Fyrir helgi var sagt frá því í Kjarnanum að karlar færu með ákvörðunarrétt í meira og minna öllu því sem viðkemur fjármagninu á Íslandi. Þrátt fyrir að Ísland tróni efst á listum um jafnrétti á milli kynja er staðreyndin sú að karlar ráða því sem næst algjörlega yfir efnahagsmálum. En auðvitað er það svo að reglurnar sem gilda í heimi kapítalista eru aðeins þær sem þeir sjálfir ákveða að lifa eftir; þær taka ekki mið af öðru en því sem eigendum fjármagnsins finnst skipta máli hverju sinni og ef að það skiptir þá engu að konur séu ekki í þeirra hópi þá einfaldlega er það svoleiðis. Eins og öll með heila hljóta að vera búin að horfast í augu við er kapítalisminn ekki réttlátt eða skynsamt fyrirbæri, hann er meira að segja svo óréttlátur og óskynsamur að honum er sama þótt að umhverfis-katastrófa á heimsmælikvarða fylgi í kjölfar hans; hversvegna ætti hann að vera eitthvað niðurdreginn þótt að konur komist ekki að stjórnborði maskínunnar, svo lengi sem maskínan stoppar ekki.
Ég er ekki eins og kapítalisminn; ég er reyni að hafa sanngirni að leiðarljósi í lífi mínu. Mér stendur engu að síður á sama um það hvort konur komast að stjórnartaumum arðránsins eða ekki. Ég hef nefnilega enga trú á því að það muni breyta neinu, grimmdin og skeytingarleysið eru byggð inní kerfið, kerfið er vandamálið; arðrán er arðrán, sama hver sér um að útfæra og framfylgja því.
Að þessu sögðu.
Tilætlunarsemi ríkra og valdamikilla karla á Íslandi er yfirgengileg og sérstaklega er tilætlunarsemin og hrokinn sem mætir kven-vinnuaflinu með ólíkindum. Íslenskir karlar sem tilheyra efnahagslegum forréttindahópum eru vanir að fá að ráða því sem þeir vilja. Og þeir hafa ákveðið að eitt af því sem þurfi til að tryggja að þeir geti haldið áfram að eiga Ísland sé að láglaunakonur verði áfram ósýnilegar og valdalausar. Í þeirra huga er láglaunakonan hvort sem er bara eins og hvert annað tól og allt í lagi að nota hana til þess að láta eigin drauma um völd og peninga rætast. Það að hún kvarti, jafnvel hástöfum og segi frá því að hún hafi það slæmt, að hún hafi ekki nóg á milli handanna, að hún vinni of mikið fyrir of lítið, að hún sé þreytt, að hún sé að missa heilsuna, að hún sé á hrakhólum, skiptir engu máli, gróðinn skiptir öllu máli. Óforskömmuð meðferðin á láglaunakonum er kerfisbundið, afleiðing baneitraðrar blöndu kapítalisma og kvennakúgunar.
Undirsett staða kvenna inn á heimilum í mannkynssögulegu samhengi er ástæðan fyrir því að kvennastörf eru verðlögð svona glæpsamlega lágt; konur voru fæddar til að þrífa og gæta barna, þetta gerðu þær ókeypis og því sjá íslenskir kapítalistar enga sérstaka ástæðu til að borga nema smáræði fyrir þessi störf þegar að þau eru unnin utan heimilisins. Í þeirra heimi, þar sem þú sannar karlmennsku þína með því sýna að þú hefur reiknivél í stað hjarta, þar sem þú sannar karlmennsku þína með því að sýna að erfiðleikar í lífi annars fólks hreyfa ekki við þér, er það væntanlega prinsippmál að halda láglaunakonum áfram neðst í stigveldinu.
Vandinn sem verka og láglaunakonur standa frammi fyrir er mikill og stór og hann er samansettur af mörgum alvarlegum vandamálum. Inní honum býr meðal annars samræmd láglaunastefna atvinnulífsins og hins opinbera, viðbjóðsleg efnahagsleg kvennakúgun sem hefur sem grundvallaratriði að vinnuafl kvenna af lægri stéttum haldist ávallt mjög ódýrt, svo ódýrt að upphæðin sem fyrir það fæst dugir ekki til að tryggja afkomu. Segja má að þessi staðreynd sé skrifuð inní einhverja þjóðarsátt, hún er kerfisbundinn nálgun á líf láglaunakvenna, kerfisbundin grimmd, kerfisbundin vanvirðing. Inní vandanum býr einnig ástandið á húsnæðismarkaði, þar sem láglaunakonur sem ekki eru svo heppnar að deila heimilisútgjöldum með annari fullorðinni manneskju eiga ekki séns á að eignast sitt eigið húsnæði og þurfa þessvegna að sjá af stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í vasa eignastéttarinnar, sem fríar sig samfélagslegri ábyrgð með því að græðgisvæða allt húsnæði og ýtir með því undir aukna stéttskiptingu og misskiptingu.
