Þegar ég panta mér eina með pepperoní, hvítlauk, salami og gráðosti skiptir öllu að hráefnið sé ósvikið og ekta. Deigið í botninum má ekki vera of þykkt, skorpan þarf að molna þægilega milli tannana og ég þarf að njóta þessa samhljóms bragðs og næringar sem skilar blóðsykrinum réttum svo hungurtilfinningin hverfi samhliða hæfilegu dópamínflæði til heilans. Uppruni og ferskleiki hráefnis og krydds er órjúfanlegur hluti þeirrar nautnar að sporðrenna ljúffengri pizzunni á góðri stundu og ekki má gleyma mikilvægi þess að pizzan sé afhend heit og að verðið sé í samræmi við gæði ásamt þvi að rafræna skuldfærslan á kortinu sé bundin trúnaði og ekki misnotuð.
Mér sundlar við tilhugsuninni um hvernig í ósköpunum uppáhalds pizzugerðameistarinn minn fer að við að tryggja sér hráefni og afreka uppskriftina sem skilar mér þessu fullkomna lostæti sem gerir það að verkum að hann á mig að sem tryggan viðskiptavin árum saman. Hann hlýtur að notast við sömu hráefnisbyrgja, vera heiðarlegur og sanngjarn, ráða sérvalda starfsmenn og hvika hvergi frá þeim meginmarkmiðum að halda í heiðri stöðugum gæðum umfram allt annað. Ég panta pizzu hjá honum á tveggja vikna fresti og er alsæll með að þurfa ekki að leita annað og vona að hann sé einnig ánægður með tryggð mína sem viðskiptavin. Ég kannast lauslega við eiganda pizzeríunnar sem ég hitti fyrir tilviljun í heita pottinum um daginn og spurði hvernig gengi. Hann tjáði mér salan ykist jafnt og þétt og að hann þyrfti bráðlega að fjárfesta í stærra húsnæði og afkastameiri tækjum. Ég hváði og spurði hvort hann auglýsti mikið. Hann sagðist ekki eyða krónu í auglýsingar þar sem orðsporið tryggði honum nægan vöxt. Hann bætti um betur og sagði: “ Ég var svo lánsamur að læra pizzugerð hjá Ítölskum bakara af gamla skólanum”. Hvað kenndi hann þér? „Að hugsa!” Nú sagði ég? “Jú sjáðu til, sagði vinur minn: Í hvert skipti sem ég spurði gamla manninn til verka, svaraði hann með spurningu á móti. Þegar ég spurði hann hvernig ég ætti að hnoða og fletja deigið, sagði hann í spurnartón: Gaf Guð þér ekki hendur? Í hvert skipti sem ég spurði hann hvernig velja ætti hráefni, sagði hann: Gaf Guð þér ekki augu, lyktar-og bragðskyn? Í hvert skipti sem ég spurði hvernig ég gæti lært að gera jafn góðar pizzur og hann, spurði hann á móti: Gaf Guð þér ekki eyru til að hlusta af auðmýkt á viðskiptavinina og hjarta og samvisku til að bæta ávalt um betur? Gamli maðurinn var glaðlyndur en fáskiptinn. Spurningar hans vöktu mig, ungan lærling, til að hugsa um æðri gildi lífsins og hjá honum lærði ég að nota skynfærin sem ég hlaut í vöggugjöf. Ég upplifði þennan aldna öðling eins og mannlega fiðlu með strengi milli hjarta og vitundar sem ávalt þyrfti að fínstilla milli daglegra verka svo að fagrir tónarnir mættu verða hluti sköpunar hans, þó einungis væri um pizzu að ræða. Ég lærði að rækta með mér hreina hugsun til að vinna með og að ekkert myndi gleðja svangan viðskiptavin meir en það sem ég lagði hjarta og sál í”.
