Í upphafi 20. aldar áttu helstu umbótahreyfingar Íslands sér eitt sameiginlegt markmið: Að landsmenn losnuðu undan böli áfengisneyslu sem markaði fólki grimm örlög. Án áfengis voru oft einhverjir möguleikar til að takast á við fátækt og harðneskjuleg lífsskilyrði. Í fjötrum áfengis blasti hins vegar gjarnan við örbirgð og heimilisofbeldi. Áfengissýki var fyrst og síðast karlasjúkdómur en bitnaði á öllum – ekki síst konum og börnum. Góðtemplarareglan barðist fyrir algjöru áfengisbanni. Allur innflutningur áfengis skyldi bannaður með lögum sem og öll framleiðsla og neysla áfengis í landinu.
Í Góðtemplarareglunni ríkti jafnrétti karla og kvenna. Þar fengu margar forystukonur kvennahreyfingarinnar skólun í ræðumennsku og öðrum félagsstörfum – rétt eins og ýmsir fyrstu forystumenn íslenskrar verkalýðshreyfingar. Hinn öflugi skipuleggjandi Sigurður Eiríksson “regluboði” fór t.d. um landið og stofnaði jöfnum höndum góðtemplarareglur og félög sjómanna.
Á Íslandi þróaðist einnig merkileg leið til lýðræðis. Hugmyndin var að Alþingi og ríkisvald stjórnuðu landinu frá degi til dags. Þjóðin sjálf færi samt með æðsta valdið og því eðlilegt að kjósendur tækju mikilvægar ákvarðanir í almennum atkvæðagreiðslum. Alþingi ákvað því að verða við ákalli um þjóðaratkvæðagreiðslu um áfengisbann sem haldin var sumarið 1908. Þar samþykkti 60% kjósenda bann. Meirihluti Alþingis taldi sér skylt að hlíta niðurstöðunni – burtséð frá persónulegum skoðunum. sérhvers þingmanns. Sannfæring þingmanna var að þjóðarvilji færi æðri þingvilja. Alþingi hefði falið kjósendum að taka ákvörðun. Þau fyrirheit skyldu standa. Áfengisbann tók gildi í ársbyrjun 1915 en var afnumið árið 1933 eftir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meirihlutinn var andvígur banni.
Sundruð föllum við
Samstaða kvennahreyfingar og verkalýðsfélaga var til hagsbóta fyrir land og lýð. Fljótlega komu samt brestir í þá samstöðu. Verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað 1906. Þar voru verkakonur ekki velkomnar – svo vægt sé til orða tekið. Verkalýðsfélög karla sýndu yfirleitt kröfu um kynjajafnrétti lítinn stuðning. Konur neyddust því til að stofna sín eigin verkalýðsfélög. Hið fyrsta var verkakvennafélagið Framsókn stofnað í Reykjavík 1914. Eitt helsta baráttumál Kvenréttindafélags Íslands var launajafnrétti kvenna og karla í sömu störfum; var félagið m.a. traustur bakhjarl fyrstu félaga verkakvenna.
Aðskilnaður kvennabaráttu og verkalýðshreyfingar hafði víðtækar og neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt þjóðfélag. Heildarsamtök íslensks verkalýðs sinntu t.d. lítið baráttu gegn kynbundnu launamisrétti og kvennakúgun. Sameiginlegur styrkur alþýðuhreyfinga landsins minnkaði en sérhagsmunaöfl valdakarla réðu för. Sú þróun átti mikinn þátt í hnignun lýðveldisins.
Hrunið 2008 – Barátta fyrir lýðræði og jafnrétti
Efnahagshrunið 2008 afhjúpaði endanlega djúpstæða kreppu íslenska lýðveldisins. Landinu var einfaldlega ekki stjórnað í þágu almennings. Leiðarljós íslenskra ráðamanna voru sérhagsmunir hinna ríku og voldugu. Spilling, vanhæfni, fúsk og frændhygli stjórnaði gerðum valdafólks í stjórnmálum, fjármálakerfi og eftirlitsstofnunum. (Saknæmt athæfi kom einnig við sögu. Þannig dæmdi Landsdómur þáverandi forsætisráðherra fyrir vanrækslu í starfi á grundvelli 17. gr. í stjórnarskrá. Dómstólar hafa dæmt 40 eigendur, æðstu stjórnendur og starfsfólk fjármálastofnana vegna efnahagsbrota í aðdraganda Hrunsins. Samanlagðar refsingar þeirra sem hafa verið sakfellt nema heilli öld).