Það hefur enginn staðið með láglaunakonum á kerfisbundinn hátt, þrátt fyrir að þær verði fyrir kerfisbundinni kúgun. Það hefur enginn tekið að sér að benda samfélaginu kerfisbundið á virkni kerfisins og hvernig það nærist á líkama okkar og sál, hvernig það tekur ekki tillit til tilveruréttar okkar, hvernig það starfar eftir hugmyndum um að kvennastörf séu minna virði en önnur störf, hvernig það sýnir aðfluttum láglaunkonum algjört kaldlyndi og hvernig það er heimsmeistari í hræsni; slær sér á brjóst og þykist vera kvenvænt á sama tíma og það hefur sem forgangsatriði að kreista eins mikið af vinnu útúr láglaunakonum fyrir eins lítinn pening og hægt er.
Láglaunakonur þekkja kerfið afskaplega vel. Það hefur mótað okkur. Við vitum mjög vel að það styðst eingöngu við hagnýtingarsjónarmið gagnvart okkur og við vitum vel hver stéttastaða okkar er. Við vitum það af afskaplega einfaldri ástæðu: Fyrsta hvers mánaðar er okkur send áminning um hana í formi launaseðils, þegar okkur er afhentur smáskammtur af peningum fyrir heilan mánuð af vinnu og okkur sagt, þegar við berum okkur illa og bendum á hið augljósa, að skammturinn dugi ekki til eins né neins, að kaupa dömubindin og Íbúfen-ið fyrir „upp¬safn¬aða raun¬á¬vöxtun ráð¬stöf¬un¬ar¬tekna”. Reynsla okkar af kerfinu er ástæðan fyrir því að við ætlum að rísa upp. Upprisa okkar er einfaldlega afleiðing óréttlætisins sem við höfum verið beittar, framkoman við okkur, áhugaleysið, skilningsleysið, afskiptaleysið hefur leitt okkur það fyrir sjónir að barátta er eina leiðin. Efnahagsleg kúgun leiðir af sér baráttu fyrir efnahagslegu frelsi.
Ég tilheyri stétt láglaunakvenna og mér finnst fáránlegt að yfirstétt karla ætlist einfaldlega til þess að ég viðurkenni að líf láglaunakonunnar sé augljóslega minna virði en líf þeirra, að tími láglaunkonunnar sé frá náttúrunnar hendi milljón, nei, milljarð-sinnum minna virði en tími ríka karlsins, að ég bugti mig og beygi fyrir lögmálum kerfis sem tekur ekkert tillit til mín eða þarfa minna. Ég er láglaunakona og mér finnst fáránlegt að yfirstétt karla haldi að ég muni nokkru sinni viðurkenna að líf láglaunakonunnar sé svo lítils virði að það megi ekki einu sinni berjast fyrir því að grundvallarhugmyndir lýðræðissamfélagsins um frelsi og réttlæti eigi líka við um hana.
Ég er láglaunakona og ég mun aldrei hætta að trúa á drauminn um að láglaunakonan fái loksins notið réttlætis og sanngirni í íslensku samfélagi. Ég er láglaunakonu-femínisti og ég segi eins og Angela Davis: Ég ætla ekki lengur að sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Ég ætla að breyta því sem ég get ekki sætt mig við. Ég er láglaunakonu-femínisti og ég einfaldlega krefst þess að fámenn yfirstétt karla komist ekki lengur upp með að taka allar ákvarðanir sem snúa að efnahagslegri tilveru minni og þeirra kvenna sem hafa verið dæmdar til að bera fáránlegar byrðar í nafni samræmdrar láglaunastefnu. Ég einfaldlega krefst þess að sú samfélagslega grimmdar-gildra, sem gerir það að verkum að það er sama hvert láglaunakonan snýr sér, hún fær lítið borgað hér og lítið borgað þar, verði tekin samstundis úr sambandi.
Það er kúgun fólgin í því að dæma aðra manneskju til þess að fá ekki nóg til að framfleyta sér, það er kúgun fólgin í því að bilast af frekju þegar manneskjan kvartar undan stöðu sinni og það er kvennakúgun fólgin í því að ætla að kremja baráttu láglaunakvenna fyrir réttlæti. Það er löngu tímabært að íslenskir karlar sem tilheyra efnahagslegri og pólitískri valdastétt hætti að einblína á eigin langanir og þarfir og fari, í fyrsta skipti, að hugsa um þarfir og langanir annarra. Þeir eiga að byrja á þörfum og löngunum láglaunakvenna og með því sýna sáttavilja, sýna fram á getuna til að hugsa um hlutina öðruvísi en eingöngu út frá eigin sjónarmiðum, getuna til að sýna tillitssemi, getuna til að hlusta, skilja og þroskast.
Við láglaunakonur erum í stéttabaráttu. Baráttan okkar snýst um betri laun og öruggt húsnæði á eðlilegu verði. Hún snýst um möguleikana á að vera eitthvað meira en ódýrt vinnuafl, um brauð og rósir. Hún snýst um lýðræði, frelsi og réttlæti. Hún er óumflýjanleg og henni ber að fagna. Hún er kvennabarátta og því ber að fagna.
Að lokum.
Ég umorða lokaorð Barböru Ehrenreich í bók sinni um líf láglaunafólks, Nickel and Dimed örlítið og geri að mínum:
Dag einn munu þær þreytast á því að uppskera svo lítið og krefjast þess að fá það greitt sem þær eiga skilið. Þessum degi mun fylgja mikil reiði, honum fylgja verkföll og uppnám. En veröldin ferst ekki og við verðum á endanum öll betur sett.
Sjáumst 8. mars.
Höfundur er formaður Eflingar.