þannig stóðu mál árið 1986 þegar Hreinn Haraldsson jarðfræðingur hjá Vegagerð ríkisins kynnti sér jarðgangagerð undir sjó í Noregi. Í skýrslu sem hann birti 1987 um jarðgangagerð á Íslandi kom fram að hann taldi göng undir Hvalfjörð hvort tveggja framkvæmanlega og hagkvæma lausn í samgöngumálum Hvalfjarðar. Skýrsla Hreins og upplýsingarnar sem í henni voru hrintu aftur af stað umræðum stjórnenda ÍJ og SR um að fyrirtækin skoðuðu af fyllstu alvöru þann kost að gera göng undir fjörðinn, og sannfærðu stjórnendur ÍJ endanlega um að gangagerðin væri vænlegri kostur en bættar ferjusamgöngur. Skýrslan ýtti einnig við ýmsum aðilum öðrum, sem höfðu áhuga og hagsmuna að gæta vegna málsins. Má þar t.d. nefna alþingismenn og sveitarstjórnir á Vesturlandi.

Undirbúningsvinna hefst

Stjórnandi framkvæmda Krafttaks sf. við Blönduvirkjun var Stefán Guðbergsson verkfræðingur. Hann var mikill áhugamaður um gerð jarðganga og í gegnum samskipti sín við meðeiganda fyrirtækisins, hið norska Aker Entreprenör, hafði hann góðar upplýsingar um vinnuaðferðir og kostnað við gerð neðansjávarganga í Noregi á þessum tíma. Samkvæmt upplýsingum Stefáns var einingaverð í gerð sprengdra jarðganga þar í landi á hraðri niðurleið. Þetta jók enn á bjartsýnina sem skýrsla Hreins Haraldssonar hafði þegar vakið um fýsileika gangagerðarinnar. Í ferðum til framkvæmdasvæðis Blönduvirkjunar og við ýmis tækifæri önnur gafst fulltrúum SR og Sérsteypunnar tími til að fara vel yfir þessar tölur og hagkvæmniathuganir með Stefáni Guðbergssyni og einnig sérfræðingum frá Aker Entreprenör.

Það var svo á stjórnarfundi SR hinn 29. mars 1988 að framkvæmdastjórar verksmiðjunnar lögðu þessar hugmyndir og bollaleggingar óformlega fyrir stjórnina. Var málinu vel tekið og framkvæmdastjórum falið að halda þessum athugunum áfram. Þann 23.–25. maí 1988 voru framkvæmdastjórarnir tveir, ásamt Ásgeiri Péturssyni, bæjarfógeta í Kópavogi og þáverandi stjórnarformanni verksmiðjunnar, á ársfundi Sambands evrópskra sementsframleiðenda (Cembureau) í Róm. Þar gafst einnig tími til að ræða við Gerhard Heiberg, aðalforstjóra norska sementsrisans Norcem, sem þá hafði nýlega sameinast Aker-samsteypunni, öðrum eiganda Krafttaks, um hugsanlega aðild Aker að gerð Hvalfjarðarganga. Voru viðbrögð Heibergs afar jákvæð, eins og fram kom í bréfi hans til SR og greinargerð. Þetta sumar, 1988, var svo farið margsinnis yfir kostnaðarliði og hagkvæmniútreikninga vegna gangagerðar undir Hvalfjörð. Var málið reifað og kynnt Vegagerð ríkisins (VR) og á fundi þar var ákveðið að halda sameiginlegan vinnufund áhugaaðila til þess að fara eins ítarlega yfir fyrirliggjandi upplýsingar og staðreyndir málsins og hægt væri.

Stjórn Sementsverksmiðju ríkisins kosin 1980 ásamt framkvæmdastjórum. F.v. Sigurjón Hannesson, Daníel Ágústínusson, dr. Guðmundur Guðmundsson, Skúli Alexanderson formaður, Gylfi Þórðarson, Ásgeir Pétursson og Friðjón Þórðarson.

Snemma hausts, hinn 15. september, var málið lagt formlega fyrir stjórn SR. Var þetta fyrsta mál á dagskrá og fylgdi með greinargerð framkvæmdastjóra SR, ásamt fyrrnefndu bréfi og greinargerð Gerhards Heiberg og fleiri gögnum. Var málið rætt ítarlega í stjórninni og voru allir stjórnarmenn sammála um mikilvægi málsins fyrir fyrirtækið. Niðurstaða fundarins var sú að stjórnin fól formanni og framkvæmdastjórum að taka áfram þátt í umræðum og athugunum á stofnun félags, sem kanna skyldi möguleika á gerð jarðganga undir Hvalfjörð. Að þeirri athugun lokinni skyldu niðurstöður hennar lagðar fyrir stjórn verksmiðjunnar til endanlegrar ákvörðunar.

Pólítískar sviptingar setja strik í reikninginn

Tveimur dögum eftir stjórnarfundinn, 17.09.1988, urðu síðan miklar sviptingar í íslenskri pólitík þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var í raun slitið í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu og ný ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar mynduð í hennar stað. Þar sem ÍJ og SR voru fyrirtæki í (mismikilli) ríkiseigu fór iðnaðarráðuneytið með eignarhluta ríkisins í þeim og málefni þeirra féllu undir það ráðuneyti. Möguleg gerð Hvalfjarðarganga féll aftur á móti undir samgönguráðuneytið. Ríkisstjórn Steingríms Hermannsonar var ríkisstjórn þriggja flokka; Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Nýr samgönguráðherra var Alþýðubandalagsmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon en Jón Sigurðsson úr Alþýðuflokki var iðnaðarráðherra.

Skömmu eftir stjórnarskiptin, dagana 5. og 6. október, var svo haldinn áðurnefndur vinnufundur SR, ÍJ, Krafttaks, Vegagerðarinnar og fleiri áhugaaðila, á skrifstofu Krafttaks í Reykjavík. Þar voru allir þættir varðandi gerð jarðganga undir Hvalfjörð, bæði tæknilegir og fjárhagslegir, ræddir. Niðurstöður vinnuhópsins voru svo dregnar saman í nákvæmri og vandaðri greinargerð. Þeir sem þátt tóku í vinnufundinum voru undirritaður og Gylfi Þórðarson fyrir hönd Sementsverksmiðju ríkisins, Stefán Reynir Kristinsson frá Íslenska járnblendifélaginu, Stefán Guðbergsson, Ellert Skúlason og Rolf Lian frá Krafttaki og O.T. Blindheim, sem ráðgefandi verkfræðingur. Auk þess aðstoðaði Jón Steingrímsson frá Íslenska járnblendifélaginu við tölvuútreikninga. Þá veittu þeir Guðmundur Arason verkfræðingur og dr. Hreinn Haraldsson jarðfræðingur, báðir frá Vegagerð ríkisins, ómetanlega aðstoð varðandi margvíslegar upplýsingar um verkefnið.

Verkefnið Hvalfjarðargöng fæðist

Það var samdóma álit vinnuhópsins að þær upplýsingar sem fram komu í greinargerðinni væru nægilega traustar og ítarlegar til að stjórnir hlutaðeigandi fyrirtækja gætu tekið upplýsta ákvörðun um það, hvort áfram skyldi haldið með frekari rannsóknir á verkefninu eða ekki. Má með sanni segja að þessi fundur hafi skapað grundvöllinn fyrir það stóra verkefni að þvera Hvalfjörðinn með jarðgöngum. Helstu niðurstöður vinnufundarins voru þessar:

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar voru engin tæknileg eða jarðfræðileg vandamál sýnileg, sem gætu komið í veg fyrir framgang verkefnisins. Heildarstofnkostnaður var áætlaður 2.330 milljónir íslenskra króna. Í þeim kostnaði voru innifaldir vextir á byggingatíma fyrir jarðgöng sem yrðu 5.050 metrar að lengd og staðsett einhvers staðar á svæðinu milli Hnausaskers og Laufagrunns. Kostnaður við vegagerð á landi var ekki innifalinn í þessari tölu. Rekstrarkostnaður jarðganganna var áætlaður 50 milljónir ísl. króna á ári. Sem tekjuforsendu var ákveðið að nota veggjald ísl. kr. 350,- fyrir fólksbifreiðar og ísl. kr. 2.000 fyrir vörubíla. Þetta vegagjald var áætlað sem lægsta gjald. Með jarðgöngum undir Hvalfjörð sem staðsett væru við Laufagrunn styttist leiðin frá Akranesi til Reykjavíkur um 58 km, en styttingin til annarra hluta landsins yrði 45 km. Hvalfjarðar-vegur yrði þó áfram aðalvegurinn til vestur-, norður- og austurhluta landsins.

Næsti fundur stjórnar SR var haldinn 27.október 1988 og aftur voru Hvalfjarðargöng fyrsta mál á dagskrá. Framkvæmdastjórar lögðu þar fram hagkvæmniáætlunina. Stjórn SR leist vel á niðurstöður skýrslunnar og þá bjartsýni sem þar kom fram á framgang verkefnisins.

Eftir þennan stjórnarfund kynntu framkvæmdastjórar ÍJ og SR niðurstöðurnar fyrir Steingrími J. Sigfússyni samgönguráðherra og Jóni Sigurðsyni iðnaðarráðherra, sem báðir lýstu áhuga á málinu. Það fór síðan í samráðsferli milli fyrirtækjanna, sveitarfélaga á svæðinu, Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins, sem endaði með stofnun fyrirtækisins Spalar rúmu ári síðar (25.janúar 1991). Um framhald þessa má svo lesa í ágætri bók Atla Rúnars Halldórssonar, Undir kelduna, sem kom út árið 2008.

Heimildir: Skjöl og önnur gögn frá Sementsverksmiðju ríkisins varðveitt hjá Þjóðskjalasafni Íslands.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Lífskjarasamningurinn leiðir launaþróun en ekki opinberir starfsmenn
Kjarninn 6. maí 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Vonandi hægt að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum
Helsta áskorunin í faraldrinum nú er sá fjöldi ferðamanna sem hingað er að koma sem er umfram spár. Breyta gæti þurft fyrirkomulagi á landamærum því heildargeta til skimunar takmarkast við 3-4.000 sýni á dag.
Kjarninn 6. maí 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 36. þáttur: Nunnusjóguninn II
Kjarninn 6. maí 2021
Deilan snýst um verksamning á milli ÍAV og 105 Miðborgar um fyrstu þrjú húsin sem eru þegar risin á reitnum í Laugarnesi. Hér má sjá tölvuteikningu af því hvernig áformað er að svæðið líti út í framtíðinni.
ÍAV stefna og setja fram 3,8 milljarða kröfur vegna deilu á Kirkjusandsreit
Íslenskir aðalverktakar eru búnir að stefna Íslandssjóðum og félaginu 105 Miðborg til greiðslu 3,8 milljarða króna vegna deilu um verksamning á Kirkjusandsreit. Verktakafyrirtækið missti verkið í febrúarmánuði.
Kjarninn 6. maí 2021
Andrés Ingi Jónsson
Þegar Tyrkir þjörmuðu að þingmönnum
Kjarninn 6. maí 2021
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Síldarvinnslan einnig í vandræðum með tæknilegu hliðina á aðalfundi SFS
Mistök urðu þess valdandi að Síldarvinnslan náði ekki að greiða atkvæði í kjöri til stjórnar SFS á aðalfundi á föstudaginn. Tillaga um að greiða atkvæði á ný var þó samþykkt í kjölfarið, en þá lentu Samherji og Nesfiskur í svipuðum vandræðum.
Kjarninn 6. maí 2021
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar