Fyrir nokkrum áratugum, jafnvel aðeins nokkrum árum, fór lítið fyrir hugmyndum um matvælastefnu samfélags á borð við það íslenska. Hvað hefur breyst? Svarið liggur eins og stundum áður í krossgötum mannkyns. Heimsmyndin er breytt og umhverfisaðstæður sömuleiðis. Aukin samskipti samfélaga, mikil viðskipti milli landa, efi um hollustu matvæla og loftslagsbreytingar eru meðal þess augljósa. Sú stefna markaðssamfélagsins að viðskipti séu eingöngu hagræn og eigi sjálfkrafa að vera sem mest eru dregin í efa. Við myndina bætist misjafnt vistspor matvöru, aukin lyfjanotkun í matvælaframleiðslu, fyrirhyggjulaus verksmiðjuframleiðsla og jafnvel rányrkja. Grænum gildum er haldið fram og kröfur um matvælaöryggi verða háværar þegar loftslagsváin eykst og samkeppni stórvelda um áhrifasvæði harðnar. Eyjan Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun. Kröfur koma fram um breytta stefnu í matvælaframleiðslu og innflutningi. Hugtakið matvælaöryggi er á margra vörum.
Framleiðsla og dreifing innanlands
Við getum framleitt mikið af grunnmatvöru (fiskmeti, kjötvöru, mjólkurvöru og grænmeti). Einnig töluvert af mat sem hefur lengi verið dæmigerð innflutningsvara; sumpart með nýtingu jarðvarma. Hlýnun loftslags bætir ræktunarskilyrði, t.d. í korn- og grænmetisræktun. Framleiðsla matvæla er nú að sumu leyti héraðsbundin og verður það ávallt. Engu að síður er mikilvægt að minnka þá bindingu og tryggja að fjölbreytt matvæli verði framleidd í öllum landsfjórðungum. Þar koma ekki aðeins við sögu loftslagsbreytingar heldur einnig hættan á að öflug eldgos, eða önnur vá, geti tímabundið hamlað fæðuöflun eða dreifingu matvæla. Samhliða skynsamlegu skipulagi matvælaframleiðslu er afmiðjun hennar mikilvæg. Fleira kemur nefnilega til en fjárhagsleg hagræðing þegar horft er til vinnslu, framleiðslu og dreifingu matvæla. Sláturhús, fiskveiðar, afurðastöðvar, verslun og stöðvar með endurnýtingu lífrænna leifa verða að taka mið af vistspori matvöru, kominni til neytandans. Af þeim sökum þarf, að hluta til, að vinda ofan af samþjöppun í öllum þessum greinum. Fjölga og dreifa fyrirtækjunum. Gera á fólki kleift að kaupa matvöru eftir vigt og í vistvænum umbúðum. Kaupa matvöru með lágu kolefnis- og vistspori og sem allra ferskust. Samtímis minnkar matarsóun og dýravernd er betur tryggð. Það minnir aftur á að efla ber sjóflutninga þar sem við á.
Upprunamerking og fjölbreytni
Sú afmiðjun matvælaframleiðslu og vörudreifingu sem ýtir undir sjálfbærni og visthæfni hefur á sér aðrar hliðar. Aukin umverfisvitund neytenda leiðir til meiri áhuga á því að vita hvaðan matvara kemur og við hvaða aðstæður hún er framleidd. Áhugi fólks á að kaupa matvöru beint af framleiðanda hefur líka aukist. Með fleiri ferðamönnum, sem hafa reynslu af staðbundnum matvörum, vex áhuginn á uppruna matvara. Í upprunamerkingu felst líka hvati til framleiðenda um að stunda nýsköpun í sínum geirum. Alkunna er að staðbundin, jafnvel sérhæfð, matvælaframleiðsla gerir að verkum að neytendur horfa til sérkenna svæða og vinnsluaðferða. Það hvetur til að neyta matar, t.d. vegna bragðs og gæða, og leita uppi fjölbreytni í landshluta eða á milli landshluta. Ávinningur alls þessa er meiri en eintóm fjárhagsleg hagræðing eða stöðug samþjöppun skilar neytendum og samfélaginu.
Innflutningur matvæla – vistspor
Sjálfbærni matvælaöflunar á Íslandi miðar nú (og mun miðast) við einstakar greinar en ekki matvælageirann í heild. Lega landsins er mjög fjölbreyttri matvælaframleiðslu of erfið. Í öllum tilvikum verða þrír þættir sjálfbærni að vera uppfylltir; sá sem snýr að náttúru, sá samfélagslegi og efnahagsþátturinn. Ákveða verður hvort viðmið sjálfbærni skuli taka til heildarferlis vöru frá uppruna til neytandans eða aðeins til ólíkra þátta ferlisins, hvers fyrir sig. Jafnvel til þess hvort lífsferlisgreining (LCA) eigi við. Hún greinir allt ferli vörunar frá ræktun/framleiðslu til eyðingar þess sem eftir verður og gerir okkur kleift að meta vistsporin. Ljóst er að sjálfbært og kolefnishlutlaust Ísland mun styðjast við innflutning matvæla í verulegu magni. Rétt er að hafna því að fjárhagsleg hagkvæmni sé mikilvægasta mælistikan á hvað skuli flutt inn og hvernig, og hvað ekki. Fyrsta mælistika á einfaldlega að vera vistspor vöru. Það leiðbeinir um hvar skynsamlegast sé að leita hennar; heima fyrir eða erlendis. Auk þess er sjálfsagt að gæta að árstíðum og haga snjöllum innflutningi eftir þeim. Með því má lágmarka langar flutningsleiðir með matvæli af suðurhveli jarðar og miðbaugssvæðum. Sannarlega er verð til neytandans mikilvægt í reiknidæminu. Í því skyni verðum við að samþætta verð og vistspor og viðurkenna að verðlag skuli taka mið af viðbrögðum við loftslagsvá, ekki bara innflutningsverðinu. Um leið ber að tryggja holl mætvæli og sem hreinust. Einfaldar lausnir í matvælastefnu á borð við innflutning matvöru vegna lágs verðs eingöngu, eða ofuráhersla á samkeppni, geta hvorki tryggt okkur vistvænar vörur né hollustu. Sú úrelta markaðshagfræði stenst ekki hækkandi hitastig um alla jörð.
Hollusta
Af hverju horfa æ fleiri til hollustu þess sem þeir leggja sér til munns? Ein ástæðan er aukin vitneskja um áhrif fæðu á heilsufar manna. Önnur er vaxandi óþol fólks gagnvart stórbúskap með eins konar verksmiðjuyfirbragði sem nýtir lyf og plöntuvarnarefni í miklum mæli. Enn önnur ástæða er fráhvarf í ýmis konar ræktun frá gróðurmold (önnur efni notuð í staðinn) og frá hollri fóðri dýra í ræktun eða eðlilegum aðbúnaði þeirra. Nú orðið hafa æ fleiri neytendur áhuga á ferskum matvælum í stað vöru sem er fryst, íblönduð eða forelduð, hvað þá geymd í málmdósum eða plastumbúðum. Sum efni í plasti sýna sig að vera skaðleg. Viðhorfin ýta undir innlenda framleiðslu og gæðakröfur til innfluttra matvæla. Hér á landi er lyfjanotkun í lágmarki og hreinleiki mikill vegna prýðilegs vatns og jarðvegs, að mestu án mengunar. Íslensk húsdýr eru við góða heilsu jafnt yfir. Ástandið er breytilegt eftir viðskiptalöndum okkar en tvær staðreyndir þó ljósar: Sýklar og veirur eru mun algengari í matvælum í allmörgum viðskiptalandanna en hér og lyfjanotkun, einkum sýklalyfja, algeng. Plöntuverndarvörur eru nýttar á Íslandi en í minna mæli en í viðskiptalöndunum, og nánast ekkert í ylræktinni. Þetta kann þó að breytast með hlýnun loftslagsins og aðkomu fleiri skaðlegra lífvera en áður.
Allt er vænt sem vel er grænt – og meira til
Flestir sérfræðingar eru sammála um að landræktun dýra til matar, t.d. jórturdýra, hefur nú þegar valdið of miklu álagi á jarðveg, lággróður, skóga og vatnsbirgðir heimsins. Rétt er að minnka heildarneyslu dýraafurða af landi. Þó er staðbundið hvað hentar best, í samræmi við ræktunarskilyrði, landrými og fleira. Mörgum húsdýrum fylgir mikill úrgangur og einnig framleiðsla metans sem er erfið gróðurhúsalofttegund. Metanmagnið er breytilegt eftir búskapartegund. Manneldismarkmið eru ólík frá einum heimshluta til annars. Engu að síður er mikilvægt að minnka kjötneyslu umtalsvert í heild og auka jurtaneyslu að ákveðnu marki sem aldrei verður fullsett. Slíkt ýtir undir heilnæma lífshætti sem fylgja fjölbreyttri fæðu. Mikil tækifæri bíða hérlendis í ræktun grænmetis og berja utandyra, í gróðurhúsum og í jarðvegi upphituðum með affallsvatni. Þar kemur við sögu hreinleiki og engin notkun plöntuverndarefna í gróðurhúsum en fremur lítil í utanhússræktun. Hér verður ekki fjallað um útflutning matvöru eða fisk til manneldis. Þó má benda á að unnt er að bæta við matvælaframleiðslu til innlendra nota, einkum með fiskeldi, sem er raunar miklum takmörkunum háð í opnum sjókvíum. Bjartara er yfir laxeldi í lokuðum sjókvíum og alls konar fiskeldi á landi.
Nýsköpun
Hér á landi er verið að þróa fæðubótarefni úr sjávarfangi, sem kann að minnka losun metans frá húsdýrum svo um munar, og bæta fóðrun dýra í sama markmiði. Matvælastefna verður að ríma vel fjölbreytta nýsköpun. Hún getur snúist um fjölbreyttari og hollari matvöru, nýtingu hráefnis sem hefur verið sniðgengið og bættar geymsluaðferðir. Lykilatriðin eru bætt nýting hráefnis og endurnýting úrgangs úr alls konar framleiðsluferlum, hvort sem er t.d. mysu, blóðs eða afskurðar; jurtaleifa eða lífræns áburðar úr jarðgerð. Nýsköpun hlýtur líka að beinast að því að lágmarka kolefnisspor í matvælaframleiðslu og dreifingu matvöru.
Byggðastefna er forsenda matvælaöryggis
Matvælaframleiðsla í borgum og bæjum er hreint ekki útilokuð en hún verður ekki meginþáttur í tryggri matvælastefnu. Til hennar þarf öfluga, innlenda öflun matvæla, hvort sem er í dreifbýli eða úti á sjó og í ferskvatni. Innfluttar og mikilvægar viðbætur í vöruúrvali hér á landi, verða heldur ekki meginþáttur í matvælastefnunni. Nægur fjöldi býla, fleytur til sjósóknar, heilbrigðir stofnar dýra, hvort sem er í landbúnaði eða úti á mörkinni og í sjó, ásamt verkkunnáttu fólks eru forsendur matvælaöryggis. Þess vegna er matvælastefna líka byggðastefna og það á raunar við um mest alla stefnumótun, allt frá ferðamennsku til velferðarþjónustunnar. Matvælastefna sem hluti byggðastefnu (og öfugt!) nýtir ólíkar aðstæður og sérkenni landshluta til að verða aðlaðandi í augum þorra kaupenda. Gildir einu til hvaða landshluta er horft. Hófleg dreifing matvælaframleiðslu um landið allt í byggð eykur öryggi og minnkar öll helstu vistspor.
Í hnotskurn: Sjálfbærni, lágt vistspor, hollusta, hreinleiki, framleiðslu- og dreifingaröryggi og verðlag í samræmi við jafnt kaupmátt sem þessi lykilatriði er megininntak matvælstefnu er hentar hér á landi.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.