Frá skólaverkfalli til stjórnmála: lækkun kosningaaldurs

Antoníus Smári Hjartarson setur skólaverkföll í samhengi við frumvarp um lækkun kosningaaldurs.

Auglýsing

Börn og unglingar hafa verið áberandi í fréttum undanfarið vegna skólaverkfalls gegn loftslagsbreytingum og mótmæla á Austurvelli. Þetta er ekki í fyrsta skiptið undanfarin misseri sem að unglingar taka af skarið, láta í sér heyra og krefjast breytinga. Allir fullorðnir og hvert barn hafa samfélagsmiðla í vasanum og er með vettvang til að tjá gremju sína og hvetja aðra til dáða. Það var t.a.m. sextán ára framhaldsskólastúlkan Alda Þóreyjardóttir og femínistafélög framhaldsskólana sem hrintu af stað #FreeTheNipple byltingunni á Íslandi og var Twitter ómissandi tól fyrir þá hreyfingu. Á mánudaginn verða fjögur ár liðin frá þeim degi.

Við sjáum viðbrögð og skoðanir barna við atburðum á samfélagsmiðlum dagsdaglega. Brjóstafrelsunin og skólaverkfallið eiga þó lítið sameiginlegt. Í fyrra tilfellinu var markmiðið að breyta viðhorfi almennings og var það barátta bæði unglinga og fullorðinna. Margar samfélagsmiðlaherferðir eru sama eðlis eða þá að þær beinast að ákveðnum einstaklingum eða samtökum. Hver sem er getur nýtt slíka miðla til að skipuleggja sig, láta í sig heyra og hafa áhrif. Samfélagsmiðlar virka stórvel fyrir slíkar aðgerðir.

Pólitískt vald barna

Skólaverkfallið er hins vegar allt annars eðlis. Með skólaverkfallinu er verið að reyna að knýja fram stefnubreytingu yfirvalda í umhverfismálum. Sú stefnubreyting getur haft, og mun hafa, áhrif á m.a. skattkerfi og útgjöld ríkis, efnahag og iðnað, samgöngur og daglegt líf almennings. Þessar breytingar eru nauðsynlegar til að tryggja ungu fólki í dag, sem og komandi kynslóðum, mannsæmandi líf í framtíðinni. Og það liggur í augum uppi að eldri kynslóðum skorti annað hvort vilja eða getu til að takast á við þessa áskorun.  

Auglýsing

Hinar ýmsu stofnanir og aðrir hafa myndað ungmennaráð og aðra slíka hópa svo að yngri kynslóðin geti haft áhrif í umhverfismálum, sjálfbærni og aðra málaflokka sem að skiptir þeim máli. Ég efast ekki um að þau sem leggja slíka hópa á laggirnar hafi hag ungmenna fyrir brjósti og ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem að sitja í þessum ráðum, en þessir hópar eru augljóslega bitlausir og áhrifalitlir. Hvorki ungmennaráð né samfélagsmiðlar eru nægilega áhrifarík tól til þess að ungmenni geti knýjað fram þær breytingar sem þau telji nauðsynlegar. Til þess er þörf á beinu pólitísku valdi.

Frumvarp til laga um lækkun kosningaaldurs hefur verið lagt fram á undanförnum fimm þingum. Munu þá sextán og sautján ára börn eiga rétt til að kjósa til sveitarstjórna. En því miður þá eiga þessi frumvörp það til að gleymast í einhverri skúffunni eða eitthvað svoleiðis. Kannski þurfa þingmenn gulrót til að koma þessu af stað.

Málþóf

Þann 23. mars í fyrra skorti hvorki áhuga né vilja. Þá var meirihluti þings fylgjandi því að sextán og sautján ára börn fengi að kjósa í sveitastjórnarkosningum og voru þá næstu kosningar í maí sama ár. Sextán og sautján ára börnum var þó meinað að kjósa af þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokk Fólksins sem helst skortir skilning og virðingu fyrir lýðræðislegum siðum og venjum. Þingmenn úr þessum flokkum stunduðu málþóf uppi í pontu og komu þannig í veg fyrir atkvæðagreiðslu um frumvarpið (þessir flokkar mælast með lítið fylgi meðal ungmenna). Síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum þegar ég var sjálfur unglingur hafa mörg beinlínis fávitaleg atvik átt sér stað í þingsal en ekkert þeirra hefur verið nálægt því að vera jafn ömurlegt og óréttlátt og þetta málþóf.

Það er vissulega óæskilegt að breyta lögum um kosningarétt tveimur mánuðum fyrir kosningar og sumir andstæðingar frumvarpsins rökstuddu afstöðu sína á þann veg að sextán og sautján ára börn skorti þann þroska eða reynslu sem er krafist af kjósendum og héldu því fram að ef þessi börn fengi kosningarétt þá hljóti þau líka að verða kjörgeng—og það gengur ekki að ófjárráða börn geti setið í sveitarstjórn. Það getur verið að einhverjir sýni þessari afstöðu skilning og afsaki jafnvel þá þingmenn sem tóku þátt í málþófinu. Það er engin réttlæting fyrir því.

