Á undanförnum dögum hefur mikil umræða staðið um hvaða áhrif verkföll muni hafa á ferðaþjónustu. Af þeirri umræðu verður ekki séð að forsvarsmenn Eflingar og VR hafi af því nokkrar áhyggjur, sem er undarlegt í ljósi þess að öruggt er að afleiðingarnar munu hitta fyrir þeirra eigin félagsmenn eins og alla aðra í samfélaginu. Ýmis dæmi er hægt að nefna um það hvernig það gerist, en hér skal sjónum sérstaklega beint að einni tegund afleiðinga verkfallsaðgerðanna sem vinna beinlínis og augljóslega gegn markmiðum verkalýðsbaráttunnar.
Tjónið er þegar hafið
Skýrt hefur komið fram að um leið og aðgerðir voru boðaðar fóru áhrif að koma fram. Fjölmargir erlendir ferðaskipuleggjendur velta nú fyrir sér hvernig þessar aðgerðir muni hafa áhrif á þeirra viðskipti á Íslandi og hvernig þeir eigi að bregðast við þeim. Sömu sögu er að segja af einstökum ferðamönnum sem nú eru að ákveða hvert þeir ætla að fara í fríinu sínu í ár, einmitt þegar bókunartímabilið fyrir sumarið stendur sem hæst í mars og apríl.
Frá sjónarhóli þessara aðila, fólks og fyrirtækja, snýst spurningin um hversu mikil vandræði og fjárhagstjóni verkföllin muni skapa og hvernig sé mögulega hægt að komast hjá því. Augljós leið er að hætta við að bóka ferð til Íslands eða fara með ferðamannahópana til annarra landa í staðinn.
Önnur leið er að færa viðskiptin til aðila sem verða ekki fyrir áhrifum af verkföllunum. Og þar kemur skuggahagkerfið til sögunnar. Aðilar sem vinna í ferðaþjónustu á Íslandi utan rammans, án þess að greiða rétt laun, án þess standa skil á sköttum og skyldum til ríkisins, til dæmis fyrirtæki sem stunda rekstur hópferðabíla hér á landi yfir sumarið. Þetta stendur yfir nú þegar. Tjónið er þegar hafið.
Afleiðingarnar snerta líka félagsmenn Eflingar og VR
Hinar augljósu afleiðingar eru þær að rekstur fyrirtækja sem stunda félagsleg undirboð styrkist og rekstur fyrirtækja sem greiða starfsfólki sínu laun samkvæmt kjarasamningum versnar. Tekjumöguleikar þess að leigja út óskráðar íbúðir á Airbnb (sem hafa farið dvínandi) batna skyndilega og það kemur í veg fyrir að slíkir aðilar gefist upp á harkinu og skili íbúðunum út á almenna leigumarkaðinn.
Afleiðingar þessa fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna eru óhjákvæmilega þær að störf flytjast til erlendra fyrirtækja sem stunda skipuleg félagsleg undirboð og fyrirtæki sem greiða skv. kjarasamningum neyðast til að draga saman seglin. Störf munu tapast vegna þess að fyrirtæki sem fara að lögum og kjarasamningum geta ekki keppt við svindlarana. Auknir möguleikar til útleigu heimagistingar munu halda áfram þrýstingi á leigumarkað og húsnæðisverð. Og til viðbótar töpum við svo öll, allt samfélagið, á því að svindlararnir svíkja allt undan skatti. Skuggaböldrum svarta hagkerfisins er nefnilega alveg sama um barnabætur, atvinnuleysistryggingar og félagslega aðstoð.
Til að ítreka: Þetta er nú þegar byrjað að gerast þótt verkföll séu ekki hafin. Umræðan ein er nægilegur hvati.
Á sama tíma eru stjórnvöld, atvinnulífið og ASÍ að vinna saman að því að koma í veg fyrir félagsleg undirboð, kennitöluflakk, vinna að tillögum til aðgerða á húsnæðismarkaði og svo framvegis. Verkföll vinna beint gegn þessum sameiginlegu hagsmunum, bæði með því að ýta undir skakkan samkeppnisgrundvöll fyrirtækjanna og með því að skapa hvata til launaþjófnaðar og félagslegra undirboða og auka þrýsting á húsnæðismarkað.
Óþægilegar staðreyndir eru samt sem áður staðreyndir
Einhverjum mun kannski finnast einfalt að útmála þetta sem hræðsluáróður atvinnurekenda. En staðreyndin er sú að þetta er þegar að gerast. Spyrjið bara fyrirtækin. Spyrjið bara heimagistingaraðila sem sáu sumarið skyndilega bókast upp eftir að verkföll voru boðuð. Sannleikurinn hverfur ekki þó reynt sé að sópa honum undir teppið með frösum.
Hér er því spurning sem Sólveig Anna og Ragnar Þór þurfa að svara:
Hversu mikið tjón þeirra eigin félagsmanna er ásættanlegur fórnarkostnaður vegna yfirfærslu á tekjum og störfum til fyrirtækja og einkaaðila sem starfa utan laga og kjarasamninga, stunda félagsleg undirboð og svíkjast um að greiða skatta til samfélagsins?
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.