Vinur minn hélt áfram:
“Meistari minn var maður tveggja heima. Í bakaríinu nutum við fallegrar tónlistar og hann sinnti störfum sínum af alúð, dyggð og kærleik. Um miðbik hvers dags hvarf hann í þrjá til fjóra tíma en mætti ávalt langfyrstur á morgnana. Einn daginn gerði ég mér far um að fylgja honum eftir. Hann brá sér milli húsa í borgarhluta sem álitinn var vafasamur fyrir almenning að ferðast um. Þar, inn í yfirgefinni textílverksmiðju, hafði hann útbúið fallega innréttaðan veitingastað sem var vin þeirra ógæfusæmu, svöngu og þurfandi. Þarna ríkti mannvirðing og kærleikur sem nærði þá sem höllum fæti stóðu á sál og líkama. Þau þrjú ár sem ég vann hjá honum minntist hann aldrei einu orði á þennan stað sem hann fjármagnaði úr eigin vasa. Ég lærði af honum að það er til tvennskonar næring; sálarfæða og sú sem líkami okkar þarf til að komast af gegnum daginn. Á hverjum degi leitast ég við að sameina þetta tvennt í mínum störfum”.
Það var heitt í lestinni milli Hong Kong og Shanghai á þessum sunnudagseftirmiðdegi og einhver kallar nafn mitt. Ég hafði verið að lesa Animal Farm eftir George Orwell er ég vaknaði upp við unaðslegan ilm frá pizzubakstri. Ég litaðist um banhungraður en enga pizzu, né matarvagn að sjá og ilmurinn leið hjá. Hraðlestin þeyttist áfram og ég gerði mér betur grein fyrir aðstæðum. Það var liðin ein og hálf klukkustund frá brottför og mér hafði runnið í brjóst. Sagan um pizzugerðameistarann var einungis draumur sem ég færði í letur í trausti þess sem minnið skammtaði.
Það er auðvelt að gleyma hversu mikilvægt traust er í daglegum samskiptum manna í milli. Jafnvel einföld 3-5 mínútna aðgerð eins og að panta pizzu grundvallast á langri keðju athafna sem byggir á þekkingu, vandvirkni og heiðarleika sem er auðvitað grundvöllur að traustinu. Ef ekki væri fyrir heiðarleika væri vandvirkni og traust ekki til. Ef ekki væri fyrir traustið væri ég ekki ítrekað að panta pizzuna mína hjá sama fyrirtækinu úr draumheimum. Traustið laðar að góðvild, sparar tíma, fé og fyrirhöfn ásamt því sem það skapar atvinnu, afkomu og lífsviðurværi. Traust er auðlegð og mannvirðing.
Það getur verið erfitt að skapa traust. Traust er mannlegur höfuðstóll sem elur af sér réttlát samskipti og samfélag sem tekur tíma og fyrirhöfn að byggja upp. Traust verður til við ítrekaðar heiðarlegar athafnir okkar í garð hvors annars og fyrir hvort annað. Sanngjarnt og réttlátt samfélag elur af sér traust og þegna sem virða stofnanir þess og skila heiðarlega til samfélagsins sem því ber. Samfélag sem byggir á trausti er hagfellt þegnum, fyrirtækjum og stofnunum.
Öryggi og traust eru grundvallarstoðir í öllum samfélögum. Þegar hriktir í þeim stoðum skapast aukið álag á okkur öll sem lifum í því samfélagi og mannauður, heilsa og verðmæti fara forgörðum. Ef samfélag okkar Íslendinga gæti grundvallast á trausti væri lítil reiði, engin mótmæli, lítið misrétti og takmörkuð fátækt. Fólk rækti skyldur sínar af alúð, heiðarleika og kærleika. Enginn einn hópur eða einstaklingar hefðu svo mikið sem áhuga á að hrifsa til sín gæði, verðmæti eða réttindi annarra. Það væri yndislegt og réttlátt þjóðfélag sem myndi ala af sér kærleik, hamingju og auð í víðri merkingu orðanna.
Vinur minn pizzugerðameistarinn, sem er auðvitað persóna úr draumheimum á sunnudagseftirmiðdegi, gæti allt eins verið bifvélavirkinn minn, lögfræðingur minn, endurskoðandi, nú eða opinber embættismaður, þingmaður eða ráðherra. Einu gildir um starfsheiti eða titil. Auðmjúkt hugarfar, viðhorf og heiðarleiki viðkomandi til þeirra verkefna sem þeim er falið, er það sem öllu máli skiptir til að byggja upp traust.
Það er sammannleg hugsanavilla að flækja hlutina um of en vantraust okkar Íslendinga til Alþingis stafar af skorti á heiðarleika þeirra sem til valda sækjast. Ekki allra en margra, -of margra. Meðan leikreglur lýðræðisins byggja á hindrunarlausu samspili fé- og valdgirndar mun spilling grassera og traust þegnanna til stofnana þjóðfélagsins hnigna sem að lokum leiðir til molnunar millistéttarinnar og hruns borgsamfélagsins.
Afleiðingar áratuga samspils hindrunarlausrar fé-og valdhyggju upplifðum við í hruninu 2008. Þetta hrun ól af sér viðamikla sannleiksskýrslu í átta bindum sem tók af allan vafa um orsök og afleiðingu. Það merkilega sem gerðist í kjölfarið var að þegnar landsins sömdu nýjar réttlátar leikreglur og lýðræðislegan sáttmála. Þetta var vor okkar Íslendinga. Frumvarp stjórnlagaráðs að nýju stjórnarskránni okkar var samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta, eða yfir tveimur þriðja hluta kjósenda sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20.10.2012.
Þverrandi traust
Alþingi hefur ekki enn virt þennan skýra vilja þegna sinna og glímir við hnignandi traust sem nálgast nú að vera með því lægsta á byggðu bóli eða 18%. Traust Íslendinga til Alþingis hrundi úr 29% í 18% milli áranna 2018 og 2019 samkvæmt skoðanakönnun Gallup, gerð dagana 7.-20. feb. s.l. Sem sagt, traust til Alþingis lækkaði milli þessara tveggja ára um -38% sem verður að teljast mjög alvarlegur áfellisdómur yfir löggjafar-, framkvæmdavaldi og stjórnsýslunni í heild. Reykjavíkurborg, sem er nú orðin einhverskonar raunveruleika-sirkus í beinni útsendingu, vermir skammarsætið í áðurnefndri könnun með einungis 16% traust almennings.
Vinur minn, pizzugerðarmaðurinn úr draumheimum, yrði án vafa farsæll stjórnmálaleiðtogi. Hann býr yfir auðmýkt, heiðarleika og skilning á samspili næringar og sálar í sínum störfum. Hann er dyggðugur og nýtur þjónslundar, sem vald- og fégjörnum einstaklingum er byrgð sýn til að meðtaka og skilja. Lífið er nefnilega stærra og víðfeðmara en við sjálf og sálarnæringuna hljótum við í heiðarlegu samfélagi við Guð og hvert annað. Samfélagi sem byggir á kærleik og umhyggju fyrir hvort öðru ekki síður en heiðarleika. Samfélagi sem við glötum ef við framseljum vilja okkar valdi og fégirnd.
Sá fégírugi þekkir verðmiðann á öllu en æðri gildi í engu. Mannhelgi, virðingu, heiðarleika og kærleika er nefnilega ekki hægt að kaupa né selja.
Traust er innihaldsríkt hugtak sem líkja má við brú manna í milli, nokkuð sem einungis getur myndast með ítrekuðum heiðarlegum hugsunum og athöfnum.
Pizzugerðarmaðurinn úr draumheimum skildi áhrifamátt þess að þjóna öðrum, nokkuð sem stjórnmálamenn mættu tileinka sér í störfum sínum fyrir þegna Íslands.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.