Að skrá fyrirtæki á markað getur haft marga kosti í för með sér, svo sem meiri sýnileika, lægri fjármagnskostnað, meiri sveigjanleika í fjármögnun og aukið traust. Einnig er gjarnan litið svo á að skráningu fylgi áreiðanlegra mat á virði hlutabréfa fyrirtækis, þar sem hlutabréfaverð er ákvarðað af samspili framboðs og eftirspurnar byggt á ítarlegum upplýsingum frá sjálfu fyrirtækinu, hagtölum, verðmati óháðra greiningaraðila, umfjöllun fjölmiðla og ýmsum öðrum upplýsingum – að því ótöldu að fjárfestar eru yfirleitt tilbúnir til þess að greiða hærra verð fyrir hlutabréf skráðra fyrirtækja, sökum meiri seljanleika.
Fjölmörg dæmi eru þó um að markaðurinn hafi of- eða vanmetið félög af þeirri einföldu ástæðu að fjárfestar og greiningaraðilar hafa ekki skilið rekstur þess með fullnægjandi hætti eða hvernig það skapar, eða hyggst skapa, verðmæti.
Þetta getur sérstaklega átt við um nýskráð félög í rekstri sem fjárfestar og greiningaraðilar eru ekki vanir því að greina, eins og hefur t.a.m. komið fram í umræðu um Heimavelli og mögulega töku hlutabréfa þess úr viðskiptum í Kauphöllinni. Þá er einnig algengt að það sama eigi við um félög sem hafa nýverið vikið frá fyrri stefnu eða sótt á nýja mið. Í slíkum tilfellum reynir á stjórnendur og fjárfestatengla viðkomandi fyrirtækis, sem geta þurft að taka á honum stóra sínum til þess að breyta afstöðu fjárfesta og upplýsa þá um raunverulega drifkrafta verðmætasköpunar fyrirtækisins.
Nasdaq Inc., fyrirtækið sem vinnustaður undirritaðs er hluti af, er t.a.m. sjálft skráð á markað í Bandaríkjunum og hefur, þrátt fyrir alla sína sérfræðiþekkingu á hlutabréfamörkuðum og fjárfestatengslum, þurft að kljást við slíkan vanda samhliða vexti fyrirtækisins og breyttum áherslum. Á síðustu árum og áratugum hefur Nasdaq þróast frá því að vera fyrst og fremst bandarísk kauphöll yfir í að vera alþjóðlegt tækni- og fjármálaþjónustufyrirtæki. Engu að síður tengdu fjárfestar fyrirtækið lengi vel aðallega við rekstur Nasdaq kauphallarinnar í Bandaríkjunum og höguðu verðmati og viðskiptum eftir því.
Það er eins með fjárfesta og fólk almennt að þeir þurfa gjarnan að heyra sömu orðræðuna nokkuð oft áður en hún verður að almennri þekkingu. Sú reyndist einnig vera raunin hjá Nasdaq, en stjórnendur fyrirtækisins þurftu að fara í talsvert átak til þess að fræða fjárfesta um breytingar á tekjugrunni fyrirtækisins, stefnu þess og vaxtartækifærum. Smám saman fóru fjárfestar að vakna til lífsins, útgangspunktur greiningaraðila breyttist og hlutabréfaverðið fór að þróast og bregðast við fréttum með öðrum hætti en áður.
Lærdómurinn er sá að það getur tekið langan tíma, jafnvel einhver ár, þar til fjárfestar átta sig almennilega á verðmætasköpun skráðra fyrirtækja. Góðu fréttirnar eru aftur á móti þær að það er í höndum félaganna sjálfra að flýta fyrir því.
Fyrsta skrefið er að nálgast fjárfesta og greiningaraðila af auðmýkt og reyna að átta sig á því til hvaða atriða þeir horfa í rekstri fyrirtækisins, hvað þeir telji vera veikleika þess og hvað þeir eiga erfiðast með að skilja varðandi reksturinn – án þess að rökræða hvar „eðlilegt“ verðmat eigi að liggja. Draga lærdóm af mati þeirra en reyna jafnframt að átta sig á því hvort það kunni að gæta einhvers misskilnings varðandi grundvöll verðmætasköpunar fyrirtækisins. Ef svo virðist vera, móta skýr skilaboð út frá því.
Þeim skilaboðum getur svo þurft að halda ítrekað á lofti í tilkynningum, á fundum með fjárfestum og greiningaraðilum og í samskiptum við fjölmiðla áður en þau bera árangur. Góð fjárfestatengsl eru ekki sjálfgefin, en ef rétt er að þeim staðið getur verið um afar arðbæra fjárfestingu að ræða sem gerir fyrirtækjum kleift að nýta sér raunverulega kosti skráningar á markað.
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.