Ýmis jákvæð teikn eru á lofti um endurreisn íslenska lýðveldisins eftir Hrun. Ný stjórnarskrá var samin í anda hinnar íslensku leiðar til lýðræðis, að tvinna saman beinu lýðræði og fulltrúalýðræði. Öflugra Alþingi og sjálfstæðari dómstólar komi t.d. í stað óhefts ráðherraræðis og geðþóttavalds ráðamanna. Almenningur öðlist sjálfstæðan rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna. Fullt gjald sé greitt fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda. Fyrr eða síðar mun Alþingi þurfa að afgreiða málefnalega frumvarp til nýrrar stjórnarskrár sem þjóðin samþykkti efnislega í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012.
Verkalýðshreyfingin berst fyrir hagsmunum láglaunahópa þar sem konur eru í miklum meirihluta. Konur eru í ýmsum forystustöðum hreyfingarinnar. Drífa Snædal er fyrsta konan á forsetastól í yfir 100 ára sögu Alþýðusambands Íslands. Sólveig Anna Jónsdóttir sömuleiðis fyrst kvenna til að gegna forystu í Eflingu stéttarfélagi. Konur og karlar standa sameiginlega að hagsmunabaráttu í þágu betra þjóðfélags. Ójafnaðarþjóðfélag er uppskrift að veikburða lýðræði þar sem hagsmunir almennings víkja fyrir klíkuveldi og sérhagsmunum. Barátta fyrir jafnrétti er í þágu lýðræðis.
Róttæk og öflug verkalýðshreyfing eða gönuhlaup nýrrar forystu?
Við lifum því á miklum umbrotatímum þar sem tekist er á framtíð íslenska lýðveldisins. Á opinberum vettvangi eru t.d. sagðar tvær sögur:
1. Íslenskt verkafólk er að rísa upp og kasta af sér hlekkjum lágra launa, forstjóravalds og fjandsamlegs ríkisvalds sem fyrst og síðast gætir hagsmuna þeirra ríku og voldugu. Ný forysta mun leiða sókn íslensks verkalýðs til nýs þjóðfélags þar sem hagur vinnandi fólks, kvenna sem karla, er í öndvegi. Verkföll þjóna tvíþættum tilgangi: Knýja atvinnurekendur til að ganga að sanngjörnum kröfum verkafólks og eru vinnandi fólki til valdeflingar og baráttugleði.
Róttæk og öflug verkalýðshreyfing verður að veruleika.
2. Lífskjör á Íslandi eru almennt góð. Verkalýðsbarátta er hins vegar átumein í þjóðfélaginu; skapar sundrungu í stað samheldni. “Vinnuveitendur” eru drifkraftur hagvaxtar; kaup og kjör “launþega” ætti að miðast við greiðslugetu atvinnuveganna. Verkalýðsfélög eiga ekki að hafa nein afskipti af stjórnmálum eða þjóðmálum yfirleitt.
Nýtt forystufólk verkalýðsfélaga eru ofstækisfullir grillufangarar fastir í úreltum hugmyndum um stéttabaráttu og sósíalisma sem ætíð leiða til fátæktar og örbirgðar. Verkföll eru úrelt baráttutæki.
Gönuhlaup nýrrar verkalýðsforystu mun leiða hörmungar yfir íslenskt verkafólk og þjóðfélagið allt.
Í Dagsbrúnarfyrirlestri fimmtudag 7. mars kl. 12 mun ég fjalla um sögulegan uppruna frásagnanna tveggja og reyna að meta fræðilega stöðu og framtíðarhorfur íslenskrar verkalýðshreyfingar á örlagatímum. Fyrirlestrarstaður: Fundasalur Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1. Reykjavík.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði.