Margt hefur verið skrifað og rætt um orsakir þess pólitíska ástands sem mörg vestræn samfélög glíma nú við. Kröpp hægri nefstunga, innbyrðis klofningur þjóða, einangrunar tilhneigingar og átök vegna innflytjenda. Svona ástand verður ekki til á einni nóttu. Hvað gerðist?
Alla tuttugustu öldina var haft fyrir satt að þróunaröfl samfélagslegrar framvindu fælust í stéttaandstæðum og átökum þeirra. Nú virðast önnur öfl vera að verki. Þegar hefðbundinn iðnaðarstórrekstur dróst verulega saman upp úr miðri öldinni sem leið, dvínað þáttur vinnunnar sem geranda í atburðarás sögunnar. Fjármagnið tók yfir. Fátt gerðist án þess atbeina.
Nú eru það umsvif og yfirráð á mörkuðum, umbrot ofsafjármagns sem ófyrirleitið leitar að „arðbærum“ tækifærum, og valdabrölt stórvelda; en þó ekki hvað síst fjörbrot náttúrunnar og loftlagsváin, sem leiða okkur inn í næsta söguskeið. Í þessum þæfingi milli sögubila hefur ýmislegt farið úrskeiðis. Þá er kapítalismanum gjarnan kennt um. Hagtölur og rannsóknir segja okkur þó, að ekkert annað hagkerfi hafi á undanförnum öldum auðnast að tryggja mannkyninu jafn stöðugan og vaxandi lífskjarabata sem kapítalisminn. Hann fer hins vegar oft upp úr sporinu. Þarf því öfluga umgjörð og innbyggða varnargarða sem draga úr hættunni á að samfélögin sporðreisist. Við megum aldrei gleyma því að markaðurinn er góður leiðbeinandi en afleitur húsbóndi.
Árin eftir seinna stríð einkenndust af örum hagvexti í þokkalegu jafnvægi. Settar voru á fót margar alþjóðlegar stofnanir sem auka áttu samstöðu þjóða og samræmingu hagsmuna til að að draga úr metingi og sérleiðum einstakra þjóða. Stofnanir þessar byggðu margar á gagnkvæmum skuldbindingum, sem mynduðu farvegi sem samstaða varð um og flestar vestrænar þjóðir stóðu að. Þjóðríkin stóðu saman og brutu odd af oflæti sínu, enda flest löskuð eftir hildarleikinn mikla. Af þessum stofnunum er ESB næst því að byggja upp og efla bræðralag milli meðlimaþjóða sinna. Þar er reynt með gagnkvæmum skuldbindingum að finna jafnvægið á milli þess þjóðlega og hins samþjóðlega. Ýmislegt hefur þó farið þar úrskeiðis. Nú kæla naprir vestanvindar þann einhug sem myndaðist á eftirstríðs árunum. Afl hins sterka skal leysa samstöðu hinna mörgu af hólmi.
Rætur jafnaðarmanna
Hugtökin frelsi, jafnrétti og bræðralag eru ættuð frá frönsku byltingunni. Síðar tók jafnaðarstefnan þessar kröfur upp á sína arma. Kratarnir settu frelsi, jafnrétti og bræðralag í erindisbréf sitt sem gagnkvæmar samfélagslegar skuldbindingar. Þessi stefnumið urðu með tímanum samofin samfélagsgerð Vesturlanda. Sterkir jafnaðarmannaflokkar voru tryggingin fyrir þessari samábyrgð. Með bættri afkomu og fjölþættara atvinnulífi jókst einstaklingsbundin sérhæfing og þar með öflug millistétt. Þekking hennar og forysta fór að móta gangverk hagkerfisins. Um leið einkavæddist jafnaðarhugsjónin.
Úr efri hluta millistéttarinnar varð til ný elíta. Hún var hvorki borin til að erfa titla, landareignir né mikil auðæfi. Hún bjó yfir sérþekkingu sem færði henni áhrif, völd og síðar auðæfi. Með útbreiðslu nýfrjálshyggjunnar, samfara hnignun jafnaðarstefnunnar, óx áherslan á einkahagsmuni umfram samfélagshag. Klisjan um að jöfnumerki væri milli einkahygli og velferðar almennings varð gjaldgeng. Þegar kratarnir snerust síðan á sveif með menntuðu elítu evrópskra þéttbýlissvæða og gerðu hugmyndafræði þeirra og áherslur að sinni, þá komu rof í kratíska bræðralagið. Ef jafnaðarmannaflokkur setur kyn ofar stéttarstöðu eða réttindi trans-fólks og hjónabönd samkynhneigðra í forgang umfram þrengingar þeirra afskiptu eða afétnu,svo dæmi séu tekin, þá trosna tilfinningaböndin. Þeir sem minna mega sín eiga þá hvergi höfði sínu að halla lengur; verða pólitískt heimilislausir. Popúlistar buðu þá heimilislausu velkomna. Þeir eru góðir í því að ala á ótta og tortryggni, en hafa engin svör. Þessar aðstæður sköpuðust hérlendis þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag lögðu upp laupana og á gröf þeirra risu Samfylking og VG. Tveir velmeinandi flokkar en án þess að eiga rætur meðal almenns verkafólks.
Brostin samábyrgð
Það er þetta lím, myndað úr samkennd og ábyrgð, sem heldur þjóðfélögum saman, á sama hátt og hjónaböndum sem og fjölskyldum. Það brestur ef gagnkvæmar skuldbindingar feyskjast. Nú er komið rof í þetta samfélagslega lím,bæði innan þjóðfélaga sem og alþjóðlega. Ofur áhersla hefur of lengi verið lögð á framgang einstaklingsins, forgang hans og afkomu sem og rúmgott samfélagslegt olnbogarými. Það er orðið lofsyrði að skara eld að eigin köku. Þetta hefur skaðað samfélagið stórlega. Slagorðið lækkum skatta, jafngildir kröfunni um minni samneyslu. Milli elítunnar, sem stýrir för og ákveður sjálf sinn skerf og hinna sem ekki taka þátt í hönnun ferðalagsins, hefur myndast gjá. Stórir hópar í efri lögum þjóðfélagsins, hafa kvatt samfélagslegar skuldbindingar og ábyrgð, en hrifsa til sín stærsta hlutan af launasvigrúminu. Lítið er því eftir handa hinum sem samningsbundnir eru og geta ekki stundað sjálftöku.
Þessi elíta hrammsar til sín auðæfi sem samfélagið í heild sinni hefur skapað. Svipað er með auðlindir sjávar sem eru heimanmundur þessarar þjóðar, og hún hefur verndað og gert arðbærar með setningu laga um fiskveiðistjórnun. Auðlindirnar hafa verið afhentar án endurgjalds til einkanýtingar. Alþingismenn ættu að hafa auðmýkt þjónsins, ekki þótta valdsmannsins. Þeir sigldu á öldufaldi aurasýkinnar með Kjararáð að vopni og bjuggu til slynga svikamyllu, sem tryggði þeim og fleirum úr elítunni þekkileg laun. Samfélagssáttmálinn var rofinn – ekki af þeim sem heimta nú sinn hlut, heldur af hinum sem þegar hafa landað aflanum. Fallegt og skilningsríkt hjal dugar skammt. Elíta þjóðfélagsins verður að ganga á undan og bjóða fram raunhæfa sátt, annars mun gengisfelld króna festa vandan í sessi og gera enn óviðráðanlegri.