Tollabandalag Evrópu er samofið Evrópusambandinu en þó eru nokkur lönd í því sem ekki eru í ESB það er Tyrkland, Mónakó, Andorra, San Marínó, Guernsey, Jersey og Andorra. Við þurfum að skoða vel hvort Ísland fengi aðild að Tollabandalaginu til að bæta hér lífskjör.
Innan Tollabandalagsins eru hvorki tollar né tollafgreiðsla milli landa nema í undantekningartilvikum. Þannig geta íbúar Bretlands (enn) pantað ísskáp frá Þýskalandi og fengið hann til sín án tollafgreiðslu og tilheyrandi gjalda. Sama gildir um aðföng fyrirtækja.
Af öllu því sem BREXIT þýðir óttast Bretar mest afleiðingar útgöngunnar úr Tollabandalaginu. Ástæðan er sú að með tollafgreiðslu og tollum hækkar vöruverð í Bretlandi og vörur Breskra fyrirtækja verða síður samkeppnisfærar.
Tollar og tollafgreiðsla
Hér á landi eru allar vörusendingar til fyrirtækja erlendis frá tollafgreidda þó þær flestar séu tolllausar. Kostnaðurinn við það er að lágmarki rúmar 5.000 kr. auk tafa. Sendingar til einstaklinga upp að 40.000 kr. þarf ekki að tollafgreiða en á þær kemur E3 gjald sem nú er 535 kr. Gera þarf tollskýrslu fyrir annað til einstaklinga eins og fyrirtækja.Krafa um gerð tollskýrslu fyrir tollfrjálsa vörur er í raun tæknileg viðskiptahindrun. Tollskýrslur vegna innflutnings eru um 500.000 á ári og vegna útflutnings um 100.000. Lauslega áætlaður kostnaður við tollafgreiðslu um 5 milljarða króna á ári og óbeinn kostnaður vegna tafa og geymslu annað eins.
Netverslun eykst ár frá ári. Ef við værum innan Tollabandalagsins væru vörusending milli okkar og Evrópu álíka einfaldar og innanlands. Það lækkar vöruverð og bætir þjónustu við neytendur.
Innflutningstollar á landbúnaðarafurðir kosta neytendur hér um 100.000 kr. á mann á ári sem gerir um 25 milljarða kr. í heild á ári.
Tollar á okkar sjávarafurðir inn til Evrópu kosta fiskútflytjendur á bilinu 500 til 1.000 milljónir kr. á ári.
Tollar geta reyndar verið óbreyttir áfram þó við gögnum í Tollabandalagið en óþarfa tollafgreiðsla getur fallið niður. Þannig eru landbúnaðarafurðir frá Tyrklandi ekki tollfrjálsar inn á ESB svæðið þó landið sé í Tollabandalaginu.
Málið snýst ekki bara um tolla heldur líka um óþarfa tollskýrslugerð og afgreiðslu.
Könnum málið
Áhugavert væri að skoða af alvöru hvort EES / EFTA löndin gætu orðið aðilar að Tollabandalaginu. Hugsanlega gæti sú skoðun fengið aukið vægi á næstunni því Bretar eru að leita að breyttri aðild að ESB og finnist EES samningurinn líklega of þröngur fyrir sig.Ef ekki er vilji til að EES löndin gangi í Tollabandalagið ættum við að kanna möguleikana á að taka upp ódýra sjálfvirka tollafgreiðslu eins og Bretar hafa verið að velta fyrir sér að gera ef þeir ganga úr Tollabandalaginu.
Ef ofangreint gengur ekki ættum við einhliða að hætta að krefjast tollskýrslu fyrir vörur sem vitað er að ekki bera tolla.
Fyrir neytendur hér gæti þetta bætt lífskjör um 1-5%.
Höfundur er viðskiptafræðingur.