Í fyrsta lagi er að sjálfsögðu fáránlegt að halda því fram að ef að sextán og sautján ára börn fengi kosningarétt að þau yrðu þá líka að verða kjörgeng. Það er einfaldlega ekki rétt. Þeir sem eiga kosningarétt og eru lögráða eru kjörgengir í sveitarstjórn samkvæmt lögum, en maður verður lögráða við átján ára aldurs. Í öðru lagi er enginn staðall eða próf fyrir þroska eða reynslu sem að aðrir Íslendingar þurfa að standast til þess að eiga rétt á að kjósa. Þar að auki sanna sextán og sautján ára Íslendingar, þrátt fyrir að vera enn börn, á hverjum einasta degi að þau eru fullfær um að greina hverjir sínir hagsmunir séu, hvaða vandamál þau standa frammi fyrir, hvaða lausnir eru í boði og að þau geti hrint þeim lausnum í framkvæmd. Við sjáum það daglega á samfélagsmiðlum, innan framhaldsskólana og á vinnustöðum. Þau hafa sýnt það og sannað að þau munu vera fullfær um að hugsa gagnrýnið um stjórnmál og kjósa það sem þeim þykir sér og þjóðinni til bóta samkvæmt eigin sannfæringu og gildi.

Það getur verið freistandi að hugsa með sjálfum sér að þetta frumvarp hafi ekki verið rætt til þaula eða að vegna þess hve stutt var til sveitastjórnarkosninga þá hafi verið rétt að teygja þessari umræðu fram yfir kosningar. En sá sem hugsar á þann veg misskilur kosningaréttinn. Hver einasti Íslendingur hefur atkvæði og á rétt á að taka þátt í að kjósa okkar ráðamenn. Augljóslega eiga ungabörn ekkert erindi inn í kjörklefa og er þörf á einhverjum takmörkunum á þessum rétti. En þar sem að í tilfelli sextán og sautján ára barna hafi leikið vafi á því hvort að það væri rétt að lækka kosningaaldur eða ekki, þá höfðu þau að sjálfsögðu átt að njóta vafans. Jú, það er vissulega stórmál að veita einhverjum kosningarétt en það er mun stærra og alvarlegra mál að ríkið skuli neita einhverjum um kosningaréttinn sinn. Að því sögðu er ljóst að ungu Íslendingarnir, sem eru bæði skattskyldir og sakhæfir, hefðu átt að njóta vafans fram yfir kosningar.

En frumvarpið kom aldrei til atkvæðagreiðslu. Á meðan ungmenni sátu á þingpöllum og biðu eftir atkvæðagreiðslu þá stunduðu andlýðræðislegri þingmenn málþóf til þess að neita þeim um kosningarétt þrátt fyrir stuðning meirihluta þingmanna. Slíkt pólitískt óréttlæti er ólíðandi í lýðræðisríki og það er Alþingi til háborinnar skammar.

Veitum þeim kosningarétt

Frumvarpið var aftur lagt fram í nóvember síðastliðnum en lítil umræða hefur verið um málið á þessum þingvetri. Næstkomandi föstudag 22. mars er aftur búið að boða til skólaverkfalls og mótmæli á Austurvelli, og daginn eftir verður eitt ár liðið frá málþófinu. Ég skora á þingmenn til þess að fara út á Austurvöll á föstudaginn til þess að hlusta á kröfur og hugmyndir þessa unga fólks, til þess að biðjast afsökunar á aðgerðarleysi og sýndarmennsku þegar kemur að umhverfismálum og til þess að biðjast fyrirgefningar fyrir að hafa brugðist þeim fyrir ári síðan.

Það getur verið að þingið ákveði að veita þeim ekki kosningarétt en það getur líka vel verið að þau geri það. Því vil ég að lokum einnig skora á þingmenn að klára þetta mál. Kosningarétturinn er grundvallarréttur allra Íslendinga og þá má ekki vera neinn vafi um það hverjir séu hæfir til að nýta þann rétt. Og ef við ákveðum að sextán og sautján ára Íslendingar séu hæfir til að kjósa þá getur það ekki beðið fram yfir aðrar kosningar. Þau hafa þann dugnað og þá færni sem þau þurfa til að taka þátt í lýðræðinu okkar og við eigum að fagna þátttöku þeirra. Lækkum kosningaaldur og gefum yngstu kynslóðinni færi á að móta framtíð sína sjálf.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá Keflavíkurflugvelli.
Segja Ísland geta orðið miðstöð flugs á norðurslóðum
Í skýrslu starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum er sagt mikilvægt að flugi frá Íslandi til Rússlands og Kína verði komið á, enda hafi kínverskir ferðamenn mikinn áhuga á ferðum til norðurslóða. Þá séu tækifæri fólgin í betri tengingu við Grænland.
Kjarninn 14. maí 2021
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar