Eins og fólk sem er eldra en tvævetur gerir sér grein fyrir, þá er heimurinn að skreppa saman með sífellt meiri og öflugri gagnatengingum. Nánast öll samskipti utan beinnar líkamlegrar snertingar eru nú möguleg á millisekúndum, óháð staðsetningu eða vegalengd. Þó ýmsir misvitrir þjóðarleiðtogar rembist við að berjast gegn þessu með gamaldags einangrunarstefnu, þá verður þróunin ekki umflúin. Heimurinn er einfaldlega orðin að einu risa samfélagi. Stór hluti samskipta og afþreyingar hefur nefnilega færst frá raunheimum yfir í netheima. Facebook, Spotify, Twitter, Instagram, Netflix, Snapchat, YouTube og fleiri miðlar eru orðnir stór hluti af daglegu lífi hjá venjulegu fólki og hafa skapað einhverskonar sameiginlegan veruleika hjá stærstum hluta jarðarbúa.
Það átta sig ekki allir á því að það þarf gríðarlega orku til að keyra þennan sameiginlega gagna- og samskiptaheim okkar. Það er líka bráðnauðsynlegt að þeirri þörf sér mætt með grænni orku til að íþyngja ekki meira lofthjúpi okkar, sem er einmitt líka sameiginlegur okkur jarðarbúum. Fyrirtæki eru misdugleg að mæta sífellt aukinni orkuþörf með grænum lausnum en Greenpeace heldur úti orkueinkunnargjöf fyrir samfélagsmiðla. Þar kemur m.a. fram að Youtube er með A einkunn en Netflix bara D. Það er því örlítið umhverfisvænna að streyma þáttum á YouTube en Netflix. Einnig má sjá að Facebook fær A meðan Twitter fær F í einkunn. Ef þú vilt sem sagt kvarta yfir Ófærð með nöldri á samfélagsmiðli þá er kolefnisspor Twitter innleggsins einfaldlega örlítið stærra en Facebook stöðufærsla, eins og staðan er í dag. Fjöldi læka vegur svo vissulega líka.
Hver er ábyrgð okkar Íslendinga sem notendur samskipta- og samfélagsmiðla og með okkar hlut í sameiginlegum lofthjúpi? Þetta gígantíska gagnamagn flæðir um jörðina, algerlega óháð landamærum og því er erfitt að benda á einhver einstök lönd eða svæði sem eiga að tryggja að þessi orkusuga noti bara endurnýjanlega orku.
Flest þessara alþjóðafyrirtækja reyna að svara kalli nútímans og mörg þeirra leita logandi ljósi að grænni orkuframleiðslu. Oftar en ekki verður vindorka fyrir valinu. Þó að vindur sé nánast ótakmörkuð auðlind þá er pláss fyrir vindorku oft takmarkað. Flest ríki eru líka ekki einungis að mæta meiri orkuþörf heldur eru þau einnig að rembast við að minnka raforkuframleiðslu sem unnin er úr jarðefnaeldsneyti.
Það vill svo til að hér á Íslandi höfum við pláss fyrir vindorku. Reyndar er það svo að á sumum stöðum eins og t.d. í svokölluðum Búrfellslundi er ekki bara pláss heldur líka afbragðs vindaðstæður. Þar er líka frábært aðgengi að innviðum eins og raflínum vegna vatnsaflsvirkjana allt í kring.
Búrfellslundur var ekki settur í nýtingarflokk Rammaáætlunar. Þegar niðurstöður hennar eru rýndar sést að vindorkugarðurinn fær mjög góðar umhverfiseinkunnir á öllum sviðum, nema fyrir áhrif á ferðaþjónustu. Áhrif á ferðaþjónustu voru talin verulega neikvæð sem olli því að virkjunarkosturinn fór ekki í nýtingarflokk. Það er alveg ljóst að enginn ferðamaður hættir við að koma til Íslands vegna Búrfellslundar. Við erum því ekki að tala um efnahagslegt tap fyrir ferðaþjónustuna heldur mögulega eitthvert upplifunartap hjá sumum.
Það er áhugavert að skoða þetta í samhengi. Með ferðaþjónustu eru við einmitt að viðurkenna rétt annarra til að nota opin svæði á Íslandi. Alveg eins og við höfum opið aðgengi að erlendri þjónustu á netinu, þá hafa erlendir gestir aðgang að náttúru og upplifun í gegnum ferðaþjónustu á Íslandi. Við viðurkennum opið aðgengi á þessari náttúrusameign í raunheimum og ætlumst líklega til þess að fá óheft aðgengi að samskonar sameign okkar í sýndarheimum.
Vindorka telst mjög umhverfisvæn orkuöflun og hægt er að taka niður vindmyllur og skila landinu nánast án nokkurra ummerkja ef svo ber undir. En vindmyllur eru vissulega sýnilegar sem hugnast ekki öllum. Ferðaþjónusta er mjög mikilvæg atvinnugrein og skilar miklu í ríkiskassann. En ferðaþjónusta er mjög kolefnisfrek og uppbygging bílastæða, stíga, gististaða, þjónustumiðstöðva o.fl. hugnast ekki öllum.
Segjum að upp kæmi sú staða, að stórt samfélagsmiðlafyrirtæki myndi falast eftir uppbyggingu á vindorkugarði við Búrfellslund til að mæta síaukinni notkun og kröfu alþjóðasamfélagsins um umhverfisvænni rekstur. Hvernig myndum við bregðast við? Er ekkert umhugsunarvert að segja bara nei? Ætlumst við bara til að einhverjir aðrir fórni svæði og útsýni fyrir vindorkugarð svo að engin truflun verði á niðurhali okkar á afþreyingu úr netheimum? Erum við kannski ekkert hluti af sameiginlegri ábyrgð í þessum sameiginlega heimi?
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.