Það er bæði gömul saga og ný að staða kvenna hér á landi er góð í alþjóðlegum samanburði en kynjajafnrétti mælist það mesta í heimi og hefur gert það síðastliðin tíu ár. Íslendingar geta stært sig af ýmsu í þessu samhengi og standa framarlega þegar kemur að réttindum kvenna. Mældist t.a.m. atvinnuþátttaka íslenskra kvenna 86% árið 2017, mest allra þjóða. Árið 2017 var jafnframt helmingur íslenskra kvenna á aldrinum 25-64 ára með háskólapróf, menntunarstig kvenna var einungis hærra í fimm löndum. Þessu til viðbótar hefur dregið úr launamun kynjanna á síðustu tíu árum skv. mælingum Hagstofunnar. Það eru hins vegar ekki aðeins íslenskar konur sem standa vel á alþjóðavísu heldur einnig þjóðin öll.
Laun á Íslandi eru há í alþjóðlegum samanburði
Árið 2017 voru meðallaun á Íslandi þau þriðju hæstu innan OECD að teknu tilliti til mismunandi verðlags milli landa, en aðeins Lúxemborg og Sviss greiða hærri meðallaun. Hlutdeild launa í verðmætasköpun hérlendis var aftur á móti sú mesta á meðal ríkja OECD árið 2017, en 65% þeirra verðmæta sem urðu til í hagkerfinu runnu í vasa launþega. Þá hefur kaupmáttur allra tekjutíunda aukist frá aldamótum og mest hjá neðstu tíundum tekjudreifingarinnar.
Lífskjör á Íslandi eru framúrskarandi á mælikvarða landsframleiðslu á mann
Frá árinu 2010 hefur verg landsframleiðsla á mann á föstu verðlagi aukist um 20% hér á landi en hún er einn algengasti mælikvarði á þróun efnislegra lífskjara í heiminum. Verg landsframleiðsla á mann er meiri hér á landi en t.a.m. í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi þegar búið er að taka tillit til mismunandi verðlags milli landa. Af Norðurlandaþjóðunum eru það því aðeins Norðmenn sem búa við betri lífskjör en Íslendingar á þennan mælikvarða.
Jöfnuður á Íslandi sá mesti í Evrópu
Ef tekið er mið af Gini stuðlinum er jöfnuður ráðstöfunartekna á Íslandi sá mesti í Evrópu. Þá var aðeins rúmlega þrefaldur munur á ráðstöfunartekjum þeirra 20% tekjuhæstu og þeirra 20% tekjulægstu hér landi, hvergi innan Evrópu munar minna á þessum tveimur hópum. Þessu til viðbótar er hlutfall fólks undir lágtekjumörkum, þ.e. undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna, einnig það lægsta í Evrópu(Miðað við ráðstöfunartekjur á neyslueiningu, þ.e. ráðstöfunartekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilisstærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilisins sem fæst við það að fleiri en einn búa undir sama þaki). Bendir þetta eindregið til þess að jöfnuður sé meiri hér en víðast annars staðar.
Hugvekja til kvenna
Í yfirstandandi kjarabaráttu hafa efnahagslegar staðreyndir verið dregnar í efa, hafi þær yfirhöfuð verið dregnar fram. Rétt er að stakar hagtölur geti dregið upp villandi mynd. Tölurnar geta verið misvel lýsandi fyrir stöðu einstakra hópa innan heildarinnar enda meðaltöl þannig í eðli sínu, einhverjir hafa það verr og einhverjir betra. Þegar margvíslegar hagtölur benda hins vegar allar í sömu átt er ekki um að villast; íslenskar konur og þjóðin öll býr við afburða lífskjör sem við getum verið stolt af. Lengi má þó gott bæta. Því er lykilatriði að horft sé til efnahagslegrar stöðu Íslands þegar kjaramálin eru rædd. Ef það er ekki gert er ljóst að markmið um bætt lífskjör fellur um sjálft sig.
Síðastliðin átta ár hefur verið uppgangur í íslensku efnahagslífi. Á þeim tíma hafa verðmæti aukist, störfum fjölgað og kaupmáttur aukist svo um munar. Þróun á húsnæðismarkaði hefur þó komið sér illa fyrir marga, sér í lagi þá sem eru á leigumarkaði. Nú bendir aftur á móti margt til þess að um sé að hægjast í efnahagslífinu sem gæti haft í för með sér að störfum fækki og verðmætaaukning dragist saman. Á slíkum tímum er minna svigrúm til launahækkana. Ef gengið er oft langt í komandi kjaraviðræðum er afleiðingin fyrirséð; atvinna dregst saman og verðlag og vextir munu hækka. Leysir það heldur ekki vandræði á húsnæðismarkaði, heldur eykur þau ef eitthvað er. Kostnaðinn af þessu bera allir landsmenn en hann kemur harðast niður á þeim sem minnst hafa milli handanna; þveröfugt við upphaflegt markmið um að bæta kjör þeirra lægst settu.
Verkfallsboðun dagsins í dag er sérstaklega til höfuðs verkakvenna. Konur sinna bæði mikilvægum og fjölbreyttum störfum í íslensku samfélagi og eru í meirihluta þeirra sem sinna fjármálaþjónustu, fræðslustarfsemi, heilbrigðisþjónustu, svo dæmi séu tekin, ásamt því að vera um helmingur þeirra sem starfa innan ferðaþjónustunnar. Standa þarf vörð um þessi störf og efla kjör þeirra sem þeim sinna, ekki síður en annarra. Það verður þó ekki gert með því að líta framhjá efnahagslegum veruleika í yfirstandandi kjaraviðræðum.
Stjórn Hagsmunafélags kvenna í hagfræði.
Heimildir: Hagstofa Íslands, OECD og Eurostat