Áratugum saman varð öllum ljóst sem hófu laganám við Háskóla Íslands að til þess að eiga von um einhvern frama sem dómari, sýslumaður, fógeti, lögreglustjóri, háttsettur embættismaður í stjórnkerfinu o.s.frv. yrðu menn þegar á öðru ári í námi að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Til að byrja með dygði að vera virkur í Heimdalli eða SUS.
Mér heyrist þessi elíta, sem H.Í. framleiddi, nú hafa stigið einu skrefi of langt í bræði sinni vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um Landsrétt. Tónninn er þessi: Hvernig vogar þetta yfirgangssama alþjóðlega vald að traðka á fullveldi okkar og reyna að segja Sjálfstæðisflokknum hvernig skipa eigi dómara á Íslandi?
Ha, innrás... óskapnaður?
Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari er hvatvís eins og oft áður og hamast gegn þeim sem vilja una dómi MDE frekar en að áfrýja til æðra stigs. Á Eyjunni segir hann 19. mars: „Ráðherrann má ekki láta undan þessu. Við verðum að gefa þessum dómstól þar ytra tækifæri til að leiðrétta villu sína. Verði niðurstaðan sú að staðfesta innrásina sem undirdeildin gerði í fullveldi Íslands, hljótum við að þurfa að hugsa okkar mál. Viljum við vera áfram sjálfstætt og fullvalda ríki eða viljum við fela yfirráð okkar mála í hendur erlendra stofnana?“
Fram á völlinn kom einnig sama dag Arnar Þór Jónsson héraðsdómari í Morgunblaðinu og sagði: „Að íhuguðu máli leyfi ég mér að efast um að afgreiðsla MDE sé réttarfarslegt gustukaverk, heldur tel ég að niðurstaðan sé ný tegund óskapnaðar, sem aðildarþjóðir hljóti að sameinast gegn í þeim tilgangi að verja fullveldi sitt.“
Undir þessa þjóðrembu taka menn eins og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem bað menn nú endilega að lesa þessa „lögfræði“ Arnars í Mogganum. Svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Við þessa menn og þjóðremblana sem stofna senn flokk Sannra Íslendinga eða Þjóðvinaflokk vil ég segja eftirfarandi:
Bara anda rólega
Eðlilega leiðir af framansögðu að enginn löglærður maður íslenskur hefur um langt skeið þorað að segja sannleikann um fullveldið og samninga við erlend ríki.
Samkvæmt stjórnarskrá gerir Alþingi samninga við erlend ríki. Þjóðrembumenn hafa jafnan gengið út frá því að slíkir samningar séu þjóðinni hættulegir og skaðsamlegir. Staðreyndir sýna hið þveröfuga enda er ávinningur þjóðarinnar ástæðan til þess að samningar eru gerðir. Ef eitthvað breytist og samningurinn þykir ekki hagfelldur þjóðinni lengur er hægt að segja honum upp. EES samningurinn, sem pirrar svo mjög öfgafyllstu Sjálfstæðismenn, er grundvöllur velmegunar almennings á Íslandi. Þetta hefur meira að segja utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins viðurkennt.
Þegar Alþingi gerir samninga er það að nota heimildir fullveldis sér til hagsbóta en ekki að afsala sér fullveldinu. Það er Alþingi sem metur hag eða óhag af samningum, en ekki Jón Steinar Gunnlaugsson eða dómarar Héraðsdóms. Sem betur fer.
Sá stóri meirihluti Íslendinga sem ekki er í Sjálfstæðisflokknum hefur augljósa og mikla hagsmuni af því að geta leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu þegar þeir ná ekki lögum hér heima.
Þessi möguleiki fer óumræðilega í taugarnar á Flokknum sem ræður dómsvaldinu á Íslandi. Sá möguleiki, að skjóta málum út fyrir frumstætt bananalýðveldi Sjálfstæðisflokksins, er haldreipi almennings á Íslandi.
Höfundur er blaðamaður búsettur í Danmörku.